02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Það voru aðeins örfá orð, sérstaklega út af einum þætti í þessu máli, sem ég hef raunar vikið að áður, bæði í sambandi við gengislækkunar-kálfinn, sem við köllum svo í gamni, og eins mun ég hafa vikið að því við 1. umr. þessa máls. En það er að ætla sér að lögfesta þá óhæfu að leggja nýja skatta á bátaútveginn til Þess að standa undir töpum togaranna. Ég tel alveg óhæfu að lögfesta annað eins og þetta. Þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við, fordæmdi hún með miklu yfirlæti allar uppbætur, allar tilfærslur til og frá í efnahagskerfinu, og dæmdi þær með öllu óalandi og óferjandi. Að vísu braut ríkisstj. þessa stefnuyfirlýsingu sina, að allt slíkt skyldi fordæmt, strax með því að láta niðurgreiðslur á vöruverði innanlands ekki aðeins haldast, heldur stórauka þær, því að útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur innanlands eru í raun og veru eins og endarnir á sama prikinu. Það er bara sá munur, að niðurgreiðslurnar eru notaðar til að lækka framleiðslukostnaðinn, en útflutningsuppbæturnar til að hækka útflutningsverðið. Þetta var því að miklu leyti vindur, sem kom fram um þetta hjá hæstv. ríkisstj. En sterkar yfirlýsingar voru þetta nú þó, þótt brotnar væru strax að þessu leyti.

Alveg sérstaklega var þó lögð áherzla á, að öll mismunun væri stórhættuleg. Það yrði hver að búa óstuddur við þau skilyrði, sem hann hefði. og öll mismunun, þ.e.a.s. allur stuðningur við einhverjar sérstakar greinar þjóðarbúsins, væri gersamlega fordæmanleg og stórhættuleg, því að hún yrði, sagði hæstv. ríkisstj., til þess, að ekki kæmi fram rétt mynd af því, hvaða atvinnurekstur skyldi stunda í landinu. Allt riði á því, að þetta fengi að vega sig óstutt, og kæmi þá glögg mynd af því, hvað hver um sig gæti. Og þeir, sem ekki gætu klárað sig óstuddir, hvort sem það væru einstaklingar eða atvinnuvegir, yrðu að heltast úr lestinni og hætta, enda væri lífsnauðsyn fyrir þjóðarbúið, að slík starfsemi legðist niður. Á þetta var lögð feikna áherzla.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. líka brotið Þessar yfirlýsingar og þessar kenningar, sem líka voru að miklu leyti fásinna, vegna Þess að Það nær auðvitað engri átt, að allt það eigi að detta niður, sem kann að eiga í erfiðleikum, jafnvel um stundarsakir. Stundarsakir í þessu tilliti geta verið t.d. nokkur ár, þegar um atvinnugreinar er að ræða, sem eiga sér mikla „tradition“ og mikla sögu. Þessi kenning hæstv. ríkisstj. var því auðvitað fásinna, eins og bezt kemur fram í því, að nú kemur hæstv. ríkisstj. fram með uppástungur um að veita togaraútgerðinni sérstakan stuðning — mikinn stuðning.

Mér þykir líklegt, að svo framarlega sem togaraútgerðin á að halda áfram svo sem hún þarf að gera, þurfi hæstv. ríkisstj. að koma, áður en langt um líður, og gera ráð fyrir frekari ráðstöfunum í þá átt að styðja þá útgerð.

En nú er hæstv. ríkisstj. hér komin með mál, sem algerlega brýtur í bága við þessar óviturlegu yfirlýsingar og fordæmingar, að öll mismunun og allur stuðningur væri fjarstæða. Um það er ekki að villast, að með Þessu frv. eru teknar upp uppbætur til togaraútgerðarinnar í stórum mæli. Það er að vísu reynt að dulbúa þetta með því að kalla þetta breytingu á aflatryggingasjóðnum, hlutatryggingasjóðsfyrirkomulaginu, og láta ríkið leggja peninga inn í slíkan sjóð fyrst, áður en Þeir renna til stuðnings togaraútgerðinni o.s.frv. Og það mun vera gert í tvennu skyni. Annars vegar til þess að dulbúa þetta nokkuð, vegna þess að það virðist ríkja dálítil feimni við að viðurkenna, að allar þessar stefnuyfirlýsingar um að fordæma mismunun og stuðning gátu alls ekki staðizt. Þetta virðist vera önnur ástæðan til Þess að dulbúa þetta með þessum hætti. Hin ástæðan til þess, að svona er gengið frá þessu, að umstokka allan aflatryggingasjóðinn — hlutatryggingasjóðinn — og gerbreyta honum, er sú, að ætlunin er að láta bátaútveginn borga að verulegu leyti töp togaraútgerðarinnar.

Í þessu sambandi er ekki hægt að komast hjá því að minna á, í sambandi við Þessar kenningar um það, hvað öll mismunun væri hættuleg, að þá var á það bent, hvað það væri hættulegt, að borgað væri af almannafé til þess að halda uppi atvinnugrein, sem stæði höllum fæti. Það var alveg fordæmt. En alveg sérstaklega og umfram allt var þó fordæmt, ef einhver ein atvinnugrein væri dæmd til þess að standa undir annarri. Það var talið alveg hámark vitleysunnar, Því að svo vafasamt sem Það væri að taka af almannasjóði, óskiptu þjóðarbúinu, til að standa undir einhverri grein, Þá tæki þó alveg út yfir, ef einhverjum dytti í hug að láta eina tiltekna grein í þjóðarbúskapnum taka aðra á sig, því að það væri tvöföld mismunun, og er það rétt, — ekki aðeins venjulegt uppbótakerfi með öllum þeim göllum, sem auðvitað eru á því, heldur væri það tvöföld mismunun.

En nú er þetta lagt til, og er það tvöfalt brot á þeim reglum, sem hæstv. ríkisstj. setti sér í upphafi, því að það er ekki aðeins, að ein atvinnugrein sé studd, heldur er líka í leiðinni annarri, og í þessu dæmi bátaútveginum, íþyngt, — íþyngt til að styðja aðra grein.

Ég vil alveg sérstaklega, eins og ég tók fram í upphafi þessara fáu orða, mótmæla þessu sem fullkominni óhæfu. Ég mótmæli Því sem fullkominni óhæfu að skattleggja bátaútveginn á þessa lund til að standa undir taprekstri togaranna. Ég bendi á, að það er alveg óhugsandi, að þetta geti staðizt til lengdar, þegar þess er gætt, að bátaútvegurinn, íslenzki sjávarútvegurinn, verður að standa í harðri samkeppni sem útflutningsatvinnugrein við sjávarútveg í öðrum löndum. Og hvernig halda menn, að slíkt muni geta tekizt, ef ofan á allt annað, sem sjávarútveginum er ætlað að láta af mörkum til þjóðarbúsins, er farið að skattleggja sérstaklega eina grein útvegsins eins og bátaútveginn til þess að styðja aðra, sem sérstaklega stendur höllum fæti, í stað þess að þjóðarbúið í heild taki að sér að styðja þá grein, sem höllum fæti stendur, togaraútgerðina? Það er þetta, sem ég legg áherzlu á, að sá kostnaður, sem við það verður að styðja togaraútgerðina, komi af óskiptu Þjóðarbúinu. Það álít ég að eigi að gera, því að ég álit, að togaraútgerðin eigi alls ekki að falla niður.

Ég tel, að togaraútgerðin eigi inni, eins og ég hef margtekið fram í sambandi við þessi mál, — að hún eigi inni hjá íslenzka þjóðarbúinu. En það er þjóðarbúið sjálft, sem á að greiða sína skuld við togaraútgerðina, en hitt er fjarstæða, að ætla bátaútveginum að standa undir þessu. Ég mótmæli því og Það var til þess fyrst og fremst, sem ég kvaddi mér hljóðs, til þess að mótmæla því enn einu sinni, áður en það kynni að verða samþykkt hér í hv. deild.