12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra hefur upplýst, á togaraútgerðin mjög í vök að verjast, og liggja til þess ýmsar ástæður, sem hann rakti. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, sem hann sagði um það. — En ég hef sagt það hér áður í sambandi við málefni togaraútgerðarinnar, þegar þau hefur borið á góma, að ég tel, að togaraútgerðin eigi inni hjá þjóðarbúinu, ef svo mætti komast að orði, og þá fyrst og fremst fyrir það, að togararnir bjuggu við lægra fiskverð alllengi en aðrir, eins og raunar hæstv. ráðherra kom inn á.

Ég álít alveg skylt, að nú verði hlaupið undir bagga með togaraútgerðinni, því að hún hefur oft borið afar þungar byrðar fyrir heildina, en stendur nú mjög höllum fæti.

Það liggur nú hér fyrir frv. af hendi hæstv. ríkisstj. um stuðning við togaraútgerðina, en leiðin er sú að umskipuleggja hlutatryggingasjóð og veita togurunum stuðning í gegnum nýjan sjóð, sem byggður er á grunni hins og á að heita aflatryggingasjóður.

Ég vil nú skjóta því inn í, að ég kann ekki almennilega við nafnbreytinguna, vegna þess að afla getur sjóðurinn ekki tryggt.

Þegar þetta mál hefur borið hér á góma áður í þinginu, hef ég fyrir mitt leyti látið í ljós, að ég teldi, að það mætti ekki koma til mála, að togurunum yrði hleypt inn í landhelgina umfram það, sem orðið er.

Hæstv. ráðherra komst þannig að orði áðan, að ríkisstj. hefði ekki neinar till. á prjónunum um, að sú leið verði farin. Þetta skil ég svo, að líta megi þannig á, að því sé þar með algerlega hafnað að reyna að leysa vanda togaranna með því að veita þeim aukinn rétt til veiða í landhelginni, og þykir mér það vel farið.

Undanfarið hef ég líka tekið fram, þegar málefni togaranna hafa verið rædd, að mér fyndist ekki mega með nokkru móti leysa vanda togaraflotans á kostnað bátaútvegsins. Á hinn bóginn yrði sá stuðningur, sem togaraútgerðin fengi, að koma — ekki frá einstakri atvinnugrein eins og bátaútveginum, heldur frá þjóðfélaginu í heild.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, sem ég hefði kannske átt að segja fyrst, að ég er hæstv. ráðherra alveg sammála um, að það kemur ekki til mála, að íslendingar hverfi frá togaraútgerð. Slíkt væri allt of stórkostlegt áfall. Og við verðum að vona, að það ráðist úr fyrir togurunum um aflabrögðin og hægt sé að gera ýmsar breyt. á þeim útvegi, sem geri það að verkum, að hann eigi Þrátt fyrir allt verulega framtíð.

Ég tel það því alls ekki geta komið til mála, og er hæstv. ráðherra alveg sammála um það, að íslendingar geti allt í einu horfið frá togaraútgerð. Ég tel því, að það verði að fara þá leið að styðja togaraútgerðina af þjóðfélagsins hálfu og af almannafé, þannig að hægt sé að komast yfir þá gífurlegu örðugleika, sem nú steðja að, og þá í trausti þess, að úr rætist.

Kem ég þá að því, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að leysa þetta mál að svo stöddu, og lýsti hæstv. ráðherra því nokkuð. En ég verð Þó að játa, að ég átta mig ekki alveg til fulls á því, hvernig málið liggur fyrir í einstökum atriðum, þar sem útreikninga vantar alveg, t.d. um það, hvernig hver einstök deild í væntanlegum nýjum aflatryggingasjóði muni koma út fjárhagslega, eins og nú horfir. En úrlausnin er þó, eins og hæstv. ráðherra greindi, aðallega fólgin í því að hækka mjög mikið frá því, sem var fyrir gengislækkun síðustu, útflutningsgjaldið, sem útgerðin greiðir í hluta- og aflatryggingar, þannig að gjaldið á að hækka um meira en helming á þeim fiski, sem fiskaður er á báta, þ.e.a.s. úr 1/2% í 1.25%. Á síld á gjaldið að hækka úr 3/4% og upp í 11/4%. Og togarar, sem áður greiddu ekki í þennan sjóð, eiga nú að greiða 11/4%.

Hæstv. ráðherra nefndi ekki, hvað þessi gjaldauki mundi nema miklu, en í umr. um gengislækkunar-„kálfinn“, sem við höfum kallað svo í gamni, þ.e.a.s. frv., sem fylgdi gengislækkuninni, var upplýst, að þessi nýju gjöld á útveginn mundu nema rúmum 20 millj. kr., miðað við núverandi aflabrögð og verðlag. Það var talið líklegt. Og þetta þýðir fyrir bátaútveginn, að gjaldið á honum á sennilega að tvöfaldast, og á togarana kemur þarna nýtt gjald.

Jafnhliða er önnur breyting gerð. Ríkissjóður lagði jafnt á móti því, sem útvegurinn greiddi áður, en nú er ríkissjóði ætlað að leggja aðeins helming á móti því, sem kemur frá útgerðinni. Enn fremur er sú þýðingarmikla breyt. gerð, að áður hafði síldveiðideildin alveg fjárhag út af fyrir sig og þorskveiðideild bátaflotans hafði alveg fjárhag út af fyrir sig, en nú á helmingurinn af öllum tekjum sjóðsins, ef ég skil þetta rétt, að sópast að jöfnunardeild, sem kölluð er, og á hún að bæta upp þar, sem mest er þörfin hverju sinni. Þannig mun þetta hugsað.

Nú sýnist mér augljóst af þessu, þó að ég hafi ekki haft aðstöðu til að fá tölur, sem sýna, hvað bátaútvegurinn á að borga mikið eftir nýja laginu, bátarnir á Þorskveiðum og bátarnir á síldveiðum og svo aftur togararnir, þá sýnist mér það alveg augljóst, að með þessu móti verði bátaútvegurinn látinn standa, eins og nú horfir, í mjög verulegum mæli undir töpum togaranna.

En einmitt þetta finnst mér ekki vera hægt að gera. Ég vil, að það verði unnið að Þeim breyt. á málinu, að hver deild í sjóðnum hafi fjárhag út af fyrir sig, eins og verið hefur í sambandi við hlutatryggingarnar, en ekki innleiddar verulegar álögur á bátaútveginn til þess að standa undir töpum togaranna. Vil ég, að almannafé komi til að bæta upp, þar sem töpin eru mest, í þessu tilfelli hjá togurunum. Þetta verður að taka af almannafé, en ekki af bátaútveginum. Það þarf að breyta málinu í þetta horf í meðferð þingsins. í þessu sambandi leyfi ég mér að minna á, að á síðasta aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna var gerð ályktun um þessi mál, þessi hlutatryggingamál, og hún mun sumpart hafa verið til komin vegna þeirra ákvæða, sem sett voru í brbl. í sumar og líkjast á ýmsan hátt því, sem liggur fyrir hér í þessu frv., og á þessum aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna var samþ. að leggja áherzlu á, að hver deild hlutatryggingasjóðs hafi áfram aðskilinn fjárhag, þorskveiðideildin sér, síldveiðideildin sér og svo togarar sér. Þessi stefna finnst mér alveg eðlileg, og hún er sú, sem höfð hefur verið í hlutatryggingunum fram að þessu, og það á ekki að breyta þessu á þá lund, þó að togararnir eigi mjög erfitt, að bátaútvegurinn verði skattlagður fyrir þá.

Ég álít, að þjóðfélagið í heild skuldi togaraútgerðinni, en ekki bátaútvegurinn, og hann mun eiga nóg með sig, og þau byggðarlög, sem byggja á bátaútveginum, eiga áreiðanlega nóg með sig. Og það er ekki sanngjarnt að mínu viti að seilast þangað sérstaklega til þess að afla tekna til að leysa þennan vanda togaraútgerðarinnar. Togararnir eiga inni hjá þjóðfélaginu í heild, vegna þess m.a., að þeir bjuggu á árabili, eins og hæstv. ráðherra sagði, við lægra verð en aðrir, af því að það var talið, að þeir þyldu það fjárhagslega.

Nú er það komið í ljós, að togaraeigendur eru í stórkostlegum vandræðum fjárhagslega, og þá eiga þeir að mínu viti fullan siðferðilegan rétt á því að fá stuðning og fá það fé tekið út úr þjóðarbúskapnum, en ekki af einni grein hans, eins og bátaútveginum.

Ég held það sé mjög viðráðanlegt að breyta málinu í þetta horf, sem ég hef hér lýst í megindráttum, og hægt væri að leysa það á þá lund. Það mundi sjálfsagt þurfa að auka eitthvað þau framlög, sem er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði, eða þann stuðning, sem bankakerfið ætti að veita í þessu sambandi. En ég hef sem sagt ekki haft aðstöðu til að gera mér grein fyrir tölunum, af ástæðum, sem ég nefndi áðan, þar sem ekki hafa legið fyrir útreikningar um deildirnar hverja fyrir sig.

En þetta er áreiðanlega mjög vel hægt að leysa, að ég nú ekki tali um, ef hæstv. ríkisstj. ætiar að halda sér við þá fjárupptöku frá útveginum, sem hún framkvæmdi s.l. sumar með því að taka eignarnámi gengismismun á útflutningsvörubirgðum. Það var mikið á annað hundrað milljóna, sem þannig voru teknar eignarnámi af sjávarútveginum, og er það geysilega mikið fjármagn, og væri áreiðanlega hægt. ef á að halda þeirri fjárupptöku til streitu, að nota eitthvað af því fé til þess að greiða fyrir togurunum, þannig að það þyrfti ekki að skattleggja bátaútveginn sérstaklega, eins og stefnt er að með þessu frv. Ég held, að með góðum vilja hljóti að vera hægt að finna leiðir til að leysa þetta mál togaranna algerlega án þess að íþyngja bátaútveginum.

Ég vil svo benda á, að mér finnst þetta frv. bera dálítinn blæ af því, að þessi leið, að koma stuðningnum á framfæri gegnum aflatryggingasjóðinn, sé valin að einhverju leyti til þess að dulklæða það, að grípa verður til sérstakra uppbóta fyrir þessa framleiðslugrein. Má vera, að þessi aðferð sé valin að einhverju leyti vegna þess, hve allar slíkar uppbætur hafa v erið fordæmdar af núverandi valdhöfum. Ég bendi á þetta í leiðinni, meira kannske til gamans, því að vitanlega skiptir það engu máli, hvað ráðstafanirnar eru kallaðar. Aðalatriðið er, hvers efnis þær eru. En höfuðáherzluna legg ég á, að unnt verði að koma þessu þannig fyrir, eins og ég hef nú greint, að breyta málinu í það horf, að stuðningurinn til togaraútgerðarinnar, sem hún þarf sérstaklega á að halda vegna þeirra miklu áfalla, sem hún hefur orðið fyrir, komi frá þjóðfélaginu í heild, en ekki einstökum framleiðslugreinum.

Þá vil ég aðeins minnast á tvö einstök atriði. Mér er ekki alveg ljóst af frv., hvernig skilja beri bráðabirgðaákvæðið, sem er á þá lund, að stjórn aflatryggingasjóðs er heimilt að gefa út skuldabréf og nota þau til aðstoðar togurunum vegna aflabrests árið 1960 samkv. nánari ákvæðum sjóðsstjórnar og ráðuneytisins. Mér er ekki ljóst að öllu leyti, hvernig þetta er hugsað. Er þá ætlunin, að stjórn aflatryggingasjóðs ráði því alveg, eftir hvaða reglum þessi aðstoð er látin í té, eða er hugsunin sú, að þessa aðstöðu eigi að láta í té eftir almennum reglum þessara l. um, hvernig bæta skuli aflabrest, og það sé aðeins þá tilhögun skuldabréfanna og annað slíkt, sem þarna er átt við? Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi fram. Ég átta mig ekki vel á þessu, eins og Það liggur fyrir.

Loks vildi ég geta um, af því að hér er verið að endurskoða I. um hlutatryggingasjóð eða endurskapa þau alveg, að ýmis atriði í þeim eru þannig, að mér finnst, að það þurfi einmitt að athuga þau í sambandi við þetta mál, þar sem nú er lögð fram ný heildarlöggjöf um hlutatryggingasjóðinn. Það er m.a. varðandi bætur úr sjóðnum. Það er mjög mikið ákveðið í reglugerðum um, hvernig bótum skuli úthlutað, og ákvæði laganna í því tilliti eru býsna ónákvæm. Og það hafa komið mikil vandkvæði upp í þessu sambandi. Ég vil sérstaklega minna á, að t.d. varðandi bætur á Austurlandi hafa komið upp mikil vandkvæði í þessu sambandi og erfiðleikar, sem ekki hefur enn tekizt að greiða úr. Þar hefur komið upp nú síðustu árin miklu veigameiri útgerð á vetrum en áður var, á stórum bátum og útileguskipum, en áður var þar sjór minna stundaður á vetrum og þá á miklu smærri bátum. Svo þegar hefur átt að ákveða, hvaða rétt til bóta þessir stærri bátar og stærri skip eiga að hafa, þá hafa orðið verulegir árekstrar. Aðalregla hlutatryggingasjóðs mun hafa verið sú að miða við fimm ára reynslu, en í þessu falli er eiginlega ekki um neina slíka reynslu að ræða, sem geti talizt sambærileg við það, sem nú er. Bæði er, að sjósókn var á vetrum á norðari fjörðunum mjög lítil og þá á miklu smærri bátum. Nú er hún stunduð á stærri skipum og meira en áður. Þá kemur þarna upp það vafamál, hver skuli vera réttur þessarar nýju útgerðar til bóta. Það er ekki hægt að miða við fimm ára reglu, og þessi mál eru enn óleyst. Ég vildi sérstaklega benda á þetta. Má vera, að Þetta valdi vandkvæðum viðar. Ég beini þessu til hæstv. ráðh. og þeirrar nefndar, sem fær málið til meðferðar.