10.04.1962
Neðri deild: 89. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér það, að ef brtt., sem við í minni hl. landbn. fluttum við þetta frv., yrðu felldar, þá vildi ég gera eina till. til breytinga við frv. við 3. umr., og sökum þess að svo skammt er liðið frá því, að 2. umr. lauk, að ég var eiginlega ekki búinn að skrifa till., mun ég hafa kvatt mér hljóðs af meiri skyndingu en forseti áttaði sig á, og er það nokkuð í stíl við fyrirtekt mála hér á þessum fundi, hún gengur með miklu hraði, og er þá ekki nema vert, að menn kveðji sér hljóðs með hraði líka. Ég vil sem sagt leyfa mér að flytja hér skrifl. brtt. við 4. gr. frv., en till. mín er þannig:

„Greinin orðist svo:

Tekjur deildarinnar eru:

1. Fast árlegt framlag ríkissjóðs, 8 millj. kr.

2. 1% af árlegum tekjum ríkissjóðs.

3. Vaxtatekjur.“

Í greininni, eins og hún stendur í frv., er fyrst gert ráð fyrir árlegu framlagi ríkissjóðs, 4 millj. kr. Það er nokkur lækkun frá því, sem nú stendur í fjárlögum. Tel ég það illa viðeigandi og teldi sanngjarnt, að a.m.k. yrði þetta fasta framlag hækkað um helming frá því, sem í frv. er, og ég vil enn freista þess að fá fram samþykkt á því, að niður verði fellt bæði 1% álagið á bændurna og álagið á útsöluvörur landbúnaðarins, sem neytendum er ætlað að borga. En á sama hátt og þeir, sem að frv. standa, telja, að bændur geti komizt af, þó að þeir missi af 1% sinna tekna, verður að ætla, að svipuð regla gildi um þá, sem fyrir ríkissjóði ráða, að þeir ekki síður en bændurnir mundu komast af, þó að þeir yrðu af 1% sinna tekna, og óska ég eftir því, að það geti komið hér til atkv. og sýnt sig, hverjir álíta, að ríkissjóður sé verr aflögufær um 1% en bændur. í þriðja lagi legg ég til að sjálfsögðu, að meðal tekna sjóðsins séu vaxtatekjur hans, eins og gert er ráð fyrir í frv. Vil ég leyfa mér að afhenda forseta þessa skriflegu brtt. og biðja um afbrigði fyrir henni.