12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt, hefur verið rekin hér á landi togaraútgerð í allstórum stíl í milli 50 og 60 ár. Þessi togaraútgerð hefur verið einn okkar langþýðingarmesti atvinnuvegur, og má segja, að á tímabili hafi hann verið burðarásinn í íslenzku efnahagslífi og fyrir tilvist hans hafi orðið ýmsar þær framfarir hér á landi, sem tæplega eða ekki hefðu orðið að öðrum kosti eða a.m.k. þá miklu síðar. Togaraútgerðin fyrst framan af gekk vel og skilaði þjóðarbúinu miklum gjaldeyristekjum og eigendum skipanna í mörgum tilfellum góðum hagnaði. Þetta hefur því miður breytzt, og afkoma þessa atvinnuvegar síðustu árin hefur versnað raunverulega mjög mikið, og það ekki einasta síðustu árin, það fór að hallast verulega á kreppuárunum eftir 1930, og þó að úr rættist nokkuð í síðari heimsstyrjöldinni, þá seig aftur og kannske enn meir á ógæfuhliðina á sjötta áratugnum og nú alveg á síðustu árum.

Til þessarar öfugþróunar liggja nokkrar ástæður, kannske margar, en ég skal ekki fara langt út í að rekja þær, aðeins nefna nokkrar.

Það hefur gerzt upp á síðkastið og verið kannske af ýmsum talin aðalástæðan fyrir því, að svona hefur farið, að aflabrögðin hafa minnkað mjög verulega hjá togurunum, og af ýmsum verið kennt um Þeirri breytingu, sem gerð hefur verið á okkar fiskveiðimörkum, og að togararnir hafa verið hraktir, verð ég að segja, frá sínum fyrri veiðislóðum og yfir á aðrar, þar sem minni veiði var von. Það hefur líka gert strik 3 reikninginn hjá togaraútgerðinni, að á tímabiti var íslenzkum togurum fyrirmunað að landa afla í Bretlandi, og var það út af fiskveiðimarkaútfærslunni fyrri, en sú deila leystist ekki fyrr en 1956 og var aftur upp tekin með síðari landhelgisútfærslunni 1958. Enn má geta þess, sem hefur orðið ærin ástæða til þess, að togararnir hafa orðið svona hart úti, að á nokkuð löngu árabili, frá 1951 eða 1952, að ég ætla, og fram til 1957–1958, var verðið, sem togararnir fengu fyrir sinn fisk, lægra og það mun lægra en bátarnir fengu fyrir sinn, þó að mismunur væri ekki á gæðum fisksins, heldur voru aðstæður togaranna taldar þá vera slíkar, að þeir þyrftu ekki jafnmikilla uppbóta eða aðstoðar og bátarnir fengu.

Þetta allt og raunar fleiri ástæður liggja til þess, að afkoma togaranna hefur upp á síðkastið verið mjög léleg, og samkv. athugun, sem farið hefur fram á því, er talið, að rekstrarhalli á venjulegan togara hafi á árinu 1960 verið um það bil 21/2 millj. kr. að meðaltali, og er þá að vísu reiknað með nokkurri fyrningu skips og véla. En hvort sem um það er að ræða eða ekki, að upphæðin sé nákvæmlega Þetta, Þá er það víst, að rekstrarafkoman hjá öllum þorra togaranna árin 1960 og 1961 hefur verið með afbrigðum léleg.

Um aflabrögð íslenzka togaraflotans liggja fyrir þessar upplýsingar um heildaraflamagnið síðustu árin: 1958 var aflinn 199 þús. tonn á togaraflotann. Árið 1959 var hann 156 þús. tonn, eða 43 þús. tonnum lægri. 1960 er hann kominn niður í 113 þús. tonn, enn 43 þús. tonnum lægri. Aflinn 1961 liggur að vísu ekki alveg fyrir, en skýrslur ná til nóvemberloka, og það má með nokkurn veginn öryggi ganga út frá því, að hann hafi ekki numið á s.l. ári nema rúmlega 70 þús. tonnum, eða enn 40 þús. tonnum minni. Þá er hann kominn niður í að vera um það bil þriðjungur af því, sem hann var 1958. Nú er að vísu árið 1958 eitt bezta ár, sem togaraútgerðin hefur fengið lengi, a.m.k. á eftirstríðsárunum, og olli því fyrst og fremst, að ný fiskimið fundust, sem gáfu togveiðimönnum mjög góða og þægilega veiði, þar sem þeir gátu mokað upp karfa á Þrem, fjórum dögum, nægilega miklu til þess að fylla skipin. En ef árin þar á undan eru tekin, segjum árin 1955, 1956 og 1957, þá hefur aflinn þau árin hjá togaraflotanum verið í kringum 160–170 þús. tonn, svo að af því sést, að aflinn á árinu 1961 er kominn niður í 2/5 hluta af því, sem hann var Þau ár, þó að ekki sé reiknað með því aflamagni, sem ég nefndi áðan árið 1958.

Það er því alveg greinilegt, að aflabrögðunum í heild hefur hrakað svo geysilega, að þar er að finna sjálfsagt eina höfuðástæðuna fyrir því, að afkoma togaranna hefur orðið slík sem raun ber nú vitni.

Þá vakna náttúrlega í huganum ýmsar spurningar um það, hvað gera skuli. Og það eru ýmsir möguleikar, sem menn geta látið sér detta í hug, og þá náttúrlega fyrst og fremst það, hvort beri að hætta alveg við að gera út togara í þessu landi. Þegar tapið er orðið svona geigvænlegt eins og hér liggur fyrir og möguleikarnir jafnlitlir í samanburði við Það, sem áður var a.m.k., til þess að ná endunum saman, er þá ekki hugsanlegt, að að því dragi fyrr eða síðar, að útgerðarmenn gefist upp við að reka skipin, þegar engin von er til, að jöfnuður fáist í rekstri? En þessari spurningu og þessum hugleiðingum vildi ég þó svara á þann hátt, að ég hygg, að það séu mjög fáir menn í þessu landi, sem geta hugsað sér, a.m.k. að ekki meira reyndu máli en enn er, að togaraútgerð verði alveg lögð hér niður, og að þessi leið, að hætta alveg við togaraútgerð, sé a.m.k. eins og enn er komið ekki sú leiðin, sem stefna beri að.

Þá er önnur leið, sem einnig hefur verið nefnd og hefur raunar verið nefnd hér á þinginu sem fræðilegur möguleiki, en verið lagt í þau orð, sem um Það féllu hér, nokkuð önnur meining og reynt að gera tortryggileg þau orð, sem um Þá leið fjölluðu, en hún er sú að hleypa togurunum inn fyrir fiskveiðimörkin, eins og þau eru núna. Það, sem um þetta hefur verið sagt hér áður, er engin tillaga eða tilraun til þess að beita sér fyrir því, að þessi leið Yrði farin, heldur eingöngu rætt um þessa aðferð sem einn af Þeim fræðilegu möguleikum, sem til greina koma. Og var þó ekki fjær en svo, að fiskifræðingar okkar og vísindamenn töldu hann fullkomlega geta komið til greina. En ég hygg, að með þeim aflabrögðum, sem eru hjá bátum. og þeim erfiðleikum, sem einnig þeir eiga við að búa í sínum rekstri, þá sé það ekki heldur sú leið, sem fara beri, og ríkisstj. hefur ekki neinar till. á prjónunum um það, að hún verði farin.

Þá eru náttúrlega ýmsar leiðir til, sem menn geta hugsað sér, eins og Það, að hægt væri að bæta eitthvað úr rekstrinum, gera hann hagkvæmari, draga úr gjöldunum. En það er nú hvort tveggja, að þessi aðferð hefur víst verið reynd, eins og útgerðarmenn hafa talið sér mögulegt, og svo hitt, að ég ætla, að hún dragi ekki það mikið, að tjónið fáist neitt í áttina bætt með þeirri aðferð.

Þá er ekki nema sú leið eftir að bæta togaraútvegsmönnum á einhvern hátt það tjón, sem þeir hafa orðið fyrir, og það er það, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, fer fram á. Við íslendingar erum ekki einir um að bæta togurunum það aflatjón, sem þeir hafa orðið fyrir, m.a. af útfærslu fiskveiðimarkanna. Bretar t.d. hafa á s.l. ári tekið upp þá aðferð að hækka styrki sína til togaranna, og í júlímánuði 1961 var því yfirlýst af þeirra ríkisstj., að þeir mundu bæta togurunum með 17 sterlingspundum á hvern úthaldsdag Þá rekstrarörðugleika. sem þeir hefðu orðið fyrir. Kröfur hafa komið um svipað frá Þjóðverjum, en hvað þeirra stjórn hefur gert, er mér ekki kunnugt um á þessu stigi, en það má ætla, að einnig þeir muni reyna að greiða fyrir sínum skipum á þennan sama hátt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að nokkru leyti byggt á l. um hlutatryggingasjóð, sem hafa verið í gildi nú um nokkur ár og voru á sínum tíma samþ. í þeim tilgangi að reyna að bæta bátaútveginum það tjón, sem hann yrði fyrir, þegar aflabrestur yrði. Þau gerðu ráð fyrir því, að þegar afli á ákveðinni vertíð og ákveðnum fiskislóðum færi niður úr 75% af meðalafla, þá kæmi sjóðurinn til og greiddi bátunum, sem minna höfðu, vissan hundraðshluta af því, sem á skorti, eins og nánar er tekið til í þeim lögum. Það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er, að togararnir komi nú með og verði þátttakendur í þessum sjóði og fái bætur úr honum, ef afli þeirra fer niður úr 85% af meðalafla undanfarinna ára. Er þá ekki miðað við vertið eða veiðisvæði, heldur miðað við ár og allt landið. Og þess vegna verður talan hjá togurunum hærri, af því að þá hljóta að jafnast út þær sveiflur, sem bæði tímabundin vertíð og takmarkað svæði gerir að verkum, að aflabrestur getur orðið hjá bátum á einu svæði, þó að annað svæði og á öðrum tímum hafi betri afkomu.

Nú var með lögum, sem samþ. voru hér í sambandi við gengisbreytinguna síðustu og í tilefni af henni, gert ráð fyrir, að útflutningsgjaldið yrði hækkað og að gjaldið til hlutatryggingasjóðs yrði hækkað. Gjaldið til hlutatryggingasjóðs var áður 1/2 % og 3/4 % af útflutningsverðmætinu, og ríkissjóður lagði þá jafnt á móti. í þessu frv. er gert ráð fyrir, að gjaldið verði hækkað upp í 11/4%.

Með því að taka togarana inn í sjóðinn er í fyrsta lagi lagt til, að nafni hans verði breytt. því að ekki er lengur um hlutatryggingu að ræða, heldur almenna tryggingu til þess að bæta upp aflabrögð, þegar illa veiðist yfir lengri tíma, eða árið lagt til grundvallar, þegar um togarana er að ræða. Þess vegna þótti hentugra og sjálfsagt raunar að nefna þetta aflatryggingasjóð í staðinn fyrir hlutatryggingasjóð. Með núverandi útflutningi, — meðalútflutningi, — sem gera má ráð fyrir, að verði. ef miðað er við árið sem leið, í kringum 2800 millj., þá verður 11/4 % af þeirri upphæð 35 millj., sem í sjóðinn renna af aflatryggingasjóðsgjaldinu, og síðan er í þessu frv. lagt til. að ríkissjóður leggi helming á móti eða 171/2 millj., ef miðað er við sömu útflutningsupphæð, eða 9 millj. hærri upphæð en gert er ráð fyrir í núgildandi fjárlögum. Þó komi þetta ekki til framkvæmda í ár, heldur verði þar aðeins látið sitja við þá tölu, sem í fjárlögum er ákveðin, en á næsta ári verði þetta framlag ríkisins hækkað, eins og ég segi, upp í helming af því, sem rennur til sjóðsins af útflutningnum, og nemur það þá um 9 millj. kr. hækkun frá því. sem í fjárlögum 1962 er ákveðið.

Þá er einnig gert ráð fyrir ríkisframlagi til þess að bæta upp árið 1960, sem verður stofnfé togaradeildar aflatryggingasjóðs og lagt er til að verði 30 millj. kr. og þó hærri upphæð, þegar vextir eru teknir með í reikninginn. Því að þetta er gert ráð fyrir að verði tekið að láni og afhent togaraeigendum sem fimm ára bankavaxtabréf, sem þeir eigi að geta notað til greiðslu skulda sinna, en Seðlabankinn komi síðan í milli og borgi bréfin út að nokkru leyti, en ríkissjóður borgi þau upp á 15 árum, þannig að framlög ríkisins í þessu skyni ættu ekki að þurfa að vera meiri en kannske 31/2 millj. kr. á ári, þannig að heildarútgjaldaaukning ríkisins á næstunni vegna þessara laga yrði þá 12—121/2 millj. kr., sem taka yrði þá upp á næstu fjárlög.

Það er rétt að geta þess, að í bráðabirgðaákvæði í frv. er gert ráð fyrir því, að skipting tekna sjóðsins fyrir allt árið 1962, svo og útreikningur bóta fyrir árið 1961, skuli fara eftir ákvæðum þessa frv., en látið standa opið til ákvörðunar fyrir sjóðsstjórn og ríkisstjórn, hvernig með hinar 30 milljónirnar skuli fara, sem afgreiddar verða með bréfum fyrir árið 1960, en sjóðurinn sjálfur, bæði togaradeild og jöfnunardeild, skuli bera þann kostnað, sem af aflabrestinum 1961 leiðir.

Hvað þessi aðstoð við togarana verður mikil. hefur verið reynt að gera sér nokkra grein fyrir, og virðist það koma þannig út að meðaltali, að aflatryggingasjóðurinn muni greiða í kringum 750 þús. kr. á skip að meðaltali, en þó auðvitað misjafnt eftir afla, og svipaða upphæð fyrir 1960, þannig að aðstoðin á skip muni verða í kringum 11/2 millj. Nú hafa ekki, eins og kunnugt er, allir togararnir verið að veiðum að undanförnu, margir legið vegna þess, að þeir hafa ekki getað staðið af sér áföllin, en megninu af þeim hefur þó verið haldið úti, og þess vegna hefur verið gert ráð fyrir því, að hér komi til greiðslur til um 40 skipa af þeim 46 eða 47, sem til eru nú í landinu.

Þetta er mikið fé. Ég skal viðurkenna það. En það er þó ekki meira en svo, að enn hygg ég. að það orki tvímælis, hversu mikið af skipunum er hægt að reka áfram, ef ekki rætist úr með aflabrögðin, nema þá með áframhaldandi fjárframlögum.

Fyrri deildir hlutatryggingasjóðs, almenna deildin og síldveiðideildin, halda áfram að starfa eftir sem áður og á sama hátt og áður, en togaradeildin á að sinna verkefnum togaranna, og jöfnunardeildinni er heimitað að koma svo til aðstoðar hinum deildunum, eftir því sem þörf krefur, og verður náttúrlega hennar fyrsta verk að hlaupa undir bagga með togaradeildinni til að sinna aðkallandi þörfum fyrir árið 1961.

Efnahagur togarafélaganna og togaraeigendanna er allmisjafn. Sumir eru taldir eiga vel fyrir skuldum, aðrir berjast í bökkum og eru rétt við það að eiga fyrir skuldunum. í þriðja flokknum eru svo þeir, sem standa mjög örðuglega og eiga raunar í daglegri baráttu fyrir því að geta haldið úti skipunum, að heita má frá degi til dags.

Sjálfsagt má eitthvað að þessari leið finna, sem hér hefur verið bent á. En á s.l. ári var skipuð nefnd til þess að rannsaka hag og rekstur togaranna, og hún skilaði fyrir áramótin áliti, sem stuðzt hefur verið við, Þegar Þetta frv. hefur verið samið. En það hefur verið rætt um ýmislegt og ýmsar aðrar aðferðir, eins og ég að nokkru leyti hef nefnt hér áður, en niðurstaðan hefur orðið sú, að það hefur alltaf verið staðnæmzt við þessa aðferð, sem hér hefur verið stungið upp á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í að ræða Þetta að svo stöddu. Frv. ber ljóslega með sér, hvað í því felst, en ef einhverra upplýsinga kynni að verða óskað, sem ég gæti gefið í þessu sambandi, þá skal ég fúslega reyna að verða við því.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn., og láta í ljós þá ósk um leið vegna þess, hve áliðið er og þetta raunverulega mikið vandamál, að reynt verði að hraða því eins og frekast eru föng á.