04.12.1961
Neðri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga er gamall kunningi okkar. Í 1. gr. frv. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilt að innheimta á næsta ári nokkur gjöld með viðauka. Sömuleiðis eru ákvæði í 3. gr. um, að bifreiðaskattur og fleiri gjöld skuli innheimt á næsta ári einnig með viðaukum. Í 4. gr. er einnig ákvæði um hækkanir á tollum og heimild til að fella niður ýmis aðflutningsgjöld af fáeinum vörutegundum. Þau ákvæði, sem ég hef hér nefnt, hafa öll verið í lögum undanfarin ár og gilda fyrir árið, sem nú er að liða. Lagaákvæði þessi hafa um allmörg ár verið framlengd fyrir eitt ár í senn.

En í 5. gr. er ákvæði, sem ekki hefur áður verið í lögum um bráðabirgðabreytingu og framlengingu nokkurra laga. Í 5. gr. segir, að gilda skuli til ársloka 1962 ákvæði um 8% viðbótarsöluskatt á innfluttum vörum. En slík ákvæði eru nú í bráðabirgðaákvæðum við lög nr. 10 frá 1960, um söluskatt.

Hér er komið eitt af vandræðabörnum hæstv. ríkisstj., sem hún ætlar að hola niður á þessum stað. Fyrir tæpum tveimur árum, þegar stjórnin lagði fyrir Alþingi frv. til fjárlaga fyrir árið 1960, lét hún það fylgja því frv. í athugasemdum, að ekki væri áformað að breyta söluskatti af innflutningi. En það góða áform að hækka ekki söluskattinn var fljótlega lagt á hilluna, því að fáum vikum síðar lagði stjórnin fyrir þingið frv. sitt um söluskatt, og var þar m.a. lagt til, að þessi söluskattur af innflutningi yrði meira en tvöfaldaður. Átti það þó í fyrstu aðeins að gilda fyrir árið 1960 og gefið í skyn, að hann mundi ekki verða framlengdur. Svo fór þó, að á síðasta þingi var þessi viðbótarsöluskattur framlengdur fyrir árið, sem nú er að líða. Og enn er svo óskað framlengingar á þessum skatti.

Söluskattur í heild hefur hækkað ákaflega í tíð núv. ríkisstj. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 1960 hafa verið innheimtir söluskattar á því ári að upphæð um það bil 439 millj., þar af fóru 56 millj. í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en hitt í ríkissjóðinn. Og þetta fer hækkandi. Í fjárlögum fyrir 1961 er áætlað, að söluskattarnir geri alls 509.5 millj., þar af í ríkissjóð 438½ millj. Og í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, frv. til fjárlaga fyrir 1962, er gert ráð fyrir því, að söluskattarnir nemi í heild 553 millj. kr., þar af í ríkissjóð 475 millj., en 78 í jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þetta er því mikið fé, sem innheimt er með þessum hætti.

Þegar ákvæði um viðbótarsöluskattinn af innflutningi var framlengt á síðasta þingi, þá tel ég, að hæstv. stjórn hafi haft að forminu til rétta aðferð við það. Hún bar þá fram frv. um breyt. á l. um söluskatt, en í þau lög var þetta ákvæði upphaflega sett. Stjórnin bar á síðasta þingi fram frv. um það, að framlengingin yrði ákveðin í söluskattslögunum sjálfum, breytingum á þeim. En eins og áður segir, þá er nú breytt til að þessu leyti. Nú er það ætlun stjórnarinnar að koma þessu ákvæði inn í það frv., sem hér liggur fyrir, en það má í raun og veru segja, að þær álögur, sem um er að ræða í því frv., séu orðnar fastir tekjustofnar hjá ríkinu, þó að sá háttur hafi verið á hafður undanfarið að framlengja lagaákvæðin fyrir eitt ár í senn. Ég tel, að ef stjórnin telur þess þörf að leggja á þennan viðbótarsöluskatt enn á næsta ári að meira eða minna leyti, þá hefði hún átt að hafa sama hátt á og í fyrra að flytja um þetta sérstakt frv. um breytingu á söluskattslögunum að þessu leyti. Það er einmitt brýn þörf að taka þau lög til endurskoðunar, ýmis ákvæði þeirra. Það er þörf á því að koma þar inn ákvæðum um fleiri undanþágur en nú eru fyrir vissar vörur. Það væri einnig þörf á því að setja inn í þau lög ákvæði um það, að skýrslur um álagningu skattsins skuli liggja frammi almenningi til sýnis, á sama hátt og skýrslur um álagðan tekjuskatt og útsvör liggja árlega frammi í þeim skattumdæmum, þar sem gjöld þessi eru á lögð. Þetta tel ég að þyrfti að gera, því að í því væri fólgið nokkurt aðhald fyrir þá, sem kunna að vilja skjóta sér undan að skila söluskattinum, sem þeir innheimta fyrir hið opinbera.

Ég tel af þessum ástæðum ekki rétt að ákveða framlenginguna á viðbótarsöluskattinum í því frv., sem hér liggur fyrir, og flyt till. um það á þskj. 147, að 5. gr. frv. verði felld úr því. Verði hins vegar ekki á það fallizt af hv. þdm., þá flyt ég einnig á sama þskj. varatill. Hún er um það, að við 5. gr. bætist: „Af hjóladráttarvélum og hlutum til þeirra, nr. 12a og 12b í 72. tollskrárkafla, greiðist enginn söluskattur.“

Eins og ég gat um áður, tel ég, að það þyrfti að gera ýmsar breytingar á söluskattslögunum. Það er erfitt að koma því við að flytja slíkar tillögur, þegar ákvæðinu er skotið aðeins inn í eina grein í frv., eins og það, sem hér liggur fyrir. Ég hef því að svo stöddu a.m.k. aðeins flutt í minni varatillögu till, um það, að hjóladráttarvélar og hlutar til þeirra verði undanþegin söluskatti. Þegar hér var til meðferðar fyrir skömmu frv. ríkisstj. um lækkun aðflutningsgjalda af ýmsum vörum, bar ég fram till. um það, að dráttarvélarnar yrðu gerðar tollfrjálsar. Þessi till. mín var felld, en ég vil hér gera tilraun til þess að fá þessi nauðsynlegu tæki undanþegin söluskatti. Eins og ég gerði grein fyrir í umr. um það mál, eru opinber gjöld af þessum dráttarvélum og hlutum til þeirra svo há, að hneykslanlegt er. Af dráttarvél, sem nú kostar rúmlega 105 þús. kr. til kaupandans hér, fara 26850 kr. í tolla og söluskatt, eða meira en fjórði hlutinn af heildarverðinu. Og af þessum álögum til hins opinbera eru 16377 kr. söluskattar. Væntanlega þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þdm., að dráttarvélarnar eru ómissandi tæki fyrir þá, sem stunda landbúnað. Það má segja, að það sé ekki unnt að reka búskap nú án þessara véla. Og ég tel það algerlega óverjandi að heimta svo mikið í ríkissjóð, eins og nú er gert af þessum nauðsynlegu tækjum. Ég vil vekja athygli á því, að þó að samþ. verði till., sem ég ber hér fram um að undanþiggja vélarnar söluskatti, þá er tollurinn eftir eða tollarnir, vörumagnstollur og verðtollur, sem gera til samans rúmlega 10 þús. kr. á hverja dráttarvél.

Ef fallizt verður á aðaltillögu mína um að fella burt 5. gr. í frv., þá geri ég ráð fyrir, að Þetta mál komi til athugunar síðar í sambandi við breytingar á söluskattslögunum, en verði sú brtt. mín felld að nema burt 5. gr., þá vænti ég þess, að menn geti fallizt á þessa varatillögu mína að undanþiggja dráttarvélarnar sölusköttum.