14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta mál mikið, og ég skal reyna að forðast endurtekningar. Það vita það allir þm., að ég hef verið á móti gengislækkunum, og ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, að gengislækkunum fylgir ávallt mikið ranglæti.

Það hafa gengið ásakanir milli manna, hverjum það sé að kenna, að Búnaðarbankinn hefur tapað 156 millj. í gengislækkunum. En ég hygg, að það sé erfitt að eigna það einum flokki, því að krónan hefur verið að falla jafnt og þétt s.l. 20 ár, beint eða óbeint, og á þessu tímabili hafa allir flokkar setið í stjórn, þannig að það er útilokað að kenna það einum flokki. Hitt má vel vera, að flokkarnir beri eitthvað misjafnlega mikla ábyrgð á þessu, en enginn flokkur er algerlega saklaus að minni ætlan. En ranglætið, sem hefur komið fram í þessum gengislækkunum, kemur fram m.a. gagnvart Þessum lánum. Því hvað er orðið af þessum 156 millj.? Þær hafa óbeint runnið til þeirra, sem tekið hafa lánin, meðan krónan var verðmeiri, og þeir geta nú borgað með verðminni krónu. í þessu liggur ranglætið. Nú á að bæta við þetta ranglæti. Það á að bæta því við, að þeir, sem taka nú lán, verða að borga 61/2% vexti í stað þess, að við, sem tókum lánin fyrir nokkrum árum, þurfum að borga 3–4% í vexti. Bóndi, sem tekur nú 300 þús. kr. lán til að húsa jörð sína, sem er ekki mikið, miðað við það, sem hús kosta, og sennilega mundi hann fá meira, ef hann þyrfti að byggja bæði peningshús og íbúðarhús, hann þarf að borga 7500 kr. hærri vexti en bóndi, sem hefur fengið 300 Þús. kr. lán með 4% vöxtum, og þetta er allmikil upphæð. Við þetta á svo að bæta 1% gjaldi af brúttótekjum bóndans, sem á að renna til Búnaðarbankans. Það má vel vera, að ekki væri ósanngjarnt, að þeir menn borguðu 1%, sem hafa fengið verðmiklar krónur og geta nú greitt þær með verðlitlum krónum. En hitt hlýtur öllum að vera ljóst, að er fullkomið ranglæti, að láta þá bændur, sem nú eru að taka lán, greiða 61/2%. Við skulum vona, að þeir verði að endurgreiða þau lán, sem þeir fá núna, án þess að ný gengisfelling komi til greina, eða endurgreiða í raun og veru það verðmæti, sem þeir fá lánað.

Í þessu liggur höfuðranglætið. Ég álít, að þeir bændur, sem hafa fengið lánin áður fyrr, geti ekki verulega kvartað, því að þeir hafa sloppið svo vel, en það er óbærilegt fyrir þá, sem nú eru að taka lánin, að þurfa að borga meira en þriðjungi hærri vexti en hinir, sem hafa áður tekið lánin, auk þeirra hlunninda, sem hinir fá með því að greiða verðmiklar krónur með verðlitlum krónum. Það er þetta, sem ég hef sérstaklega út á að setja. Enn fremur vildi ég benda þeim mönnum, sem ráða nú hér, sem eru hæstv. stjórnarliðar og ríkisstj., á það, að það er útilokað, meðan tekjur bænda eru ekki meiri en þær eru núna, að ætla þeim að greiða u.þ.b. 4% af raunverulegu kaupi sínu. Það er til bændahallarinnar, til búnaðarsambandanna og til Stéttarsambandsins, 1% af brúttótekjum. Svo á að bæta öðru prósenti við. Þetta er útilokað. Bændur hafa um það bil 86 þús. á næsta ári í kaup. Þeim er ætlað það, hvort sem þeir fá það eða ekki, og það er alltilfinnanlegt að taka 4% af þessari upphæð. Þetta er ekki meira en það, að menn geta rétt séð fyrir sínum heimilum. Vitanlega hafa ekki allir bændur þetta kaup, því að tekjur bænda eru mjög misjafnar. Þetta er aðeins meðaltalið, þannig að sumir hafa miklu minna. Ef ríkisstj. beitti nú áhrifum sínum til þess að samræma vexti af þessum lánum, þannig að allir fengju lánin fyrir 4%, þá álít ég, að frá sanngirnissjónarmiði séð hefðum við ekki yfir svo miklu að kvarta. Það er ranglæti, sem er beitt gagnvart þeim mönnum, sem nú taka lánin, miðað við hina, sem hafa fengið þau áður, að bæta því ofan á að láta þá menn, sem taka lánin nú, greiða sinn hlut af hallanum í Búnaðarbankanum eða réttara sagt greiða að nokkru leyti fyrir þá, sem hafa fengið lánin áður. Það er ekki sanngjarnt.

Nú halda e.t.v. sumir því fram, að það sé ekki verið að greiða gengistöpin. En ég hygg, að það hefði engum dottið í hug að fara að leggja þetta eina prósent á, ef bankinn hefði ekki orðið fyrir svona miklum gengistöpum. Þó að e.t.v. ríkisstj. haldi því fram, að ríkissjóður leggi beint og óbeint fram fjárhæð, sem nemur tapi vegna gengislækkananna, þá er það óbein afleiðing gengislækkananna, að það er lagt til að taka 1% af brúttótekjum bændanna. Ég tel þetta gjald dálítið vafasamt frá lagalegu sjónarmiði séð, eins og ég talaði um hér um daginn. Það hefur verið greitt til fiskveiðasjóðs yfir lengri tíma 1.8%, var raunar ekki nema 1%, á meðan útflutningssjóðurinn var í fullum gangi, en það hefur verið greidd nokkur fjárhæð til fiskveiðasjóðs, og útvegsmenn hafa sætt sig við það. Þar fyrir er ég engan veginn sannfærður um, að þetta sé lögleg skattheimta. Hér er í raun og veru ekkert verið að gera annað en taka eignir manna og afhenda þær lánsstofnun, sem þeir eiga ekki og ráða ekki yfir. Það er ekki annað verið að gera. Úr þessu hefur ekki verið skorið lagalega. Útgerðarmenn sættu sig við þetta, meðan þessu gjaldi var stillt í hóf. Nú var lagt til með brbl., sem voru gefin út s.l. sumar, að þetta gjald yrði tvöfaldað, því að það átti að tvöfalda hlutatryggingasjóðsgjaldið líka, og við það hygg ég að útgerðarmenn geti ekki unað.

Ég skal ekkert segja um, hvað bændur gera með þetta eina prósent, en ég hygg, að Þeir mundu sýna nokkurn skilning á þessum hlutum, ef vextir væru samræmdir þannig, að þeir, sem nú eru að hefja búskap, gætu búið við eitthvað svipuð vaxtakjör og þeir, sem eldri lánin hafa. Það má vel vera, að þetta yrði örðugt fyrstu árin, en ég hygg þó, að þetta mætti með einhverju móti takast, ef vilji væri fyrir hendi. Og fyrir mitt leyti get ég lýst því yfir, að ég væri afar fús til að láta 2% af mínu kaupi sem bóndi, ef það mætti verða til þess, að þeir fengju viðunandi vaxtakjör, sem væru nú að hefja búskap. Fyrst verðum við að hugsa um þá, sem eru að hefja störf sín, það vitum við allir, sem höfum stundað búskap, að erfiðust eru frumbýlingsárin, þá sverfur fátæktin mest að mönnum.

Ég býst ekki við því, að þetta hafi áhrif á gang þessa máls, en eftirtekt vildi ég vekja á þessu. Og ég hygg, að það sé ekki hægt annað en vinna að því í framtíðinni að reyna að samræma þessa vexti, þannig að þjóðfélagsþegnarnir geti búið við nokkuð svipuð kjör, eftir því sem við verður komið.