02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós, að ég er ekki sammála þeim, sem halda því fram vegna þeirra stundarerfiðleika, sem togaraútgerðin býr við í dag, að við eigum að hverfa í vaxandi mæli frá togaraútgerð að bátaútgerð. Ég held, að við verðum að setja okkur það mark, ef við á annað borð ætlum að halda uppi útgerð í þessu landi, að togaraútgerð verði verulegur þáttur hennar. Ef við lítum í kringum okkur, sjáum við, að flestar aðrar fiskveiðiþjóðir standa nú í því að auka sinn togaraftota verulega og sýna Þannig í verki, að þær hafi fulla trú á þeirri grein útgerðar. Og ég held, að við verðum að setja okkur það takmark að dragast ekki aftur úr í þeim efnum fremur en á öðrum sviðum sjávarútvegsins.

Ég held líka, að þegar á heildina er litið og á nokkurra ára skeið, sýni reynslan, að hér á landi hefur togaraútgerðin sízt reynzt óarðbærari en bátaútgerðin, og vil ég þó ekki neitt illt um hana segja, síður en svo. Þess vegna held ég, að það sé vafasamur málflutningur, eins og dálítið ber á, að það sé eins og verið að ala á ríg á milli bátaútgerðarinnar og togaraútgerðarinnar, metast á um það, hvor standi undir hinni o.s.frv. Ég held, að þetta sé óheppilegt og þarna eigi að vera sem bezt samvinna á milli. Það hefur sýnt sig, að stundum vegnar bátaútveginum betur, stundum togaraútgerðinni og sennilega oftar, þegar litið er yfir lengri tíma. Þetta held ég sé nauðsynlegra að hafa í huga heldur en hallmæla þeim, sem kannske stendur verr að vígi í það og það skiptið.

Ég minnist þess, að fyrir nokkrum árum vegnaði togaraútgerðinni betur en bátaútgerðinni, og þá voru það ýmsir, sem voru að hnýta í bátaútgerðina og tala um, að við ættum að hverfa í vaxandi mæli frá henni og taka upp togaraútgerðina, og þá voru uppi stórfelldar áætlanir um togarakaup og annað þess háttar í því sambandi. Nú er þetta öfugt hjá ýmsum. En ég held, að þetta sýni okkur aðeins, að það sé ekki vert að vera að deila svo mikið um, hvor þessara atvinnugreina sé heppilegri eða nauðsynlegri, heldur verði niðurstaðan sú, að þær séu báðar nauðsynlegar og það eigi að vera takmarkið að reka báðar þessar greinar útgerðar á sem víðtækastan hátt.

Þess vegna álít ég, að þeim stundarerfiðleikum, sem togaraútgerðin býr við núna, eigi að reyna að mæta á þann veg að skapa henni arðvænlegan rekstrargrundvöll, þó að Þurfi að taka upp eitthvert styrkjakerfi í því sambandi. Og ég satt að segja er ekki neitt hræddur við það, Þó að einstökum atvinnugreinum séu veittir styrkir til að komast yfir tímabundna erfiðleika eða jafnvel þó að sé um lengra skeið, því að við höfum dæmi fyrir augunum hjá þeim þjóðum, sem hafa staðið sig einna bezt í efnahagslegri uppbyggingu á undanförnum árum, eins og t.d. Vestur-Þjóðverjar, þá hafa þeir mjög víðtækt styrkjakerfi á ýmsum sviðum. Ég hygg t.d., að þýzkur landbúnaður njóti tiltölulega meiri styrkja og uppbóta í ýmsu formi heldur en íslenzkur landbúnaður, svo að ég vil segja, að það sé hálfgerð hjátrú, þegar menn eru að fordæma það, að það séu styrktar ýmsar atvinnugreinar eða jafnað á milli atvinnuvega. Sú tilfærsla er eðlileg og nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi. Þess vegna álit ég, að þegar þetta mál, afkoma togaraútgerðarinnar, er tekið upp til meðferðar hér á Alþ., þá eigi að stefna að því að ganga þannig frá því máli, að það tryggi togaraútgerðinni sæmilega arðvænlegan grundvöll, og það eigi ekki að skiljast öðruvísi við málið.

Þess vegna harma ég, að mér virtist það koma fram eða mega lesa það á milli orðanna hjá hæstv. sjútvmrh., að hann drægi í efa, að það frv., sem hér liggur fyrir, ef það verður samþ., eða Þær aðgerðir, sem í því felast, muni reynast fullnægjandi til að tryggja togaraútgerðinni arðvænlegan grundvöll og þeim mönnum, sem við hana vinna, sæmilega afkomu. Hæstv. ráðh. bar því við, að þegar frv. hafi verið samið eða um það leyti, sem verið var að semja frv., hafi menn ekki vitað um togaradeiluna eða vitað um, að það væri á næstu grösum, að togarasjómenn færu fram á kjarabætur. Ég held, að þeir menn, sem hafa samið þetta frv., hafi þá fylgzt ótrúlega illa með, því að það hefur staðið fyrir dyrum um langt skeið, að togarasjómenn færu í verkfall til þess að knýja fram kjarabætur. Það vita allir, sem eitthvað hafa fylgzt með kjörum sjómannastéttarinnar á undanförnum árum eða missirum, að hlutur togarasjómanna hefur farið versnandi samanborið við aðra sjómenn og aðrar stéttir, sérstaklega bátasjómennina. Þess vegna var ekki nema eðlilegt og það, sem allir vissu, að togarasjómenn mundu bera fram kröfur um bætt kjör. Og það er eðlilegt, enda nauðsynlegt fyrir togaraútgerðina sjálfa, Því að ef hún á að hafa sæmilega gott starfslið, verður hún að geta boðið svipuð kjör og bátaútgerðin. Það hefur hún ekki gert á undanförnum missirum, og þess vegna var óhjákvæmilegt og átti að reikna með því, þegar þetta frv. var samið, að slíkar kröfur kæmu fram, eins og nú hefur líka átt sér stað. Það var líka vitanlegt, að eftir að gengið var lækkað á s.l. ári, þá mundi það knýja enn meir á togarasjómenn að krefjast leiðréttinga á sínum hlut. Eftir gengisfellinguna var alveg óhjákvæmilegt, að togarasjómenn færu fram á leiðréttingu á Þeim kjörum, sem þeir búa við og eru miklu lakari en aðrir sjómenn hafa notið að undanförnu.

Ég get ekki heldur fallizt á það hjá hæstv. ráðh., þegar hann var að tala um, að Það lægi ekki enn fullkomlega fyrir, væri ekki hægt að segja um það enn þá, hvort Þetta frv. reyndist fullnægjandi til að tryggja sæmilega rekstrarafkomu togaraútgerðarinnar eða ekki. Ég held, að menn hljóti að vera búnir að vega þetta og gera þetta upp. Það eru orðnar 3 vikur, síðan togaraverkfallið hófst, og það er eðlilegt, að menn hafi farið að vega og meta, eftir að það var skollið á, hvort þær ráðstafanir, sem hér um ræðir, séu nægjanlegar til að tryggja togaraútgerðinni viðunandi rekstrargrundvöll og þann grundvöll, sem þarf, til þess að hún geti boðið sínum starfsmönnum svipuð kjör og aðrar greinar útgerðarinnar.

Þar sem liggur nú fyrir, að það er búið að standa verkfall á togurunum um þriggja vikna skeið og litlar líkur til þess að óbreyttu, að það leysist, þá finnst mér, að Alþ. geti ekki skilið við þetta mál, það geti ekki lokið störfum sínum öðruvísi en það sé búið að koma málefnum togaranna í það horf, að rekstur þeirra verði tryggður, því að það sjá allir, hvílíkt tjón það væri fyrir þjóðina, ef þessi stórvirkustu atvinnutæki hennar væru látin ónotuð mánuðum saman. Það yrði tjón, sem yrði erfitt að bæta. Og þó að þurfi að borga kannske eitthvað heldur meira til togaranna en ella, þá borgar það sig náttúrlega mörgum sinnum, heldur en að láta þessi tæki liggja ónotuð.

Ég held, að það sé líka misskilningur, sem hefur komið fram hér í umr., að það væri einhver styrkur fyrir bátaútgerðina að láta íslenzku togarana liggja, vegna þess að þá væru þeir ekki á þeim miðum, sem hún stundaði. Ég held, að ef menn hugsa svona, þá séu það ekki íslenzku bátarnir, sem fyrst og fremst græða á því, heldur væru það hinir erlendu togarar, sem samkv. þeim landhelgissamningum, sem Alþ. hefur samþ. í fyrra, mundu fyrst og fremst fleyta rjómann ofan af því, ef íslenzku togararnir lægju bundnir í höfn, vegna þess að það eru fyrst og fremst þeir, sem eru á sömu miðum og íslenzku togararnir og mundu njóta Þess, ef þeir væru látnir ónotaðir.

Þess vegna held ég, að hæstv. ríkisstj. megi ekki líta á þetta mál frá því sjónarmiði, að hún sé eitthvað að styrkja bátaútgerðina með því að láta íslenzku togarana vera bundna, því að það er síður en svo, að um slíkt sé að ræða. En það er þjóðin öll í heild, ekki aðeins togaraútgerðarmenn og sjómenn, sem tapa á því, heldur þjóðin öll, ef togararnir eru látnir vera ónotaðir tímum saman.

Ég vil þess vegna vænta Þess, Þó að það væri kannske ekki hægt að koma því við hér í þessari hv. d. að breyta þessu frv. í það horf, að það reynist fullnægjandi til að ná því takmarki, sem því er ætlað, að tryggja rekstur togaraútgerðarinnar, þá væri reynt að færa málið í það horf í Ed., að í því felist fullnægjandi lausn í þessum efnum, og þá jafnframt, að Það verði tekið tillit til þess, áður en endanlega verður frá málinu gengið á Alþ., að það skapi togaraútgerðinni möguleika til að greiða þeim sjómönnum, sem við hana starfa, viðunandi kjör og þau kjör, sem þeir fara fram á. En Það hygg ég líka, að þar sé um mjög sanngjarnar óskir að ræða, enda eru það ekki bölvaðir kommúnistarnir eða stjórnarandstæðingar, sem hafa gert þessar kröfur, heldur eru það stjórnarsinnar sjálfir, sem að þeim standa, sem ráða í því félagi, sem þessar kröfur hefur gert. Þess vegna dreg ég ekki í efa, að ríkisstj. viðurkenni, að þær séu ekki gerðar af neinu ábyrgðarleysi eða fjandskap við ríkisstj., svo að það ætti ekki að tefja fyrir framgangi þeirra.

Hitt vil ég taka undir, sem hefur komið fram hér í umr., að ég álít það hreina fjarstæðu að ætla að leysa þetta mát, togaradeiluna, á þann hátt að skerða hvíldartíma togarasjómanna frá því sem nú er. Ég held, að það sé einhver allra mesti sigur, sem Alþfl. hefur nokkru sinni unnið, þegar hann fékk því endanlega framgengt á Alþ. 1955, að sett voru þau togaravökulög, sem nú eru í gildi, þar sem það var alveg sérstaklega tekið fram, að ekki mætti í samningum, — það er mikilvægasta grein þess frv., — að ekki mætti í samningum á milli sjómanna og togaraeigenda ákveða lengri vinnutíma en lögin mæla fyrir um. Og þessi sigur Alþfl., — lokasigur Alþfl. í Þessu máli, — hann var unninn undir þeim kringumstæðum hér á Alþ., að Þá var hann í stjórnarandstöðu. Þetta var á þingi 1955. En þá þótti þetta orðið það sjálfsagt mál, að ekki aðeins stjórnarandstæðingar, sem þá sátu á þingi, heldur einnig þeir flokkar, sem stóðu að stjórninni, Framsfl. og Sjálfstæðisfl., samþ. þessa till. Alþfl. þá. Og það kemur að sjálfsögðu ekki til greina að mínum dómi eða ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að Alþfl. fari að hrófla neitt við Því frv. eða þeirri löggjöf, sem hann fékk setta um þetta efni á þingi 1955. Þess vegna hljóta útgerðarmenn að gera sér fulla grein fyrir því, að það er þýðingarlaust að ætla að fara inn á þá braut, enda er það ekki heldur sú rétta leið, sem þeir eiga að fara í þessum efnum. Þeir eiga að gera kröfu til þess, að þjóðfélagið sjái um það, að þessi þýðingarmikli atvinnurekstur fái starfhæfan rekstrargrundvöll, og það á hann að geta fengið, án þess að farið sé að níðast á sjómönnum á nýjan leik.

Ég vil svo að endingu endurtaka það, að ég álít, að Alþ. megi ekki láta þetta mál frá sér fara að þessu sinni, öðruvísi en það sé tryggt, að togaraútgerðinni sé búinn viðunandi rekstrargrundvöllur og hægt sé að ganga til móts við þær óskir, sem sjómenn hafa borið fram um kjarabætur. Ég álít, að það eigi að vera þau meginsjónarmið, sem eigi að vera ráðandi við afgreiðslu þessa máls í þinginu. Ég held hins vegar, að það sé ekki nein lausn, sem hefur komið hér fram, að fara að breyta um rekstrarfyrirkomulag á togurunum, að taka upp þjóðnýtingu og annað þess háttar. Við höfum reynt þetta á vissan hátt, þar sem bæjarútgerðirnar eru, og ég held, að Það rekstrarfyrirkomulag hafi ekki borið þar neitt af rekstri einstaklinga og einstakra fyrirtækja, að það sé ástæða til að gera stórar breytingar í þeim efnum, heldur sé það að ýmsu leyti heppilegast eins og nú á sér stað, að báðir þessir rekstrarhættir séu viðhafðir, og það fái þannig að sýna sig í reynd, hvor þeirra gefst betur.