02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð í sambandi við brtt. mína á þskj 565 varðandi heimild til aðstoðar við togbátana. Það er rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan, að telja má. að þessi skip, sem hér er um að ræða, eigi rétt til bóta úr hlutatryggingasjóði almennt séð. Hins vegar fæ ég ekki séð, að það komi í raun og veru þessu máli beinlínis við, vegna Þess að aðstoð sú, sem gert er ráð fyrir að veita samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, er ekki aðstoð frá hlutatryggingasjóði og ekki veitt samkvæmt reglum hlutatryggingasjóðs. Hún er alveg utan við starfsemi hans vegna aflabrests á árinu 1960. Hins vegar á aðstoðin frá 1961 að verða veitt af hlutatryggingasjóði og eftir hans reglum. Jafnvel þótt þarna væru tengst á milli, þá held ég mér sé óhætt að fullyrða, að greiðslur þær, sem togbátar hafi fengið úr hlutatryggingasjóði, séu til þessa mjög litlar eða nær engar, ef þær eru þá nokkrar. Hins vegar mun það vera í athugun nú, eftir á, að greiða þessum skipum einhverjar bætur, og má vel vera, að sú verði niðurstaðan, það verði gert, en Það er mjög í óvissu, að ég hygg, hvort einhver greiðsla kemur og hve mikil hún verður. Ef sú greiðsla yrði það há fyrir árið 1961, að stjórn hlutatryggingasjóðs, sem á að veita aðstoðarféð, þætti þar nóg að gert, þá mundi hún að sjálfsögðu ekki nota heimildina, þó að hún væri í lögunum. Ég sé því ekki, að Það geti verið neitt athugavert við það, þó að þessi heimild sé í lögunum. Stjórn hlutatryggingasjóðs er væntanlega trúandi til að nota hana, ef ástæða er til, og að nota hana ekki, ef ástæða er ekki til.