13.03.1962
Efri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði áðan, að hann ætlaði ekki að endurtaka það, sem hann hefði sagt hér í dag. Hann hefur nú flutt tvær alllangar ræður, síðan ég talaði hér í dag, en seinni ræðan var hrein endurtekning á öllu því, sem hann sagði í fyrri ræðunni, og það hygg ég, að allir, sem hlustuðu á báðar ræðurnar, hafi heyrt. Hann hefur rétt til, hv. þm., að gera athugasemd í þriðja sinn og endurtaka eitthvað af því, sem hann hefur sagt, og hygg ég þá, að hv. þingmenn viti gerla, hvað þingmaðurinn hefur sagt.

Hv. þm. var að tala um, hvernig á því stæði, að hv. 6. þm. Norðurl. e. hefði verið sár, hefði verið sár yfir því. hvað sagt hefði verið hér í dag í sambandi við þetta mál. Mig undrar það ekkert. Ég hygg, að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi haft talsvert álit á bóndanum í Asgarði, hv. 1. þm. Vesturl. Ég hygg, að hv. 6. þm. Norðurl. e. hafi búizt við því, að þessi hv. þm, fagnaði því. að gerðar eru ráðstafanir til þess að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins, leggja grundvöll að áframhaldandi uppbyggingu í landbúnaði, og Þegar það kemur svo allt annað í ljós og þessi hv. þm. talar hér tvisvar, flytur hér tvisvar sömu ræðuna, gegn betri vitund, og fer með visvitandi blekkingar, þá er ekkert undarlegt, þótt þingbróðir hans og deildarbróðir hér í hv. deild verði sár. Það má segja, að hann hafi misst einn mann, — mann, sem hann bar áður nokkurt traust til. Og ég verð að segja það, að ég hef að ýmsu leyti búizt við því, að það mætti reikna með þessum hv. þm., þegar til þess kæmi að gera góða hluti fyrir bændastéttina, að hann léði ekki máls á því að snúast gegn því, sem sýnilega horfir til bóta.

Þessi hv. þm. talaði um skattlagningu á bændur. Hann talaði um, að það sé verið að skattleggja bændur. En hann hefur sjálfur áður verið með því að skattleggja bændur, ekki til þess að létta af landbúnaðinum og skapa grundvöll til aukinnar lánastarfsemi landbúnaðinum til handa, heldur í allt öðru formi. Og Þegar hann var að bera það saman, að ég hafði snúizt gegn skattlagningu 1958, sem þá voru 2 millj., 1/2% gjaldið til bændahallarinnar, en nú eru 4 millj. eða á 5. millj., þá er það ekkert sambærilegt, því að nú er lagt gjald á búvörur bænda til þess að skapa aukna möguleika til að byggja yfir bændurna sjálfa, til að rækta, til að veita þeim lán til vélakaupa o.s.frv., og til þess að unnt sé að fá margfalda þá upphæð, sem bændurnir sjálfir greiða, úr öðrum stað. En 1958 fékkst ekkert framlag á móti því gjaldi, sem þá var á lagt. Það var seinheppni hjá hv. þm. að bera þetta saman, og það er hreysti, það er dugnaður út af fyrir sig að geta kinnroðalaust staðið hér í ræðustólnum og borið þetta saman. Maður, sem greiddi atkvæði með skatti á bændur 1958 til þess að reisa bændahöllina hér í Reykjavík án þess að fá nokkurt framlag á móti, segir nú, að það sé verið að leggja óeðlilega skatta á bændur, þegar það miðar að því að útvega þeim fé annars staðar frá, margfalt á við það, sem þeir eiga nú að greiða, sem tryggir starfsemi lánasjóða landbúnaðarins, eins og sýnilegt er með þessu frv. og þeim töflum, sem því fylgja.

Það er þrek hjá hv. þm., þegar hann talar um það, að núv. ríkisstj. hafi í rauninni komið öllu í kaldakol og kynt undir dýrtíðinni í landinu. Þetta er maður, sem studdi vinstri stjórnina, greiddi atkvæði með öllu, sem hún bar fram, — eða minnizt þið þess, að þessi hv. þm. hafi nokkurn tíma greitt atkvæði gegn tillögum, sem vinstri stjórnin bar fram? Ég minnist þess ekki, og ég hygg, að þau dæmi fyrirfinnist ekki í þingtíðindunum. En ég skal ekki telja eftir mér að sitja hér í nótt og hlusta á umr. sem þessar, þótt þær séu ekki gagnlegar eða uppbyggilegar. Það má þó segja, að eitt vinnist á þeim, og það er það, að okkur tekst að skyggnast nokkuð inn í og kynnast mönnum nánar en áður hefur tekizt.

Hv. 1. þm. Vesturl. talar um, að það þurfi nauðsynlega aukið fjármagn í landbúnaðinn. Þetta hefur hann komið suga á. Það út af fyrir sig undrar mig ekki, þar sem hann er bóndi. Hann segir einnig, að bankastjóri Búnaðarbankans, hv. 6. þm. Norðurl. e., þekki þetta af eigin reynslu og af viðtölum við bændur, sem koma í bankann. Vissulega. Og einmitt vegna þess, að bankastjóri Búnaðarbankans þekkir þetta, þá fylgir hann því frv., sem hér er um að ræða, og hefur átt stóran þátt í því að semja það, og ég vil leyfa mér að þakka honum og öðrum, sem að því hafa staðið að semja þetta frv. og finna leiðirnar út úr þeim ógöngum, sem lánasjóðir landbúnaðarins voru komnir í. Ég vil færa þeim þakkir fyrir, því að þeir eiga vissulega skilið þakklæti fyrir það. Og það er eðlilegt, þegar hv. 1. þm. Vesturl. talar um aukið fjármagn til landbúnaðarins, en í leiðinni að kippa í burtu 14 millj, kr. tekjustofni, að spurt sé að því, hvaða tillögur hv. framsóknarmenn hafi fram að bera. Hv. 1. þm. Vesturl. vill kippa í burtu 1% gjaldinu af búvörum. Hann vill kippa í burtu 0.75% gjaldinu, sem neytendur eiga að borga. Þetta gerir um bað bil 14 millj. kr. Og hann segir, að það megi afla þessa fjár með öðrum hætti, án þess þó að tilgreina, á hvern veg skuli að því farið.

Hv. þm. var óheppinn. Hann var mjög óheppinn, og það sýnir glögglega getuleysi hans, þrátt fyrir góða viðleitni, að ég ætla, þegar hann talaði um, að það mætti fá aukið fé úr mótvirðissjóði. Við höfum mótvirðissjóð, sem Búnaðarbankinn hefur vissulega notið góðs af, því að landbúnaðurinn fær helming úr mótvirðissjóðnum að láni í gegnum Framkvæmdabankann. Aðrir atvinnuvegir fá hinn helminginn. Hefur hv. þm. hugsað sér það, að landbúnaðurinn gæti nú fengið allan mótvirðissjóðinn? Ég held, að því hafi verið fagnað á sínum tíma, þegar Pétur Ottesen og Jörundur Brynjólfsson fluttu tillögu hér á Alþingi fyrir nokkrum árum um það, að landbúnaðurinn fengi helminginn af mótvirðissjóðnum, og bað hefði engum þá dottið í hug að gera hærri kröfur landbúnaðinum til handa en að landbúnaðurinn fengi helminginn af mótvirðissjóðnum. Og ég er alveg sannfærður um, að það er algerlega tilgangslaust að hugsa sér í dag að taka þann hluta mótvirðissjóðsins, sem sjávarútvegur, iðnaður og aðrir atvinnuvegir hafa fengið, og ætla landbúnaðinum meira en helming af þessu fé. En þessi uppástunga hv. þm. sýnir, hversu fánýtt þetta hjal framsóknarmanna er, hversu getulausir þeir eru í þessu efni, um tillögur til fjáröflunar fyrir búnaðarsjóðina, og vitanlega sannar bezt það frv., sem þessir hv. þm. hafa flutt hér í deildinni og er á dagskrá í dag, að þeir hafa ekki haft fyllri tillögur til lausnar þessu máli en það, sem felst í Þessu frv. Og hvaða tillögur eru það? Það eru tillögur um það, að ríkissjóður taki á sig gengishallann og ekkert meira. Það eru hinar fyllstu kröfur, sem framsóknarmenn áttu, áður en þetta frv. kom fram. En eftir að þetta frv. kom fram, vilja þeir halda því fram, að það beri að gera hærri kröfur, án þess að gera gáfulegri tillögur en það, sem hv. 1. þm. Vesturl. gerði hér áðan í sambandi við mótvirðissjóðinn.

Hann sagði einnig, að það væru fleiri sjóðir til en mótvirðissjóður, án þess að nefna, hvaða sjóðir það væru. Það mætti ef til vill fara með höndina þar ofan í og ná einhverju þar upp og flytja yfir í Búnaðarbankann. En svona málflutningur er vitanlega ekki frambærilegur á hv. Alþingi, — gersamlega óframbærilegur, og það er þess vegna ekkert undarlegt, þótt vinir og kunningjar þessa hv. þm. verði sárir að uppgötva það, að hv. þm. er þá ekki stærri karl en það, sem auglýsir sig í þessum málflutningi.

Hv. þm. sagði hér áðan, að búnaðarsjóðirnir hafi tapað miklu, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum, — tapað miklu síðan, sagði hann. Að vísu voru þeir farnir að tapa áður, það viðurkenndi hann. Hann viðurkenndi, að þeir höfðu tapað nokkru, á meðan vinstri stjórnin var við völd. En kröfurnar um að lagfæra það og bæta sjóðunum töpin voru ekki gerðar, fyrr en Framsókn fór frá. Kröfurnar um að bæta sjóðunum töpin komu ekki fram af hendi Framsóknar, fyrr en þeir voru farnir frá völdum. Það er þetta, sem er táknrænt. Það er þetta, sem er alveg sérstakur einkennisstimpill á Framsfl., þ.e. að bíða með kröfugerðina, biða með endurbæturnar fyrir hönd þeirra, sem þeir þykjast vinna fyrir, þangað til þeir eru komnir frá völdum, og þakka sér svo, eftir að þeir eru farnir frá völdum, allt það, sem vel er gert. Vitanlega bar Framsfl., ef hann hefði viljað vera samkvæmur þeirri kenningu, sem hann nú flytur, að gera ráðstafanir til 1958, þegar 55% gjaldið var lagt á, að bæta sjóðunum það tap, sem þeir sýnilega urðu þá fyrir, sem voru margir milljónatugir. En það kom engin tillaga um Það. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði ekki eitt orð í þá átt þá, vegna þess að þá var ekki tímabært að gera kröfuna, á meðan framsóknarmenn voru við völd. Það átti að koma í hlut annarra að lagfæra þessa skekkju. Og það voru ekki aðeins nokkrir milljónatugir, sem töpuðust á árinu 1958. Það voru ekki bara milljónatugir, sem búnaðarsjóðirnir töpuðu 1958, því að krónan féll á því ári meira en sem nam þessu 55% gjaldi. Hún féll miklu meira. (Gripið fram í: Hvað féll hún?) Hún féll það mikið, sem hún var skráð í ársbyrjun 1960, því að þegar vinstri stjórnin fór frá völdum, — og það veit ég, að hv. 2. þm. Vestf. veit, ég veit, að hann skilur það, og ég veit líka, að þessi hv. þm. var innilega sammála flokksforingja sínum, hv. 2. þm. Vestf. núv., hv. fyrrv. formanni Framsfl., hann var innilega samþykkur þeirri yfirlýsingu, sem flokksforinginn gaf þá, að það væri óðaverðbólga og það yrði ekki við neitt ráðið, og fólkið í þessu landi veit, að einmitt þá var krónan felld, og þegar vinstri stj. fór frá, þá var krónan ekki meira virði en það, sem hún var skráð í ársbyrjun 1960. En þessi hv. þm. var svo óheppinn að spyrja, hvort það hefði líka verið 1961. En ég vil þá spyrja þennan hv. þm. um það, hvort hann hafi ekkert samvizkubit af afskiptum Framsfl. af því máli, á árinu 1961, og hvort það sé þá ekki eðlilegt að rekja orsakirnar til gengisfellingarinnar á s.l. ári einnig að nokkru leyti til hinna sömu manna. Eða vill þessi hv. þm., sem hefur orð á sér fyrir að vera fasttengdur Alþb., koma hér

upp á eftir og afneita því samfélagi? Ég hygg, að hv. þm. geti það ekki. Ég hygg, að hann hafi svarið sig svo fast í samfélag við þann flokk, að hann telji ekki tímabært að afneita honum, vegna þess að hann ætlar að sjá, hvernig næstu kosningar fara. Það er draumur þessa hv. þm. Það er draumur hans að geta myndað stjórn eftir næstu kosningar með Alþýðubandalagsmönnum. En meiri hluta þjóðarinnar dreymir ekki um það. Meiri hl. þjóðarinnar mun afstýra því. að það takist að vinna slíkt skemmdarverk á ný, sem unnið var með því að mynda vinstri stj. 1956, og meiri hluti þjóðarinnar mun hafa lært það mikið af fenginni reynslu, að slíkt ævintýri tekst ekki aftur. Vill hv. þm. reyna að þvo af sér blettinn? Það væri meiri von til þess, að það tækist, eftir því sem meira hefur verið til reynt.

Hv. 1. þm. Vesturl. var að tala um það hér áðan, hvað hefði verið sagt fyrir kosningarnar 1959. Þá hefði fólkinu ekki verið sagt frá því, að það stæði til gengislækkun. Ég skal ekki fullyrða um það, hvað sagt hefur verið á framboðsfundum í Vesturlandskjördæmi. Hitt veit ég, hvernig frambjóðendur núv. stjórnarflokka skrifuðu. Ég veit, hvað þeir sögðu í útvarpsumr. Og ég veit, hvað sagt var í Suðurlandskjördæmi á framboðsfundum. Það, sem sagt var, var þetta, að efnahagsástandið í þjóðfélaginu væri með þeim hætti, að það þyrfti róttækra aðgerða við. Það var ekki rengt, það sem fyrrv. formaður Framsfl. sagði, að Það væri í rauninni allt komið í kaldakol, eftir að vinstri stjórnin hafði setið að völdum í rúmlega tvö ár. Það var staðfest fyrir kosningarnar. Og hvers vegna er svo hv. 1. þm. Vesturl. að tala um það, að núv. stjórnarflokkar eða við sjálfstæðismenn höfum lofað gulli og grænum skógum, ef við kæmumst að völdum? Það, sem við sögðum, var, að það væru erfiðleikar fram undan, en tímabundnir erfiðleikar. Ef þjóðin bæri gæfu til að velja sér þingmeirihluta, sem þyrði að taka á verkefnunum, þá mundi sigur vinnast og erfiðleikarnir ekki standa nema takmarkaðan tíma. Og þegar núv. ríkisstj. var mynduð, var hafizt handa um að bjarga þjóðinni frá bjargarskorti, bjarga atvinnuvegunum frá hruni, forða þjóðinni frá atvinnuleysi og örbirgð. Og þegar hv. framsóknarmenn eru nú að tala um, að það hafi hallað undan fæti hjá landbúnaðinum, síðan núv. ríkisstj. komst að völdum, er eðlilegt, að spurt sé að því. hvernig landbúnaðurinn væri staddur í dag, ef framsóknarmenn ásamt Alþýðubandalagsmönnum hefðu ráðið ríkjum siðan 1958. Hvernig væri það? Þarf ég að svara því? Ég held ekki. Ég held, að hv. alþm., hver fyrir sig, hafi gert sér grein fyrir því og muni gera það, ef þeir gefa sér tíma til rólegrar yfirvegunar um þessi mál. Ég held, að það liggi í hlutarins eðli, að það mátti ekki lengur dragast, að það væri spyrnt við fótum og það væri gerð fullkomin stefnubreyting.

Hv. framsóknarmenn eru stöðugt að tala um samdrátt, — samdrátt í framleiðslunni, samdrátt í landbúnaði. Hver er svo þessi samdráttur? í hverju lýsir hann sér? Ekki lýsir hann sér í minnkandi framleiðslu, því að framleiðsluaukningin í landbúnaðinum hefur aldrei verið meiri en síðustu tvö árin. Ekki lýsir samdrátturinn sér í atvinnuleysi, því að allir hafa eins mikla vinnu og þeir geta afkastað og hafa þrek til að leysa af hendi. í hverju lýsir hann sér þá? Hann lýsir sér aðeins í orðagjálfri framsóknarmanna. Og það er leiðinlegt, að hv. 1. þm. Vesturl. kom hér fram áðan með algerlega staðlausa stafi, sem voru gersamlega hraktir, þegar vitnað var í skýrslu ráðunautar Búnaðarsambands Suðurlands og sú skýrsla var lesin og hrakti algerlega þær firrur, sem þessi hv. þm. hafði komið með. Það sýndi sig, að framkvæmdir í Rangárvallasýslu höfðu vaxið meira á árinu 1961 en nokkru sinni fyrr. (Gripið fram í: Það gerir kornræktin.) Nei, fyrir utan kornræktina, hv. þm. getur lesið blaðið. Hann getur lesið skýrslu ráðunautarins, sem staðfestir það. Og er það þá nokkuð undarlegt, þótt bankastjóri, sem hefur setið með hv. 1. þm. Vesturl. hér í deildinni árum saman, verði sár, þegar hann uppgötvar, að þessi hv. þm. kemur hér upp í ræðustólinn og skrökvar vísvitandi án þess að roðna? Satt að segja hafði mér ekki dottið í hug, að hv. Þm. væri svo kaldrifjaður sem raun ber vitni.

Út af fyrir sig er ekki ástæða til að ræða miklu meira við hv. þm. út af þessum tveim ræðum, sem hann hefur flutt, eftir að ég talaði hér í dag, enda voru báðar ræðurnar svipaðar. Hv. þm. spurði að einu, sem er eðlilegt að sé svarað. Hann spurði að því. hvort þetta frv. eða þær tillögur, sem í því felast, hafi verið bornar undir Stéttarsamband bænda, búnaðarþing eða Búnaðarfélag Íslands. Hv. 6. þm. Norðurl. e. svaraði þessu, að það hefði ekki verið gert. En hvers vegna hefur það ekki verið gert? Ekki vegna þess, að við viljum lítilsvirða Stéttarsambandið, Búnaðarfélagið eða búnaðarþing, heldur vegna þess, að við erum sannfærðir um, að forustumenn bændanna hljóta að vera fylgjandi þessum tillögum, og ef þeir snúast gegn þessum tillögum, eru þeir ekki bærir um að hafa forustu fyrir bændastéttina. Hvers vegna skyldi búnaðarþing, Búnaðarfélagið og Stéttarsamband bænda snúast gegn því, að fjár verði aflað til lánasjóða landbúnaðarins með þeim hætti, sem hér er lagt til, þegar sömu menn gátu samþykkt það á árinu 1958, að lagður væri einhliða skattur á bændastéttina, án þess að þeir fengju nokkuð á móti, án þess að verið væri að vinna með því á nokkurn hátt að uppbyggingu landbúnaðarins? Ég þekki marga forustumenn bændastéttarinnar, og ég þekki þá að mjög góðu. Ég þekki þá að raunsæi, og ég þekki þá að víðsýni. Ég hef rætt við marga þessa menn um þetta mál, þótt það hafi ekki formlega verið borið undir félagssamtökin, og ég hef fengið af eðlilegum ástæðum jákvæðar undirtektir. Búnaðarþing situr í dag. Það hefur vissulega tækifæri til þess að taka afstöðu til þessa frv. Er einhver hv. þm. staddur hér í þessari deild, sem reiknar með Því, að búnaðarþingið snúist gegn þessu frv.? Reiknar hv. 1. þm. Vesturl. með því, að búnaðarþing samþykki ekki frv. og þá tekjustofna, sem hér er farið fram á? Ég tel það ekki. Og þeir sömu menn, sem voru á búnaðarþingi 1958, munu trauðla gera slíkt. Mér dettur ekki í hug, að hv. búnaðarþingsmenn og stjórn Stéttarsambands bænda taki að sér það hlutverk, sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur gert. Hann greiddi atkv. með skattinum vegna bændahallarinnar, en hann ætlar að greiða atkv. á móti því, sem hér er farið fram á. Ég öfunda hv. Þm. ekkert af þessari afstöðu. Það er kannske ekki ástæða til að vorkenna honum, vegna þess að hann hefur sýnt það við þessar umr., að hann er kaldrifjaður og getur sett sig í gervi, sem brynjar hann að einhverju leyti. En trú mín er sú, að samvizkan muni slá hann, áður en langt um líður.

Hv. þm. talaði um, að það væri tekin upp ný stefna í landbúnaðinum, eftir að núv. stjórn tók við völdum. Hver er nú þessi nýja stefna? Það hefur margt gerzt, síðan núv. stjórn tók við og vinstri stjórnin gafst upp, og bændur hafa áreiðanlega gert sér grein fyrir því, að það er að vissu leyti ný stefna, sem horfir til batnaðar frá því. sem var. Hv. þm. sagði t.d. hér áðan, að það væri viðurkennt nú, að það væri eðlilegt, að ríkið bætti það tjón, sem yrði af útfluttum landbúnaðarvörum. En hvenær fékkst þessi viðurkenning? Ef ég man rétt, var þessi hv. þm. á búnaðarþingi 1958, — ég held það hafi verið. Og ef svo hefur verið, þá er áreiðanlegt, að þessi hv. þm. man eftir því, að mikill tími búnaðarþings fór í að ræða um þann halla, þau töp, sem bændur yrðu fyrir, vegna þess að þeir yrðu að flytja út osta, mjólkurduft og kjöt fyrir mun lægra verð en fengist á innlendum markaði. Ekki man ég eftir því, að þessi hv. þm. sæi nokkurt ráð til þess að bæta bændum þennan halla, — því man ég ekki eftir. Ekki kom till. frá honum um það. Bændur urðu að búa við þennan halla, og 1958 munaði þetta 22 aurum á lítra hjá bændum á Suðurlandsundirlendinu, hjá Mjólkurbúi Flóamanna, vegna þess að þeir höfðu flutt út osta á verðlagsárinu. Þá vantaði 22 aura á grundvallarverðið. Og bændur um allt land vantaði mikið á grundvallarverðið. Vissulega hefur komið upp ný stefna í landbúnaðinum að þessu leyti að viðurkenna það, að bændur skuli fá þetta bætt. En það bara varð ekki fyrr en framsóknarmenn voru komnir úr ríkisstj., — varð ekki af því fyrr. Og það hefur komið upp ný stefna í sambandi við lánasjóði landbúnaðarins, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, sú stefna að útvega þeim innlent fé til að lána. Og ef það hefði verið gert undanfarin ár í staðinn fyrir það að taka útlent fé, þá þyrftum við ekki að vera að ræða um frv. eins og þetta, sem hér hefur verið lagt fram til viðreisnar og til endurlífgunar búnaðarsjóðunum. Hvers vegna var ekki útvegað innlent fé, fyrr en framsóknarmenn voru komnir úr stjórn? Það var vegna úrræðaleysis og skilningsleysis. Vitanlega hefði þurft að útvega sjóðunum innlent fé, eða eins og við sjálfstæðismenn höfum oft sagt áður, ríkissjóður átti að taka erlendu lánin og lána búnaðarsjóðunum aftur til þess að aflétta gengisklásúlunni af búnaðarsjóðunum, sem þeir á engan hátt gátu borið, eins og sýnilegt er. Og það er athyglisvert, að það kemur engin viðleitni fram hjá framsóknarmönnum til að bæta búnaðarsjóðunum gengistöpin, fyrr en þeir eru komnir úr stjórn. Þá flytja þeir frv. hér í hv. Alþingi, bæði á s.l. þingi og svo aftur nú. Það er sem sagt þetta, eins og oft hefur komið fram hjá framsóknarmönnum, að gera hærri kröfur til annarra en sjálfra sin, og það hefur ekki þótt stórmannlegt fram að þessu og ekki talinn kostur á einstaklingi og væri ekki heldur talinn kostur á þjóðarheild, ef hún væri stimpluð með því merki. Framsóknarmenn hv. hafa einkarétt á því að bera þetta merki.

Hv. 1. þm. Vesturl. var að tala um lögin um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum frá 1946 og að sjálfstæðismenn hefðu látið mikið yfir þessari lagasetningu, þessi lagasetning mundi tryggja landbúnaðinn um alla framtið. Þetta var vitanlega aldrei sagt, að það mundi tryggja landbúnaðinn um alla framtíð. En þessi lagasetning var ákaflega mikils virði fyrir landbúnaðinn og var fyrsta stóra átakið, sem gert var til uppbyggingar í landbúnaðinum. Það voru miklir peningar 1946, þegar ákveðið var að leggja til 5 millj. kr. á ári næstu 10 ár í þessu skyni. Það var miklu meira en áður hafði þekkzt, á meðan framsóknarmenn fóru með völd. Þeir þekktu ekki svo háar tölur til handa landbúnaðinum. Og það er vissulega rétt, sem oft hefur verið sagt, að Pétur heitinn Magnússon hafi verið velviljaður landbúnaðinum og hann hafi viljað láta landbúnaðinn njóta lágra og góðra vaxtakjara. En þess ber að minnast, að þegar vextirnir voru ákveðnir 1946, bjó landbúnaðurinn ekki við það öryggi í verðlagsmálum, sem hann þó gerir nú, þótt bændur séu ekki alls kostar ánægðir með það. Þá var ekki útflutningstrygging á landbúnaðarvörum, og þá gengu vextirnir ekki nema að sáralitlu leyti inn í verðlagsgrundvöllinn. Þeir gengu ekki að sama skapi inn í verðlagsgrundvöllinn og þeir gera nú, þar sem þó 16500 kr. eru reiknaðar til útgjalda í verðlagsgrundvellinum hvað vextina snertir. Og það er vitanlega alveg í samræmi við hugsunarhátt Péturs heitins Magnússonar að byggja þetta upp og skapa þannig grundvöll fyrir landbúnaðinn með ótrúlega miklum framlögum árlega úr ríkissjóði. Ef við förum að reikna það út, hvað 5 millj. kr. gerðu 1946, þá eru það margar millj. miðað við núv. verðgildi peninga. Ég hef ekki lagt það nákvæmlega niður, en við megum margfalda það talsvert. Ég býst við, að það samsvari að nokkru því, sem lagt er til með Þessu frv., kannske hefur það verið meira tiltölulega 1946. En vextirnir eru vitanlega aldrei fastir. Landbúnaðurinn býr nú við lægstu vexti á lánasjóðum landbúnaðarins, 6% til íbúðabygginga og 61/2% til útihúsabygginga og ræktunar. Það eru ekki aðrir atvinnuvegirnir, sem eiga kost á að fá lægri vexti.

Hv. 5. þm. Austf. var að tala um, að það væri reiknað með þessum vöxtum í þeirri töflu, sem fylgir frv., og vildi gefa í skyn, að það væri þar með ákveðið að hafa þennan vaxtafót til ársloka 1975. Þetta er náttúrlega hreinn misskilningur hjá hv. þm. Það er ekkert ákveðið um það. En hitt er annað mál, að ef vextirnir verða lækkaðir, þá tel ég, að það þurfi að útvega sjóðunum tekjur með öðrum hætti, sem nemur lækkun vaxtanna, til þess að uppbygging sjóðanna verði ekki lakari en taflan sýnir, og það er vitanlega á valdi hverrar ríkisstj. og hvers þingmeirihluta á tímabilinu 1962–1975 að taka það til athugunar, hvort ekki sé unnt að lækka vextina og bæta sjóðunum upp vaxtalækkunina með auknu framlagi úr ríkissjóði, og verði talið eðlilegt að lækka vextina almennt og miðað við annað í þessu þjóðfélagi, þá vitanlega ber að athuga, hvernig er unnt að bæta sjóðunum upp vaxtalækkunina með peningum annars staðar frá. Hitt er svo aðalatriðið, og það veit ég, að við erum sammála um, ef við gefum okkur tíma til að hugsa um þessi mál af hógværð, að það er meira atriði fyrir bóndann að eiga greiðan aðgang að lánum, þótt vextirnir séu 6 eða 61/2%, heldur en að eiga ekki greiðan aðgang að lánum, þótt vextirnir væru færðir niður í 4%.

Hv. 5. þm. Austf. var að tala um, að þessar töflur væru kannske ekki alveg áreiðanlegar, þótt hann hefði engin stóryrði eða fullyrðingar uppi í því efni. En ég vil upplýsa hv. þm. um það, að þessar töflur eru vitanlega í aðalatriðum alveg ábyggilegar, jafnvel þótt það væri hægt að finna einhverja aura- eða krónuskekkju í þeim, og þótt það hafi komið fyrir, að númerin á fskj. hafi ekki verið rétt færð, þá var það auðheyrt á ræðu hv. þm., að hann fann hina réttu niðurstöðu, eins og ætlazt var til. Það, sem skiptir meginmáli í þessu, er það, að ef verðbreytingar verða, þá heldur sú áætlun, sem hér er gerð, miklu betur að því leyti en hinar fyrri áætlanir, vegna þess að tekjur sjóðanna vaxa, ef verðbreytingar verða, ef verðhækkanir verða. Ef það skyldi henda okkur, sem við skulum vona, að ekki þurfi að koma til, að gengisbreyting yrði á ný, þá hækkar verðlag landbúnaðarvara, þá hækkar sú prósenta, sem af þeim er greidd, 1%, þá hækkar framlag ríkissjóðs, þá hækkar einnig það, sem 0.75% gefur, o.s.frv., þannig að sjóðirnir halda áfram að byggja sig upp, og má segja, að lánamáttur sjóðanna breytist eða minnki tiltölulega lítið, þótt verðhækkanir komi.

Það er hrein blekking, þegar hv. framsóknarmenn eru að halda því fram, að 0.75% gjaldið muni lenda á bændum. Það er hrein blekking, vegna þess að það er beinlínis ákveðið, að það skuli lagt ofan á heildsöluverðið. Ef bændur ná ekki grundvallarverðinu, er það vitanlega ekki vegna þess, að 0.75% gjaldið er með. Þeir mundu ekkert frekar ná því, þótt það væri ekki, og þetta er ómerkileg tilraun til blekkinga, sem vitanlega verður reynt að halda fram í Tímanum, að 0.75% gjaldið, þótt það sé lagt ofan á heildsöluverðið og sé hreinn neytendaskattur, muni samt sem áður lenda á bændum.

Ég skrifaði eina firru, sem hv. 1. þm. Vesturl. fullyrti hér áðan. Hann sagði, að bændurnir mundu leggja fram hluta af höfuðstól stofnlánadeildarinnar. (ÁB: Landbúnaðarframleiðslan.) 2/5 hluta. Hefur ekki hv. þm. lesið frv.? Jú, hann hefur það, og hann hefur blað og blýant. Hvernig stendur þá á því, að hv. þm. leyfir sér að fullyrða þetta, að bændur greiði 2/5? Hvað greiða þeir? Þeir greiða 1% af búvörunni, sem er áætlað að gefi 8 millj. 240 þús. á árinu 1963, eða helming þess á árinu 1962. Á móti kemur úr ríkissjóði sama upphæð, sem er 8 millj. 240 þús., enn fremur koma úr ríkissjóði 4 millj., sem gerir 12 millj. 240 þús. Auk þess kemur frá neytendum 51/2 millj. eða jafnvel 6 millj. Þá er þetta orðið 19 millj. Auk þess kemur frá ríkissjóði 60.5 millj. stofnfé strax, og ef reiknað er með vöxtum af því, og er rétt að taka það fram, vegna þess að hv. þm. var að tala um, hvað bréfin væru til langs tíma og hvaða vextir væru af þeim, ég hef það ekki fyrir framan mig, en hitt hefur verið reiknað út, að þessar 60.5 millj. gefa sem svarar rúmlega 9 millj. kr. á ári miðað við 12 ár. Við vorum komnir upp í 19 millj. + 9 millj., — við skulum ekki reikna of hátt, — þá erum við komnir upp í 28 millj. Þetta er framlag frá öðrum en bændunum, en bændurnir leggja fram 8 millj. 240 þús. Hvað er það stór hlutur? Það er nær því að vera fimmti partur heldur en fjórði partur. Það hefði þess vegna verið eðlilegt, að hv. þm. hefði sagt 1/5 í staðinn fyrir 2/5, og gæti hv. þm. rétt nokkuð við mannorð sitt og álit hér í deildinni, ef hann kæmi hér upp á eftir og segði: Mér varð mismæli, ég ætlaði að segja 1/5, en ekki 2/5. — Ég á ekki von á því, að hv. þm. geri það. En hann um það. Við skulum lofa honum að taka þann kostinn, sem honum þykir beztur. En ég er í engum vafa um, hvað hv. deildarmenn teldu, að væri eðlilegast og réttast, — eða er hv. þm. alveg sama, þótt hann verði uppvís að því að fara visvítandi rangt með tölur? Er honum alveg sama um það? Ég hafði haldið, að honum væri ekki alveg sama um það og hann vildi gera tilraun til að lagfæra það og hressa upp á mannorðið.

Hv. þm. gerði veðdeildina að umtalsefni hér í kvöld. Við höfum haft veðdeild við Búnaðarbankann mörg undanfarin ár, en þeir, sem hlustuðu á hv. þm., hefðu getað skilið hann sem svo, að eiginlega hefði hún alltaf verið starfhæf og haft fé til útlána nema bara síðustu árin. En sannleikurinn er sá, og því er nú verr, að veðdeildin hefur alltaf verið févana. En með þessu frv., ef það verður lögfest, ætti að skapast möguleiki á því að útvega deildinni nokkurt fé með því að kaupa bankavaxtabréf veðdeildarinnar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Og það má segja, að stofnlánadeildin hafi ekki fjármagn til þess núna fyrstu árin af eigin fé, en eins og að hefur verið vikið, þá vitanlega gerbreytir það aðstöðu stofnlánadeildarinnar að útvega innlent fé til starfsemi sinnar, eftir að grundvöllur hefur verið lagður að jafntraustri uppbyggingu hennar og lagt er til með þessu frv. Það er þess vegna von mín, ef þetta frv. verður lögfest, að það verði strax á Þessu þingi mögulegt að kaupa eitthvað af bankavaxtabréfum veðdeildarinnar, svo að hún geti veitt lán í ríkari mæli en verið hefur.

Hv. þm. var að finna að því, að ekki er gert ráð fyrir að lána nema 60% af kostnaðarverði húsa, og tetur ástæðulaust að miða ekki heimildina við 75% eins og áður. Ég get verið þessu samþykkur. Ég mundi segja, að það skaðaði ekkert, þó að heimildin væri 75%. En þrátt fyrir þessa heimild, sem verið hefur áður um það, að lána mætti allt að 75% af kostnaðarverði húsa, þá hefur reyndin verið sú, að það hefur oftast verið aðeins 25–30% lánveiting, og það hefur ekki verið gagn að heimildinni. Ég hygg, að ef hægt væri á hverjum tíma að lána 60% af kostnaðarverði, þá þætti bændum það framför frá því, sem verið hefur. Það er talið, að það kosti í dag 400 þús. kr. að byggja íbúðarhús í sveit, og ef bændur ættu nú kost á því að fá kannske 240 þús. að láni í staðinn fyrir Það, sem áður hefur verið, held ég, að það þætti mikil framför. Ég er alls ekki viss um, að það verði fært að fara svo hátt. Lán til íbúðarhúsa voru lengi 45% að ég ætla til ársins 1952, þá munu þau hafa verið hækkuð upp í 60 þús., og það mun hafa verið 60 þús. til ársins 1955, í 75 þús. mun það hafa verið hækkað 1955 og stóð í því til ársins 1960. Ég minnist ekki, að hv. 1. þm. Vesturl. hafi gert nokkra till. um það að hækka lán til íbúðarhúsa með hinni miklu verðhækkun, sem var 1958. Það var hækkað haustið 1960 upp í 90 þús., sem var vitanlega allt of lítið, en það var bara ekki meira fé til, og aftur s.l. haust var það hækkað upp í 100 þús. Eftir að þetta frv. hefur verið lögfest, þarf að hækka lánið ríflega. Ég vil ekki segja, hversu mikið er hægt að hækka það, en áreiðanlega verður það hækkað ríflega frá því. sem verið hefur.

Ég held, að ég láti þessi orð ekki verða öllu fleiri, því að vissulega hefur hv. 6. þm. Norðurl. e, tekið fram allt, sem máli skiptir í þessu máli, en ég hef ekki minnzt á. Það er búið að minnast á öll þau atriði, sem máli skipta, og það, sem fram hefur komið til þessa frá hv. framsóknarmönnum, er léttmeti eitt, og ég leyfi mér að segja, að þótt hv. framsóknarmenn tali eins og þeir nú tala, þá hlýtur það að vera gegn betri vitund. Þeir vita það, að þetta frv. ef að lögum verður, verður landbúnaðinum mikill léttir. Þeir vita það, að með þessu frv. er verið að skapa lánastofnun, sem getur í framtíðinni fullnægt lánsþörfinni, þótt uppbyggingin verði örari en hún hefur verið áður. Það má því segja, að hv. 1. þm. Vesturl. hafi eiginlega ratað á það rétta, þegar hann talaði um nýja stefnu, því að það er ný stefna að byggja upp lánastofnanir í landbúnaðinum með þessum hætti, sem nú hefur verið gert, sem gæti fullnægt í framtiðinni lánaþörfinni. Og þegar hv. þm. er að tala annars vegar um hina miklu fjárþörf landbúnaðarins og hins vegar um það að taka út úr frv. stóra tekjustofna, þá vitanlega væri hann skyldur, ef hann vill maður heita, að benda á einhvern tekjustofn í staðinn, sem hægt væri að taka til greina. En hv. þm. hlustuðu á, hvaða tillögur hann hafði fram að færa. Hann hafði þá till. að fá meira úr mótvirðissjóði. Hann hafði þá till. að krefjast þess, að landbúnaðurinn fengi meira en hálfan mótvirðissjóð, eins og hann nú hefur fengið. Ég er alveg sannfærður um það, að þótt hv. 1. þm. Vesturl. sé að skrifa hjá sér núna það, sem hann ætlar að segja á eftir, þá dettur honum ekki í hug að gera kröfu um það, að landbúnaðurinn geti fengið meira en helminginn af mótvirðissjóði. Og ég á ekki von á því, að nokkur annar hv. framsóknarmannanna í deildinni láti sér það til hugar koma. Þegar þessi leið lokast, þá stendur hv. þm. uppi algerlega tillögulaus, og í rauninni er ekki ástæða til að hlusta frekar á hann í sambandi við umr. um þetta mál. Ég mun hins vegar ekki telja það eftir mér að sitja hér í d. og hlusta lengur á jafnómerkilegar ræður og hv. þm, flutti hér áðan, ef einhverjir flokksmenn hans vildu taka upp hans þátt.