10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. í upphafi þeirra athugasemda, sem fylgja þessu frv., segir, að ýtarleg athugun hafi verið gerð á fjárhag ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sveitabæja á s.l. ári. Sú athugun hafi leitt í ljós, að sjóðirnir væru raunverulega gjaldþrota. Ef svo er, þá er þar um að kenna ráðstöfunum núv. hæstv. ríkisstj. Hagur sjóðanna var góður, þegar hún tók við völdum. Gengislækkanirnar hafa valdið hækkun í íslenzkum krónum á erlendum lánum, sem tekin höfðu verið til sjóðanna. Talið er, að sá gengismunur, sem þar kemur fram, sé rúmlega 120 millj. kr. í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að ríkið og Seðlabankinn eru búin að greiða og taka að sér að greiða um 258 millj. kr. í gengishalla vegna annarra útlendra skulda, sem hvíldu á þjóðinni, þegar gengið var lækkað í febr. 1960 og í ágúst 1961. Þetta er samkvæmt upplýsingum í skýrslu frá Seðlabankanum 14. marz s.l. Ég dreg ekki í efa, að útlendu lánin, sem hækkuðu í ísl. krónum um þessar 258 millj. við gengislækkanirnar, hafi verið tekin til þarflegra hluta, en ég fullyrði, að lánin, sem tekin voru handa sjóðum Búnaðarbankans, hafa ekki komið að minna gagni fyrir þjóðina en önnur útlend lán, sem tekin hafa verið. Ræktunarsjóður og byggingarsjóður, sem fengu þessi lán, eru ríkisstofnanir, og það er réttmæt krafa, að ríkið greiði gengishallann vegna þeirra lána, ekki síður en annarra lána, sem tekin hafa verið til að mæta lánsfjárþörf þjóðarinnar.

Á bændum landsins hvílir engin skylda, hvorki lagaleg né siðferðileg, til að borga þennan gengismun. Þeir eiga að greiða skuldir sínar við sjóðina í ísl. peningum, samkvæmt fyrirmælum í skuldabréfunum, og það er ósæmilegt að leggja á þá sérstakan skatt til að greiða hluta af gengismun, sem fram kom vegna erlendra skulda þjóðarinnar, þegar krónan var lækkuð 1960 og aftur 1961.

Það gengistap, sem ríkið hefur tekið á sig síðustu tvö árin, hefur að miklu leyti verið greitt af svonefndu mótvirðisfé, sem undanfarin ár hefur verið geymt hjá Seðlabankanum. Nú er að myndast nýr mótvirðissjóður, sem einnig er geymdur í Seðlabankanum, vegna 6 millj. dollara framlags Bandaríkjanna í sambandi við gengisbreytinguna 1960. Um síðustu áramót var sú innstæða orðin 75 millj. kr., og er það ekki nema tæpur þriðjungur af heildarframlaginu. Á móti þessari innstæðu, sem bráðlega verður töluvert á þriðja hundrað milljóna, mætti færa gengishallann af lánunum vegna sjóða Búnaðarbankans. Þó að sá halli yrði allur greiddur af nýja mótvirðisfénu, verða samt eftir meira en 100 millj. af því.

Í framhaldi af lýsingu á því í upphafi athugasemdanna með frv., hvernig fjárhag ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs sé nú komið, eftir að núv. stjórnarflokkar hafa farið með völdin í rúmlega 3 ár, segir svo í athugasemdunum, með leyfi hæstv. forseta: „Án róttækra aðgerða hljóta því stofnlánaveitingar í landbúnaði að stöðvast að mestu leyti.“ Þetta er ekki rétt. Þetta er alrangt. Það þarf alls engar róttækar aðgerðir til þess að gera sjóðum Búnaðarbankans fært að halda áfram lánveitingum til framkvæmda í landbúnaðinum. Það eina, sem vantar, er vilji núv. valdhafa til að leysa málið með eðlilegum og sanngjörnum hætti. Viljaleysi þeirra eða aumingjaskapur er eini vandinn, sem við er að fást í þessu máli.

Lögin um byggingar- og landnámssjóð voru samþ. á Alþ. árið 1928 fyrir forgöngu Framsfl. 1. gr. þeirra hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Af tekjum ríkissjóðs skal árlega leggja 200 þús. kr. í sjóð, er nefnist byggingarog landnámssjóður.“ Fjárveitingin, 200 bús. kr., er tekin inn á fjárlög fyrir næsta ár, árið 1929, og á þau fjárlög, 16. gr. þeirra, er einnig tekið framlag til ræktunarsjóðs að upphæð 105 þús. kr. Tekjur ríkissjóðs árið 1929 voru áætlaðar á fjárlögum samtals 10883600 kr., en framlögin til byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs á því ári samtals 305 þús. kr., eru þannig 2.8% af heildartekjum ríkissjóðs. Þetta var nú árið 1929. Á fjárlögum ársins, sem nú er að líða, 1962, eru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 1748 millj. 875 þús. kr. Framlög til byggingarsjóðs og ræktunarsjóðs á fjárlögunum eru 4.1 millj. Það eru 2.34 af þúsundi af heildartekjum ríkisins árið 1962, 2.8 af hundraði af tekjum ríkissjóðs árið 1929. Framlag ríkissjóðs nú, árið 1962, er þannig 12 sinnum minna en það var 1929, ef miðað er við tekjur ríkissjóðs. Framlag ríkissjóðs til sjóðanna nú þyrfti að vera 49 millj. kr. til þess að jafnast á við framlögin 1929, ef miðað er við áætlaðar tekjur ríkissjóðs á fjárlögum 1929 og 1962.

Af þessu geta menn séð, að till. hv. minni hl. landbn. þessarar deildar um 25 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til þessara sjóða er mjög í hóf stillt. Það er um það bil helmingi minna, sem þar er farið fram á, heldur en ríkissjóður greiddi til þessara sjóða fyrir 33 árum.

Við þennan samanburð hljóta menn að spyrja, hvort þjóðin hafi síður efni á Því nú en 1929 að leggja fram fé til eflingar lánasjóðum landbúnaðarins. Þeirri spurningu má svara neitandi, alveg hiklaust. Þvert á móti eru nú miklu meiri möguleikar en þá voru til fjáröflunar, og Þörfin er enn sem fyrr mikil að styðja menn með hagkvæmum lánum til að rækta og byggja landið. Þegar bændurnir leggja fram fé og fyrirhöfn til jarðabóta, eru þeir að vinna fyrir framtíðina. Þeir fá ekki sjálfir endurgreiddan nema hluta af framlagi sínu til umbótanna, og framlag þeirra til að rækta og byggja landið er mjög mikið. Með löggjöfinni um byggingar- og landnámssjóð árið 1928 og síðar með breytingum á lögum um ræktunarsjóð var sú stefna mörkuð að veita lán með hagstæðum kjörum til bygginga og ræktunar í sveitum landsins. Með því að greiða nokkurn hluta af vöxtunum af slíkum lánum hefur ríkið tekið Þátt í landnáminu. Þessari stefnu þarf að fylgja áfram. Bændur eiga að geta fengið lán til framkvæmda með lægri vöxtum en yfirleitt eru greiddir í peningaviðskiptum á hverjum tíma, og ríkið á að greiða vaxtamuninn. Þetta er mjög auðvelt að gera nú, ekki síður en áður. Og svo á að útvega sjóðunum fé að láni, eftir því sem þeir þurfa á hverjum tíma, til Þess að þeir geti bætt úr stofnlánaþörf landbúnaðarins. Þetta er mjög auðvelt að gera. Hagskýrslur sýna, að um næstliðin áramót var innstæðufé í bönkum og sparisjóðum samtals 3770 millj. kr. Þótt ekki væri ráðstafað af þessu fé nema hálfum af hundraði á ári til stofnlánasjóða Búnaðarbankans, þá væri það 18–19 millj. kr. Það er meira en hæstv. ríkisstj. áætlar að launaskatturinn á bændur og viðbótarsöluskatturinn á landbúnaðarafurðir, sem hún vill lögfesta, gefi af sér á næstu árum báðir til samans. Það er töluvert meira. Það munar nokkrum milljónum. Af þessu má sjá, hvað ákaflega auðvelt er að útvega sjóðunum það fé, sem þeir hafa þörf fyrir. Það er ofur auðvelt að fá 1/2%–1% af heildarinnstæðum hjá bönkum og öðrum innlánsstofnunum ár hvert að láni gegn ríkisábyrgð handa lánasjóðum landbúnaðarins, og er sannarlega ekki til mikils mælzt, þó að svolítill hluti af sparifé landsmanna væri tekinn handa sjóðunum. Hér er því alls ekkert fjárhagslegt vandamál á ferð, — alls ekki. Ég vil ekki ætla, að nokkur hv. alþm. sé svo fávís, að hann sjái ekki. að þetta mál er auðvelt að leysa án þess að leggja aukaskatta á bændur og án þess að bæta enn nýjum söluskatti á landbúnaðarafurðir ofan á þá, sem fyrir eru.

En hæstv. ríkisstj. virðist ekki villa útvega lánasióðum Búnaðarbankans fé með þeirri eðlilegu aðferð, sem hér hefur verið bent á. Það mun vera andstætt hennar stefnu. Hún vill endilega leggja sérstakan skatt á bændur og það algerlega að nauðsynjalausu. Og vel getur verið, að hún fái þetta samþ. hér af stuðningsmönnum sínum eins og í hv. Ed. Það getur vel verið að þeir fáist einnig hér til að samþ. þessa óhæfu. Hæstv. stjórn hefur líka nýlega fengið stuðningsmenn sína á Alþ. til að samþ. frv., sem felur í sér viðbótarskatt á Útvegsmenn til fjáröflunar fyrir lánsstofnun. Við framsóknarmenn mótmæltum þeim skatti og greiddum atkv. gegn honum. Þó að stjórnarfl. hafi nýlega lagt nýjan ranglátan skatt á útvegsmenn. þá réttlætir það alls ekki till. þeirra um að leggja slíkan skatt einnig á bændur. Hæstv. stjórn hefur hins vegar ekki enn sem komið er lagt fram till. um slíkar aukaálögur á fleiri stéttir. Ef til vill skortir þar fremur kjarkinn en viljann.

Eins og aðrir uppáhaldsskattar núv. hæstv. ríkisstj. koma þeir skattar, sem ætlunin er að taka í lög samkvæmt þessu frv., á gjaldendur alveg án tillits til efnahags þeirra eða fjárhagslegrar afkomu. Búnaðarþingið, sem nýlega var háð hér í Reykjavík, mótmælti mjög ákveðið þeirri sérstöku skattlagningu á bændastéttina. sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frv., og enn fremur ákvæði sömu gr. um gjaldið á söluverð landbúnaðarafurða. Stjórn Stéttarsambands bænda telur að afla eigi fjár til lánasjóðanna með öðru móti en því að leggja aukaskatt á bændur, og bændur og félög þeirra munu halda áfram að mótmæla því ranglæti sem þeir eru beittir, ef skattaákvæði frv. verða samþ. Enginn sem vill taka sanngjarnlega á málum landbúnaðarins getur greitt atkv. með skattlagningarákvæðum þessa frv.