10.04.1962
Neðri deild: 89. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan segja nokkur orð um þetta mál, áður en það verður afgreitt endanlega frá þessari hv. deild.

Mér virðist þetta mál á ýmsan hátt vera nokkuð nýstárlegt, a.m.k. mjög nýstárlegt í röð landbúnaðarmála. Það er nokkuð einkennandi fyrir þetta mál, sem hv. 3. þm. Vesturl. (HS) sagði, þegar hann komst þannig að orði, að áður hefðu búnaðarsjóðirnir átt að standa undir uppbyggingu landbúnaðarins, en nú ætti landbúnaðurinn eða bændurnir að standa undir uppbyggingu sjóðanna. Þetta finnst mér ákaflega einkennandi fyrir þá stefnubreytingu í lánamálum landbúnaðarins, sem hæstv. landbrh. og stjórnarliðið beitir sér fyrir með þessari lagasetningu, enda verður, ef þetta frv. verður að lögum, orðið um algera byltingu að ræða í þessum málum frá því, sem verið hefur alllengi undanfarið. Ég mun færa rök fyrir þessu í örstuttu máli.

Fyrst skulum við rifja upp, en það hefur áður verið sagt í þessum umr., hvernig þessi mál hafa verið leyst undanfarið. Þau hafa verið leyst þannig, að bændur hafa átt kost á lánum úr þessum sjóðum, sem hér á að steypa í eitt, byggingarsjóði sveitanna og ræktunarslóði, með 31/2%–4% vöxtum, og lánin hafa verið til 20–25 ára. Þannig hefur þetta verið alllengi undanfarið. Engum hefur dottið í hug á því tímabili. að það þyrfti að skattleggja bændur sérstaklega, til þess að hægt væri að láta í té þessi vaxta- og lánakjör. Slíkt hefur engum dottið í hug fyrr en þeim hæstv. landbrh., sem nú beitir sér fyrir þessu máli, og þeim, sem aftan í honum hanga.

Hvernig er þá sú lausn, sem hæstv. ráðh. vilt nú fá lögfesta og hefur sumpart komið í framkvæmd, áður en þessi löggjöf er sett? Sú lausn á lánamálum bænda er í því fólgin, að bændur borgi 6–61/2% í vexti og lánstíminn færður úr 20–25 árum niður í 15 ár til að þyngja árgreiðslurnar. Það þótti ekki þyngja árgreiðslurnar nógu mikið að hækka vextina í 6–61/2%. Það varð að þyngja árgreiðslurnar meira og þá var það ráð fundið að stytta lánstímann í 15 ár. Með því móti mun hafa verið talið hugsanlegt, að þessar breytingar drægju nægilega mikið úr fjárfestingu í landbúnaðinum, drægju nægilega mikið úr vexti og viðgangi landbúnaðarins.

Sannleikurinn er sá að öll þessi lagasetning og öll þessi landbúnaðarpólitík sem nú hefur verið tekin upp er beinlínis við það miðuð að stöðva þá hröðu uppbyggingu sem í landbúnaðinum hefur verið, vegna þess að þeir sem hér eiga hlut að máli, telja þá uppbyggingu hafa verið of öra. Það er ekki hægt að skýra svona lagað með öðru móti en þessu. Því að þeir menn sem hér að standa, eru engir kjánar. Þeir vita vel hvað þeir eru að gera og það vita allir að það er engin fjárhagsleg þörf sem knýr til að hækka. svona vextina eða stytta svona lánstímann. Meiningin með þessu og öðru fleiru er beinlínis að draga úr þeirri hröðu uppbyggingu sem orðið hefur í landbúnaðinum, m.a. með það fyrir augum að fækka bændum. eins og lýst hefur verið yfir oftar en einu sinni t.d. úr herbúðum sjálfstæðismanna. Það er skýringin á bessum aðförum öllum saman.

Hverjar verða svo þessar breytingar? Við getum tekið dæmi um, hvernig þetta verkar á efnahag bænda og möguleika þeirra til þess að byggja upp. Fyrir viðreisn voru stofnlánakjör landbúnaðarins þessi: ræktunarsjóður, lánstími 20 ár, vextir 4%, en byggingarsjóður, lánstími 42 ár, vextir 31/2%. Með viðreisnarlöggjöfinni í fyrra voru vextirnir hækkaðir og lánstíminn hjá ræktunarsjóðnum styttur. Og skv. hinu nýja frv., sem við erum að ræða, eiga stofnlánakjörin að verða Þessi: ræktunarsjóður, lánstími 15 ár, vextir 61/2%, byggingarsjóður á hins vegar að halda sínum lánstíma, vextir verða 6%. Ef við berum svo saman mismuninn á árgjöldunum af lánunum skv. hinum eldri sið og skv. hinum nýja sið, þá verður dæmið þannig, og tökum þá dæmi af manni, sem hafði 200 þús. kr. lán úr ræktunarsjóði. Árgjaldið af því er kr. 14716. Og af 100 þús. kr. láni úr byggingarsjóði er árgjaldið 4579 kr. Skv. frv., sem hér er verið að ræða, og þeirri lánareglu, sem innleidd hefur verið, þarf að greiða af 200 Þús. kr. láni 21270 kr. og af 100 þús. kr. láni vegna íbúðarhúss 6 568 kr.

En það er meira blóð í kúnni. Til viðbótar þessart gífurlegu hækkun á árgjöldunum á bóndinn að greiða árlega eftir þessu frv. sérstakan skatt, sem á að renna til stofnlánadeildanna, og sá skattur á að nema 1% af verði framleiðslunnar eða um 2% af kaupi bóndans hjá meðalbúinu, og mun það nema um 1700 kr. hjá slíku búi. Loks á svo enn að innheimta sérstakan toll af landbúnaðarvörum, sem nemur um 1300 kr. af afurðum meðalbús.

Breytingarnar á aðstöðu bóndans, sem skuldar 200 þús. kr. í ræktunarsjóði og 100 þús. kr. í byggingarsjóði, verða því þannig, að árgjöldin í ræktunarsjóðnum hækka um 6554 kr., árgjöldin í byggingarsjóðnum hækka um 1988 kr. og við bætist svo launaskatturinn, þannig að mismunurinn á kjörunum, sem á að búa við framvegis, miðað við núv. vexti og skattinn, sem ráðgerður er, verður 10242 kr.

Þetta er eitt dæmi af mörgum um, hvað það kostar bændur að veita Sjálfstfl. og Alþfl. vald til þess að fara með málefni þjóðarinnar, — bara eitt dæmi af mörgum.

Ég rakti það hér áðan, hver lánakjörin hafa verið og hver þau eiga að verða skv. þessu frv., sem ætlunin er auðsjáanlega að gera að lögum. Og þá kemur spurningin: Var þetta í raun og veru hægt, að hafa svona lága vexti á þessum stofnlánum? Kom Þetta þá ekki fram í því, að þessi lánastarfsemi væri ákaflega smávægileg og stórfelldur kyrkingur í henni? Var mögulegt að afla nægilegs fjár til þess, að hægt væri að lána út á byggingar og íbúðarhús með þessum kjörum?

Í þessu sambandi er rétt að rifja upp, að á árunum 1947–58 voru veitt 600 lán að meðaltali úr ræktunarsjóði með hliðstæðum kjörum og þeim, sem ég var að nefna. En Það segir svo sína sögu út af fyrir sig, að árin 1944–46, þegar sjálfstæðismenn fóru með þessi mál ásamt Alþfl., voru lánuð 101/2 lán að meðaltali á ári úr ræktunarsjóðnum á Þeim árum, en 600 lán að meðaltali á árunum 1947–58, eftir að Framsfl. tók við landbúnaðarmálunum á ný.

Það er mikið talað um í þessu sambandi, að sjóðirnir hafi ekki þolað þessi góðu lánskjör.

En allt slíkt er gersamlega úr lausu lofti gripið, vegna þess að sjóðirnir voru studdir til þess að standa undir þessum góðu lánskjörum. Það var gert með framlögum úr ríkissjóði, sumpart árlega á fjárlögum og sumpart með því að veita til þessara sjóða stórar fúlgur af og til af ríkisfé, og var þá oft notað tækifærið, þegar greiðsluafgangur var hjá ríkissjóði, til að veita slíkar stórar fúlgur í sjóðina. Enda fór það svo, að hrein eign þessara lánasjóða jókst ár frá ári þrátt fyrir hin góðu kjör, sem þeir veittu, og hefur verið upplýst hér í umr., að samanlögð eign sjóðanna í árslok 1958 var 105 millj. kr. og hafði þá vaxið verulega undanfarið. Að vísu voru þá árgjöld af erlendum lánum orðin nokkru þyngri en áður vegna yfirfærslugjaldsins, en vitanlega var þá sú sjálfsagða og einfalda leið fram undan, að ríkið hlypi þar undir bagga til að hjálpa til með árgreiðslur sjóðanna, þannig að þeir gætu haldið áfram að veita lán með hinum góðu kjörum. M.ö.o.: Það yrði haldið áfram sömu stefnu og fylgt hafði verið undanfarið, að sjóðirnir tækju lán með eins hagfelldum vaxtakjörum og hægt væri að fá, lánuðu út aftur með þessum vaxtakjörum, sem ég var að lýsa, og fengju síðan framlag af almannafé, til þess að hægt væri að reka þessa vaxtapólitík. Þetta er hliðstæð lánapólitík og rekin er í þágu landbúnaðarins í flestum nálægum löndum. Og þó að ég sé ekki nógu kunnugur til að fullyrða um það, þá er mér nær að halda, að þegar hæstv. landbrh. hefur fengið fram vilja sinn um það, hvernig búið verður að íslenzkum landbúnaði í lánalegu tilliti, þá verði óvíða, ef nokkurs staðar hægt að finna, að landbúnaður í nokkru landi eigi að búa við slík lánakjör. A.m.k. eru kjörin í sumum hinum næstu löndum, sem við þekkjum bezt til, allt önnur og jafnvel betri en þau, sem voru, áður en hæstv. landbrh. fór að spilla þessu máli.

Ég fullyrði, að fátt af því, sem gert hefur verið til að efla íslenzkan landbúnað, hefur orðið honum þýðingarmeira en þessi hagstæðu stofnlánakjör. Í því sambandi get ég ekki stillt mig um að minna á ummæli, sem hæstv. landbrh. viðhafði hér við 1. umr. málsins, að ég hygg, þar sem hann bað menn að íhuga, hvernig búnaðarstofnsjóðirnir stæðu núna, ef þeir hefðu undanfarna áratugi búið við aðra eins löggjöf og þá, sem nú á að fara að setja.

Ég held, að það væri nær fyrir hæstv. ráðh. að velta því fyrir sér, hvernig íslenzkur landbúnaður væri nú á vegi staddur, ef hann hefði búið við atlot hæstv. ráðh. í lánamálum síðustu áratugina, ef hann hefði átt að búa við það, sem honum er ætlað að gera nú, eftir að þetta frv. verður að lögum.

Það eru til ýmsir vitnisburðir um það, sem gerzt hefur í íslenzkum landbúnaði á undanförnum árum. M.a. sá ég ekki alls fyrir löngu í riti gefna út áætlun um framkvæmdir í landbúnaðarmálum á næstunni, og þetta var gefið út í nafni stjórnar Stéttarsambands bænda. í þessari áætlun er það tekið alveg sérstaklega fram, að tímabilið frá 1950 til 1958 hafi orðið langglæsilegasta framfaratímabilið í íslenzkum landbúnaði. Þetta er ekki gefið út í nafni framsóknarmanna, heldur er það einnig gefið út í nafni þeirra sjálfstæðismanna, sem eiga sæti í stjórn Stéttarsambands bænda.

Aftur á móti stendur svo í þessu sama riti og í þessari sömu álitsgerð, að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þessar framfarir haldi áfram, eins og búið sé nú að búa að íslenzkum landbúnaði, og var Þó þá ekki kominn til þessi nýstárlegi launaskattur, sem hæstv. ráðh. og hans menn ætla nú að beita sér fyrir að leggja á bændur ofan á vaxtahækkunina og lánstímastyttinguna, sem fyrir var.

Engum, sem fylgzt hefur með uppbyggingu íslenzks landbúnaðar, getur dulizt, að það, sem fyrst og fremst hefur ýtt undir í þessu efni og gert þessar stórfelldu framfarir mögulegar, eru lánin, sem hægt var að fá til byggingar útihúsa og til ræktunar í sveitunum. Og það hefði verið með öllu gersamlega áhugsandi að fá þetta fjármagn öðruvísi en að taka stórlán til þeirra sjóða, sem hér eiga hlut að máli. Það, sem varð þess vegna landbúnaðinum notadrýgst til uppbyggingarinnar, var það, að upp var tekin sú stefna að taka lán handa landbúnaðarsjóðunum og lána þau út aftur. Það var tekin upp sú stefna, að landbúnaðurinn skyldi fá til sinna nota hluta af því lánsfé, sem hægt var að afla í heild til framfara með íslenzku þjóðinni. Þannig fékk landbúnaðurinn verulegan hluta af erlendu lánunum, sem tekin voru á þessum árum, í fyrsta skipti í sögu landsins. Enn fremur var lögfest, að í þágu landbúnaðarlána skyldi renna helmingurinn af mótvirðissjóðnum mikla., sem upp var byggður fyrir gjafafé frá Bandaríkjunum. Þetta var lánsfjáröflunin, fyrir utan þau stórfelldu framlög, beinu framlög frá ríkinu, sem komu til og ég lýsti áðan.

Nú er aftur á móti gerbreytt um stefnu í þessu efni, og bændur eiga nú sjálfir að fara að greiða fé í sjóðina til þess að lána sjálfum sér, og erlendar lántökur til sjóðanna eru hreinlega bannaðar í frv., nema því aðeins að bændum séu veitt lán í erlendum gjaldeyri í jafnstórum stíl aftur á móti. Það er m.ö.o. með þessu frv. hreinlega bannað að framkvæma þá lánapólitík, sem undanfarið hefur verið hagfelldust og drýgst fyrir íslenzkan landbúnað. En hún var sú að taka erlend lán til sjóðanna til að veita inn í landbúnaðinn, og með engu öðru móti hefði verið hægt að afla alls þess stórkostlega fjármagns, sem inn í landbúnaðinn hefur runnið á þessum árum. En nú er hreinlega bannað með þessu að taka erlend lán til sjóðanna, nema því aðeins að bændur fái lán í erlendri mynt.

Af þessu er ósköp auðvelt að draga ályktun um hugsunarháttinn, sem þarna liggur á bak við, og hvað skeð hefði, ef Framsfl. hefði ekki haft Þessi mál með höndum á undanförnum árum. Þá hefðu bændur annaðhvort verið settir hreinlega í lánasvelti eða þá að þeim hefði verið gefinn kostur á lánum með gengisklásúlu. Sjá allir, hvernig komið hefði verið fyrir íslenzkum landbúnaði, ef sú stefna hefði verið framkvæmd, sem gert er ráð fyrir í 12. gr. þessa frv.

Í sambandi við þetta mál hafa þeir hæstv. ráðh. og hans menn látið sér ákaflega tíðrætt um það, hvað stofnlánasjóðir landbúnaðarins hafi verið komnir í mikinn vanda, og að því er manni skilst, hvað illa hafi verið við þá skilið af öðrum. Þetta hefur nú auðvitað verið marghrakið, því að 1958, þegar núv. valdasamsteypa tók við þessum málum, áttu sjóðirnir stórfé að sjálfsögðu umfram skuldir, eins og hér hefur margsinnis verið bent á. En svo komu gengislækkanirnar, fyrst ein og síðan önnur, og þá hækkuðu auðvitað mjög skuldbindingar sjóðanna, sem voru í erlendum gjaldeyri. Þá skeður það furðulega, að á sama tíma sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir því, að ríkið taki á sig þann gengishalla, sem ríkisstofnanir yfirleitt urðu fyrir við þessar gengisbreytingar, eru stofnlánasjóðir landbúnaðarins skildir eftir og fiskveiðasjóðurinn líka. Þessir sjóðir eru skildir eftir, og ríkisstj. býst til Þess að láta alls ekki greiða þessi gengistöp á sama hátt og önnur gengistöp, sem í eðli sínu voru nákvæmlega hliðstæð.

Ef nokkur snefill af réttsýni hefði gilt í þessu efni, átti auðvitað að taka gengistapið á erlendu lánunum fyrir stofnlánasjóði landbúnaðarins og fiskveiðasjóð inn á gengisuppgjörsreikninginn eða gengistapsreikninginn í Seðlabankanum, og síðan átti ríkið að greiða þessi gengistöp eins og önnur gengistöp, því að ríkið tók að sér að greiða gengistöpin fyrir hinar stofnanirnar, sumpart með því að láta allmikla mótvirðissjóðsinnstæðu, á annað hundrað milljónir, sem ríkissjóður átti, upp í þessi töp, og sumpart með því að semja við Seðlabankann um að taka að sér nokkuð af gengistöpunum. En vitanlega átti hér alls ekki að gera upp í milli, og sýnir það algert forsjárleysi hæstv. landbrh., að ekki sé meira sagt, í málefnum landbúnaðarins, að hann skyldi ekki gera gangskör að því og krefjast þess, að landbúnaðurinn og lánastofnanir ha nytu jafnréttis að þessu leyti. Það er alveg furðulegt, og þá ekki sízt þegar þess er gætt, að ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum ræktunarsjóðs og skuldbindingum byggingarsjóðs. Ríkissjóður ber ábyrgð á þessum skuldbindingum að sinu leyti alveg á sama hátt og hann ber ábyrgð á ríkisábyrgðarlánum fyrir togara, frystihús og önnur slík fyrirtæki. Greiðslur á þessum ábyrgðarlánum eru reiddar af höndum skilvislega af hendi ríkissjóðs. En hæstv. ráðh. og ríkisstj. býst á hinn bóginn til þess með þessu frv. að velta þeim greiðslum, sem ríkissjóður með réttu á að standa undir vegna ábyrgða sinna á þessum stofnlánadeildum, yfir á bændastétt landsins og bændur persónulega með sérstökum launaskatti. Þetta er álíka ósvífni og ef flutt væri frv. um að jafna niður á útveginn með sérstökum skatti á tekjur útvegsmanna þeim ríkisábyrgðartöpum, sem ríkissjóður hefur orðið fyrir.

Allt þetta tal hæstv. ráðh. og hans manna um, að þessir sjóðir hafi verið orðnir gjaldþrota og þeir hafi verið svo illa staddir, að þess vegna verði að skattleggja bændastéttina til þess að bjarga þeim, — allt þetta tal er gersamlega mælt út í hött, eins og búnaðarþingið mjög skörulega sýndi fram á og hefur sýnt svo skörulega fram á, að þá, sem fyrir þessu standa, svíður þar nokkuð undan. Er sannast að segja ekkert yfir því að syrgja.

Aftur og aftur koma þeir að þessum samþykktum búnaðarþings. Fyrir hvað? Af því að búnaðarþingið talar blátt áfram og skýrt um þessi mál og er ekki með neina vafninga, segir það bara, sem rétt er, að ríkissjóður átti að standa undir þessum gengistöpum eins og öðrum hliðstæðum, og fylgir fram þeirri stefnu landbúnaðarins, að áfram verði tiltölulega lágir vextir á landbúnaðarlánum, og lætur í ljós þá skoðun, að alveg eins og þjóðfélagið gat staðið undir þessum vöxtum undanfarinn áratug eða meir, þá sé það ekkert síður hægt framvegis.

Allt saman er þetta alveg laukrétt hjá búnaðarþinginu, og með Þessum ályktunum, svona blátt áfram eins og þær eru, er algerlega flett ofan af öllum þessum viðbjóðslega slepjuvef, sem hæstv. ráðh. og hans menn eru að vefja í kringum þetta mál til þess að leyna kjarna þess. En allt gengur það út á, að ekki sé með nokkru lifandi móti hægt að ráða við að útvega lánsfé í landbúnaðinn eða þjóðfélagið geti tekið á sig gengistöp fyrir landbúnaðinn, bændur verði að taka þetta á sig sjálfir með sérstöku skattgjaldi. Það sé allt í einu komið þannig, að þetta geti ekki staðizt, þó að það hafi prýðilega staðizt undanfarið, eins og reynslan sýnir.

Landbúnaðurinn á fullan rétt á því að fá í lán til uppbyggingar eitthvað af þeim sparnaði, sem verður í landinu, og ef þarf til viðbótar, eitthvað af þeim erlendu lánum, sem tekin eru. Það er alveg fordæmanlegur hugsunarháttur að halda því fram, að allt þetta fjármagn eigi að renna í annað, en bændur sjálfir að leggja sinum sjóðum fé.

Því hefur verið haldið hér fram, að allt hafi verið látið fljóta og ekkert gert til þess að tryggja sjóðina. Ég mótmæli þessu gersamlega og vísa til reynslunnar um það mikla fjármagn, sem til sjóðanna var aflað, og um þau tiltölulega góðu kjör, sem bændastéttinni voru búin í lánamálunum.

En er það ekki aðalatriðið í þessu máli, hvaða lánakjör hægt er að bjóða landbúnaðinum? Er það ekki aðalatriðið? Er það aðalatriði í þessu máli að skrapa saman, jafnvel frá landbúnaðinum sjálfum, fjármagn til þess, að ríkið geti svikizt frá skuldbindingum sínum, sem eru ábyrgðirnar á lánum sjóðanna, og mórölskum skuldbindingum sínum, sem eru gengistöpin? Aðalatriðið er vitaskuld, hvernig hægt er að ganga þannig frá málunum, að landbúnaðurinn búi við viðunandi lánakjör. En slíkt er auðvitað ekki aðalatriðið í augum þeirra, sem eru alltaf að leita að leiðum til þess að gera þyngra og þyngra undir fæti fyrir landbúnaðinn og það af mikilli lævísi. Vitanlega er ekki hægt að líta öðruvísi á en það sé verið að leita að slíkum leiðum með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á lánakjörum landbúnaðarins og svo Þessum skatti í viðbót.

Hv. 3. þm. Austf. (JP) og félagar hans í landbn. eru sýnilega dálítið hikandi við þetta allt saman, og þykir engum það einkennilegt, og eru þær ástæður eða þau rök, sem þeir færa fram fyrir þessu máli öllu í sínu nál., hin furðulegustu. Sérstaklega er þar athyglisverður kafli, finnst mér, og einnig í ræðu hv. 3. þm. Austf. um segulaflið, — þetta segulaft, sem þurfi að vera í þessu máli, og ekkert hafi getað þokazt fram nema hafa þetta segulatl. Hver var það, sem þurfti að toga með segulafli? Segulafl er notað til þess að toga eitthvað, sem annaðhvort getur ekki hreyft sig sjálft eða vill ekki hreyfa sig sjálft. Og hvað var það, sem þurfti að toga með þessu segulafli? Það er ekki hægt að skilja þetta skraf þessara hv. landbúnaðarnefndarmanna eða hv. 3. þm. Austf. öðruvísi en þannig, að það hafi alls ekki verið hægt að koma því til vegar, að þessum málum væri yfirleitt nokkuð sinnt, nema með því að hafa þennan launaskatt á bændatekjurnar með sem einhvers konar segulafl til þess að draga þá nauðugu til fylgis við það að gera eitthvað í lánamálum landbúnaðarins. Hverjir voru það, sem þurfti að beita þessu segulafli við? Það væri fróðlegt, að hv. 3. þm. Austf. og hæstv. landbrh. upplýstu, hvaða öfl það voru, sem þeir þurftu að toga með þessum segulkrafti, sem þeir lýsa svo skáldlega í nál.

Þá er annar kafli nál. talsvert um það og var líka í ræðu hv. 3. þm. Austf., að þetta jafnaði svo fjarskalega vel, þetta gjald, Þessi skattur, sem bændur ættu að greiða af tekjunum, —hann jafnaði svo fjarskalega vel á milli bænda. Hann væri svo nauðsynlegur og eiginlega alveg sérstaklega heppilegur til þess að jafna aðstöðu bændanna, þeirra, sem hefðu komið undir sig fótum, og aftur annarra. En hvernig er það, ætli þessi skattur eigi ekki að gilda fyrir þá t.d., sem eiga eftir að leggja í verulega uppbyggingu núna með viðreisnarverðinu og taka Þau lán, sem til þess eru nauðsynleg, ef slíkt á að reyna? Ætli það verki ekki ákaflega skemmtilega til jöfnunar fyrir þá að fá þennan skatt í ofanálag á nýju lánin? Ég veit satt að segja ekki, hvernig þeir menn eru komnir, sem fimbulfamba á þennan hátt um einhver þýðingarmestu málefni landsins og bændastéttarinnar. Má sannast að segja fullyrða, að það er varla til ömurlegri vottur um algert rakaleysi og uppgjöf en þetta nál., sem hér hefur verið útbýtt og hv. 3. þm. Austf. talaði hér fyrir. En kjarnapunktarnir í röksemdafærslunni eru þessir tveir: um segulaflið og hvað Það sé fjarskalega dýrmætt að fá þennan nýja skatt á tekjur bændanna til þess að jafna aðstöðu þeirra innbyrðis.

Það er eitt líka í viðbót, sem er ástæða til að benda á og var það þriðja, það var hliðarröksemd, ef þessar tvær skyldu ekki sannfæra menn alveg um, hvað Þetta væri góð lausn og heppileg á allan hátt fyrir bændurna. Þessi hliðarröksemd var, að með þessu væri einmitt verið að létta gengistapinu af sjóðunum með framlagi þess opinbera. En þessi röksemdafærsla er þannig hugsuð, að framlagið frá ríkissjóði, sem á að koma á móti bændaskattinum, launaskatti bændanna, gangi einmitt til þess að greiða gengistöpin. En þá vantaði bara, að hv. 3. þm. Austf. bætti því við, að þá er svo komið, að bændur eiga framvegis að lána sjálfum sér, því að varla er hægt að nota ríkisframlagið bæði í að greiða gengistöpin og til að lána út. En ef hv. 3. þm. Austf. vill snúa dæminu hins vegar, að framlagið úr ríkissjóði eigi fyrst og fremst og eingöngu að ganga til útlána í landbúnaðinum, þá verður hann að viðurkenna, að bændur eigi að borga gengistapið með skattinum.

Það er sannast að segja sorglegt, að gripið skuli vera til úrræða eins og þeirra, sem hér eru ráðgerð, og leiðinlegt, að menn, sem á margan hátt eru mætir menn, skuli rata í það ólán að þurfa að beita sér fyrir þennan drátt hæstv. landbrh. Sannast að segja ætlaði ég seint að leggja trúnað á þann orðróm, að bændum mundi ætlað að greiða sérstakan skatt á lánasjóðina, til þess að þeir gætu fengið lán framvegis. Ég ætlaði ekki að trúa því, að nokkrum mönnum dytti í hug að beita sér fyrir slíku, svo fjarstætt fannst mér það, að slíkt gæti komið til mála, að söðla svo algerlega um í aðbúnaði að landbúnaðinum og gera hvort tveggja í senn að stórhækka vextina og leggja á nýjan launaskatt.

Því hefur verið haldið fram í sambandi við þetta mál, að það væru hliðstæður í þessu t.d. hjá sjávarútveginum. Þess vegna væri í raun og veru ekkert við þessu að segja. Það er í þessu sambandi vitnað til útflutningsgjalds á sjávarafurðum, sem runnið hefur um alllangt skeið í fiskveiðasjóðinn. Það er nú fyrst, að þetta útflutningsgjald var, að því er ég bezt veit, upphaflega látið renna í ríkissjóð og var sett í lög, þegar uppgrip voru stórfelld í sjávarútveginum. Hann var á þeim tíma talinn stórfelldur gróða- og uppgripavegur, og þá var þetta lögfest og átti að renna í ríkissjóð. Síðar var þessu svo breytt og sett í fiskveiðasjóð. En ekki hefur sjávarútveginum litizt betur á þessa leið en svo, að sjávarútvegurinn hefur barizt hörkubaráttu gegn því, að þetta útflutningsgjald yrði hækkað og gengið lengra í því að innheimta útflutningsgjald og leggja í lánasjóði sjávarútvegsins. Og núna framan af þessum vetri var háð í þessu efni stórfelld barátta gegn hæstv. ríkisstj. af stjórnarandstöðunni hér á þingi og samtökum sjávarútvegsins, því að upphaflega var það sett í brbl. í sumar, sem ríkisstj. setti í sambandi við gengislækkunina, að útflutningsgjald skyldi hækkað á sjávarafurðum og renna í stofnlánadeild sjávarútvegsins.

Það rigndi mótmælum frá sjávarútveginum út af þessu, og því var hörkulega mótmælt, að gengið yrði lengra en áður hafði verið gert, fyrir löngu, í þá átt að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega í lánasjóði hans. Og það var bent á með gildum rökum, að í því væri ekkert vit. heldur ætti sjávarútvegurinn kröfu á því að fá lánsfé í sína stofnlánasjóði af sameiginlegu lánsfé þjóðarinnar. Hæstv. ríkisstj. guggnaði fyrir sameiginlegri baráttu stjórnarandstöðunnar hér á þingi og baráttu sjávarútvegsins í þessu efni og þorði ekki annað en láta undan siga og breyta brbl. þannig, að hækkunin á útflutningsgjaldinu rynni beint inn í rekstur sjávarútvegsins aftur á þann hátt, að með fénu yrðu borguð tryggingaiðgjöld.

Ríkisstj. guggnaði á því að lögfesta ný ákvæði í Þessa stefnu á sjávarútveginn, þ.e.a.s. í bili, hún hefur ekki guggnað til fulls, því að gert er ráð fyrir því, að eftir 1. jan. 1962 verði hætt að greiða þetta gjald í tryggingarnar eða iðgjöldin og það renni í stofnlánadeildina. En af ummælum, sem hæstv. forsrh. lét falla í sambandi við þetta mál, er alveg ljóst, að hann hefur gert sér grein fyrir því, að það kemur ekki til nokkurra mála, að það verði þolað af sjávarútveginum eftir 1. jan. 1962, að þetta gjald verði tekið út úr rekstri útvegsins og lagt í einn eða annan sjóð. Því hafði forsrh. þau ummæli, að þó að þetta ákvæði væri þarna, þá væri alltaf hægt að breyta því. Þetta sagði hæstv. forsrh., og hann er þó að því leyti skárri en hæstv. landbrh., að hann hefur beygt sig. En hæstv. landbrh. ber höfðinu við steininn. Það dugir ekkert í þessu sambandi að vitna í mjög gamla löggjöf um útflutningsgjald til fiskveiðasjóðs, sem er sett við allt aðrar aðstæður og upphaflega er tilkomið vegna þess, hvað sjávarútvegurinn á þeim tíma þótti uppgripamikill atvinnuvegur og gróði þótti myndast mikið í þeirri grein. Viðhorfin í landinu eru í fyrsta lagi alveg gerbreytt að þessu leyti, að því er sjávarútveginn snertir. Og hér hefur aldrei staðið á nokkurn hátt hliðstætt á með landbúnaðinn. Ég er í vafa um, að nokkurs staðar annars staðar hafi mönnum dottið í hug að skattleggja landbúnaðinn sérstaklega í þessu tilliti. Og langa leið eru menn komnir frá þeirri stefnu í landbúnaðarmálum, sem jafnan hefur verið fylgt hér, stefnu hinna lágu vaxta, þegar menn eru komnir út í það til viðbótar háum vöxtum að innheimta sérstakan skatt í þessu skyni.

Það hefur verið sérstaklega bent á í þessum umr., að þannig er frá gengið, að bannað er að taka skattgjaldið inn í verðlag afurðanna, þannig að þetta verður persónulegur tekjuskattur á bændurna, hreinlega lækkun á launum þeirra um 2%a á meðalbúinu. Þetta jafngildir því, að ríkisstj. tæki sig til og byði mönnum upp á t.d. 2% launaskatt ofan á þær trakteringar, sem menn hafa fengið síðustu missirin frá hæstv. ríkisstj. í „viðreisninni“, þar sem dýrtíðarvísitalan hefur hækkað um 27 stig, eða 54 stig miðað við vísitöluna, sem gilti, áður en þessi var lögfest. Upp í Það hafa launastéttir ekkert annað fengið en fjölskyldubæturnar, sem lögfestar voru og eru eins og dropi í hafið, og kauphækkunina, sem samdist um s.l. sumar og hæstv. ríkisstj. er búin að hirða aftur. Hliðstætt hefur verið búið að bændum. Og það, sem verið er að gera núna, er svo álíka og ef ríkisstj. lögfesti 2% launaskatt, kaupgjaldsskatt, ofan á þetta, sem ég var að lýsa. Við skulum segja, að hún léti þennan 2% skatt renna í íbúðalánakerfið. Ætli menn yrðu ekki ákaflega hrifnir, þætti þetta góð lausn, framúrskarandi góð lausn á íbúðalánamálinu? En þetta frv. um skattlagninguna heitir lausn á lánamálum bænda.

Þessu gjaldi hefur, eins og ég sagði áðan, verið jafnað við útflutningsgjald á sjávarútveginn. Og mér hefur skilizt, að þeir, sem um það ræða í stjórnarherbúðum, vilji halda því fram. að útflutningsgjaldið á sjávarafurðunum verki af sjálfu sér til að lækka nettótekjurnar af vélbátunum og annarri útgerð. Hv. 3. þm. Austf. var eitthvað að tala um þetta í dag, og hann sagði, að ef menn skildu þetta ekki, þá væri það af því, að menn væru enn að hugsa í uppbótakerfinu, sem væri afnumið. En ég held, að þetta þurfi mikillar endurskoðunar við vegna þess, að gengisskráning hér á Íslandi er yfir höfuð miðuð við þarfir útflutningsatvinnuveganna. Og þegar það dæmi er gert upp, hvað gengisskráningin eigi að vera, og miðað við þarfir útflutningsatvinnuveganna, þá er útflutningsgjaldið, sem sjávarútvegurinn greiðir, tekið sem útgjaldaliður inn í dæmið, sem upp er sett um bát eða togara. Það er þess vegna ekkert hliðstætt í þessu.

Útflutningsgjaldið verkar ekki sem skattur á persónulegar tekjur útgerðarmannsins, þegar til lengdar lætur, vegna þess að það er afkoma sjávarútvegsins, sem ræður gengisskráningunni, þ.e.a.s. tekjuskömmtuninni til útflytjendanna, og einnig uppbótunum, ef um uppbótakerfi er að ræða. Það er þess vegna ekkert hliðstætt í þessu, að því er viðkemur áhrifum á afkomu einstaklinganna, sem vinna að landbúnaði á annan bóginn og að sjávarútvegi að hinu leytinu. Segja mætti, að þetta skattgjald, sem ráðgert er að leggja á landbúnaðarvöru í viðskiptum, 0.75%, og á að taka inn í vöruverðið, sé hliðstæðara útflutningsgjaldinu á sjávarútveginn.

En útflutningsgjaldið á sjávarútveginn og þetta 0.75% gjald á landbúnaðarvörur eru alls ekki hættulaus heldur fyrir sjávarútveg og landbúnað, vegna þess, hve erfiðlega sjávarútvegi og landbúnaði gengur að fá verðþarfir sínar viðurkenndar, hvort sem um er að ræða útreikninga á dæmi til grundvallar gengislækkun eða útflutninguppbótum eða þegar um er að ræða að byggja upp verðlagsgrundvöll landbúnaðarins til þess að verðleggja landbúnaðarvörur á innlendum markaði.

Það er af þessum ástæðum, sem sjávarútvegurinn mótmælir útflutningsgjaldinu sterklega og vill ekki, að það sé hækkað. Það er af ótta við, að jafnvel þó að því sé ætlað að koma inn í dæmið, þegar gengi er ákveðið eða útflutningsuppbætur, þá óttast sjávarútvegurinn, að þegar til lengdar lætur komi það þar inn tæplega að fullu, og þess vegna er sjávarútvegsmönnum mjög illa við þetta gjald.

Á sama hátt er enginn vafi á því, að bændum er líka mjög illa við þann toll, sem á að leggja á landbúnaðarafurðir og er hliðstæður útflutningsgjaldinu. Það er látið svo heita í orði kveðnu, að hann eigi að koma inn í verðlag landbúnaðarafurðanna, en við vitum, hvernig gengið hefur fyrir landbúnaðinn að fá nauðsynlegustu kostnaðarliði viðurkennda í landbúnaðarverðlagningunni. Við vitum vel, að það hefur gengið mjög illa, og þess vegna er það til tjóns fyrir landbúnaðinn alveg tvímælalaust að innleiða tolla á landbúnaðarafurðir. Það getur orðið að óbeinu tjóni fyrir landbúnaðinn.

Halda menn kannske, að það verði léttara en áður fyrir bændastéttina að fá tekna til greina nauðsynlega kostnaðarliði í sambandi við verðlagninguna, eftir að búið er að setja á svona landbúnaðarvörutoll? Ég held nú síður, þegar þess er gætt, að erfiðleikarnir við að fá kostnaðarliðina tekna til greina eru einmitt fyrst og fremst fólgnir í því, að þá kemur pressan frá neytendunum út af því, að landbúnaðarverðlagið sé orðið of hátt.

Það er því alveg vafalaust, að þessi tollur, sem ráðgerður er á landbúnaðarafurðirnar, er líka mjög óhagstæður landbúnaðinum, fyrir utan hitt, að það er ósæmilegt að leggja tolla á mjólk og kjöt og aðra slíka vöru. Það hefur aldrei verið gert, fyrr en núv. ríkisstj. kom til.

En núv. hæstv. ríkisstj. hefur lagt söluskatta á fisksoðningu og kjöt ein allra stjórna. Slíkt hefur aldrei komið til mála áður. Og nú er bætt ofan á þessum neyzlutolli á allar landbúnaðarafurðir. Þetta er víst það, sem heitir á máli ríkisstj. að lækka skattana, þ.e. að lækka skatta á þeim félögum, sem hafa gróða, og á hæstu tekjunum, en leggja svo skattana á það, sem menn þurfa að kaupa til fæðis og klæðis, þ. á m. fisksoðninguna og landbúnaðarafurðirnar. Og er það í fyrsta skipti í sögu landsins, sem slíkt hefur verið tolllagt.

Eitt er það, sem sýnir ofboðið, sem gripið hefur hæstv. landbrh. og hans menn í sambandi við þetta mál. þegar það rann upp fyrir þeim, hvað þeir höfðu gert. Það er þetta. tal, sem blandazt hefur inn í þetta mál, um lífeyrissjóð fyrir bændastéttina. Hæstv. ráðherra og hans menn urðu yfir sig hræddir, þegar þeir fundu, hvernig þetta lá, hvað þeir höfðu gert. Þá fóru þeir í ofboðinu allt í einu að tala um lífeyrissjóð og töluðu þannig, að menn áttu helzt að skilja það svo, að þessi greiðsla væri allt í einu orðin að greiðslu í lífeyrissjóð bændanna. Manni skildist, að það væri allt í einu búið að finna ráð til að nota sömu peningana til að lána bændum út, borga vaxtamismun og gengistöp, og svo væri hægt að nota þessa peninga líka til að greiða mönnum lífeyrisgreiðslur.

Hæstv. ráðherra hafði þá nokkurn kafla um þetta í sinni framsöguræðu. En þegar hann hafði bollaþagt um þetta fram og aftur í tíu mínútur eða svo, þá sagði hann allt í einu: En þetta mál er nú annars ekki hér til umræðu. —Ég skrifaði þetta orðrétt eftir ráðherranum. Þar með var það búið. Og síðan hefur ekki verið á þetta minnzt. Og engin tillaga eða neitt liggur hér fyrir frá hæstv. ráðherra og hans mönnum um að breyta til og hætta að láta Þetta fé í sjóðina og láta það í staðinn í lífeyrisgreiðslur til landbúnaðarfólks. Það getur auðvitað meira en komið til greina, og er stórmerkilegt mál að byggja upp lífeyrissjóð fyrir bændastéttina. En það mát verður að leysa í sérstakri löggjöf og ekki blanda því inn í, hvernig afla skuli tekna til þess að standa undir gengistöpum eða standa undir vaxtamismun hjá lánasjóðunum.

Ef byggður yrði upp lífeyrissjóður á vegum landbúnaðarins, sem væri mjög æskilegt, þá gæti náttúrlega vel komið til greina, að sá sjóður, þegar honum yxi fiskur um hrygg, keypti skuldabréf frá ræktunarsjóði eða byggingarsjóði eða einhverjum sjóðum, sem stæðu undir útlánum í landbúnaðinum. En slíkt á ekkert skylt við þessa skattlagningu, sem hér er ráðgerð.

Ég held, hæstv. forseti, að ég hafi minnzt á flest atriði, sem ég hafði hugsað mér að drepa á í þessu sambandi, og skal nú senn láta máli mínu lokið. En ég vil enda með því að benda aftur á það, sem ég benti á í upphafi míns máls, að engum getur dulizt, að sú stórfellda breyting, sem gerð hefur verið á stefnunni í landbúnaðarmálum, hlýtur hreinlega að vera miðuð við það að draga stórkostlega úr uppbyggingu landbúnaðarins og beina uppbyggingunni í landinu í aðrar áttir. Það er alveg augljóst. Er Þá hér verið að framfylgja þeirri stefnuyfirlýsingu, sem af og til hefur komið fram hjá einstöku sjálfstæðismönnum, þó að því hafi aldrei verið flíkað á vegum Sjálfstfl. sem slíks, og kemur það nú allt greinilega í ljós, enda virðist stjórn Stéttarsambands bænda og m.a. sjálfstæðismönnunum í þeirri stjórn vera þetta ljóst. Það kemur afar greinilega fram í álitsgerðinni, sem ég minntist á í upphafi míns máls, að stjórn Stéttarsambandsins sér, að eins og búið er að koma þessum málum, þá hljóti að draga stórkostlega úr uppbyggingu landbúnaðarins. Og þar er gengið svo langt, að því er í raun og veru þar spáð, að það sé ekki hægt, eins og búið sé að koma þessum málum, að byggja upp frá grunni búskap á Íslandi. Það eina, sem komi til greina, sé að halda áfram að byggja upp á þeim jörðum, þar sem eitthvað talsvert sé áleiðis komið. Hitt sé í raun og veru óframkvæmanlegt. Það er þá engin smáræðisbreyting, sem hefur átt sér stað síðan fyrir þremur árum.

Það er enginn vafi á því, að þeir, sem hér að standa, gera sér fullkomlega ljóst, hvað þeir eru að fara. Hitt er annað mál, að þeir eru tvímælalaust staddir á stórhættulegri leið í þessu efni, því að það er ekkert hægt að gera hættulegra fyrir þjóðfélagið en að brjóta niður sjálfstæða bændastétt. Það er ekki hægt að gera neitt hættulegra. Og ég er alveg viss um, að ef ekki verður lagað til eða lagfært í þessum málum, þá stefnir þetta til stórkostlegra vandræða.

Það er grátlegt að hugsa til þess, ef þessar aðfarir verða til þess, að jarðir leggist í eyði í stórvaxandi mæli. En það getur vel farið svo, ef ekki tekst að laga til í þessum málum, áður en allt of langt líður.

Ég vildi á hinn bóginn óska þess, að bændur reyndu umfram allt að þrauka og standa af sér þetta ofviðri, sem nú geisar, í trausti þess, að aðstaða verði til þess að lagfæra Þessi mál, áður en allt of langt líður.