10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir á þskj. 367, er eitt af stærstu málum þessa þings. Það hefur legið fyrir landbn. Nd. Hún hefur skilað álitum, og eins og hv. þdm. er kunnugt af þeim álitum, sem útbýtt hefur verið, hefur hún ekki orðið á einu máli, og geri ég ráð fyrir, að engum hafi komið það á óvart eftir forsögu málsins í hv. Ed. og ýmsu öðru, sem fram hefur komið í þessu máli. Ég mun nú fara nokkrum orðum um þetta mál hér við 2. umr. Það er að vísu rakið nokkuð í nál. okkar í meiri hl., og koma þar fram ýmis þau atriði, sem við teljum rétt að benda sérstaklega á.

Ef við virðum fyrir okkur höfuðatriði málsins, eru þau fólgin í því, að upp úr þeim sjóðum, sem fyrir hafa verið, ræktunarsjóði og byggingarsjóði, er gert ráð fyrir að stofna eina deild, sem fær nafnið stofnlánadeild landbúnaðarins. Stofnfé þeirrar deildar skal vera eignir ræktunarsjóðs Íslands og byggingarsjóðs, eins og þær verða, þegar þessi lög taka gildi, lán, sem ríkissjóður hefur veitt ræktunar- og byggingarsjóði, skuldabréf, sem ríkissjóður afhendir, og 16.5 millj. kr., sem ríkissjóður eða ríkisábyrgðasjóður greiðir af erlendum lánum ræktunar- og byggingarsjóðs. Samtals eru þessar upphæðir um 60.5 millj. kr. Auk þess er gert ráð fyrir árlegum tekjum til deildarinnar, föstum árlegum tekjum, sem eru þessar: 1) 4 millj. kr. framlag frá ríkissjóði. 2) 1% álag á söluvörur landbúnaðarins, sem skal ákvarðað og innheimt eins og búnaðarmálasjóðsgjald. 3) Árlegt framlag ríkissjóðs á móti þessu 1% álagi á söluvörurnar, er nemi jafnhárri upphæð. 4) Gjald á útsöluverð mjólkur, rjóma og heildsöluverð annarra landbúnaðarvara, sem seldar eru á innlendum markaði, sem skal nema 0.75% af verði sömu afurða samkvæmt verðlagsgrundvelli. 5) Vaxtatekjur.

Um tilgang þessa sjóðs er það í stuttu máli að segja, að honum er ætlað að leysa úr stofnlánaþörf landbúnaðarins, og samkvæmt 6. gr. er þar um að ræða endurbyggingu íbúðarhúsa á sveitabýlum og byggingu íbúðarhúsa á nýbýlum, til jarðræktar, peningshúsa, geymsluhúsa og annarra mannvirkja við landbúnað, þar með talin vermirækt, loðdýrarækt, lax- og silungseldi, enn fremur til mannvirkja í þágu landbúnaðarins, svo sem mjólkurvinnslustöðva, sláturhúsa, kjötfrystihúsa, ullarverksmiðja, skinnaverksmiðja, þvottahúsa, viðgerðarstöðva landbúnaðarverkfæra, verkstæða fyrir iðnaðarmenn í sveitum, svo og til bústofnsauka og til kaupa á vélum, sem notaðar eru við landbúnað. Enn fremur er skv. 13. gr. heimilt, að fengnu samþykki ráðh. hverju sinni, að verja allt að 10 millj. kr. af fé stofnlánadeildarinnar til að kaupa bankavaxtabréf veðdeildar Búnaðarbankans, ef það er auðið án þess að skerða nauðsynleg útlán deildarinnar að öðru leyti.

Þetta eru í stuttu máli höfuðatriðin, sem í þessu stofnlánadeildarfrv. felast um fjármagnið, sem byggir hana upp, um tekjurnar og um það verkefni, sem henni er ætlað að leysa.

Eins og kunnugt er, hefur mikilli gagnrýni verið haldið uppi á frv., frá því það kom fram, og eru Það að vísu viss atriði, sem sérstaklega hafa verið gagnrýnd. Ég vil fara nokkrum orðum um þau út af fyrir sig.

Það er þá sérstaklega þetta 1% búvörugjald eða 1% gjald af framleiðsluverðmæti söluvara landbúnaðarins, eins og það er nefnt, sem er talið vera ranglátt og án fordæma og að það verki eins og hreinn launaskattur, sem nemi 1.5 og 2% af kaupi bóndans.

Það hefur verið bent á, að til stofnlánasjóða sjávarútvegsins væri tekið gjald af útflutningsverðmætum sjávarafurða og þó öllu hærra en hér er lagt til. Menn kannast við það, að Tíminn og fleiri, m.a. hv. framsóknarmenn hér á Alþingi, hafa haldið því fram, að það væri ósambærilegt, af því að útgerðin gæti velt því af sér inn í verðlagið. Það er að vísu ekki alveg nýverið, sem ég hef rekizt á þessa staðhæfingu í Tímanum, en ég man eftir henni, nokkru eftir að þetta frv. leit dagsins ljós á Alþingi. Það liggur í augum uppi, að annaðhvort er hér talað á móti betri vitund og beinlínis í æsingaskyni, — og það er að vísu kannske ekki ósennileg skýring, — en hitt gæti líka verið, að svo inngróið væri þeim orðið uppbótakerfið, sem við höfum alllengi búið við, að þeir lifðu enn og hrærðust í þeim hugarheimi. En auðvitað er þetta gjald af sjávarafurðunum til stofnlánasjóða útvegsins, eins og t.d. fiskveiðasjóðs, nokkuð hliðstætt því, sem hér er lagt til um gjald á söluvörur landbúnaðarins til stofnlánasjóða hans. En þá er rétt að athuga frá fleiri hliðum þetta 1% gjald, sem áætlað er til að byrja með að muni nema ca. 8 millj. kr. árlega. Ég er ekki í vafa um, að þm. eru nokkuð sammála um, að það, að stofnlánadeildin sé sem allra öflugust, sé eitt hið allra stærsta mál landbúnaðarins og þá um leið bænda, og sammála um, að stofnlánadeildin gefi aukinn kraft til þess að rækta og byggja landið. En bændurnir í landinu leggja árlega fram í umbætur á jörðum sínum stórfé umfram það, sem þeir fá að láni í stofnlánasjóðunum, og umfram þann stuðning, sem veittur er skv. jarðræktarlögum, og eftir fleiri leiðum, t.d. landnámslögunum. Þetta framlag til framkvæmda á jörðum sínum taka þeir af því kaupi, sem þeir bera úr býtum við búskapinn, og ef við tökum t.d. tímann, sem liðinn er frá stríðslokum, eða tímabilið milli 1950 og 1960, síðasta áratug, Þá er hér um mjög mikið fé að ræða. En allir þeir, sem hafa gert sér gerla grein fyrir þessum hlutum, vita, að nokkuð af þessum verðmætum, sem bændur hafa þannig lagt í ræktun og byggingar, er þeim sjálfum a.m.k. stundum arðlítið. Þeir leggja þjóðfélaginu það, þeir leggja það eins og segja mætti inn á reikning framtíðarinnar. Ef maður virðir fyrir sér t.d. sölu á bújörðum, þá er kunnara en frá þurfi að segja, að bændur fá yfirleitt ekki uppborið það verð, sem Þeir hafa lagt í umbætur á jörðum sinum, er jarðirnar eru seldar, og oft því síður sem umbætur hafa verið gerðar þar meiri. Þetta eru kunnar staðreyndir allan þann tíma, sem liðinn er, síðan tími umbótanna hófst í íslenzkum búskap, íslenzkum landbúnaði. Þetta hefur þjóðfélagið líka alltaf viðurkennt, þetta framlag bændanna til þjóðfélagsins, með stuðningi þess opinbera, eins og t.d. gert er skv. jarðræktarlögum.

Og þá er ég kominn að því, sem ég sérstaklega vildi vekja athygli á. Er það ranglæti að beina nokkru af því fé, sem bændur hafa sjálfir lagt í umbætur á jörðum sinum og lagt inn á reikning þjóðfélagsins í umbætur bújarðanna, beina því eftir öðrum farvegi að sama marki, láta dálítinn hluta af þessu kaupi, sem bændur verja til umbóta á jörðum sínum, verka eins og segul í stofnlánasjóðum landbúnaðarins, sem eru það afi, sem verður drýgst til að gera öra þróun í umbótum í sveitum? Rétt er, að sá er að vísu munur á, að bændur ráða sjálfir því framkvæmdafé, sem þeir leggja í umbætur á eigin jörð. En til þess er þjóðfélag myndað, að það er oft nauðsyn að leggja nokkur takmörk á einstaklinga. Það er að dómi þeirra manna, sem um þetta mál hafa fjallað, hagfelldara að verja litlum hluta af þessu umbótafé bændanna eftir þjóðfélagslegum leiðum að sama marki, því marki að rækta og byggja landið, afla véla til búvöruframleiðslunnar og ekki sízt til að létta hlut frumbýlinganna, láta það, eins og ég sagði áðan, verka eins og segul til höfuðstólsmyndunar í stofnlánasjóði. Ég ætla ekki að halda því fram, að þetta sé bændum raunverulega skylt. Ég held því fram, að það sé skynsamlegt og að það megi segja, að í þessu felist raunverulega ekki ný skattlagning á bændastéttina sem heild. Þessar 8–10 millj., sem ætlað er að renni til stofnlánadeildarinnar árlega af kaupi bændanna næstu ár, hafa runnið og miklu meira þó inn í þann framtíðarsjóð þjóðfélagsins, sem landbúnaðurinn er. Ég vil enn fremur vekja athygli á því, sem raunar allir viðurkenna, að þróun undanfarinna ára hefur sífellt stækkað bilið innbyrðis meðal bænda. Þeir, sem eru komnir með björguleg bú, standa betur að vígi. Hinir, sem skemmra eru komnir og eru að byrja, eiga sífellt við stærri og stærri vanda að glíma. Þetta er öðrum þræði vegna verðbólguþróunar undanfarinna ára, vegna þess t.d., að lánsfjárþörfin hefur vaxið miklu örar en unnt hefur verið að sinna, og þekkja allir það, sem nærri þessum málum hafa komið. Auk þess er þessi staðreynd bein afleiðing af verðlagskerfi landbúnaðarins, sem færir allan hagnaðinn af aukinni framleiðni til þjóðfélagsins sjálfs, allan hagnað, sem er umfram aukinn kaupmátt launa. Enn fremur er rétt að vekja athygli á því, að þessir auknu erfiðleikar fyrir þá, sem eru að byrja, eru líka afleiðing, óumflýjanleg afleiðing af þeim umbótum og breytingum, sem hafa orðið í atvinnuháttum yfirleitt, landbúnaði eins og öðrum. Ef við lítum t.d. á verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara, eins og hann var, þegar hann var fyrst settur fram 1943–45, þá var vinnan við framleiðslu þá, sem meðalbúið skilaði af sér, allt að 90% af rekstrarkostnaði. Nú mun hún vera milli 50 og 60%. Þetta þýðir það, að t.d. ung hjón, sem eru að byrja búskap með tvær hendur tómar, eins og oft var tekið til orða, hafa sem sagt ekki annað að leggja til rekstrarins en eigið vinnuafl, þau gátu fyrir 15–20 árum lagt fram til árlegs rekstrar allt að 90% af því, sem búið þá þurfti, en nú, alveg eins á vegi stödd, ekki nema 50–60%. Það sjá allir, að á því er mikill munur, þegar maður leggur út í eitthvert fyrirtæki, hvort maður getur sjálfur snarað út 50–60% eða 80–90%. Þetta er að því er snertir rekstur búsins. Svipað kemur svo út, þegar litið er til stofnframkvæmdanna, að eftir því sem meðalbúið skilar nú miklu meiri framleiðslu, hefur það þar af leiðandi stærri bústofn, þarf þar af leiðandi stærri hús, meiri ræktun, miklu meiri stofnkostnað. Allt eru þetta samverkandi orsakir, sem gera það að verkum, að Það er mun örðugra, það þarf miklu meira fjármagn nú en áður til þess að hefja búskap. Og þetta mundi koma alveg jafnt fram, þó að verðlag væri stöðugt. Þetta er bein afleiðing af þeirri framsókn þjóðarinnar, sem á sér stað á öllum sviðum. Þessu þarf að mæta með auknu lánsfé. En mér þótti rétt að vekja athygli á þessu, vegna þess að ég held, að ýmsum sjáist meira yfir þetta atriði en rétt er.

Ég hef verið að rekja aðstöðu frumbýlinganna, hvað hún verður sífellt erfiðari og erfiðari, eftir því sem tímar líða, hvað hún krefst sífellt meira og meira fjármagns, eftir því sem hlutur fjármagnsins í atvinnuveginum stækkar, eftir því sem hlutur fjármagnsins vex, eftir því sem hlutur vinnunnar minnkar.

Með því að taka 1% af búvörunum í stofnlánasjóð er verið að jafna ofur lítið aðstöðuna meðal bænda innbyrðis. Þeir, sem hafa notið lánanna mest úr ræktunar- og byggingarsjóði á undanförnum árum, hafa yfirleitt mun stærri bú og meiri framleiðslu en meðalbóndinn í landinu eða meðalbóndinn í þeirra nágrenni. Þeir leggja því meir af mörkum í framtíðarstofninn í lánasjóðnum, sem þeir njóta fyrst og fremst, sem eftir eiga enn að vinna framkvæmdirnar á eigin jörð og byrja búskap. Þessi leið til að byggja upp stofnlánadeildina er þess vegna leið samstarfs og samhjálpar, leið félagshyggjunnar, sem hefur reynzt farsæl til framþróunar landbúnaðarins og þjóðfélag okkar grundvallast nú svo mjög á. Ég held, að bændur skilji þetta yfirleitt, skilji sanngirni Þess, að þeir, sem notið hafa lánanna undanfarið og verðbólguþróunin hefur létt þeim mjög greiðslu þeirra, en á hinn bóginn aukið á erfiðleika þeirra, sem skemmra eru komnir, — bændur skilji yfirleitt sanngirni þess, að þeir leggi meira af mörkum til að bæta aðstöðu þeirra, sem nú eiga starfið fram undan, til þess að taka þátt í að mynda öflugan lánasjóð landbúnaðarins, sem getur sinnt ekki aðeins þeim verkefnum, sem hægt hefur verið að sinna hingað til, heldur einnig miklu fleiri verkefnum, sem að vísu hefur verið heimilt að sinna, en alltaf hefur skort fé til þrátt fyrir æpandi þörf, sem ávallt hefur verið, svo sem er um lán til kaupa á vélum og tækjum alls konar og til bústofnskaupa.

Ég mun láta þetta nægja í bili um þetta 1% gjald. En á það ber svo að leggja áherzlu, sem hefur raunar þegar verið gert, að það er augljóst mál, hve þýðingarmikið það er, vegna Þess að einmitt með því er hægt að draga að stofnlánasjóðnum mun meira fé en unnt hefði verið með öðrum leiðum, úr öðrum áttum.

Það hefur nokkuð verið rætt um afstöðu búnaðarþings til þessa máls. Ég skal ekki fjölyrða mikið um hana, hún er í svipuðum anda og afstaða framsóknarmanna hefur verið hér á Alþ. Og það er í raun og veru sama, hvorar till. maður tekur til að rekja. Ég mun hér halda mér við þessa samþykkt búnaðarþings og fara um hana nokkrum orðum.

Það fyrsta er, að búnaðarþing telur réttmætt og gerir kröfu til, að ríkissjóður greiði þann halla, sem deildir Búnaðarbankans hafa orðið fyrir vegna gengisfellingar. Nú held ég, að allir, sem lesa þetta frv. með kostgæfni og sjá, hvað í því felst, hljóti að sjá, að það er einmitt þetta, sem gert er með frv., með þeim till., sem felast í frv. Það er létt af sjóðunum gengishallanum með framlagi frá því opinbera. Þetta er ákaflega auðsætt, ef við athugum út frá því yfirliti, sem fylgir sem fskj. í með frv., að eftir 14 ár, eða 1975, er kominn höfuðstóll, sem nemur rúml. 500 millj. kr. En við síðustu áramót vantar stofnlánadeildina til þess að eiga fyrir skuldum milli 30 og 40 millj. En eftir 14 ár, eða 1975, er ekki einasta búið að jafna þann mismun og greiða allan gengishallann, heldur einnig að mynda höfuðstól, sem nemur um 500 millj. kr. Þetta 1% gjald, sem bændur leggja fram, er skv. þessu yfirliti og skv. þeim tölum, sem framsóknarmenn sjálfir fóru með hér við 1. umr. málsins, um 133 millj. kr. Við það skulum við leggja vexti og vaxtavexti, sem af því eru reiknaðir á þessum 14 árum, og ef það er gert, sem er sanngjarnt, þá nemur það rösklega 200 millj. kr. Sem sagt, þá er úr öðrum áttum, frá því opinbera, búið að leggja fram fé, sem fyrst og fremst nemur öllum gengishallanum, auk þess byggir upp 2/5 af þeim höfuðstóli, sem þá er kominn. Þetta finnst mér svo ljóst, að það eigi ekki að þurfa að vera að deila um slíka hluti.

Skv. 2. lið telur búnaðarþing, að landbúnaðurinn eigi fullan rétt á því að fá fjármagn til stofnlána af sameiginlegu fé þjóðarinnar. Ég hef áður verið að sýna fram á, að í frv. felst að byggja upp mjög öfluga lánsstofnun með eigin fé. En það liggur í augum uppi, að Því öflugri sem lánsstofnunin er að eigin fé, sem er myndað að mestu leyti eða að verulegu leyti af sameiginlegu fé þjóðarinnar, slík lánsstofnun stendur mun betur að vígi með Það að geta fengið lán af sameiginlegu sparifé þjóðarinnar, að því leyti sem hennar eigin höfuðstóll hrekkur ekki til að standa undir þeim verkefnum eða þeim útlánum, sem þessari lánsstofnun er ætlað að mæta. Þess vegna er það, ef maður athugar þessa samþykkt búnaðarþings, sem telur, að landbúnaðurinn eigi fullan rétt á sem einn aðalatvinnuvegur þjóðarinnar að fá fjármagn til stofnlána af sameiginlegu fjármagni þjóðarinnar, þá er hún ákaflega hjákátleg. Það er vitanlega gert ráð fyrir því og þarf ekki að taka neitt fram um það í þessum lögum, að að því leyti sem eigið stofnfé deildarinnar nægir ekki til að mæta útlánaþörfinni, sem það mun ekki gera, sérstaklega ekki fyrstu árin, þá verði bætt úr því með því að útvega stofnlánadeildinni lánsfé að auki. Og auðvitað stendur hún þeim mun betur að vígi — ég vil endurtaka það — að gera þetta sem hún er sjálf betur stæð efnalega, sem hún er betur og sterkar uppbyggð af eigin fé.

Þá kemur 4. liðurinn. Búnaðarþing lýsir yfir, að landbúnaðinum sé mjög nauðsynlegt, að vextir af stofnlánum séu lágir. Þetta er vitanlega alveg rétt. Það er mjög æskilegt, að hægt sé að hafa vexti af stofnlánum lága. Það liggur í raun og veru í augum uppi, að alveg á sama hátt og lánsstofnun stendur betur að vígi með að taka lán, því traustari sem hún er, því betur stendur hún einnig að vígi með það að geta veitt hagkvæm lánskjör, því meiri eigin tekjur sem hún hefur, því meir sem hún byggir sig upp af eigin fé. Það er eitt meginatriði þessa frv. að byggja stofnlánadeildina upp af eigin fé, m.a. til þess að standa betur að vígi að geta veitt hagkvæm lán, að geta veitt lán með tiltölulega hagkvæmum vöxtum. Það má þess vegna segja, að mikið af þessum meginatriðum, sem felast í þessari samþykkt búnaðarþings, eru einmitt alveg samhljóða frv., enda þótt reynt sé að láta skína í annað.

Ég skal ekki rekja þetta mál öllu lengra, en það er rétt að víkja svolítið nánar að veðdeildinni.

Það er öllum kunnugt, að eitt stórkostlegt vandamál í landbúnaði nú er það, hve erfitt er með eignaskipti á jörðum. Þetta er búið að vera svo lengi. Ég geri ráð fyrir, að upphaflega hafi veðdeildinni fyrst og fremst verið fyrirhugað að greiða fyrir eignaskiptum á jörðum. En hún hefur ávallt verið mjög vanmegnug. Og í raun og veru að því leyti sem hún hefur starfað, þá hafa lánveitingar úr veðdeild miklu fremur orðið til þess að bæta úr einhverri þeirri vöntun, sem verið hefur á, að hinir stofnlánasjóðirnir, sérstaklega ræktunarsjóður, gætu innt af höndum til fulls sitt eigið verkefni, eins og t.d. til vélakaupa og þess háttar. En það er ákaflega nauðsynlegt, að unnt sé að efla veðdeildina. Það kann að vera, að menn hafi misjafnlega mikla trú á því, hversu áhrifamikið þetta ákvæði 12. gr. er, að heimilt sé að lána henni 10 millj. kr. á ári af sameiginlegu fé stofnlánadeildarinnar. Það kann að vera, að menn hafi misjafna trú á, hvort þetta megi takast. En hvaða trú sem menn hafa á Því, þá held ég, að það sé ekki líklegra eftir öðrum leiðum að tryggja veðdeildinni fé. Mér sýnist, að það sé augljós kostur að sameina öll þessi höfuðstofnlánaverkefni sem mest í einni deild, það tryggir hagkvæmari not fjárins, það getur verið misjöfn eftirspurn einstaka ár til einstakra þátta, sem þörfin jafnar þá af sjálfu sér, og eins og ég benti á áðan, sérstaklega þetta, að Því sterkari sem stofnunin er, því betur stendur hún að vígi að afla sér lánsfjár. Ég held því, að þessi úrlausn hvað veðdeildina snertir sé a.m.k. skynsamleg á Þessu stigi, og vildi vænta þess, að hún gæti komið að verulegu liði.

Ég sagði í upphafi, að þetta væri eitt af stærstu málum, sem fyrir Þessu þingi liggja, stærsta mál landbúnaðarins um langa hríð. Það hafa komið fram hér miklar brtt. frá minni hl. landbn., — þeir hafa nú, hv. 3. Þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, og hv. þm. Karl Guðjónsson, ekki getað komið sér saman um eitt nál., en þeir hafa komið sér saman um brtt., sem eru hér í mörgum liðum. Ég mun ekki fara mörgum orðum um þær, ég vil aðeins rétt víkja að einni megintill. Þar segir, að árlegt framlag ríkissjóðs til deildarinnar skuli vera 25 millj. kr. Það er náttúrlega ágætt að koma með svona tillögu, og þetta er svo sem ekki eina tili., sem sézt hefur frá hendi hv. stjórnarandstæðinga um fjárframlög úr ríkissjóði til ýmissa góðra mála. Ég vil minna á, að er húsnæðismálastofnunin var hér til umr., kom hv. 4. þm. Austf. með till. um að verja 1% af tekjum ríkisins árlega til þess að mynda höfuðstól í húsnæðismálastofnun. Meðan verkamannabústaðirnir voru til umr., átti að tvöfalda framlagið úr ríkissjóði til þeirra. Þegar aflatryggingasjóður sjávarútvegsins var til umr., voru þeir á móti því, að það væri stofnuð jöfnunardeild til þess að auðvelda það að jafna ójafna afkomu ýmissa deilda sjávarútvegsins innbyrðis. En það var sjálfsagt að hjálpa togaraútgerðinni, bæta henni aflatjónið á undanförnum árum, en það átti að gerast af almannafé og væntanlega þá úr ríkissjóði. Það er ákaflega auðvelt að flytja svona tili., en ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þær. Ég veit, að það dylst engum manni og allra sízt þeim mönnum, sem þessar till. flytja, að þær hefðu aldrei komið fram, ef þeir hefðu haft nokkra ábyrgð á stjórn landsins. það ber því líka að skoða þær í því ljósi. Það tekur enginn slíkar till. alvarlega.

Annars er það dálítið einkennandi fyrir starfsaðferðir og málflutning framsóknarmanna að taka yfirleitt aldrei róttækt á málum. Ég vil benda á það, að þeir hafa flutt í Ed. nokkur þing frv. um það, að ríkið taki að sér að borga gengishalla stofnlánasjóðanna. Það var út af fyrir sig að leysa vandræði í bili, en það var ekki til þess að leysa málið eins og þarf að leysa það til frambúðar. En nú, þegar fram er komið frv., sem felur þetta í sér, að það opinbera létti gengishallanum af sjóðunum, þá kveður við annan tón. Þá segja framsóknarmenn: Nei, það var ekki ætlunin. Það á að gera þetta í Seðlabankanum. — Nú eru þeir með till. um það, að Það þurfi að færa þetta yfir í Seðlabankann. Mér detta í hug keipabörnin í sambandi við þetta mál, þau, sem vilja ekki lofa mömmu eða pabba að klæða sig í dag, afi þarf að gera það eða amma. En þetta er dálítið táknrænt, eins og ég var að minnast á, fyrir afstöðu framsóknarmanna til fjölda mála, bæði í málflutningi og hvernig þeir taka á þeim, að taka ekki róttækt á þeim, leysa hlutina ekki í eitt skipti fyrir öll. Sjálfstæðismönnum hefur verið það ljóst frá upphafi, að þessi mál, lánamál landbúnaðarins, voru ekki leyst með því að létta gengishallanum af sjóðunum, það varð að tryggja Það, að þeir byggðu sig upp þannig, að það kæmu ekki aftur fyrir slík vandræði sem hafa steðjað að þeim sjóðum á undanförnum árum, og það er gert með þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál á þessu stigi. Það er nokkuð rakið í nál. okkar, hverjar samþykktir hafa verið gerðar um lánamál landbúnaðarins um mörg undanfarin ár á aðalfundum Stéttarsambands bænda. Ég valdi af ásettu ráði nokkuð langt tímabil, — tímabil, sem nær yfir stjórnartímabil flestra eða allra hinna pólitísku flokka í landinu, því að það dylst engum, að þrátt fyrir góðan vilja fjölmargra þeirra, sem þar eiga setu, vilja hin pólitísku sjónarmið stundum skjóta þar dálítið upp kolli, og það má jafna nokkuð úr því í Þeim heildarsvip, sem fæst, ef maður tekur nógu langt tímabil. Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi litið yfir þetta nál. okkar í meiri hl., og ef það er gert, þá sést þar, að í meginatriðum hefur alltaf verið sami grunntónninn í þessum samþykktum, sem gerðar hafa verið á aðalfundum Stéttarsambandsins allt frá 1955 og til síðasta hausts, í meginatriðum sami grunntónninn — Þessi, að reyna að sjá um, að nægilegt lánsfé sé fyrir hendi á hverjum tíma til þess að mæta þeirri framkvæmdaþörf, sem er í landbúnaðinum, og alveg sérstaklega nú seinni árin að leggja áherzlu á lán til vélakaupa, til að létta frumbýlingunum að byrja búskap og til þess að efla veðdeildina. Ég tel, að með þessu frv. sé í fyrsta skipti gert djarflegt og stórt átak til þess að mæta öllum þessum óskum, og ég er sannfærður um það, að þessi stofnlánadeild á eftir að marka hin merkilegustu spor í framfarasögu landbúnaðarins um næstu ár og áratugi, ef svo fer, sem ég treysti, að þetta frv. nái fram að ganga, eins og við í meiri hl. n. leggjum til, að það nái fram að ganga óbreytt.