14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1597)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar lög um Búnaðarbanka Íslands voru síðast til meðferðar hér á hinu háa Alþingi og til stóð að kjósa fimm menn í bankaráðið, kom fram till. á þingi um það, að bændum landsins eða samtökum þeirra yrði gefinn kostur á að kjósa einn af þessum fimm mönnum, þannig að einn af fimm bankaráðsmönnum í Búnaðarbankanum yrði kosinn eða tilnefndur af Stéttarsambandi bænda. Þessi till. hlaut þá ekki samþykki á Alþingi.

Nú sýnist mér vera aukið tilefni til þess að taka þessa till. upp að nýju eða svipaða, þar sem ætlazt er til þess í frv. því, sem fyrir liggur, að bændur greiði sérstakt framlag eða sérstakan skatt inn í stofnlánadeild landbúnaðarins í Búnaðarbankanum. Þó að ég sé ekki slíku ákvæði fylgjandi, geri ég ráð fyrir því, að það muni nú hljóta samþykkt hér á þingi sem og frv., sem fyrir liggur, og þá finnst mér eðlilegt og sanngjarnt, að íhuguð væri á ný þessi till., sem fyrr hefur fram komið, um þátttöku bænda í stjórn bankans, sem jafnframt á að fara með stjórn stofnlánadeildarinnar. Ég þykist ekki þurfa að fara um það mörgum orðum. Till. liggur fyrir á þskj. 750 og er þess efnis, að einn af bankaráðsmönnum skuli skipaður eftir tilnefningu Stéttarsambands bænda, og ákvæðið til bráðabirgða á sama þskj. fjallar um Það, að umboð bankaráðsmanna falli niður, til þess að þessi skipan geti komið til framkvæmda þegar eftir að þessi væntanlegu lög hafa tekið gildi.

Skal ég svo ekki hafa um þessa brtt. fleiri orð, en vænti þess, að henni verði nú vel tekið, þar sem hér er um augljóst sanngirnismál að ræða.

Ég hef ekki áður tekið til máls um þetta frv., en þar sem ég er nú að mæla fyrir þessari brtt., vil ég nota tækifærið til þess að fara nokkrum orðum um efni frv. almennt nú við þessa 3. umr. Mér þykir leitt, að hæstv. ráðh. virðist ekki vera staddur hér í d., en hefði þótt viðkunnanlegt, að hann heyrði það, sem ég nú segi.

Það sannast víst á hæstv. ráðh. og þeim, sem honum standa næstir í þessu máli, að hverjum þykir sinn fugl fagur. Það er svo að heyra á ráðh., að með samþykkt þessa frv. renni upp nýir og betri tímar í lánsfjármálum bænda. Meiri hl. hv. landbn. segir í nál. sínu, sem lagt var fram við 2. umr., á þskj. 666, að nú séu að skapast þáttaskil í lánamálum landbúnaðarins, eins og það er þar orðað, og að hin væntanlega stofnlánadeild geti leyst allar lánsfjárþarfir landbúnaðarins, eins og það er líka orðað í þessu þskj. Ráðh. hæstv. og hans menn eru sem sagt mjög ánægðir með sína frammistöðu og finnst, að aðrir eigi að vera það líka og þá sérstaklega bændur og trúnaðarmenn þeirra. Þeim finnst, að bændur eigi að vera ánægðir og þakka fyrir sig. En bændur og fulltrúafundir þeirra virðast vera á öðru máli. Þeim finnst þessi fugl ekki fagur, að því er virðist. Þeir hafa sitt af hverju við þetta frv. að athuga og hafa látið það í ljós, m.a. vegna þess, að þeir hafa verið spurðir um álit sitt á málinu. Sumt telja þeir að vísu til bóta í frv., en finna að öðru, og sumu hafa þeir mótmælt. En ráðh. hæstv. virðist þola illa mótmæli og alveg sérstaklega mótmæli frá bændum, að því er virðist. Tónninn hjá honum er nánast hið gamalkunna: „Hafðu, bóndi minn, hægt um þig“ o.s.frv. Þetta finnst mér vera viðkunnanlegur tónn hjá hæstv. ráðh. í þessu máli, og ég vil alveg sérstaklega leyfa mér, áður en þessum umr. lýkur, að finna að þeim ummælum, sem hæstv. ráðh. hefur haft um búnaðarþing eða meiri hluta þess í sambandi við ályktun þess um þetta mál. Þau ummæli eru algerlega óviðeigandi. Hæstv. ráðh. og sumir úr hans liði hafa komizt að orði á þá leið, að í ummælunum fólst, að fulltrúarnir, sem ályktunina gerðu, hafi sett heiður búnaðarþings í hættu. m.ö.o., að afstaða þeirra sé óheiðarleg. Fjórir menn eru svo sagðir hafa bjargað heiðri búnaðarþings með því að vera þar í minni hluta. Þó greiddu þessir fjórir menn ekki atkvæði með 1% skattinum, sem mest er nú rætt um. Mér virðist, eins og ég sagði, að þessi ummæli ráðh. um búnaðarþing séu með öllu óviðeigandi og að þeim beri að mótmæla hér á Alþingi, og hann mætti þá í því sambandi líka minnast þess, að a.m.k. sumir af þeim, sem tóku þátt í atkvgr. meiri hl. á búnaðarþingi, eru hans eigin flokksmenn.

Hæstv. landbrh. verður að sætta sig við það, þó að hér beri á milli hans og búnaðarþings eða stéttarsambandsstjórnar. Hann er ekki sjálfur bóndi og hefur ekki verið og ekki fulltrúi bænda í ríkisstj., heldur er hann þar fulltrúi Sjálfstfl. En þeir, sem á búnaðarþingi sitja og í stéttarsambandsstjórn, eru fulltrúar bænda, kjörnir þangað af þeim og hafa þar því þá sérstöku skyldu að gæta hagsmuna bændastéttarinnar og túlka sjónarmið hennar. Þeir, sem vilja gera sér grein fyrir því hér á Alþingi, hvort það sé æskilegt fyrir landbúnaðinn, sem hér er fram flutt, hljóta að taka meira mark á dómi þessara manna, fulltrúa bændanna sjálfra, heldur en dómi hæstv. ráðh., ef í milli ber, og það alveg að honum ólöstuðum. Og þegar ég fyrir mitt leyti greiði atkvæði um þetta frv. eða einstök ákvæði þess eða hef gert, þá hef ég talið rétt og sjálfsagt að gefa gaum að því, sem bændurnir og fulltrúar þeirra segja, og taka fyrst og fremst tillit til þess, því að hér er um að ræða löggjöf, sem bændastéttin á að búa við og hefur fyrst og fremst áhrif á atvinnu hennar, landbúnaðinn, og framtíð hans. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. um að gera svo vel að gera hlé á ræðu sinni) — [Fundarhlé.]

Þegar ég áðan gerði hlé á ræðu minni eftir ósk hæstv. forseta, var ég að ræða um ályktanir, sem búnaðarþing og Stéttarsamband bænda hafa gert varðandi þetta mál. Meginatriðið í ályktun búnaðarþings og áliti stéttarsambandsstjórnar, að því leyti sem þau atriði voru tekin til meðferðar þar, er, að telja verði, að landbúnaðurinn eigi fullan rétt á að fá stofnlán af sameiginlegu fjármagni þjóðarinnar, en eigi ekki að þurfa að bera sérstakan framleiðsluskatt í því skyni, — að nauðsynlegt sé, að vextir af stofnlánum landbúnaðarins séu lágir og að þjóðfétagið, en ekki landbúnaðurinn, eigi að bera töp vegna gengisbreytinga, sem þjóðfélagið ákveður. Þetta er það, sem hæstv. ráðh. hefur mislíkað. Samkv. frv. hans á að mynda lánsfjármagnið að verulegu leyti með því að leggja framleiðsluskatt á bændur, rúmlega 2% af kaupi þeirra, og ákvæði byggingarsjóðs- og ræktunarsjóðslaganna um 31/2 % og 4% vexti afnumin, því að í áætlun þeirri, sem frv. fylgir og það er byggt á, er því slegið föstu, að hin mikla vaxtahækkun frá árinu 1960 upp í 6 og 61/2 % skuli óbreytt standa a.m.k. allt fram til ársins 1975, þ.e. í 13–14 ár enn. En mér er spurn: Hví skyldu bændur ekki eiga rétt á stofnlánum af hinu sameiginlega fjármagni þjóðarinnar? Leggja ekki bændur eða venzlafólk þeirra og starfsfólk í sveitunum sparifé sitt, það sem það er, í lánsstofnanir þjóðarinnar, og heimtar ekki hæstv. ríkisstj. sinn fasta hlut af innlánsfé sparisjóða og innlánsdeilda um land allt inn í seðlabanka sinn í Reykjavík, þ. á m. innlánsfé sveitafólksins? Ekki ber á öðru en svo sé.

Hæstv. landbrh. sagði í ræðu á Alþingi árið 1958, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hluti bændastéttarinnar berst í bökkum, eins og kallað er, hefur ekki fjármagn aflögu, verður, eins og kunnugt er, að neita sér um ýmis þægindi, sem talin eru sjálfsögð öllum almenningi til handa hér í Reykjavík. Ég hef ferðazt víða um landið,“ sagði ráðh., „og það er ekki frekar í mínu kjördæmi heldur en öðrum landshlutum, sem þetta blasir við, að þrátt fyrir allar framfarir síðustu ára, Þrátt fyrir miklar byggingar í sveitum landsins síðustu árin, þrátt fyrir aukna véltækni og framfarir á ýmsum sviðum, þá blasir það við víða, þar sem maður kemur, að á heimilin vantar það, sem hér í Reykjavík a.m.k. er talið til brýnustu þæginda. Það vantar vélar, það vantar tæki, það vantar betri byggingar, og það vantar ýmsar framkvæmdir enn í sveitum landsins, sem kalla að og nauðsynlegt er að koma í framkvæmd, til þess að fólk uni þar betur hag sínum en verið hefur undanfarið.“

Þetta sagði ráðherrann þá. Þetta var þá sagt því til stuðnings, að bændur væru ekki aflögufærir, þ.e.a.s. árið 1958. En mega þeir þá frekar við því nú en þá, að tekið sé rúmlega 2% af kaupi þeirra ár hvert ofan á allt, sem síðan hefur gerzt og hæstv. ráðh. hefur átt sinn þátt í, þegar flest, sem kaupa þarf til framkvæmda, og margt, sem kaupa þarf til heimilanna, hefur hækkað um 50–100% og þegar vextir af landbúnaðarlánum hafa hækkað um þriðjung og lánstíminn styttur. Hæstv. ráðh. ætti að lesa þessa gömlu ræðu sina og fleiri gamlar ræður, sem hann flutti, þegar hann var ekki ráðherra, og hann ætti líka að lesa það, sem hann sagði þá sjálfur um, að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum til fiskveiðasjóðs væri alls ekki sambærilegt við það að leggja svona framleiðslugjald á landbúnaðarafurðir. Honum fannst það þá alls ekki sambærilegt. Nú finnst honum allt annað.

Heldur fannst mér það undarlegt, þegar hv. frsm. meiri hl. landbn. var við 2. umr. þessa máls að tala um, að álagning 1% skatts á landbúnaðarframleiðslu mundi stuðla að félagshyggju með bændum. Frjáls framlög bera vott félagshyggju, valdboðnir skattar ekki. Varla eru íslendingar helmingi meiri félagshyggjumenn nú en fyrir fjórum árum, þó að ríkisstj. innheimti nú 100% meiri skatta en þá voru innheimtir að krónutölu. Skal ekki nánar um Það rætt.

Eins og ég sagði áðan, stendur það í nál. meiri hl., að um þáttaskil sé að ræða í lánsfjármálum landbúnaðarins. Þetta er satt, og það er þess vert, að um það sé farið nokkrum orðum. Árið 1901 bjuggu 4/5 hlutar þjóðarinnar í sveitum og þorpum með færri íbúa en 300, nú aðeins 1/5. Hinn mikli fólksflutningur úr sveitunum framan af öldinni stafar eigi að litlu leyti af því, að á fyrsta fjórðungi aldarinnar skorti landbúnaðinn tilfinnanlega nothæft fjármagn til þess að færa starf sitt í nútímahorf og byggja upp hina gömlu torfbæi, samhliða því sem aðrir atvinnuvegir fengu og gátu notað fjármagn úr nýstofnuðum bönkum í höfuðstaðnum og nágrenni hans. Á þriðja tug aldarinnar var svo loks af fullum krafti hafin barátta fyrir því að veita fjármagni inn í landbúnaðinn. Mönnum var þá ljóst, að þetta fjármagn varð að vera til langs tíma og með lægri vöxtum en almennt gerist. Þetta kostaði baráttu á þeim tíma, mikil átök, en árangurinn er líka mikill. En fyrir rúmum tveim árum urðu þáttaskil á þessu sviði. Þau þáttaskil standa í beinu sambandi við þá breytingu, sem þá nýskeð hafði verið gerð á kjördæmaskipun landsins. Með einni grein í „viðreisnarlöggjöfinni“ var ríkisstj. heimitað að hafa að engu ákvæði landbúnaðarlaga um vexti og lánstíma í sjóðum Búnaðarbankans. Sú heimild var þegar notuð. Vextirnir voru hækkaðir um meira en þriðjung og lánstíminn styttur. Nú með þessu frv. á svo að Þurrka út þessi gömlu ákvæði, sem til þessa hafa þó fengið að standa þar, um lága vexti á stofnlánum landbúnaðarins. Um þá eiga ekki lengur að vera nein sérákvæði til í íslenzkum lögum, og þar á ofan eiga svo bændur að borga lánsfjárskatt af framleiðslu sinni. Þetta á að lögfesta í stað hinna fyrri ákvæða, sem í lögum eru um lága vexti landbúnaðinum til handa. Og þegar lausaskuldum bænda er breytt í föst lán, greiða þeir hærri vexti en aðrir. Þetta eru þáttaskil. Það er búið að breyta um stefnuna gagnvart landbúnaðinum, og með þessu frv. er sú stefnubreyting innsigluð. Þetta eru mikil tíðindi og ill fyrir bændastéttina, og ef breyta skal stefnunni enn á ný frá því, sem nú er ákveðið, þá mun það kosta nýja baráttu, eins og fyrir 25 árum.

Hæstv. landbrh. er merkisberi þessarar nýju stefnu, og hann ber ábyrgð á því, að nú verður enn á ný undir högg að sækja fyrir bændastéttina og þá, sem styðja vilja mál hennar. Það getur orðið erfitt að koma því aftur í lag, sem nú hefur verið spillt eða er í þann veginn að spillast. Það er eins og hæstv. landbrh. geri sér ekki grein fyrir því, að það hefur ekki verið neitt einsdæmi á Íslandi, að sjálfsagt hafi verið talið, að landbúnaðurinn nyti lána til langs tíma með lágum vöxtum, auk margs konar annarrar aðstoðar frá Þjóðfélaginu. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir því, að í öllum nálægum löndum hefur verið rekin og viðurkennd sérstök landbúnaðarpólitík, þar sem í ýmsum tilfellum er gengið lengra í stuðningi við landbúnaðinn en hér tíðkaðist jafnvel fyrir „viðreisn“. Þó er hér um lönd að ræða, sem eru ekki talin lakari til búskapar en land vort. lönd með hlýrra loftslag og frjóa jörð, fullræktuð lönd, sum a.m.k., þar sem bændastéttin stóð einnig að öðru leyti á gömlum merg, að því er varðar t.d. mannvirkjagerð. Mér finnst, að það hefði farið vel á því, að hæstv. landbrh. hefði látið fylgja þessu frv. sínu grg. um Þau kjör, sem bændur njóta t.d. annars staðar á Norðurlöndum og víðar í Vestur-Evrópu; að því er lánskjör varðar, og hvort landbrh. þeirra landa leggja á þá lánsfjárskatt, á framleiðsluna, eins og hann ætlar að gera hér, og að hann hefði þá reynt að gera sér grein fyrir því, hvaða áhrif hin nýja vaxtahækkun og skattastefna mundi hafa á samanburð framleiðslukostnaðar hér og þar. Þetta hefur ekki verið gert. Þó hygg ég, að auðvelt hefði verið að afla slíkra upplýsinga. Þetta gerir t.d. hæstv. félmrh., þegar hann lætur endurskoða tryggingalöggjöf. Þá lætur hann afla gagna frá öðrum löndum um sams konar löggjöf þar. Og þetta gerir hæstv. fjmrh., þegar hann lætur endurskoða skattalög. Þá lætur hann athuga skattalöggjöf annars staðar og gera grein fyrir henni, um leið og hann leggur fram frv. sín. En þetta virðist hafa gleymzt í sambandi við þetta frv. um stofnlánadeild landbúnaðarins, að afla upplýsinga um sams konar mál erlendis og gera grein fyrir niðurstöðum slikra rannsókna, alveg eins og það hefur gleymzt að hafa samráð við bændur og þeirra trúnaðarmenn um undirbúning þessa máls, t.d. látið undir höfuð leggjast að leggja málið fyrir búnaðarþing, áður en það var flutt, þó að búnaðarþing væri þá komið saman til fundar hér í Reykjavík. Svo er hæstv. ríkisstj. eftir á full úlfúðar og ónota í garð bænda, þegar þeir nú láta í ljós álit sitt.

Hér er mikið talað um það, að lánasjóðir hafi búið við tekjuhalla, að þeir hafi ekki borið sig og komizt í skuldir. Það dregur enginn í efa, að með háum vöxtum og lánsfjárskatti á bændur sé hægt að skapa digra sjóði í Búnaðarbankanum, láta þá bera sig vel. En það var ekki tilgangur íslenzkrar landbúnaðarlöggjafar og brautryðjenda á því sviði að koma upp ríkum banka. Þó að það sé gott að hafa ríka banka, þá var það ekki tilgangurinn að koma upp ríkum banka á kostnað bændanna. Tilgangurinn var að bæta hag landbúnaðarins, að skapa honum skilyrði til vaxtar og treysta með því eina af máttarstoðum bjóðfélagsins. Og það er ekki hægt að greiða atkv. með stofnlánadeild. sem byggir tilveru sína á allt öðrum sjónarmiðum.