31.10.1961
Neðri deild: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins nota þetta tækifæri til þess að fagna þeirri lausn handritamálsins, sem nú má telja víst að fáist, þrátt fyrir þann drátt, sem á því máli verður og mönnum er kunnugt um. Mér skilst það liggja þannig fyrir, að það megi nú teljast vist, að lausn fáist á þeim grundvelli, sem lagður hefur verið. Er það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni, bæði Þeim, sem sitja á Alþingi, og öllum íslendingum.

Ég held við ættum vel að geta skilið Það hér, að Það er ekkert óeðlilegt, þó að það hafi ekki allir verið á einu máli í Danmörku um, hvort eða hvernig afhenda skyldi handritin. Ég vil a.m.k. fyrir mitt leyti láta í ljós þá skoðun, að það dragi ekkert úr þeim sóma, sem danska þjóðin mun af því hafa að afhenda handritin íslenzku þjóðinni, þótt nokkur ágreiningur hafi orðið þar í landi um málið.

Ég álít, að það sé alveg sérstök ástæða líka til að minnast þeirra manna, sem hafa tekið á sig það erfiði, þá erfiðleika og þau óþægindi, sem því fylgja að berjast fyrir máli, sem ágreiningur er um, svo sem ýmsir merkir stjórnmálamenn í Danmörku hafa gert í sambandi við Þetta mál.

Ég ætla að leggja út í að nefna tvö nöfn í því sambandi og Þá fyrst nafn Jörgens Jörgensens, fyrrverandi menntmrh., og þá forsætisráðh., Kampmanns, því að mér er það ljóst, að þótt Jörgen Jörgensen hafi verið oddamaður fyrir þessu máli með miklum drengskap og skörungsskap, hefði það ekki dugað, ef forsrh. Dana, Kampmann, sem er form. Sósíaldemókrataflokksins þar í landi, hefði ekki tekið svo rösklega í streng sem raun varð á. Og svo hafa margir fleiri ágætir menn stutt að þessari lausn þar í landi.

Ég gat ekki stillt mig um að segja örfá orð um málið og gang þess af því tilefni, að hér er lagt fram frv. um handritastofnunina, og mér hefur ekki gefizt kostur á að láta nein orð falla hér á þingi um gang þessa máls fyrr en núna.

En um frv. vil ég aðeins segja, að ég lýsi stuðningi mínum við það að meginstefnu til að koma hér á fót handritastofnun. Vitaskuld verður að búa vel að handritunum og koma því þannig fyrir, að þeir, sem áhuga hafa á þeim málum, geti starfað að þeim með myndarskap. En ég geri ráð fyrir því, að einstök atriði frv. verði að sjálfsögðu skoðuð í nefnd.