02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Gísli Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við 1. umr. og setti þá fram nokkrar till. í sambandi við lausn þessa máls, sem mér fannst að vektu þá nokkra athygli, og kom það einnig fram í ræðu hjá hv. 7. þm. Reykv. í dag, að hann hefði vænzt þess, að þær hefðu verið athugaðar nánar. En ég sé nú á því frv., sem hér liggur fyrir, að ekkert af þeim till. hefur verið tekið í frv., og skal ég ekki hefja neinar ásakanir á hæstv. ráðh. út af því.

Mér skildist af ummælum hæstv. ráðh. í dag um þetta mál, að hér væri aðeins um eitt stig að ræða í sambandi við að bjarga því nauðsynjamáli, sem hér er til umr., og það er síður en svo, að ég vilji átelja það á nokkurn hátt, þó að hæstv. ríkisstj. sjái sér ekki fært að greiða úr þessu vandamáli öllu í einu. En ummæli hans tók ég þannig, að Það sé enn þá í athugun hjá ríkisstj. að búa svo að togaraútgerð, að hún geti átt framtíð hér í þessu landi. Öðruvísi gat ég ekki skilið ummæli hans hér í dag.

Ég verð að segja, að Það er mjög ánægjulegt að hafa hlustað á það hér bæði við 1. umr. og eins nú við þessa 3. umr., að flestallir hv. þm. í þessari d. virðast vera á þeirri skoðun, að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða, að það komi ekki til mála að leggja íslenzka togaraútgerð niður. Þetta sýnist mér allir hv. þm. hafa verið sammála um, sem það hafa rætt, að undanteknum hv. 5. þm. Norðurl. v., sem að því er ég hygg vildi skera togaraútgerðina alveg niður og ekkert hugsa um slíkan óþarfa í okkar atvinnulífi.

En þegar þessi yfirlýsing liggur hér fyrir, þá vekur það allmikla undrun, að þeir menn, sem hafa rætt þetta mál af stjórnarandstöðunni, skuli ekki hafa verið meira inni á eðlilegum og frambærilegum till. en komið hefur fram í Þessum umr. Þær hafa sannarlega ekki verið jákvæðar í þessu máli. Hér hafa verið notaðar miklu meira alls konar ásakanir á hæstv. ríkisstj. fyrir að hafa ekki leyst þennan mikla vanda allan í einu og engan veginn verið komið með neinar jákvæðar till. til að bjarga þessu kannske mesta vandamáli þjóðarinnar, eins og nú er komið fyrir þessari atvinnugrein.

Ef við lítum á, hvað Það er, sem raunverulega hefur gert það, að togararnir eru komnir í þá aðstöðu, sem þeir eru í nú, þá er það ekki eingöngu það, að þeim hafi verið ýtt út fyrir íslenzka landhelgi. Það er svo margt annað, sem hefur stuðlað að því, að svo er komið, m, a. það, að það hefur verið erfitt að fá þaulæfða menn til þess að sigla á togurum á fjarlæg mið. Þetta er eitt í þeim vanda, sem togaraútgerðin hefur átt við að búa nú um fjöldamörg ár og orðið þess valdandi, að reksturinn hefur orðið margfalt dýrari. Þeir hafa orðið að hafa fleira fólk, vegna þess að það hefur verið óvanara og lélegra fólk, og það er af því, að fólkið hefur horfið að öðrum atvinnugreinum í landi, þar sem það hefur betri lífskjör og minna erfiði. Þetta hefur verið ein ástæðan. Og nú vilja menn aðeins sigla á togurunum, sem fara á ísfiskveiðar, en alls ekki á þeim, sem fara í langar veiðiferðir. Þeir vilja m.ö.o. ekki vera nú að heiman í 6–8 vikur eins og áður var. Þeim þykir miklu þægilegra að taka eins mikil laun og kannske meiri laun hér, þar sem þeir geta verið heima við, heldur en fara í hinar lengri veiðiferðir, eins og var áður. Þetta er ein ástæðan fyrir því, að erfitt hefur, verið að fá fólk á togara á fjarlægari mið.

Auk þess vil ég benda á þá reglu, sem var tekin upp í stríðinu, að setja helzt í land meira en hálfa skipshöfnina, á meðan skipin sigla til útlanda með afla, og greiða full laun, án þess að skuldbinda hana til að koma aftur á skipsfjöl, þegar skip kemur aftur í heimahöfn, en þetta veldur því, að þessir menn geta skapað sér miklu meiri tekjur, þar sem þeir geta unnið í þá 14 daga, sem skipin eru í utanlandsferðinni, fyrir fullum launum hjá öðrum aðila, þótt þeir á sama tíma hafi full laun hjá útgerðinni, Veit ég þess dæmi, að menn hafa verið þannig á þreföldum launum. Það er því ekkert að furða, þó að það sé erfiðleikum bundið að fá menn til að vera á togurum á langferðum fjarri sínum heimilum í margar vikur, þegar þeir eiga kost á því að geta haft þessi kjör á ísfiskveiðum. Og ég hygg, að eins og nú er komið, þá sé tæplega hugsanlegt að gera út togara yfirleitt til saltfiskveiða til fjarlægari miða, eins og t.d. Færeyingar gera, nema hækka svo gífurlega tekjur þeirra manna, að þær verði langt fyrir ofan þær kröfur, sem gerðar eru af Þeim mönnum, sem nú hafa gert verkfall á togurunum, ef tryggja ætti skipshafnir á Þær veiðar.

Allt þetta sýnir, að vandinn er margþættur í þessu máli, og það hefði mátt búast við því, að þetta væri rætt með meiri hógværð en hefur verið gert hér í sambandi við afgreiðslu Þessa máls.

Ég var dálítið ásakaður hér af hv. 4. landsk. fyrir að hafa fyrstur manna flutt það hér á Þingi eða gefið ábendingu um, að Það væri rétt að breyta vökulögunum, og hann taldi það vera mikið ódæði, sem ég hefði framið með því að hreyfa því máli hér á Alþ. Nú vildi ég í sambandi við Það leyfa mér að benda á, að þegar við sátum í mþn. í togaramálunum, þá var þetta mál þaulrætt þar. Og það var a.m.k. ekki ég einn, sem var á því, að það bæri að athuga þetta atriði, síður en svo. Og ég vildi gjarnan spyrja, hver eðlismunur sé á því, að maður á togara fengi leyfi til þess að vinna, þegar nauðsyn bæri til, eitthvað fram yfir 12 tíma gegn fullum launum, eða maður á mótorbát fær leyfi til þess að vinna kannske 20–24 tíma og ekkert við því sagt og ekki heldur á strandferðaskipum eða siglingaskipum. Það er ekki hægt að bera á móti því, að þannig er þetta, ekki aðeins hér á Íslandi, heldur um allan heim, að sjómenn, þó að Þeim sé tryggður nægilegur hvíldartími, þá er það einnig heimilað innan viturlegra takmarka að leyfa þeim að vinna meira en einhvern ákveðinn lágmarkstíma og greiða þeim aukagreiðslu fyrir það, sem fram yfir er venjulegan vinnutíma. Og ég sé ekki, að það sé nein goðgá né föðurlandssvik, þó að hreyft sé því máli, hvort ekki sé hægt að skipuleggja það þannig, báðum til hagnaðar og einkum og sér í lagi þegar menn á sama tíma taka tæknina í sínar hendur til að létta störf þessara manna miklu meira en áður var, er þeir voru látnir vinna miklu lengur á dag, svo sem oftast var á saltfiskveiðunum, er menn voru látnir vinna kannske hvíldarlaust í hálfan annan eða tvo sólarhringa. Vinnuskilyrði og vinnuaðferðir eru ekkert sambærilegar og á þeim tíma, sem vökulögin voru sett.

Ég get auk þess sagt hv. 4. landsk. það, að ég hef heyrt allmargar raddir frá sjómönnunum sjálfum, að þeir væru engan veginn andvígir þessari tilhögun á ísfiskveiðum, vegna þess að þeim er það fullkomlega kunnugt, að þeir eru ekki 12 tíma í fullu starfi á þeim veiðum, þó að þeir séu við veiðarnar sjálfar, hvað þá á meðan þeir eru á siglingu milli landa. Hitt er allt annað atriði, að þeir mundu miklu síður vilja láta breyta þessu á saltfiskveiðum, enda er það allt annars eðlis. Á saltfiskveiðum er unnið miklu meira jafnt allan sólarhringinn en á ísfiskveiðunum. Og þær sýndu það bezt skýrslurnar, sem við höfðum á þessum tíma, að á einu skipi gat hver maður afkastað rúmum 900 kg á dag, en meðaltalið var ekki nema 435 kg, og höfðu þó togararnir á þeim tveim árum, sem við höfðum skýrslur yfir, fiskað um 5000 tonn á hvert skip. og það sýndi beinlínis, að það var ekkert að gera fyrir atla þessa 32 menn á flestum skipunum. Ef vinnan er sæmilega skipulögð, má tryggja fulla hvíld, þó að vökulögunum sé að einhverju leyti breytt.

Tillögur hv. 3. þm. Reykv. voru eiginlega mjög athyglisverðar. Hann vildi láta leyfa þeim útgerðarmönnum að halda áfram að gera út sín skip, sem hefðu sýnt það, að þeir gætu látið skipin bera sig, en hin skipin, sem hefðu verið gerð út af einhverjum öðrum aðila, hvort það voru bæjarfélögin eða aðrir, og ekki gátu borið sig, átti ríkissjóður að gera út. Samkvæmt þessu átti að þjóðnýta þau skipin, sem gátu ekki borið sig undir öðrum aðilum. Er þetta einhver sú einkennilegasta þjóðnýtingartill., sem ég hef heyrt.

Og tillaga hv. 4. landsk. var sú, og raunverulega tók hv. 3. þm. Reykv. undir hana líka, að hækka nú gengið. Þá væri öllum erfiðleikum lokið. Nú er bara um að gera að setja gengið eins og það var áður, helzt á 26 krónur pundið, og þá lækkuðu iðgjöldin og þá lækkaði olían, og þá átti öllu að vera borgið. Það er nú svo sem ekki mikill vandi, ef hægt væri að leysa hann á þennan hátt. Þá þyrfti ekki hæstv. sjútvmrh. að hafa margar andvökunætur út af málinu, ef það væri svona auðvelt.

Ég verð nú að segja það, að mig furðar á, að menn, sem eru jafnþingvanir og þekkja eins vel til atvinnumála og þessir hv. þm. gera, þeir skuli leyfa sér að láta svona fjarstæðu út úr sér, því að það er þó vitað, að gengislækkunin bjargaði þó að einhverju leyti togurunum og þeir hefðu stöðvazt enn fyrr, ef genginu hefði ekki verið breytt í samræmi við raunverulegt verðgildi peninganna.

Ég álit, að það, sem þurfi að gera í framtíðinni fyrir togarana, sé fyrst og fremst að komast að samkomulagi um, hvernig sé hægt að fækka mönnum um borð í skipunum, á meðan þau eru á ísfiskveiðum, og komast þar að sams konar niðurstöðu og aðrar þjóðir. Það er engan veginn eðlilegt, að íslenzk togaraútgerð þurfi að hafa fleiri menn á sömu veiðum og sömu slóðum en aðrar þjóðir. Verði ekki hægt að koma því fyrir nema með bættri tækni, þá er að leita að því, hvaða tæknilegar umbætur þurfi að gera, og framkvæma þær síðan.

Mér er ljóst, að Þjóðverjar hafa m.a. getað fækkað mönnum með því að brúka aðra tegund af botnvörpu en íslendingar, og ræddum við það atriði mjög í mþn. á sínum tíma. En það mætti ákaflega mikilli andstöðu hjá skipstjórunum, en ekki útgerðarmönnunum. Þjóðverjar og Englendingar líka toga aðeins á annarri hlið, en það mátti ekki heyra Það nefnt hjá íslenzkum skipstjórum að taka upp þá aðferð, þó að það bæði sparaði mikinn tíma og altmikla vinnu.

Þróunin er nú einnig orðin þannig, að síðan var farið að nota skuttogarana, sem við því miður eigum enga, hefur tekizt að fækka enn meir mönnum á þeim en á hinum togurunum, og það er af því, að þar er hægt að koma tækninni betur við. Þegar því það er alveg fastákveðið, eins og mér skilst hér á Alþ., að það skuli haldið áfram að gera út togara á Íslandi, þá ber að sjálfsögðu að hafa það í hyggju, hvernig við getum notað tækniþróunina hér eins og annars staðar og þá um leið fækkað skipverjunum á hverju skipi, því að það er staðreynd í öllum löndum, að því hærri laun sem greidd eru starfsfólki, því meira verður að nota tæknina. Og það er því aðeins hægt að hækka og bæta kjör fólksins, að það sé hægt að láta vélarnar koma í staðinn til þess að vinna fyrir mannshöndina.

Annað stórt atriði, sem þarf að athuga, og það vildi ég einmitt ræða sérstaklega við hæstv. ráðh., er hinn gífurlegi kostnaður við vátryggingarnar. Ég hef ekki rætt þetta persónulega við ráðherrann, en mér hefur skilizt, að hann hafi fullan áhuga á því að reyna að koma þar umbótum á, en að það sé svo umfangsmikið mál, að ekki sé hægt að gera það nú á þessu þingi eða á þeim tíma, sem eftir er til þingslita. En ég vænti þess, að það verði athugað gaumgæfilega, áður en næsta þing kemur saman, hvernig unnt sé að lækka þann gífurlega kostnað, því að það sýnir sig sjálft, að það er þung byrði, ef togari þarf að borga allt að einni millj. kr. árlega í vátryggingarkostnað. Þá fer að verða spursmál, hvort ekki á að þjóðnýta það atriði og láta ríkið taka að sér vátryggingarnar, ef ekki er hægt að fá þessu breytt á annan hátt. Það annað, sem ég stakk upp á og ég tel að beri að athuga, er, að á meðan togaraútgerðin á við þessa rekstrarerfiðleika að stríða, verði létt af henni að greiða þunga skatta í atvinnuleysissjóðina, og að sjálfsagt sé að gefa undanþágu frá því gjaldi, þangað til togaraútgerð er aftur komin á öruggan fjárhagslegan grundvöll. Þetta var eitt af því, sem ég benti á fyrr við umræðurnar. Ég get vel skilið, að slíkar till. þurfa að athugast vel, og það gefst sjálfsagt ekki tími til þess að fá um það samkomulag á þeim stutta tíma, sem eftir er nú á þinginu. Ég endurtek það enn, að ég skil ummæli hæstv. ráðh., að hér sé aðeins um að ræða einn hluta af því, sem þarf að bæta í sambandi við togaraútgerðina, það sé engan veginn lokaþátturinn af hans hálfu eða af hálfu hæstv. ríkisstj.

Ég skal svo ekki ræða sjálft aflatryggingasjóðskerfið. Ég var andvígur því á sínum tíma og tel, að það hefði verið miklu heppilegra að fara aðrar leiðir, en um það skal ég ekki ræða hér í dag, því að óneitanlega er það tilhneiging hjá mönnum að hugsa ekki eins mikið um aflann, ef þeir vita, að þeir fá það greitt annars staðar, sem á vantar, auk þess sem það er mjög sár tilfinning hjá þeim mönnum, sem eru aflahæstir, að láta svo og svo stóran hluta af sínum afla til hinna, sem hafa ekki getað gert verkið eins vel. En ég skal ekki frekar fara út í það hér nú.

Meginástæðan fyrir því, að svo erfitt er að fá menn til að fara á hin fjarlægari mið, er, svo sem ég tók fram áðan, að mennirnir hafa miklu lakari kjör, eru meira frá heimilunum og alveg sérstaklega þessi regla, sem haldið er enn og ég þekki ekki í neinum atvinnuvegi nema á togurum, að greiða mönnum, sem eru á ísfiskveiðum, full laun fyrir að vera heima hálfan tímann og það án þess að skuldbinda Þá til þess að þurfa að koma aftur til skips, þegar skipin koma heim. Hvernig Færeyingar fara að því að láta sín skip borga sig á veiðunum, getur ekkí verið neinn mælikvarði fyrir okkur, því að þeir hafa sjálfsagt allt aðra og miklu minni erfiðleika að glíma við í þessum málum heldur en við höfum. Þetta Þótti mér rétt að láta koma hér fram, áður en málið fer héðan úr þessari hv. deild.