02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Á föstudaginn, þegar 2. umr. var um þetta mál, varð ég þess var, að það var alldræm þátttaka af hálfu hv. stjórnarliðs í atkvgr. um þessi mál og stjórnarandstaðan í deildinni varð hvað eftir annað að hjálpa til að koma þessu máli til 3. umr., ýmist með því að greiða atkv. með eða móti, því að hæstv. ríkisstj. skorti auðsjáanlega meiri hl. í deildinni með þessu máll. Ég veit nú ekki, hvernig á að leggja þetta út, hvort það sé að einhverju leyti litill áhugi hjá ýmsum stjórnarliðum fyrir þessu máli eða hvort þetta sé bara tilviljun. Mig skyldi nú ekki undra Það, þó að það væri að einhverju leyti dræmur áhugi fyrir málinu hjá hv. stjórnarliði, því að þegar farið er aftur inn á uppbóta- og styrkjaleiðina og það allríflega, þá dettur kannske einhverjum af hv. þm. stjórnarliðsins í hug, að það hafi verið talað af allmikilli kokhreysti hér áður um, að styrki og uppbætur ættu menn ekki að sjá framar í íslenzku atvinnulífi. Nú ættu íslenzkir atvinnurekendur og íslenzkur atvinnurekstur að fá að standa á eigin fótum, og styrkir og uppbætur, ég tala nú ekki um 30 millj. til nokkurra aðila, það ætti ekki að þurfa að sjást framar. Ég held þess vegna, að það ætti þó a.m.k. eitt að eiga að vera öruggt, Þegar inn á styrkja- og uppbótaleiðina er farið aftur, að hún dugi þá.

Hingað til hefur verið svo frá gengið, þegar styrkja- og uppbótaleiðin hefur verið farin á Íslandi, að togararnir og önnur skip hafa gengið. Það er séð um Það þannig, að togararnir hafa verið gerðir út — og hafa verið gerðir út svo að segja stanzlaust árið um kring. Og það hefur þótt vera alldrjúgur skildingur, sem við höfum fengið í íslenzkt þjóðarbú með þeirri útgerð og með því að tryggja þá útgerð. Og við tryggðum hana m.a. með því að veita styrki og uppbætur. Og þá lágu ekki togararnir hér bundnir við hafnargarðinn, ég tala nú ekki um árum saman.

Ég held því, að það sé fyllilega til athugunar, þegar stærstu og stórvirkustu framleiðslutæki Íslendinga eru nú stöðvuð, að það sé farið að gera það upp og það af hv. stjórnarliði, hvort þessi aðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt á undanförnum árum, sé rétt. Ef hæstv. ríkisstj, getur ekki sagt okkur það nú við 3. umr. Þessa máls, að þessi leið, sem hún nú fer inn á með þessum aflatryggingasjóði, sé örugg til þess að láta togarana ganga, Þá sé ég ekki betur en hún sé að dæma allt sitt kerfi til dauða, ekki aðeins allt, sem hún hefur gert fram að þessu viðvíkjandi gengislækkunum og öðrum róttækum aðgerðum gegn almenningi í landinu, heldur líka sjálft það, sem í þessu frv. felst, þessa styrkja- og uppbótaleið, þessa takmörkuðu styrkja- og uppbótaleið, sem ríkisstj. nú er að fara inn á.

Ég held þess vegna, að það dugi ekkert kák í þessum hlutum. Við verðum að geta tryggt það með þeirri stjórn, sem Alþ. og ríkisstj. hefur tekið að sér á atvinnulífi Íslendinga með gengislækkunum, styrkjum, uppbótum og öðru slíku, að hlutirnir gangi þá a.m.k., en standi ekki kyrrir. Þess vegna álit ég Það vera mjög eðlilegt, að við fáum einmitt nú við 3. umr. þessa máls alveg fulla tryggingu fyrir, að svo sé. Almenningur hefur látið allmiklar fórnir í té, að vísu engan veginn viljugur, vegna þess að almenningur í landinu hefur ekki haft trú á þeirri stefnu, sem upp hefur verið tekin af hæstv. ríkisstj. Almenningur hefur látið miklar fórnir í té og þær hafa verið teknar af honum með valdboði. Ríkisvaldinu hefur verið beitt vægðarlaust til þess að eyðileggja samninga, sem verkamenn hafa haft við atvinnurekendur, og eftir að þeir samningar hafa verið eyðilagðir, hafa síðan verið framkvæmdar tvennar gengislækkanir, þannig að þær fórnir, sem almenningur hefur fært, eru nú orðnar slíkar, að fátækt er aftur leidd yfir almenning á Íslandi og samfara henni meiri vinnuþrælkun en áður hefur tíðkazt.

Lífsafkoman, miðað við vinnu á Íslandi, er orðin lökust á öllum Norðurlöndum, að Færeyjum meðtöldum, lakari en hjá Færeyingum. Kaupgjald venjulegs hafnarverkamanns í Stokkhólmi er nú 12 sænskar kr. eða 96.00 ísl. kr. á klst., meðan það er 23 kr. hérna heima, og þykir, að vondir menn séu að drepa þjóðfélagið, þegar hækkað var upp í 24 kr.

Þessar fórnir hafa verið færðar. Ísland hefur verið sett úr því að vera með einna hæstan lífsstandard af öllum Norðurlöndum niður í að vera fyrir neðan Þau öll og ekki aðeins hvað snertir launin, heldur hvað snertir öll félagsleg réttindi, ellilaun og allt annað slíkt. Það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að almenningur spyrji: Er allt þetta, sem gert hefur verið, er allt þetta, hvernig gengið hefur verið á hag almennings á undanförnum Þrem árum, er Þetta allt saman gagnslaust? Er eftir þetta allt saman ekkert annað ráð til en að fara inn á styrkja- og uppbótaleið? Og er þá farið af slíkum ræfilsskap og slíku fyrirhyggjuleysi inn á þá styrkja- og uppbótaleið, að það sé ekki öruggt að neitt gangi?

Meðan togaraeigendum var borgað út úr ríkissjóði það, sem Þurfti til að togararnir gengju, vissu togaraeigendur eitt, og það var það, að þeir fengu ekki þessa peninga úr ríkissjóði, nema Því aðeins að togararnir gengju. Þeir fengu sinn ákveðna styrk á dag fyrir þann tíma, sem togararnir gengu, og Þar með hafði ríkið það tangarhald á þeim, að þeir höfðu hitann í haldinu og stöðvuðu ekki sína togara. Þeim var ekki borgað fyrir að láta Þá liggja. Ég vil spyrja þá menn, sem hafa beitt sér fyrir því hér, að styrkja- og uppbótaleiðin væri afnumin, hvort Þeir hafi annað kerfi á hendinni til þess að gera það öllu öruggara, að íslenzk atvinnutæki séu rekin?

Það er búið að óskapast mikið út af styrkja- og uppbótaleiðinni, og þótti undarlegt að greiða styrk til handa togaraeigendum og öðrum atvinnurekendum til þess að reka fyrirtækin. En það sýndi sig þó a.m.k. eitt með því, að fyrirtækin voru rekin, en ekki stöðvuð. Ég held þess vegna, að fyrir almenning í landinu hljóti nú að vera að því komið, að hann geri kröfu til þess að sjá þann árangur a.m.k. af öllum þeim fórnum, sem hann hefur verið látinn færa nauðugur, að stórvirkustu tæki Íslendinga, togararnir, séu í fullum rekstri og að það sé tryggt. Og hver er nú afstaðan viðvíkjandi rekstri togaranna sem stendur? Á ég þar sérstaklega við þá stöðvun togaranna, sem nú stendur yfir.

Ég vildi í fyrsta lagi leyfa mér að gera að umtalsefni þá afstöðu, sem í ljós hefur komið hjá togaraeigendum, því að ég held, að hún sé lærdómsrík fyrir alla aðila, sem láta sig einhverju skipta, hvernig íslenzku Þjóðfétagi verður stjórnað framvegis. Ég notaði einu sinni það orð, — ég held það hafi verið 1959, — um þá stefnu, sem farið var inn á, Þegar mest bar á því, að ýmsir voldugir atvinnurekendur og skuldugir, kannske ríkir, fóru að heimta, að fyrirtæki ríkisins væru tekin og seld þeim með góðu verði, að Það liti svo út sem vissir atvinnurekendur á Íslandi ætluðust til þess, að gerð yrði eins konar gagnbylting einkaauðvaldsins hér og þeim fengið í hendur ekki aðeins síldarverksmiðjur, áburðarverksmiðjan og annað fleira slíkt,, bæjarútgerð togara og annað þess háttar, heldur jafnvel líka held ég, að marga þeirra hafi dreymt um að yfirtaka Landsbankann sem hlutafélag og annað þess háttar. Það var engum efa bundið, að Það var verið að gefa undir fótinn nokkrum stórskuldugum atvinnurekendum í landinu um, að þeir ættu nú að verða voldugri menn en áður. Siðferðilega undirstaðan, sem verið var að gefa Þeim, var þessi, að nú skyldu atvinnurekendur standa á eigin fótum héðan af. Það hefur nú gengið böksulega með það, og skal ég ekki um Það ræða. En eitt er alveg greinilegt, að vissir atvinnurekendur hér á Íslandi eru farnir að gerast alldjarfir og gerast allfrekir um kröfur til Alþingis. Ég sé nú, að rétt um það leyti sem ég fór héðan burt af þinginu um tíma, hefur borizt bréf frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, sem er ritað 12. marz, og í því bréfi stendur Þessi klausa, með leyfi hæstv. forseta, — þeir hafa gert kröfu til þess, að vökulögunum verði breytt í gamalt horf, og segja svo:

„Verði ekki umrædd breyting á vökulögunum gerð, sjáum vér enga möguleika á því að mæta kröfum sjómannafélaganna um hækkað kaupgjald á togurunum, svo að þeir geti hafið veiðar á ný, og er það því undir hæstv. Alþ. komið, hvort togaraútgerð leggst alveg niður hér á landi eða ekki.“

Mér sýnist þetta allskörulega mælt. Það er a.m.k. ekki verið að tvínóna neitt við hlutina. Það er alveg greinilegt, að þeim togaraeigendum, sem haldið hefur verið uppi af ríkinu undanfarin 15–20 ár, þeim sömu togaraeigendum, sem varð að kaupa til þess fyrir 17 árum að eignast þessa togara og gefa þeim alveg sérstaklega góða skitmála til þess, af því að þeir voru sjálfir þá trúlausir á togaraútgerð á Íslandi, — þessir togaraútgerðarmenn eru sem sé farnir að setja Alþingi Íslendinga stólinn fyrir dyrnar. Þessir togaraútgerðarmenn segja nú við Alþingi íslendinga: Verði ekki lögum breytt, þá getur togaraútgerð lagzt niður á Íslandi.

Það, að það er togaraútgerð á Íslandi í dag, er ekki þessum mönnum að þakka í Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, þó að þeim finnist ástæða til þess að taka mikið upp í sig nú. Það voru ekki þeir, sem áttu frumkvæðið að því, heldur voru þeir frekar til trafala, er um það var að ræða að fara að afla þeirra togara, sem nú eru reknir. Nú eru það þeir, sem kveða upp úr með, að togaraflotinn verði látinn liggja og togaraútgerð leggist niður, svo framarlega sem vökulögin í núverandi mynd verði ekki afnumin. M.ö.o.: þeir ætla nú að taka sér löggjafarvaldið í hendur. Þeir ætla nú að fyrirskipa Alþ., hvernig það skuli setja lög.

Ég held, að þetta sé dálítið lærdómsríkt fyrir þá aðila, ekki sízt Alþfl., sem hefur ekki getið sér öllu betri orðstír fyrir það, sem hann gerði í gamla daga, þegar við hæstv. sjútvmrh., núv. form. Alþfl., vorum báðir í honum, heldur en einmitt fyrir að hafa komið á togaravökulögunum upphaflega og barizt ásamt öðrum góðum mönnum fyrir því máll. Ég held, að það sé vert fyrir Alþfl. og þá, sem hafa barizt fyrir breyt. á togaravökulögunum á undanförnum 40 árum, síðan þau voru fyrst knúin í gegn, að athuga, hvernig komið er. Þessi tónn af hálfu íslenzkra togaraeigenda er svo óviðeigandi gagnvart Alþ., að það á að kenna þessum mönnum að tala ekki svona aftur, þeir hafa sannarlega ekki úr háum söðli að detta. En mér sýnist þetta hins vegar vera nokkuð sláandi tímanna tákn, hvernig svokallaðir auðmenn á Íslandi halda að þeir geti boðið Alþ. og alþýðu allt eftir þriggja ára reynslu af núv. stjórn.

Mér er spurn: Hvers eðlis er sú stöðvun, sem nú er á togurunum? Það er sagt, að þetta sé verkfall, og ég vil nú spyrja þá hv. þm., ekki sízt úr Sjálfstfl., sem stundum tala eitthvað af litlu viti að mínu áliti um verkföll: Hvers eðlis er þetta verkfall? Er þetta verkfali til Þess að eyðileggja þjóðfélagið? Er þetta verkfall til þess að koma ríkisstj. og atvinnulífinu á kné? Er þetta verkfall af einhverjum illum öflum, sem hlýða framandi fyrirskipunum til þess að eyðileggja þjóðlíf Íslendinga? Er það vont verkfall, bara gert til þess að fá kjarabætur, sem þjóðfélagið ekki ber, eins og íslenzkir togaraeigendur lýsa yfir? Eða er þetta gott verkfall ? Er þetta verkfall, sem kemur sér ákaflega vel fyrir t.d. togaraeigendur í landinu? Hvers kyns er þetta verkfall að áliti Sjálfstfl.? Eru verkföll mjög mismunandi kannske eftir því, hverjir gera þau? Hingað til hefur ekki mátt gera verkfall í þessu þjóðfélagi, án þess að það væri sagt, að það væri verið að rífa þjóðfélagið niður, það væri verið að ofbjóða kaupgetu almennings. Og ég vil spyrja: Hverjir eru það, sem standa núna að þessu verkfalli? Eru það slík vond öfl, eða eru það góð öfl? Hvað er það, sem aðskilur verkföll í slíku sambandi? Ég hélt, að hv. sjálfstæðismenn, sem stundum hafa talað hér alldjarft, þegar verkföll eru, hefðu nú tækifæri til þess að tala.

Mér þykir mjög leiðinlegt, að hv. 12. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, sem ég held að eigi sæti í stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur, skuli ekki vera staddur hér á þingi nú. Hann gæti kannske gefið upplýsingar um þetta, og e.t.v. geta einhverjir atvinnurekendur úr hópi Sjálfstfl. líka látið sitt ljós skína í sambandi við þetta. Þeir hafa stundum ekki legið á liði sínu, þegar verkföll hafa verið háð. Og ég vil spyrja, ef fleiri fara í verkfall á morgun, fleira verður stöðvað: Eru það þá ekki líka góð verkföll, fyrst þetta er gott verkfall, sem nú er, og sjálfstæðismenn hafa ekkert við það að athuga? Ég vil leyfa mér að spyrja að því, hvers eðlis þetta verkfall sé, eftir að sú tilkynning hefur borizt, sem ég hef fyrir framan mig, frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda. Það liggur sem sé fyrir, að F.Í.B. ætlar sér ekki að semja, nema Alþ. breyti lögum, togaravökulögum. Mér skildist á hæstv. sjútvmrh. áðan, að það væri engin sérstök trygging fyrir því, þó að aflatryggingasjóðsfrv., sem nú er um að ræða, yrði sett í gegn, að togaraeigendur þar með færu af stað. Enda virðist það fram ganga af þeirra bréfi, að slíkt hafi ekki þar áhrif á.

Mér sýnist nú svo komið, þótt hvað formið og upphafið snertir sé hér um verkfall að ræða frá hálfu sjómannafélaganna, þá sé raunverulega um leið komið á með þeirri tilkynningu til Alþingis, sem Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda hefur gefið, eins konar verkbanni frá hálfu togaraeigenda. Þeir hafa lýst því yfir, að verði ekki gerð umrædd breyt. á vökulögunum, þá sé það undir Alþ. komið, hvort togaraútgerð leggist niður hér eða ekki, Þeir sjái sér ekki fært að láta togarana hefja veiðar á ný, m.ö.o. setja Alþ. algerlega stólinn fyrir dyrnar.

Menn tala hér mikið um aflabrest á togurunum, minnkaðan afla. Rétt mun það vera. Ég býst við, að meðalafli á hvern sjómann á okkar togurum hafi fyrir nokkrum árum, jafnvel síðasta áratuginn, verið kringum 140 tonn á sjómann, hann muni nú siðasta árið eða a.m.k. árið 1960 vera um 100 tonn á mann. Þó að Það hafi minnkað afli hér hjá okkur á Íslandi, þá held ég engu að síður, að það sé enn sem komið er mesti afli á mann, sem þekkist á nokkrum veiðitækjum, sem veitt er á hér við N.- Atlantshafið. Meðan okkar togarasjómenn afkasta slíku magni á hvern sjómann, þá er sannarlega eitthvað dularfullt við sjálfan reksturinn og aðbúnaðinn í landi, ef ekki er hægt að láta þessi stórvirku tæki ganga. Vissulega er þar margt að athuga, eins og oft hefur verið komið inn á, en ekki fengizt leiðrétt.

Mér sýnist þess vegna, að það ástand sé nú að skapast hér, að raunverulega séu togaraeigendur með hótunum gagnvart Alþ. að setja verkbann á togarana. Ég veit og man, að slíkum aðferðum hefur verið beitt fyrr. Togaraeigendur hafa haldið sig volduga aðila hér á Ístandi áður. Ég man vel eftir því 1936, þegar þáv. vinstri stjórn sat að völdum, stjórn Alþfl. og Framsfl., stjórn hinna vinnandi stétta, eins og hún kallaði sig. Þá var það eitt sumarið, ég held, að það hafi áreiðanlega verið 1936, sem togaraeigendur lögðu togurum til þess að reyna að knýja fram ákveðnar aðgerðir af hálfu stjórnarvaldanna. Og það lítur nú út fyrir, að togaraeigendur haldi, að þeir geti farið inn á þessa leið á ný og sett ríkisstj. og Alþ. stólinn fyrir dyrnar um þessa hluti. M.ö.o.: eftir þriggja ára undanlátssemi við auðmannastéttina í landinu virðist hún nú vera komin á það stig, að hún ætli sér að fyrirskipa, hvers konar lög Alþ. setji.

Ég held, að það sé tími til kominn, að við athugum alvarlega, hvernig komið er með togaraútgerðina, alveg sérstaklega, þegar að þessu er komið. Ég býst ekki við, að Alþ. muni kæra sig um að horfa upp á það, að togaraútgerð á Íslandi leggist niður, til þess er hún allt of mikill þáttur í íslenzkri framleiðslu. Ég trúi því ekki heldur, að jafnvel þeir, sem nú segjast sjá mikla björgun í að fá hér erlent fjármagn gegn því að reka verksmiðjur við okkar fossa, mundu vilja kippa fótum undan íslenzkri togaraútgerð og láta hana leggjast niður. Ég veit, að frá sumra sjónarmiði kæmi ekki sú lausn til greina, að útlendingar væru látnir reka þá togaraveiði, sem fram færi hér við Ísland, og við Íslendingar færum jafnvel að kaupa aftur af Þeim, og þætti manni það þó spor aftur á bak, að við yrðum nú að biðja svo að segja Hellyer & Co. og aðra slíkrar hjálpar eftir að hafa Þó reynt að standa á eigin fótum frá því 1926.

Ég held þess vegna, að við verðum að horfast í augu við það, að á þessum málum verður að finna lausn. Ef það háttar svo sérstaklega til með íslenzka togaraútgerð, ýmist út frá náttúrlegum vandræðum, sem hún lendir í, svo sem minnkuðum afla, eða út frá þeim Þjóðfélagslega aðbúnaði að henni, með vexti og annað slíkt, að venjulegir einkaatvinnurekendur treysta sér ekki til að reka hana og bæjarútgerðirnar eru að kikna undir hennar rekstri, en Þjóðarbúið þarf samt sem áður á þessum togurum að halda og rekstri þeirra, þá er ekkert annað ráð til þarna en þjóðnýting togaranna, ekkert annað ráð til en það gamla mál, sem Alþfl. og aðrir flokkar, sem að einhverju leyti hafa fylgt sósíalistískum hugmyndum, hafa frá upphafi vega á Íslandi lagt til.

Það má vei vera, að það sé hægt að finna ný ráð til þessa rekstrar. Það má vei vera, að það sé líka hægt að sjá um ýmiss konar verkaskiptingu, þannig að ríkið eigi þá togarana, en t.d. bæjarútgerðir reki þá, en ríkið taki á sig vissa hluti í þessu sambandi. En það er bezt alveg frá upphafi að gera sér það ljóst, að einhver ráð verðum við að finna hér á Alþ. til þess að leysa þessi mál. Og það er a.m.k. það eina góða við það bréf, sem F.Í.B. hefur hingað sent, að þeir gera þessar kröfur til Alþ.,Alþ. leysi þessi mál, sem sýnir það raunar, að jafnt kapítalistar á Íslandi sem aðrir álíta, að það séu ekki aðrir aðilar en þjóðfélagið sjálft og þess fulltrúi, Alþ., sem séu færir að sjá um, að íslenzkur atvinnurekstur sé rekinn.

Ég held þess vegna, að við eigum að taka Það mál til umr., hvort okkar svar við svona kröfum frá hálfu Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda eigi ekki beinlínis að vera það að koma strax á þjóðnýtingu á togurunum. Og fyrir þá hæstv. ríkisstj., sem nú fer inn á styrkja- og uppbótaleiðina í þessum efnum, þá held ég jafnvel að sumu leyti, af því að ég veit, að henni er hálfilla við þessa styrkja- og uppbótaleið, að það væri kannske miklu hreinna af henni að ganga þarna beinlínis inn á þjóðnýtingu. Við göngum þá út frá því, að það sé ákveðið tap, sem ríkið taki að sér af togararekstri, rétt eins og ríkinu finnst sjáifsagt að reka svo og svo mikið af því, sem við þurfum að reka á Íslandi með tapi, það sé nauðsynlegt vegna almenningsheilla. Og við stöndum frammi fyrir því raunverulega, eftir að F.Í.B. hefur sett okkur hnífinn á hálsinn. hvort eigi að reka togaraútgerð á Íslandi eða ekki. Og ef við erum sammála um, að eigi að reka hana, þá held ég, að við eigum alvarlega að taka það til umr., hvort við eigum ekki að koma á þjóðnýtingu á togaraflotanum.

Ég held, að það hafi verið Haraldur Guðmundsson, sem skrifaði einmitt í gamla daga í Rétt, 1926, þegar ég var að taka við því tímariti, mjög góða grein um þjóðnýtingu togaraflotans. Og allan þennan tíma hefur þetta verið nauðsyn. Hins vegar hafa ekki verið pólitískar aðstæður á landinu til þess að knýja þetta fram. En alveg tvímælalaust er þetta langsamlega bezta leiðin í þessu efni. Og þegar atvinnurekendurnir gefast upp eftir tvennar gengislækkanir og eftir allt annað, sem þeir hafa fengið, og segjast ekki geta rekið þetta áfram, nema farið verði áratugi aftur í tímann hvað snertir mannréttindi sjómanna, þá held ég, að tími sé kominn til þess að athuga þetta mál þannig.

Þó að margt sé nauðsynlegt og rétt og margt líka athugavert í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og mætti betur fara, þá er þrátt fyrir það, að inn á styrkja- og uppbótaleið sé farið, enn þá tvistigið í þessu sambandi. Langöruggasta og réttasta leiðin í þessu, sérstaklega eftir þá hótun, sem fram hefur komið í þessu efni frá togaraeigendum, væri beinlínis að stofna til þjóðnýtingar á togaraflotanum, nema einhverjir séu á því, að togaraútgerðin eigi að leggjast niður. Ég held, að þeir menn ættu þá að gefa sig fram, því að allt þetta frv. miðar við að halda henni gangandi.

Ég er ekki að meina, þegar ég tala um þjóðnýtingu á togaraftotanum, endilega þjóðnýtingu á honum öllum. Ég veit, að það eru ýmsir atvinnurekendur hér á Íslandi, sem hafa sýnt dugnað í því að reka sína togara og hafa frá upphafi haft áhuga á þeim málum og hafa sýnt stórhug, þegar aðrir hafa legið niðri eða verið afturhaldssamir. Og ég vil síður en svo meina, að þjó félagið ætti þar með að fara að taka af þeim togarana. En hitt er öllum ljóst mál, að sumpart þeir togarar, sem engan veginn eru verr reknir öðrum atvinnurekstri, og hins vegar togarar bæjarútgerðanna, þetta er vandamál, sem verður að leysa. Og ég held, að ríkiseign á togurunum, þó að bæjarútgerðir hefðu rekstur á þeim með sérstökum samningum á milli ríkis og bæja, gæti verið ein bezta lausnin í þessu máli á þeim hluta togaraflotans, sem þjóðnýttur væri. Og nú er það svo, að yfirgnæfandi meiri hluti togaraftotans er rekinn af opinberum aðilum eða sama sem það. Það er engum efa bundið, að gagnvart bönkunum, sem nú taka oft allmikinn gróða á þessu, gagnvart vátryggingafélögum og öllum slíkum aðilum, þá stæði ríkið sjálft miklu betur að vigi en Þessi einstöku bæjarfélög og slíkir til Þess að mæta kröfum þessara aðila um háa vexti, há vátryggingargjöld og annað slíkt. Og við sjáum það hvort sem er, að við hjökkum alltaf í sama farinu viðvíkjandi þessum hlutum. Við erum komnir hringinn núna á Þessum þrem árum, eftir að vera búnir að fara í tvennar gengislækkanir og binda vísitöluna eða afnema vísitöluna. Við erum komnir inn á styrkja- og uppbótaleiðina aftur. Þarna væri því langbezt að gera hreint borð.

Ég vildi aðeins segja þetta hér, af því að ég hafði ekkert tækifæri til þess að taka þátt í umr. um þetta mál á tveim fyrri stigum þess hér í hv. deild.