05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Ingvar Gíslason:

Hæstv. forseti. Það má, held ég, nokkurn veginn fullyrða, að landbúnaðarmálin hafi verið olnbogabarn þessarar hæstv. ríkisstj., sem nú situr. Það fór næsta lítið fyrir landbúnaðarmálunum undanfarin tvö þing, og frumkvæði ríkisstj. getur tæplega verið minna í þeim málum. Ég man satt að segja ekki eftir nema tveimur málum, sem afgreidd hafa verið undanfarin þing og segja má að séu jákvæð og til bóta. Annars vegar er um að ræða ábúðalögin, sem þó voru flutt af landbn. Nd., og hins vegar er svo hækkun á ríkisframlagi til nýbýlastofnunar, sem samþ. var í fyrra. Þessi hækkun var þó ófullnægjandi og aðdragandi málsins allur hinn furðulegasti, eins og hv. þdm. muna. Höfðu framsóknarmenn flutt frv. um aukið framlag til nýbýlastofnenda snemma á þingtímanum. Þetta frv. lá fyrir hv. landbn. nær allan þingtímann, og fengust stjórnarsinnar ekki til að skila áliti um frv. framsóknarmanna. En þegar komið var fast að þinglokum, flutti hæstv. ríkisstj. frv. um sama efni, en aðeins með lægri framlög í þessu skyni. Framkoma hæstv. stjórnarsinna var, eins og ég segi, furðuleg í þessu máli, en þó í samræmi við ýmislegt annað, sem hér hefur gerzt við afgreiðslu mála.

Þetta voru afreksverk hæstv. ríkisstj, eftir tvö þing, allt sem eftir hana lá. Hins vegar sýndi hv. stjórnarlið — og vafalaust að frumkvæði hæstv. ríkisstj. — hug sinn til landbúnaðarins með því að fella og svæfa fjölmörg frv. og aðrar till., sem framsóknarmenn stóðu að og hafa staðið að, og voru það þó allt mikilsverð mál og sum svo brýn, að þau þoldu ekki bið og varð að finna lausn á. Ég veit, að þetta er mikil raun fyrir hæstv. landbrh. og suma aðra hv. þm. stjórnarliðsins, en ég veit líka, að þeir fá ekki rönd við reist. Meiri hl. hæstv. ríkisstj. og það lið, sem hún styðst við, er yfirleitt fráhverft landbúnaðarmálum og sýnir þeim þá stjúpmóðurástúð, sem gert hefur landbúnaðarmálin að olnbogabarni, síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Ég öfunda ekki hæstv. landbrh. af aðstöðu sinni innan hæstv. ríkisstj. Við vitum það allir, að hann vill landbúnaðinum vel og gerir sitt bezta, en fær litlu fram komið.

Þeir, sem fylgdust með málum hér á hv. Alþ. í fyrra, fundu þó, að hæstv. ríkisstj. var farin að finna til ókyrrðar undir þinglokin og þó alveg sérstaklega hæstv. landbrh. og þeir fáu menn innan stjórnarliðsins, sem sýna landbúnaðarmálum áhuga. Hæstv. ríkisstj. hafði látið undan þunga útvegsmanna um það að bæta kjör útvegsins eftir þær álögur, sem efnahagsmálastefna hæstv. ríkisstj. lagði á Þann atvinnuveg. M.a. ákvað hæstv. ríkisstj. að létta lausaskuldabyrði útvegsins með sérstökum aðgerðum. Framsóknarmenn fluttu till. um það þá þegar, að landbúnaðurinn nyti sams konar fyrirgreiðslu. En það var fellt, eins og menn muna, og kom lengi vel engin yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. eða stuðningsliði hennar um, að nokkuð yrði gert í lánamálum bændastéttarinnar. Bændurnir áttu að bera viðreisnarbyrðarnar óstuddir. Það gerði víst ekki mikið til, þó að þeir sliguðust undan þeim, enda talsvert útbreidd skoðun meðal stuðningsmanna hæstv. ríkisstj., að bændur væru of margir í landinu og allt of mikið styrktir og þar að auki heldur vinveittir Framsfl. að fornu og nýju. En auðvitað var hæstv. landbrh. órótt, og getur enginn láð honum það, jafnvelviljaður og hann er í garð bændastéttarinnar, því að það efast enginn um. Svo þegar þingi lauk í fyrravor, hafði hæstv. landbrh. neytt svo dugnaðar síns og ástar á landbúnaðinum, að fyrirheit var gefið um, að lausaskuldamál bænda yrðu leyst í svipuðum anda og skuldamál útvegsins. Hæstv. landbrh. fann það, að eldur almenningsálitsins brann á honum, svo að hann yrði að hefjast handa. Honum tókst með harðfylgi sínu að knýja samstarfsmenn sína í hæstv. ríkisstj. til Þess að samþ. aðgerðir í málinu.

Bændur fögnuðu að sjálfsögðu þeim fyrirheitum, sem gefin voru, og biðu þess, sem fram átti að koma, með mikilli eftirvæntingu. Og svo komu brbl. um lánamál bænda. Þau eiga sér talsvert viðburðaríka sögu hér í þingsölunum og utan þeirra. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér, hún er svo nýliðin, að þess gerist ekki þörf, en hitt vitum við öll, að brbl. uppfylltu ekki Þau fyrirheit, sem gefin voru um lausn málsins. Þau voru lítið annað en bókstafurinn, eins og Þau voru lögð fram, og í sumum tilfellum fullkomlega ranglát. Verst var Þó, að Það vantaði í Þau botninn. Ég get hugsað mér, að hæstv. ráðh. hafi ekki verið ánægður með að þurfa að leggja lög Þessi fram, því að hann gerði sér auðvitað fulla grein fyrir annmörkum þeirra. Þess vegna var hann ekkert ófús að láta málið liggja hér lengi í hv. Alþ. og bíða með staðfestingu á brbl., svo að honum ynnist tími til að smíða botninn í lögin, enda var ekki á öðru stætt, eins og viðtökurnar voru, bæði utan þings og innan. Brbl. frægu voru svo loks samþ. nú fyrir nokkrum dögum, og mátti þá heita, að liðið væri ár, frá Því að fyrsta yfirlýsing var gefin í nafni hæstv. ríkisstj. um það, að hún mundi leysa lausaskuldamálin. Þetta er langur meðgöngutími og erfið fæðing og hlýtur að hafa reynt mjög á hæstv. landbrh., sem stundaði ljósmóðurstörf sín af sönnum dugnaði þrátt fyrir mikið erfiði.

Það má þó bæta einu máli enn við afrekaskrá hæstv. ríkisstj. í sambandi við landbúnaðinn. Það þarf ekki að efast um, að við næstu kosningar verður mikið gert úr þessu afreki og lögð stund á að halda þeirri kenningu að bændum, að hæstv. ríkisstj. hafi unnið af sérstökum dugnaði að því að leysa mál landbúnaðarins. Við sjáum hvað setur í Því efni. En ég held, að það muni varla gleymast, að Þetta var hin erfiðasta fæðing.

En hæstv. ríkisstj. lætur ekki staðar numið. Nú er skammt stórra högga í milli. Hér er í dag til umr. viðamikið frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl., frv. í mörgum greinum með ýtarlegum aths. og fylgiskjölum. Það er komið fram á síðari helming kjörtímabilsins, lítið sem ekkert gert í landbúnaðarmálum og þörf að fara að hrista af sér slenið. En þegar maður flettir frv., kemur í ljós, að langmestur hluti þess eru núgildandi lagaákvæði um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. í þeim köflum er því fátt eða ekkert nýtt og óþarfi að fara um það mörgum orðum. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það eru nokkur nýmæli í frv., sum þannig, að það er ekki ástæða til að amast við þeim, en önnur Þess háttar, að þau geta ekki hlotið óskiptan stuðning, enda slík vandræðalausn, að það er ekki við þau unandi fyrir þá, sem eiga að njóta Þessa frv., ef að lögum verður.

Eitt mikilvægasta nýmælið í Þessu frv. er að finna í 4. gr. Þess, Þar sem rætt er um tekjuöflun til stofnlánadeildar landbúnaðarins, þ.e.a.s. ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, sem hér eftir eiga að starfa sem ein deild. Er um Það rætt í aths. við frv., að tekjuöflunarleiðir 4. gr. séu við það miðaðar, að stofnlánasjóðum landbúnaðarins verði innan skamms tíma kleift að standa undir eðlilegri fjárfestingarþörf vegna framkvæmda í landbúnaði. Það er jafnframt fullyrt, að ef fjáröflunarákvæði frv. verði samþ., ætti að vera lagður traustur frambúðargrundvöllur að stofnlánasjóði landbúnaðarins, og til styrktar Þessari fullyrðingu er sýndur útreikningur um vöxt sjóðsins næstu 14 ár, miðað við, að hann haldi Þessum tekjum, og að óbreyttum öðrum aðstæðum, geri ég ráð fyrir.

Áður en ég held lengra, langar mig til að fara nokkrum orðum um vissar aðrar fullyrðingar, sem fram koma í aths. frv. og komu einnig fram í ræðu hæstv. landbrh. hér áðan. Þar er því haldið fram, að stofnlánasjóðirnir séu í rauninni gjaldþrota og Þetta gjaldþrot stafi af röngu skipulagi á starfsgrundveili sjóðanna og meginorsök hinnar bágu fjárhagsafkomu megi rekja til þess, að á árunum 1952–1959 hafa sjóðirnir verið látnir taka erlend lán, sem síðan hafi verið endurlánuð án gengistryggingar. Með þessu er fullyrt, að erlendu lánin, sem gengið hafa til uppbyggingar í landbúnaði, séu aðalbölvaldur stofnlánasjóðanna. En hvort sem þau eru það eða ekki, ef litið er einhliða á málin, þá er hitt víst, að þessi erlendu lán hafa gert okkur kleift að auka stórlega framfarir í landbúnaði undanfarinn áratug, svo að óvíst er, að þær hafi orðið meiri á jafnskömmum tíma áður.

Erlendu lántökurnar hafa því ekki orðið sá bölvaldur íslenzkum landbúnaði, sem hæstv. ráðh. og fylgismenn hans vilja vera láta. Þær eru ásamt öðru fjármagni, sem lagt hefur verið til stofnlánasjóðanna, undirstaða landbúnaðarframkvæmdanna um margra ára skeið. Bölvaldurinn í Þessu máli er stefna hæstv. núv. ríkisstj., gengisfellingarstefnan, þar sem hver gengisfellingin hefur rekið aðra með fárra mánaða millibili. Með þeirri stefnu hefur tekizt að gera fjárfestingarsjóðina nær gjaldþrota, og það er af þeirri stefnu, sem við verðum nú að súpa seyðið í þessu máli eins og fleirum. Það var því sannarlega happ fyrir bændastétt landsins og landbúnaðinn, að ekki var gengisákvæði í lánveitingum sjóðanna, því að ef svo hefði verið, er næsta líklegt, að allur búandlýður, jafnt ríkir sem fátækir, hefði komizt á vonarvöl, og það hefði þýtt endalok sjálfstæðrar bændastéttar hér á landi. Það er áreiðanlega ekki ódýrara að stofna til slíkrar þjóðfélagsbyltingar, sem það mundi hafa í för með sér, heldur en að bæta með framlögum úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar þau áföll, sem menn geta orðið fyrir með sífelldum gengislækkunum. Gengisákvæði í sambandi við erlend lán, sem endurlánuð eru til uppbyggingar í landbúnaði, er óðs manns æði og má aldrei koma fyrir, meðan gengið er jafnóstöðugt og reynslan hefur sýnt, ekki sízt í höndum hæstv. núv. ríkisstj. Þess má líka geta í þessu sambandi, að erlend lán og aðrar lántökur til sjóða landbúnaðarins eru ekki einvörðungu í þágu þeirra einstaklinga, sem fást við landbúnaðarframleiðslu. Landbúnaðurinn er mikilvægur atvinnuvegur í þjóðfélaginu, — atvinnuvegur, sem við getum engan veginn án verið. Við höfum mikla þörf fyrir aukinn landbúnað, og það er síður en svo, að reynslan sýni, að of miklu hafi verið varið til uppbyggingar þessum atvinnuvegi undanfarin ár. Ég veit, að hæstv. landbrh. er mér samdóma um þetta atriði, og hann veit það líka, að lengst af hefur ekki verið hægt að fá nægilegt innlent fé til að fullnægja þörfum landbúnaðarins til uppbyggingar, og þess vegna var gripið til þess erlenda fjármagns, sem fáanlegt var. Það var ríkið, sem tók þessi lán og bar því ábyrgð á greiðslu þeirra. Ríkinu bar skylda til að sjá landbúnaðinum, eins og öðrum atvinnuvegum, fyrir hæfilegu fjármagni til nauðsynlegra framfara, og það hefði verið hin mesta ósvinna að endurlána bændum þessi lán með gengisákvæði. Ef ríkisstj. telja gengisfellingu nauðsynlega, ber þeim vitanlega að hafa í huga allar staðreyndir og afleiðingar slíkra aðgerða, a.m.k. að því er snertir hag ríkissjóðs, því að minna má það ekki vera. Það er hrein óhæfa að ætla nú að veita ábyrgð ríkissjóðs á erlendri skuldahækkun yfir á herðar einnar starfsstéttar í þjóðfélaginu. Bændastéttinni ber engin skylda til að bera ein þau gengistöp, sem hæstv. ríkisstj. hefur kallað yfir sig með síendurteknum gengisfellingum. Bændastéttin á ekki að þurfa að gjalda þess, þótt henni hafi til sinna þarfa verið úthlutað fé af erlendum lántökum ríkisins, en fengið of lítið innlent fjármagn. Það er í rauninni allt, sem skeð hefur, en alls ekki, að bændurnir hafi sérstaklega óskað eftir erlendu fé og að taka á sig alla þá áhættu, sem því fylgir. Það dytti vitanlega engum bónda í hug að búa upp á slík kjör. Þar með er engin ástæða til að fordæma erlendar lántökur, þær geta átt fullan rétt á sér, en ríkið verður að standa ábyrgt fyrir þeim, að því er tekur til gengisbreytinga.

Þess vegna tel ég það ranga stefnu, sem fram kemur í 12. gr. frv., að stofnlánadeildinni sé óheimilt að endurlána erlent lánsfé nema með gengisákvæði. A.m.k. ef um er að ræða lán til einstakra bænda, er það alger óhæfa og getur riðið bændum að fullu. Ef þetta ákvæði verður samþ., er um nýmæli að ræða og jafngildir því, að engar erlendar lántökur verði teknar, hversu brýn sem þörfin er, og skal ég ekki segja um, hverjar afleiðingar það muni hafa fyrir framtíðaruppbyggingu landbúnaðarins. En hitt er vitað, eins og ég hef áður rakið, að framfarir í landbúnaði undanfarinn áratug má að talsverðu leyti rekja til erlends fjármagns, sem útvegað hefur verið til endurlána hér innanlands.

Stuðningsmenn þessa frv. munu sennilega svara því til, að engin þörf verði fyrir erlendar lántökur til landbúnaðarins, eftir að búið sé að lögfesta þetta frv., í því sé að finna tekjustofna, sem tryggi frambúðargrundvöll stofnlánasjóðanna. Þetta er raunar fullyrt í aths. með frv., og það ber því að líta á það sem sannfæringu hæstv. ríkisstj., að annað fjármagn þurfi ekki að koma til, a.m.k. ekki svo að neinu nemi.

Þessu til sönnunar eru birtir útreikningar um vöxt og viðgang stofnlánasjóðsins næstu 14 árin. Reikningsdæmið er vafalaust rétt, svo langt sem það nær, en þar er líka gengið út frá forsendum, sem er ekki víst að standi óbreyttar allan þann tíma, t.d. að því er tekur til vaxta. Og einnig ber á það að lita, að verðlag er ákaflega óstöðugt og verðbreytingar tíðar. Það er ekkert, sem bendir til þess, að verðlag verði stöðugra næstu 15 ár en það hefur verið undanfarin ár, m.a. í tíð hæstv. núv. ríkisstj., þegar hækkanir á öllu, sem til framkvæmda þarf, hafa orðið geigvænlegri en nokkru sinni áður á svo stuttum tíma og rýrnun gjaldmiðilsins verið að sama skapi. Ekkert hefur því reynzt jafnóstöðugt og óútreiknanlegt sem vöxtur og viðgangur sjóða almennt hér á landi. Það er ein afleiðing verðbólgu og óstöðugs peningagengis. Ef sú þróun heldur áfram, sem nokkurn veginn má gera ráð fyrir, meðan svo horfir sem nú er, er hætt við, að stofnlánasjóðurinn reynist getuminni til átaka en hæstv. ríkisstj. gerir nú ráð fyrir. Ekki vil ég því treysta þessum útreikningum, þetta eru aðeins tölur og gildi þeirra kann að reynast afstætt. Það mun tíminn leiða í ljós. En miðað við fyrri reynslu ættu menn að trúa slíkum útreikningum varlega.

Hæstv. ráðh. sýndi þess líka merki í ræðu sinni áðan, að hann efaðist nokkuð um, að sjóðmyndun þessi væri traust. Hann virtist gera sér ljóst, að utanaðkomandi áhrif gætu ruglað þá útreikninga, sem fylgja frv. um vöxt sjóðsins, en reyndi að hugga sig við það, að ef nýjar gengislækkanir yrðu, svo og almennar verðhækkanir, þá hækkuðu búsafurðir í verði og þar með tekjustofnar stofnlánadeildarinnar. En ég vil spyrja: Er nokkuð öruggt í því efni? Hefur reynzt svo undanfarin verðbólguár? Ég held ekki. Það stendur því óhaggað, að það er full ástæða til að efast um, að sú fullyrðing sé rétt, að með þessu frv. sé fundinn öruggur grundvöllur undir stofnlánastarfsemi landbúnaðarins. Og þaðan af síður get ég ímyndað mér, að hægt sé að bæta enn nýju verkefni við þennan sjóð, sem hæstv. ráðh. var að tala hér um áðan og taldi vera hugmynd eins mæts vinar míns hér í þinginu, að gera þennan sjóð að lífeyrissjóði fyrir bændur líka. Ég held, að það verði að skoða það mál betur, áður en mikið er farið að fullyrða um það og gera úr því stórt númer.

Hinu get ég ekki neitað, að í þessari hugsun, að byggja upp eigið fjármagn sjóðanna með föstum tekjustofnum, er fólgið mjög mikilsvert atriði. Og ég fæ ekki skilið, að nokkur geti sett sig upp á móti því. Það er út af fyrir sig rétt stefna, og ég þekki engan mann, sem beri brigður á það. En hitt er oftrú og óraunsæi, ellegar þá hrein blekking, ef menn ímynda sér, að með þessu frv. sé búið einu sinni fyrir allt að leysa fjárfestingarlánaþörf landbúnaðarins. Menn þurfa ekki að vera gæddir neinni spádómsgáfu til þess að sjá, að slíkt er í hæsta máta óraunhæft, að ekki sé meira sagt.

Þá er komið að tekjustofnunum, sem taldir eru upp í 4. gr. frv., og langar mig til að gera þá að umræðuefni. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann telji sér fært að gera hlé á ræðu sinni? Ætlunin var að reyna að hafa atkvgr. um nokkur mál fyrir kl. 4, fresta þessari umr., en halda áfram kl. 5.) Ég mun geta lokið máli mínu á 10 mín. (Forseti: Þá tel ég rétt, að hv. þm. haldi áfram sinni ræðu og verði atkvgr. um fyrstu málin á dagskránni að ræðu hans lokinni.) — Já, ég ætlaði að ræða hér svolítið um tekjustofnana, sem taldir eru upp í 4. gr. frv., en þar er að finna ákvæði, sem mestur ágreiningur hefur orðið um og veldur því ásamt öðru, sem ég hef tekið fram, að þetta frv. mun verða lengi í minnum haft fyrir ranglæti í garð bændastéttarinnar og neytenda í landinu, enda er þar farið út á varhugaverða braut. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð aðra leið vænlegri en að leggja á nýja skatta til fjáröflunar fyrir umrædda sjóði. Og í stað þess að afla fjárins með almennum skatti, hefur hún gripið til þess ráðs að skattleggja eina stétt landsmanna sérstaklega og leggja auk þess álögur á almenning með nýjum skatti á brýnustu lífsnauðsynjar. Þetta er að vísu ekki alveg ný aðferð hjá hæstv. ríkisstj. Þetta er í samræmi við stefnu hennar í skattamálum almennt, þar sem við það er miðað að létta álögum af hinum efnameiri, en þyngja skattabyrðar og álögur á þeim, sem efnaminni eru. Þetta er ekkert annað en frekari útfærsla á þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. tók í upphafi, þegar hún hvarf frá beinu sköttunum og tók upp margfalda söluskatta, sem aldrei getur þýtt annað en versta ranglæti í skattamálum og bitnar á þeim efnaminnstu. Sérstaklega mun þessi skattheimta koma hart niður á bændum, og mun það sannmæli, að hún eigi sér enga hliðstæðu í annarri gjaldheimtu hér á landi. Hitt vegur þó meira, að bændur eru ekki aflögufærir, allra sízt nú, eftir tveggja ára niðurdrep viðreisnarinnar á efnahag og afkomumöguleikum þeirra. Það verður því ekki hjá því komizt að breyta þessu ákvæði um skattaálagið á bændur og hækkun á mikilvægum neyzluvörum almennings, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ef ekki eru önnur úrræði, verður ríkissjóður að taka á sig þessa byrði. A.m.k. er það óhæfa að taka upp þá stefnu að leggja sérskatta á þær starfsstéttir, sem búa við örðugastan fjárhag, og það af sömu mönnunum sem kalla það ranglæti og jafnvel stjórnarskrárbrot að leggja á stóreignaskatt.

Í þessu frv. er ekki gerð nein tilraun til að bæta úr fjárskorti veðdeildar Búnaðarbankans. Hefðu menn þó getað vænzt þess, að svo yrði, eftir allt tal hv. sjálfstæðismanna um nauðsyn þess máls. Man ég ekki betur en þeir hafi fyrir fáum árum staðið að samþykkt þáltill., sem fór í þá átt, að nauðsynlegt væri að efla veðdeildina, og það hefur, að ég hygg, oftast verið svar þeirra við þeirri hugmynd framsóknarmanna að stofna sérstaka bústofnslánadeild, að veðdeildin ætti að sinna slíku hlutverki. En hv. sjálfstæðismenn sýna í verki, að þeir vilja í rauninni hvorugt. Þeir segjast vilja efla veðdeildina, en þeir gera það ekki, og þeir daufheyrast við hugmyndinni um bústofnslánasjóð. Þeir koma ekki með neitt nýtt í landbúnaðarmálum annað en skattaálögur og aukinn kostnað. Af þessu einkennist öll stefna hæstv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum. Það dugir ekki til, þó að hæstv. landbrh. vilji vel, hann virðist svo sáralitlu fá framgengt og ef eitthvað er, þá með slíkum erfiðismunum, að það tekur hann marga mánuði eða jafnvel ár, og er þó vitað, að hann liggur ekki á liði sínu, þvert á móti. En svona er að eiga undir högg að sækja hjá öðrum. Það fær hæstv. ráðh. að reyna í sinni háu stöðu, og vildi ég gjarnan óska honum betra hlutskiptis.

Efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj. hafa komið hart við flestar atvinnugreinar landsmanna og haft gífurleg áhrif á afkomu almennings. Þó væri ástandið enn verra en það er, ef það tvennt hefði ekki skeð, að hæstv. ríkisstj. hefur orðið að slá af stefnu sinni í veigamiklum atriðum, og eins hitt, að aflafengur hefur sjaldan verið betri og aflaverðmæti óvenjumikið. En mér er til efs, að nokkur atvinnugrein búi nú við verri og óvissari kjör en landbúnaðurinn, m.a. vegna þess, hversu bústofnun er orðin dýr og arðurinn seintekinn og hversu ófýsilegt það er fyrir unga menn að leggja fyrir sig búskap af þeim sökum, þegar svo hitt kemur líka til, að illkleift er að fá lán og aðstoð til nauðsynlegustu framkvæmda. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, að svo miklu leyti sem það er nýtt, er engin lausn á þeim mikla vanda, sem steðjar að landbúnaðinum. Þvert á móti hefur frv. að geyma ýmis ranglát ákvæði, sem munu skaða landbúnaðinn, eins og ég hef sagt, og sú tekjuöflun, sem gert er ráð fyrir í fjárfestingarsjóðina, er hvergi nærri nægjanlegt til að treysta starfsemi þeirra út af fyrir sig, hvað þá að fullnægja annarri aðkallandi þörf landbútraðarins fyrir lánsfé.

Jafnvel þó að svo reyndist, að þessi nýju ákvæði frv. stæðust þau fyrirheit, sem höfundar þeirra gefa, er enn óleystur mikill vandi í lánamálum landbúnaðarins, sem verður æ meir aðkallandi, því lengra sem líður. Það vantar aðstoð við frumbýlinga til kaupa á vélum og bústofni. Það skortir lánsfé til kaupa á ræktuðum og hýstum jörðum, sem eigendur þeirra yfirgefa sakir elli eða sjúkdóma. Hvað er brýnna en að finna lausn á því vandamáli? Það er sárt og veldur efnatjóni fyrir jarðeigendur að horfa á ævistarfið verða að engu, og það er óhagkvæmt fyrir þjóðfélagið, ef ræktuð og byggð ból fara í eyði, af því að enginn hefur efni á að kaupa þau. Hæstv. ríkisstj. getur því fráleitt lagzt til hvildar, þó að þetta frv. verði að lögum. Það eru mörg verkefni óleyst eftir sem áður. Afrekaskrá hæstv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum er eftir sem áður sáralitil að vöxtum og ekkert, sem bendir til, að hún hafi enn lagt gull í lófa framtíðarinnar að því er snertir þessi mál. Flest bendir til, að varan legustu merki núv. hæstv. ríkisstj. á íslenzkan landbúnað verði kyrrstaða og afturför.