14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ágreiningurinn í þessu máli er um skattinn á bændur og nýja söluskattinn á landbúnaðarafurðir. Um þetta stendur deilan. Þetta er ekki flókið mál. Hæstv. landbrh. og fleiri hafa í þessum umr. minnzt á framlag bænda til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda vegna byggingar bændahallarinnar. Það kemur þessu máli ekkert við. Það er allt annað og óskylt mál. Það gjald var á lagt eftir óskum búnaðarþings og Stéttarsambands bænda og fer til að koma upp byggingu, sem bændasamtökin eiga.

Sýnt hefur verið fram á, að engin þörf er fyrir þennan skatt, sem á að lögfesta samkv. þessu frv. Ef framlagið úr ríkissjóði til sjóða Búnaðarbankans væri nú jafnmikið í hlutfalli við ríkistekjurnar og það var 1929, ætti það að vera 49 millj. kr. á ári. Það er hægt að komast af með helmingi minna ríkisframlag nú. Ríkið hefur áreiðanlega ekki síður efni á því nú en fyrir 33 árum að leggja fram nokkurt fé til lánasjóðanna, svo að þeir geti veitt bændum lán með lágum vöxtum til þess að rækta og byggja landið. Og það er ákaflega auðvelt að útvega sjóðunum starfsfé að láni, Þar sem innstæðufé í bönkum og sparisjóðum er nú hátt á 4, þús. milljóna. Hér er því ekkert fjárhagslegt vandamál á ferð, engin þörf fyrir aukaskatt á bændur og viðbótarsöluskatt á landbúnaðarvörur. Búnaðarþing hefur mótmælt skattinum, Stéttarsamband bænda einnig. Ef skatturinn verður í lög tekinn, munu bændur og félög þeirra vafalaust halda áfram að mótmæla, þar til þessum rangláta skatti verður af þeim létt.