13.04.1962
Efri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Út af því, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að hann vænti þess, að ég flaustraði ekki fram neinni brtt. að svo komnu, þá skal ég endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég mun bera mig saman við áhugamenn í háskólanum um það nafn, sem ég ræddi um, nú á milli umr., og ef það verður samkomulag milli mín og þeirra um, að till. skuli flutt, þá flyt ég hana. Þetta kalla ég ekki að flaustra málinu af. Leggi þeir gegn því, telji þeir það á einhvern hátt óheppilegt og vilji síður, að þáð verði gert, þá geri ég það ekki. Ég er því ekki með neitt flaustur hér. Ég hef sleppt að flytja brtt. við þessa umr. Ég hef óskað eftir, að hv. nefnd athugi þetta enn nánar á milli umr., og bíð eftir því. Og ég ætla að nota tímann einnig til þess að ræða við áhugamenn í háskólanum um þetta. Hv. þm. taldi, að þdm. mundu ekki verða feimnir við að greiða atkv. gegn því, að stofnunin héti Stofnun Jóns Sigurðssonar. Það getur vel verið, að þeir séu það ekki sumir. Af hverju eru þeir þá eiginlega að biðjast undan því, að till. komi fram? Eitthvað er að, og hverju getur till. spillt, þó að þeir þm. greiði atkv. á móti þessu nafni, sem eru núna að tala á móti því? Er það eitthvað hættulegra í máli að greiða atkv. gegn því heldur en að tala á móti því? Ég skil ekki þá afstöðu. Ef menn eru á móti því, að stofnunin heiti Stofnun Jóns Sigurðssonar, þá eru þeir það alveg jafnt, þótt þeir greiði ekki atkv. gegn því, þegar ekki er borin fram í því till. Það er orðið opinbert fyrir það, svo að ég sé engan eðlismun á því að standa gegn þessari nafngift, tala gegn henni, heldur en þá að greiða atkv. gegn henni.

Hv. frsm. þessa máls segir, að það muni engan árangur bera að ræða þetta frekar í hv. menntmn. Hún um það. Ég ræð ekki við það, þó að hún telji ekki til neins að gera það. En ég hef sagt, hvað ég vilji gera eða muni gera, og það á ekki að fara á milli mála, að ég mun ekki flaustra af neinni tillögu hér, nema svo fari, sem ég hef hér tvisvar sinnum tekið fram, þ.e. að áhugamenn í háskólanum telji rétt, að till. komi fram.