14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég held, að hv. þm. Norðurl. v., sem hér talaði síðast, hafi misskilið nokkuð ummæli, sem fallið hafa í Þessum umr. varðandi vaxtamál. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að í því frv., sem fyrir liggur, er ekki ákvæði um vaxtahæð í stofnlánadeild landbúnaðarins. Þvert á móti eru afnumin ákvæði, sem í lögum hafa verið um þessa vexti, 31/2% í byggingarsjóði og 4% í ræktunarsjóði, Þannig að það er nú á valdi stjórnarvalda, hverjir vextirnir verða, eins og raunar hefur verið síðustu tvö árin, en þá hafa stjórnarvöldin ákveðið vextina 6% í byggingarsjóði og 61/2% í ræktunarsjóði, og það eru þau vaxtakjör, sem nú gilda. En þessu frv, fylgir grg., og í þeirri grg. eru birtir útreikningar langt fram í tímann eða allt fram til ársins 1975, og eiga þessir útreikningar m.a. að sýna þann höfuðstól, sem stofnlánadeildin verður búin að eignast að þessum tíma liðnum. Og það hefur margsinnis verið talað um það og mikið gert úr því af hæstv. ráðh. í þessum umr., hve stór þessi höfuðstóll verði orðinn eftir 14 ár, nokkur hundruð millj. kr. En upphæð þessa höfuðstóls eftir þennan tíma byggist einmitt á því, að vextirnir verði háir. Hún byggist á því. Öll áætlunin byggist á því, að vextirnir verði næstu 14 árin háir. Ef þeir lækka, er þessi áætlun um leið hrunin. Hún byggist á háum vöxtum og á framleiðslugjaldi bænda. Að öðrum kosti er ekki lengur hægt að tala um þennan nokkur hundruð millj. kr. höfuðstól. Þess vegna er það hluti af þessu máli frá hálfu hæstv. ríkisstj. og hluti af áætlun hennar, að vextirnir haldist þetta háir langt fram í tímann.