05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. Þetta hefur fengið afgreiðslu í hv. Ed. og er nú hér til 1. umr. Það hefur þegar verið mikið rætt og ritað um þetta mál, og er hv. þm. því málið nokkuð kunnugt, og munu flestir hv. þm. hafa gert sér grein fyrir því. um hvað hér er að ræða.

Það er kunnara en um það þurfi að fjölyrða, að búnaðarsjóðirnir eru févana og eru gjaldþrota. Það er einnig kunnara en frá þurfi að segja, að á undanförnum árum, þótt þeir hafi haft nokkurt fé til umráða og verið landbúnaðinum mikil stoð, þá hafa þeir engan veginn getað innt af hendi það hlutverk, sem þeim var ætlað í fyrstu. Samkv. lögunum um ræktunarsjóð og byggingarsjóð er heimilt að lána allt að 75% af byggingarkostnaðinum. En vegna fjárskorts hafa lánin ekki verið hærri en 25 eða mest 30%. Það hefur einnig verið heimild til þess að lána út á vélar. Það hefur verið heimild til þess að lána út á bústofn. Það hefur verið heimild yfirleitt til þess að lána út á allt, sem veðhæft gæti talizt hjá bændum við bústofnun og búrekstur. En það hefur ekki verið unnt vegna fjárskorts að lána út á annað en íbúðabyggingar, útihúsabyggingar og ræktun. Vélarnar hafa orðið út undan, bústofninn hefur orðið út undan, og það er þess vegna ekkert nýtt, þótt bændur og þeir, sem eru að byrja búskap, eigi erfitt með að fá lán. Þannig hefur þetta verið mörg undanfarin ár. Aðalfundur Stéttarsambands bænda hefur ár eftir ár sent áskorun til ríkisstj. um það að bæta úr þessu. Búnaðarþing hefur einnig gert hið sama. En það hefur ekki enn sem komið er verið gert neitt raunhæft í þessum efnum. Það, sem hefur verið látið nægja, er það, að ríkisstj. á hverju hausti hefur hafizt handa um að slá lán til þess að leysa úr brýnustu nauðsyn vegna bygginga og ræktunar. Og Þetta var ekki betra í tíð vinstri stjórnarinnar, ef menn líta til þeirrar sögu, sem er nærtæk.

Hv. framsóknarmenn hafa á undanförnum þingum flutt frumvörp um nýja lánadeild við Búnaðarbankann, bústofnslánadeild. En það er ekki það, sem vantar við Búnaðarbankann, ný lánadeild. Það, sem hefur vantað, er fé til útlána. Það er þess vegna nægilegt að hafa eina stofnlánadeild. En með þessu frv. er gert ráð fyrir að sameina byggingar- og ræktunarsjóð í eina deild, stofnlánadeild landbúnaðarins. Hins vegar er gert ráð fyrir, að veðdeildin haldi áfram að starfa, en hún hefur raunar undanfarin ár verið lítt starfhæf vegna fjárskorts. Það er tími til þess kominn, að menn hætti því að flytja sýndarfrv. og sýndartill. um lausn þessara mála. Það er nauðsynlegt, að nú verði hafizt handa með raunhæfum aðgerðum. Og Það er það, sem er gert með þessu frv., sem hér er til umr.

Það merkilega hefur skeð, að hv. framsóknarmenn hafa snúizt gegn þessu frv. Og það merkilega hefur skeð, að meiri hl. búnaðarþings hefur einnig gert það. Það er ekki óeðlilegt, þótt menn reyndu að gera brtt. við frv., ef þeir hefðu ráð í pokahorninu til þess að gera það enn betur úr garði en það er. En því er ekki fyrir að fara. Meiri hl. búnaðarþings hafnar frv. án þess að gera nokkrar jákvæðar tillögur um lausn þessa vandamáls. Hv. framsóknarmenn hafa fram að þessu látið sér nægja að flytja frv. og till. og áskoranir til ríkisstj. um að leggja fram fé án þess að benda að nokkru leyti á leiðir eða úrræði til þess að afla fjárins. Á tveimur þingum hafa hv. framsóknarmenn flutt frv. um það, að ríkissjóður taki að sér að greiða gengishallann, sem þessir sjóðir hafa orðið fyrir. Og með flutningi þessara tillagna hafa hv. framsóknarmenn talið, að þeir væru að gera kröfur til lagfæringar á sjóðunum svo víðtækar og háar, að lengra væri naumast unnt að ganga. Við skulum segja það, að Þetta sé út af fyrir sig virðingarvert. Með því að samþykkja frv. hv. framsóknarmanna, sem nú liggur fyrir hv. Ed. um, að ríkissjóður taki á sig gengishallann, er gert ráð fyrir því. að ríkissjóður greiði um 9 millj. kr. á ári til þessara sjóða. Og það má segja, að með því að ríkissjóður fengi 9 millj. kr. á ári til þess að bæta gengishallann, sé sjóðunum forðað frá gjaldþroti a.m.k. En sjóðirnir verða jafnvanmegnugir um að lána bændum út á framkvæmdir. Þá vantar fé til þess að inna Það hlutverk af hendi, sem þeim er ætlað. Ef frv. hv. framsóknarmanna væri samþykkt eitt út af fyrir sig, þarf að halda áfram að slá fé fyrir hver áramót til hinna brýnustu nauðsynja. Sjóðirnir byggja sig ekki upp. Sjóðunum yrði ekki fært að færa út verksviðið. Þeim yrði ekki fært að hækka útlánin til bænda, svo sem brýn nauðsyn er á.

Eftir að Þetta frv. kom fram, hafa hv. framsóknarmenn að vísu flutt tillögur, og það merkilega skeður, að í þessum till. framsóknarmanna er gert ráð fyrir 25 millj. kr. framlagi beint úr ríkissjóði árlega, og er auðséð, að hv. framsóknarmenn hafa haft frv. ríkisstj. til hliðsjónar, þegar þeir skrifuðu þessa till.till. er þó aðeins lægri en sú fjáröflun, sem þetta frv. felur í sér, því að samkv. 3. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi strax fram 60.5 millj. kr. sem stofnfé, sem gerir höfuðstól deildarinnar strax jákvæðan og jafngildir 9.5 millj. kr. á ári í 14 ár, sé miðað við 71/2 % vexti, en rúmlega 8 millj. kr. á ári sama árafjölda, ef miðað er við 61/2% vexti. Og það er rétt að hafa þetta í huga. En auk þessa framlags er gert ráð fyrir, að gamla framlagið haldist, 4 millj. kr., að ríkissjóður borgi jafnt á móti 1% gjaldinu, sem lagt er á búvörur, en það munu vera 8 millj. kr. á ári eða jafnvel rúmlega það. Þegar þetta er lagt saman og ef við tökum lægri vaxtatöluna af stofnfénu, þá höfum við 20.5 millj. kr. beint framlag frá ríkissjóði árlega til þessara sjóða, og við höfum auk þess það framlag, sem kemur frá neytendum landsins, sem er 5.5 eða jafnvel 6 millj. kr. á ári. Við höfum þá samkv. þessu frv. annars staðar en frá bændunum 26–27 millj. kr. árlega. Þetta frv. gerir þess vegna miklu meira en það að gera ráð fyrir að borga gengishallann, eins og fyrri frumvörp hv. framsóknarmanna. Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að það komi frá ríkissjóði og öðrum en bændum 26–27 millj. kr. á ári. Bændur borga svo 1% af búvörum, sem gerir nú fyrstu árin rúmar 8 millj. kr. og fer hækkandi eftir því, sem framleiðslan eykst, og er þá árlegt fé, sem sjóðirnir fá, 34–35 millj. kr. auk vaxtatekna. Það er þetta, sem frv. gerir ráð fyrir, og með tögfestingu þess eru sjóðirnir byggðir upp á traustan hátt og það verður gert mögulegt að lána bændum hlutfallslega hærri lán en áður og lána út á framkvæmdir, sem hefur ekki verið fé til að lána út á áður.

Það er öruggt, að ef þetta frv. verður að lögum, er með því stigið stórt og heilladrjúgt spor til þess að veita landbúnaðinum þá aðstoð, sem hann hefði þurft að vera búinn að fá fyrir löngu, en hann mun nú fá í auknum mæli eftir lögfestingu þessa frv.

Það verður tæplega unnt að taka hv. framsóknarmenn eða málgögn þeirra alvarlega, þegar þeir ræða um þetta mál. Ég sá í Tímanum í gær eða í fyrradag, að þeir tala um 2 millj. kr. nýtt fé samkv. þessu frv., 2 millj. kr. nýtt fé til þessara sjóða. Hv. framsóknarmenn standa ekki á traustum grunni, þegar þeir eru að gagnrýna þetta frv., og ég er viss um það, að sumir þeirra eiga eftir að iðrast þeirra orða, þeirra ummæla, sem þeir hafa haft hér í þingsölunum um þetta mál. Reynslan mun sanna, að hér er rétt stefnt og hér er heillavænlega að unnið. Hitt er svo aukaatriði, þótt hv. framsóknarmönnum virðist nauðsynlegt að gera málið tortryggilegt, gera allt, sem þeir geta, til að gera þá menn, sem að því standa, tortryggilega í augum bænda. En hv. framsóknarmenn mega gera sér grein fyrir því, að bændur fylgjast vel með þessum málum og hafa meiri dómgreind til að bera en þeir, sem Tímann rita, og þeir, sem tala fyrir Framsfl. í hv. Alþingi um þetta mál.

Ég sagði áðan, að það furðulega hefði skeð, að meiri hl. búnaðarþings hefði snúizt gegn þessu máli. Minni hl. bjargaði áliti búnaðarþings með því að flytja rökstudda dagskrá, og þessi rökstudda dagskrá endar þannig:

„Fundurinn telur ályktunartillöguna ekki vera í samræmi við hagsmuni bænda og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það var ályktunartillaga meiri hl. um að vísa þessu frv. frá eða telja það gagnslaust og jafnvel árás á bændur, eins og fram hefur komið. Það er svo annað mál, þegar hv. framsóknarmenn hér í Alþingi mæla fast með því að láta bændur borga 1/2% af búvörum til bændahallarinnar hér í Reykjavík, en telja það árás á bændur, að þeir greiði 1% gjald af búvörum til þess að byggja upp búnaðarsjóðina. Ég ætla ekki að eyða orðum að því að sýna fram á, hversu þessi málflutningur er fráleitur. Ég hygg, að það dæmi sig sjálft. Það þarf ekki skýringa við. Og það er vonlaust verk að hamra það inn í bændur landsins, að það sé samkv. hagsmunum þeirra að borga 1/2 % til bændahallarinnar, en það sé gegn hagsmunum þeirra að borga 1% til þess að byggja upp búnaðarsjóðina. Það er algerlega vonlaust verk.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir traustri og tiltölulega fljótri uppbyggingu sjóðanna. Og samkv. fskj., sem fylgja með frv., og útreikningum geta hv. þm. séð greinilega, hvernig sjóðirnir byggja sig upp, og það verður ekki um það villzt. Það kemur í ljós, að fyrsta árið, 1962, vantar sjóðina fé. Það er á fskj. II á bls. 22 í frv., sem þetta kemur fram, að eigið fé til útlána úr stofnlánadeildinni á árinu 1962 er ekki nema 31 millj. 702 þús. kr. Það er vitanlega allt of lítið á þessu ári. Á árinu 1963 verður eigið fé 51 millj. 70 þús. kr. Á árinu 1964 verður eigið fé 56 millj. 525 þús. kr. Á árinu 1965 verður eigið fé 61 millj. 670 þús. kr., á árinu 1966 67 millj. 801 þús. kr., og þannig vex þetta smátt og smátt, þannig að 1970 verður eigið fé til útlána árlega 101 millj. 617 þús. kr. Nú er útlánaþörfin 60–70 millj. kr. árlega a.m.k. Það vantar því mikið til þess, að fyrstu árin verði nægilegt fé. En það er sá munur, eftir að Þetta frv. hefur verið lögfest, frá því, sem áður hefur verið, að stofnlánadeildin getur sjálf staðið undir lánunum og hún er stofnun, sem er traust og byggir sig upp, og enginn verður hræddur við að lána henni. Það má fullyrða, að fyrstu fimm árin verður deildin að taka nokkurt fé að láni til þess að geta innt af höndum þá skyldu eða Þá nauðsyn, sem til þess er að veita bændum aukin lán. En deildin heldur áfram að byggja sig upp, þannig að 1975 er eigið fé deildarinnar til árlegra útlána 148 millj. 426 þús. kr.

Nú hefur verið sagt: Er þetta tryggt? Hvað skeður, ef verðlagið breytist, ef aftur verður gengisfelling? Er þetta Þá traustur grunnur? Hefur þá verið lagður framtíðargrundvöllur að uppbyggingu deildarinnar? Það má náttúrlega segja, að það sé erfitt að tryggja þessa deild eins og annað gegn öllum áföllum. Hitt er þó ljóst, að ef verðbreyting verður til hækkunar og ef til þess komi, að gengisfelling verði aftur, sem við skulum vona að ekki verði, Þá hækkar verðlagið á landbúnaðarvörunum, 1% gjaldið verður hærri fjárhæð, og framlag ríkissjóðs hækkar Þá að sama skapi. Söluskatturinn eða hvað við vitjum nefna Það, 0.75% gjaldið, gefur Þá einnig hærri fjárhæð, þannig að með Þessu móti vinnst mikið gegn þeim verðhækkunum og krónufellingum, sem gætu átt sér stað í framtíðinni. Og það er e.t.v. einn höfuðkostur Þessa frv., að jafnvel er stofnlánadeildin verulega tryggð, þótt svo óheillavænlega færi, að krónan ætti enn eftir að lækka.

Á annarri töflu hér er sýnt, hvernig efnahagsreikningurinn kemur út og hvernig deildin byggir sig upp að því leyti. Skuldir umfram eignir voru um síðustu áramót 34 millj. 678 Þús., Þegar ræktunarsjóður og byggingarsjóður höfðu verið lagðir saman. Árið 1970 er réttur höfuðstóll 206 millj. kr., en 1975 er réttur höfuðstóll orðinn 507 millj. kr. Við skulum gera ráð fyrir því, að frv. eins og þetta hefði verið lögfest fyrir 10 eða 15 árum og að búnaðarsjóðirnir hefðu búið við slíka löggjöf s.l. 10 eða 15 ár. Við getum gert okkur grein fyrir Þeim reginmun, sem þá væri í þessari lánastofnun frá Því, sem nú er. Við getum gert okkur grein fyrir Því, að Þá væri mögulegt að lána bændum til bústofnskaupa, til kaupa á vélum, hækka útlánin verulega út á byggingar og ræktun. Við getum gert okkur grein fyrir því, að Þá væri stofnlánadeild landbúnaðarins traust stofnun, sem gæti fullnægt lánaþörf landbúnaðarins. En því miður höfum við ekki átt löggjöf eins og Þessa, sem nú er verið að skapa. En það er betra seint en aldrei. Það má ekki lengur dragast, að löggjöf sem Þessi komi. Það má ekki lengur dragast, að nú verði lagður grunnur að því og hann traustur, að landbúnaðurinn eigi greiðan aðgang að stofnlánum og rekstrarlánum. Og ég er sannfærður um, að það liður ekki langur tími, þangað til þeir, sem nú berjast gegn Þessu frv., verða sannfærðir um, að þeir unnu illt verk, þegar þeir snerust gegn því. Vera má, að ýmsir af Þeim, sem tala gegn málinu, geri Það í trausti þess, að Það verði samþykkt þrátt fyrir Þann mótþróa, sem Þeir sýna. Það er vitað, að ríkisstj. hefur flutt þetta mál, að stjórnarflokkarnir standa sameiginlega að því. Og Það má Þess vegna vera, að sumir hv. framsóknarmenn snúist nú gegn málinu í trausti Þess, að Það verði samt sem áður samþykkt. En slíkur málflutningur er lítt skiljanlegur og með öllu ástæðulaust fyrir hv. framsóknarmenn að vera að snúast gegn þessu máli gegn betri vitund og tala gegn sannfæringu sinni, gegn því, að þetta mál komist fram, og reyna að telja bændum landsins trú um, að hér sé verið að vinna illt verk, í stað þess að viðurkenna, að með þessu frv. er lykillinn fundinn að lausn þess vandamáls, sem landbúnaðurinn hefur haft við að búa undanfarin ár, þ.e. fjárskortinn í stofnlánadeildum landbúnaðarins.

Hv. framsóknarmenn hafa flutt till., eins og ég sagði áðan, um það, að ríkissjóður leggi fram fé, að ríkissjóður leggi fram 25 millj. kr. á ári, án þess að nokkurt framlag komi á móti. Sjálfsagt dettur hv. framsóknarmönnum ekki í hug, að iðnaðarmenn gerðu einhverja kröfu til framlaga úr ríkissjóði fram yfir það, sem áður hefur verið, ef þetta væri lögfest. Sjálfsagt dettur hv. framsóknarmönnum ekki í hug, að útvegsmenn gerðu kröfu til þess að fá meira en 2 millj. úr ríkissjóði á móti tugum milljóna, sem þeir leggja fram árlega, sem er útflutningsgjald af sjávarafurðum. Ég hygg, að hv. framsóknarmenn, sem flytja þessa sýndartilt. á þskj. 502, hafi alveg gert sér grein fyrir því, að slík till. gæti ekki orðið samþykkt, og ef hv. framsóknarmenn hefðu í rauninni trúað því. að slíku væri mögulegt að koma fram, þá hlytu þeir að hafa flutt till. í þessa átt, á meðan þeir voru í ríkisstj., fóru með landbúnaðarmálin og, fjármálin. En á meðan þeir voru í ríkisstj., höfðu lykilinn að ríkiskassanum og landbrh., þá bólaði ekki á slíku, heldur var allt látið fljóta sofandi að feigðarósi í þessum málum. 1958, þegar vinstri stjórnin felldi gengið, bar ekki á neinum tillögum til þess að bæta sjóðunum gengishallann, þvert á móti. það var ekki fyrr en þessir hv. menn voru komnir úr ríkisstj., að þeir fluttu till. um, að gengishallinn yrði bættur. Og það var ekki fyrr en frv. það, sem hér er verið að ræða um, um stofnlánadeild landbúnaðarins, kom fram og séð var, að með því frv. er lagt til, að ríkissjóður stórhækki framlög sín frá því, sem verið hefur, að hv. framsóknarmenn létu sér detta í hug að koma með sýndartillögu, sem fór nokkuð í þá átt að byggja upp þessa sjóði. Áður treystu þeir sér ekki til að ganga lengra en svo, að gengishallinn einn yrði bættur, sem út af fyrir sig var alls ófullnægjandi til þess að gera sjóðunum kleift að auka lánin eða til þess að lána yfirleitt nokkuð. Það er svo eftirtektarvert, að í þessum till. hv. framsóknarmanna er enn talað um bústofnslánasjóð, alveg eins og það vanti heimild fyrir stofnlánadeildina til þess að lána til bústofnskaupa. Það eru vitanlega í þessu frv., sem hér er um að ræða, víðtækar heimildir til þess að lána, og það vantar ekki neina sérstaka deild í því efni. það, sem vantar, er fé. Og það vantar ekki heldur stjórn til þess að úthluta þessum peningum. Sú stjórn er í Búnaðarbankanum og getur einnig tekið að sér að úthluta lánum til búfjárkaupa, ef peningar væru fyrir hendi.

Ég veit, að hv. alþm. hafa lesið þetta frv., hafa lesið töflurnar og útreikningana, sem eru fskj. með málinu. Ég er sannfærður um, að það er enginn hv. þm. svo illa að sér, að hann eigi ekki gott með að gera sér grein fyrir því. hvernig þetta byggist upp. Og eina ástæðan, sem hv. framsóknarmenn hafa fundið til þess að vera á móti málinu, er þetta margumtalaða 1% gjald á búvörur bænda. Hv. framsóknarmenn telja þetta beina árás á bændastéttina, um leið og þeir telja rétt og sjálfsagt að borga 1/2% af búvörum til bændahallarinnar. Látum bændahöllina liggja á milli hluta, það er þegar komið fram frv. hana varðandi, sem hv. landbn. hefur flutt að beiðni stjórnar Búnaðarfélags Íslands. En eru rök fyrir því að telja þetta 1% gjald árás á bændur? Er rangt stefnt með því að gera þetta? Var rangt stefnt hjá sjávarútveginum að taka upp útflutningsgjald af sjávarafurðum og borga í fiskveiðasjóð? En sjávarútvegurinn hefur borgað nú um árabil 1.8% útflutningsgjald í fiskveiðasjóð. Sjávarútvegurinn hefur fengið úr ríkissjóði 2 millj. kr. á ári, en útflutningsgjaldið, sem er tekið af útveginum, nemur nokkrum tugum milljóna árlega. En fiskveiðasjóður er fyrir þessar aðgerðir öflug lánastofnun fyrir útveginn. Og ég er sannfærður um það, að sá útvegsmaður finnst ekki, sem vill afnema útflutningsgjaldið og hætta að greiða í fiskveiðasjóðinn og leggja drög að því. að lánastofnun sjávarútvegsins verði þannig lömuð. Það vilja útvegsmenn ekki gera. En hv. framsóknarmenn hafa sagt stundum, að þetta væri ekki sambærilegt við landbúnaðinn, vegna þess að útvegurinn fengi útflutningsgjaldið reiknað inn í verðið og útvegurinn borgaði þetta raunverulega ekki sjálfur þess vegna. Að vísu er hér komið fram þskj. frá hv. framsóknarmanni og fleiri hv. framsóknarmenn hafa nú síðustu dagana mótmælt útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, vegna þess að þeir vildu mótmæla auknum álögum á útveginn. Þarna stangast málflutningur framsóknarmanna nokkuð á. Ef útvegurinn fengi útflutningsgjaldið bætt í gegnum verðlagið, væri ekki um neinar álögur að ræða. Og sannleikurinn er sá, útvegurinn hefur ekki möguleika á því að fá útflutningsgjaldið nema þá að litlu leyti í gegnum verðlagið. Og það, sem hv. þm. skrifaði, þegar hann samdi nefnt þskj., var það, sem hann meinti. E.t.v. hefur sami þm. sagt eitthvað öfugt hér í hv. Alþingi á þessu þingi eða fyrri þingum. En það er vissulega lofsvert, þegar hv. þm. vanda sig einhvern tíma og bera fram mál á þskj., sem hægt er að taka mark á. Og ég hygg, að við athugun þessa máls sannfærist menn um, að það er réttara, sem stendur í þskj. þessa hv. þm., heldur en það, sem t.d. hv. 1. þm. Austf. hefur stundum sagt í sambandi við þessi mál, þegar hann hefur verið að mótmæla 1% gjaldinu á landbúnaðarvörur. Það er líka eitt, sem kemur alveg í veg fyrir það, að útvegurinn hafi nokkra tryggingu fyrir því að fá útflutningsgjaldið bætt, og Það er, að útvegurinn hefur enga verð- eða sölutryggingu á sínum vörum. Útvegurinn verður að sæta þeim mörkuðum, sem hverju sinni finnast, og þótt verð á fiski og sjávarafurðum sé ákveðið einu sinni á ári, þá er engin leið að sjá fyrir verðfall, sem kann að verða, og við vitum, að markaðirnir verða oft svo ákaflega misjafnir, og það er ekki langur tími síðan stórkostlegt verðfall var á ýmsum sjávarafurðum frá því. sem reiknað var með. Aftur á móti hefur landbúnaðurinn verð- og sölutryggingu. Og bændur fá, sem betur fer, sama verð fyrir kjötið, þótt það seljist ekki nema hálfu verði á erlendum markaði. Þeir fá fullt verð fyrir mjólkina, þótt það þurfi að flytja út mjólkurduft fyrir aðeins brot af því verði, sem þeir þurfa að fá fyrir það. En hv. framsóknarmenn tala lítið um þetta. Á meðan þeir voru í ríkisstj., var mikið talað um það, hvað ætti að gera við offramleiðsluna. Hv. búnaðarþing eyddi löngum tíma í það 1958 að ræða um það, hvað ætti að gera við offramleiðsluna. Það ætti að flytja út kjöt og það ætti að flytja út osta, eins og gert er nú. Þá urðu bændur að taka á sig þennan halla. Bændur í Flóabúinu urðu að taka á sig 22 aura halla af hverjum mjólkurlítra eitt ár, vegna þess að það voru fluttir út ostar. Þá komu ekki tillögur frá hv. framsóknarmönnum, sem höfðu landbúnaðarmálin og fjármálin, um það að bæta bændum þennan halla. Það gleymdist. Það var ekki eins auðvelt að fara í ríkiskassann og hv. framsóknarmenn gera ráð fyrir, ef nokkuð ætti að taka mark á þeirri brtt., sem þeir hafa flutt við þetta frv. Og hvar var þá öll vinsemdin og umhyggjan fyrir bændastéttinni? Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp, þegar talað er við þá hv. þm., sem snúast gegn þessu frv., setja upp vandlætingarsvip, þykjast vera einir málsvarar bændastéttarinnar og þess umkomnir að gæta hagsmuna hennar. Og ég veit, að hv. alþm. fyrirgefa mér, þótt ég taki takmarkað mark á málflutningi slíkra hv. þm.

Hv. 10. landsk. (BGuðm) lýsti því í hv. Ed., að eftir að hann hefði lesið þetta frv. og kynnt sér það rækilega, sæi hann, að bændur gætu með því að lögfesta þetta frv. leyst eitt áhugamál sitt, sem þeir hafa lengi borið fyrir brjósti, og Það er að stofna lífeyrissjóð fyrir bændur. Þetta hafa bændur talað um víðs vegar um land í mörg ár. Það er engin uppfinning frá einum eða neinum á þessu þingi, enda talaði hv. 10. landsk. ekki í þeim tón. Það, sem hv. 10. landsk. sagði, var aðeins það, að með því að lögfesta þetta frv. er fenginn möguleiki til þess að láta þessa draumsýn íslenzkra bænda verða að veruleika. Málgagn framsóknarmanna, tíminn, hefur verið svo smekklegt að tala um málefnahnupl í þessu máli, og sagt, að bóndinn á Hjarðarfelli hafi átt þessa tillögu, hann hefði minnzt á hana á búnaðarþingi. Já, það hafði bara verið minnzt á þetta á búnaðarþinginu, það er alveg merkilegt, en bændur hafa áreiðanlega, bæði Þingeyingar, Rangæingar og bændur víðs vegar um land, minnzt á þetta mál nú í mörg ár, og ég man ekki betur en hér hafi fyrir nokkrum árum verið flutt till. til þál. um athugun á því að koma upp lífeyrissjóði fyrir bændur. Ég held, að það sé alveg hægt að sleppa því að vera að tala um málefnahnupl í þessu máli, og ég veit ekki, hvort það er til nokkurs sóma fyrir búnaðarþing, að Það skyldi hafa verið minnzt á málið þar og svo ekkert gert.

Það er ekki það, sem bændur spyrja um, hvort það hafi verið minnzt á málið á búnaðarþingi, heldur spyrja þeir um það, hvaða tillögur búnaðarþing hafi að gera í þessu máli. Hafði það nokkrar tillögur fram að bera til þess að gera málið framkvæmanlegt? Það hafði það ekki. En meiri hlutinn snerist gegn þessu frv. án þess að koma með nokkra tillögu um það að koma þessu máli í höfn, lífeyrissjóðnum, eða að leysa fjárhagsvandamál búnaðarsjóðanna. Þetta er náttúrlega út af fyrir sig í samræmi við ýmislegt fleira. Ég ætla ekki á þessu stigi að fara að ræða um lífeyrissjóðinn, en það gefur vitanlega þessu frv. enn aukið gildi, að við athugun glöggra manna á þessu máli virðist ljóst, að þarna sé möguleiki einnig til lífeyrissjóðsstofnunar, vegna þess að fjármagnsmyndunin verður það ör samkvæmt þessum tillögum.

Ég hef spurzt fyrir um það, hversu margir bændur eða fyrrverandi bændur á landinu og þá náttúrlega bændakonur mundu njóta lífeyrissjóðs, hversu margir Íslendingar eru 67 ára og eldri, og það eru 6.7% af þjóðinni. Það má þess vegna ætla, að það séu 7–8 hundruð manns, sem mundu njóta góðs af lífeyrissjóðnum, og það væri vitanlega mikill hagur að því fyrir bændur að fá til viðbótar hinum venjulegu tryggingum greitt úr lífeyrissjóði bænda. Það væri eðlilegt, að það færi hækkandi eftir því, hversu mikið þeir hafa greitt í sjóðinn, og 1970 hafa sjóðirnir, eins og áður er sagt, yfir 100 millj. kr. eigið fé, þeir hafa 1968 milli 80 og 90 millj. kr. Við skulum segja, að það séu 800 eða 750 manns, og það væri aðeins byrjað með 10 þús. kr. á mann úr lífeyrissjóði. Þá eru það 71/2 millj. kr. Ég býst við því, að þegar sjóðirnir hafa eigið fé árlega, 100 millj. kr., þá Þætti það engin goðgá að taka af þessu 7–8 millj. kr. á ári í þessu skyni. En þetta mál er ekki til umræðu hér, það þarf vitanlega glöggrar athugunar, það þarf að setja tryggingafræðing í að reikna það út og gera tillögur um framkvæmd í því máli, ef að því yrði horfið. En ástæða er til, vegna þess að það hefur verið rætt um málefnahnupl í þessu sambandi, einmitt að gera grein fyrir því, að þetta er ekki nýtt mál hjá bændum. Ég ætla, að Það sé áratugur síðan það kom á dagskrá hjá þeim, en Það hefur verið vonlaust fram að þessu um það að geta komið málinu fram. Nú hefur einn hv. þingmaður og fleiri vitanlega síðan, hv. 10. landsk., komið auga á möguleikana í þessu efni, og það munu margir undir það taka, og það er ekki ástæða til að tala um málefnahnupl ,í því sambandi.

Þá má geta þess, að undanfarið hafa búnaðarsjóðirnir fengið heiminginn af mótvirðissjóðsfénu til umráða. Framkvæmdabankinn hefur haft milligöngu um þessi mál. En allt frá því, að mótvirðissjóðurinn var tekinn til notkunar og lánaður úr Framkvæmdabankanum, hafa búnaðarsjóðirnir búið við vaxtahalla um 21/2%, þannig að sjóðirnir hafa tekið lánin með 21/2% hærri vöxtum en þeir hafa endurlánað. Nú er úr þessu bætt, og hefur orðið samkomulag við bankaráð og stjórn Framkvæmdabankans um Það, að eldri lánunum verði breytt og að þau lán, sem eftirleiðis verða veitt úr mótvirðissjóði, verði ekki veitt með vaxtahalla. Þetta út af fyrir sig bætir rekstraraðstöðu sjóðanna frá því. sem verið hefur, og þetta hefði vitanlega þurft að vera búið að gera fyrir löngu.

Í byrjun, þegar þetta mál kom til umræður hér í hv. Alþingi, var færð ein ástæða gegn því önnur en 1% gjaldið, og það var, að búnaðarsjóðirnir væru einu sjóðirnir, sem ekki væru nú þegar búnir að fá gengishallann bættan. Hv. 1. Þm. Austf. sagði hér í hv. deild, og Tíminn hafði það upp eftir honum, að allir sjóðir nema búnaðarsjóðirnir væru búnir að fá gengishallann bættan, og það sýndi sig, hvernig landbúnaðarráðherra stæði í stöðu sinni, að hann hefði gleymt því að hafa landbúnaðarsjóðina með, þegar þessi ákvörðun var tekin. Það hefur nú verið sannað og upplýst, að hér var farið með algerlega rangt mál. Það hefur engum sjóðum verið bætt gengistapið. Hins vegar hefur gengishagnaður verði tekinn af bönkunum, og fiskveiðasjóður og aðrir sjóðir hafa ekki fengið töpin bætt. Hv. 1. þm. Austf. hefur líka horfið frá þessum fullyrðingum sínum og heyrist ekki endurtaka þær, síðan hann var leiðréttur, og ég hef ekki séð nú í nokkra daga heldur, að tíminn leyfi sér að halda þessari fullyrðingu lengur fram. Það er vitanlega ekki nema virðingarvert, þegar blöð og menn hætta að fullyrða um mál, sem þeir sannfærast um að er ekki á rökum reist, og þessi fullyrðing hv. 1. þm. Austf. hefur vitanlega verið byggð á vanþekkingu, hann hefur fullyrt í máli, sem hann hafði ekki kynnt sér til fulls. En það skal talið lofsvert, að hann er þegar hættur því í þessu máli.

Eins og kunnugt er, er veðdeildin févana og hefur verið. Búnaðarþing hefur skorað á ríkisstj. mörg undanfarin ár að bæta úr þessu, þó að það hafi ekki enn tekizt. En með þessu frv. er gert ráð fyrir, að stofnlánadeildin kaupi bankavaxtabréf af veðdeildinni, sem nemur 10 millj. kr. árlega, og geri veðdeildina Þannig starfhæfa. Nú mun einhver segja: Hvernig má það ske, að stofnlánadeildin geti gert þetta núna fyrstu árin, á meðan hún hefur ekki enn nægilegt eigið fé? Og þá er því til að svara, sem ég minntist á áðan, að eftir að grunnur hefur verið lagður undir stofnunina og hægt er að sýna fram á, að hún getur staðið undir því og er að byggja sig upp og er eftir tiltölulega fá ár sterk stofnun, þá á stofnlánadeildin að geta fengið að láni það fé, sem hana vantar fyrstu árin, og þannig á stofnlánadeildin með þessu að geta bætt úr brýnustu nauðsyn veðdeildarinnar.

Þá er einnig gert ráð fyrir í þessu frv, heimild til lántöku, allt að 300 millj. kr., sem nauðsynlegt er fyrstu árin. Það er einnig skapaður sá möguleiki að taka lán erlendis og lána með gengisfyrirvara, t.d. til vinnslustöðva og jafnvel til bygginga eða framkvæmda, sem félagasamtök bænda standa að, og er þá höfð í huga sérstaklega ein framkvæmd, sem búnaðarsamtökin hafa áhuga á að verði greitt fyrir. Skal ég ekki fara lengra út í það, en þessi lánsheimild er vitanlega alveg nauðsynleg, og vinnslustöðvar, sem þurfa mikið fé, t.d. eins og mjólkursamsalan, frystihús og fleiri stofnanir, ég býst við, að það þyki ekkert óeðlilegt, þótt þau fái lán með gengisfyrirvara, og það er alveg víst, að þeir aðilar, sem hafa leitað eftir þessum lánum, telja það sjálfsagt, ef lánstíminn og vextirnir eru sæmilegir.

Það er í rauninni ekki ástæða til að fjölyrða öllu meira um frv. að sinni. Ég geri ráð fyrir því, að hv. framsóknarmenn í þessari deild tali eitthvað í svipuðum tón og flokksbræður þeirra í hv. Ed., og það er vitanlega ekkert við Því að segja. Ég öfunda þá ekki af því hlutverki, sem þeir hafa valið sér í þessu stærsta hagsmunamáli landbúnaðarins. Og þeir verða spurðir að því víðar en hér í þessum hv. þingsal, hvað hafi valdið þessum málflutningi þeirra og afstöðu til þessa stóra hagsmunamáls, þegar loks var hafizt handa að leysa þann vanda, sem Þessi stofnun hefur átt við að stríða, sem aldrei hefur áður verið leystur, og þessir hv. þingmenn verða áreiðanlega spurðir að því, hvers vegna þeir hafi ekki flutt tillögur til lausnar þessum vanda, á meðan þeir höfðu ráð og meðan þeir höfðu völd. Og Það verða áreiðanlega margir bændur, sem fylgjast með þessum málum, sem efast um, hvort Það sé rétt að taka alvarlega skrif og tillögur frá þeim flokki, sem fyrir stuttu er farinn úr ríkisstjórn og hafðist ekkert að til úrbóta í þessu vandamáli, þegar hann nú í stjórnarandstöðu kemur með yfirboð, sem þeir sjálfir vita, að ekki er unnt að framkvæma, og snúast gegn máli, sem tryggir lánastarfsemina fyrir framtíðina, snúast gegn því vegna þess, að sú ríkisstjórn, sem þeir styðja ekki, flytur það. Það er alveg öruggt, að hv. framsóknarmenn fá að standa reikningsskap gerða sinna í þessu máli um landið allt, og það er hreinn misskilningur hjá þeim, að það geti tekizt, það sem Þeir nú eru að reyna, að telja bændum trú um, að þeir, sem nú fara með völdin og vilja lögfesta Þetta frv., séu að vinna gegn hagsmunum bændastéttarinnar. Það tekst ekki, ég er sannfærður um það. Hv. framsóknarmenn munu fá hneisu af því að hafa snúizt gegn þessu máli á þann hátt, sem þeir hafa gert, og þeir munu, þegar fram líða stundir, óska þess að hafa ekki haft í munni sér þær fullyrðingar og öfgar, sem þeir hafa haft, þegar þetta mál hefur verið rætt hér í hv. Alþingi.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.