03.04.1962
Efri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af fyrirspurnum, sem hv. 4. þm. Vestf. beindi til mín.

Ég gerði í minni fyrri ræðu nokkurn samanburð á aflabrögðum togaranna frá árinu 1958 og til ársins 1961. Það var aðeins samanburður á heildarmagni togaraflotans alls, og ég komst að þeirri niðurstöðu, að aflinn, heildarafli togaranna árið 1961, hefði verið rétt rúmur þriðjungur af því, sem hann var árið 1958. En ég tók fram í þessu sambandi, að árið 1958 hefði verið metár, og ég tók líka fram, að heildaraflinn segði ekki til um allt, heldur yrði þá líka að taka tillit til úthaldstíma og siglingatíma og til þess, hve margir togarar hefðu verið að veiðum. Þetta tók ég alveg greinilega fram og ætlaði ekki með þessu heildarmagni, sem ég nefndi, að villa um neinar heimildir á því, hvað mismunurinn væri á þessum árum. En heildaraflamismunurinn gefur strax mjög skýra vísbendingu um það, hvert hefur stefnt þessi ár, enda er það á allra manna vitorði, að aflinn hin síðustu ár hefur orðið miklu, miklu minni en hann var árið áður, og þó að ekki sé tekið til samanburðar árið 1958, heldur bæði árin á undan og eftir, þegar aflinn hefur verið í kringum 150–160 þús. tonn hjá togurunum í heild.

Hv. 4. þm. Vestf. spurði um verð á aflanum, eða fyrir hvaða söluverð aflinn hefði verið látinn, og um veiðitímann, sem hvort tveggja hefði áhrif á afkomu togaranna. Það er alveg rétt, hvort tveggja þetta hefur áhrif. En það hefur ekki fyrir árið 1960 verið gert upp nákvæmlega, hvað verðið hefur verið að meðaltali. Það hefur náttúrlega verið ákaflega misjafnt, sérstaklega hjá þeim, sem hafa selt í útlöndum. Verðið hér heima hefur verið miklu jafnara. En ef það ætti að fá nákvæma mynd af því, hvernig aflamagnið hefur haft áhrif á afkomuna, þá væri rétt, að þetta lægi fyrir og sömuleiðis veiðitíminn. En þrátt fyrir það, þó að þetta liggi ekki fyrir, sem erfitt er líka að segja endanlega til um nema þá með mjög ýtarlegri rannsókn, þá liggur það fyrir alveg óumdeilanlega, að afkoma togaranna með þessum aflabrögðum hefur orðið hatramlega slæm, samanborið við það, sem hún hefur verið áður.

Það liggja fyrir opinberar skýrslur um bæjarútgerðirnar, líklega flestar eða alar, í Reykjavík, í Hafnarfirði, Útgerðarfélag Akureyrar o.fl., sem rekin eru ýmist sem opinber eða hálfopinber fyrirtæki, og þær tala sínu máli. Og í skýrslu togaranefndarinnar, sem vann á árinu 1961 og lagði sig mjög eftir því að finna, hvernig afkoman hefði verið, kemur það fram, að meðaltap á togara hefði orðið 21/2 millj, kr., og það segir okkur raunar allt það, sem við Þurfum að vita í þessu sambandi. Þá er að vísu reiknað með venjulegri fyrningu, og heildartapið að meðtalinni fyrningarafskrift er að dómi n. Þetta.

Þá spurði hv. þm., hvort aflatryggingasjóður yrði minna virði en áður vegna tilkomu togaradeildar og jöfnunarsjóðs, þannig að gömlu deildirnar, almenna deildin og síldveiðideildin, stæðu verr að vígi en áður til að sinna bótagreiðslum vegna aflaleysis til handa bátunum á þorskveiðum og síldveiðum. Mér skildist, að þetta væri meiningin í fyrirspurn hv. þm., og ég get svarað því til, að möguleikar gömlu deildanna eiga að vera alveg óraskaðir og Þeir sömu og þeir voru áður, þrátt fyrir tilkomu hinna nýju deilda tveggja, togaradeildar og jöfnunardeildar, samkvæmt útreikningum Þeirra manna, sem að frv. hafi unnið og þekkja allra manna bezt til þessa máls alls.

Þá sagði hv. þm., að hann vildi draga í efa, að framlag togaranna til fiskveiðasjóðs hefði orðið eins mikið og ég lét í ljós í minni fyrstu ræðu, eða um 100 millj. kr. samtals, sem þeir hefðu í þennan sjóð látið. Nú sagði ég það greinilega, að þetta hefði komið fram hjá frsm. meiri hl. sjútvn. í hv. Nd. og hefði ég ekki haft aðstöðu til þess að athuga þetta enn, en samkvæmt því, sem hann hefur upplýst og fréttir hafa verið sagðar af í blöðum, þá hefur hlutdeild togaranna í útfluttum sjávarafurðum verið eins og hér segir undanfarin ár: 1957 36%, 1958 38%, 1959 32% og 1960 24.5%. Tekjur fiskveiðasjóðs hefðu verið fram að þessu ári sem hér segir: 1957 18.7 millj., 1958 24.4 millj., 1959 271/2 millj. og 1960 36.4 millj., eða alls 108.9 millj. Ef reiknað væri með sama hlut togaranna í tekjum af útfluttum sjávarafurðum, yrði framlag togaranna til fiskveiðasjóðs fyrir þessi fjögur ár 33.8 millj. Og ef sama hlutfall væri lagt til grundvallar frá byrjun, þá næmi hlutur togaranna í framlögum til fiskveiðasjóðs um 97 millj. kr. alls, sem er nálega alveg sú tala, sem ég nefndi, og ég ætla, að hún sé ekki fjarri lagi, þó að þetta sé náttúrlega að nokkru leyti áætlun. En mörg undanfarin ár hefur Þáttur togaranna í fiskveiðum Íslendinga numið um 40 og jafnvel 50% af heildarveiðimagni. Þó að hlutur togaranna hafi fallið mjög verulega nú hin síðustu árin, þá hefur hann á undanförnum árum mörgum, á meðan aflatregðan var ekki komin til, verið svo mikill hluti af heildarveiðimagninu, að ég er ekki frá því, að rúmar 200 millj. kr. í heildartekjur, eins og hv. þm. nefndi, geti orðið til þess, að hlutur togaranna yrði þar í kringum 100.

Ég var ekki að segja þetta af neinum metingi eða telja þetta eftir, en ég sagði Það aðeins vegna þess, að ég taldi, að á Þennan hátt hefðu togararnir aðstoðað bátana og það allmyndarlega, Þannig að ekki þyrfti að telja eftir, þó að bátarnir gætu nú að einhverju leyti greitt fyrir togurunum í þeirra vandræðum um takmarkaðan tíma, sem jafnvel gæti svo aftur endað með því, að jöfnunardeild aflatryggingasjóðsins gæti orðið til þess að togararnir síðar gætu jafnað metin og aðstoðað þá.

Hv. þm. sagði líka, að sannarlega hefði togaraútgerðin ekki verið hornreka í íslenzkum útvegsmálum. Það er nú svo. Hún var Það einmitt, hv. þm., því að 1951 var tekið upp það kerfi að greiða togurunum minna verð fyrir fiskinn, sem þeir fluttu á land, þó að jafngóður væri, heldur en bátarnir fengu. Þetta kalla ég að vera hornreka. Öll árin frá 1951 til 1958 var ekki greitt sama verð fyrir Þann fisk, sem togararnir báru að landi, eins og Þann fisk, sem bátarnir báru að. Þetta var rökstutt með því þá, að togararnir þyrftu ekki á jafnmikilli aðstoð að halda og bátarnir, og það kann ve1 að hafa verið rétt. En útkoman varð samt Þessi, að togararnir fengu allt annað verð en bátarnir. Og það hefur verið reiknað út, hversu miklu þessi verðmismunur muni nema. Ég hef að vísu ekki átt kost á Því að sannprófa þá tölu, en mér hafa sagt greinargóðir menn, sem þetta hafa athugað, að þessi upphæð muni nema á hvern togara, eins og ég sagði í minni frumræðu, í kringum 5.6 millj. kr. Og ég verð að segja það, Þrátt fyrir það álit, sem hv. 5. Þm. Norðurl. e. lét hér í ljós áðan, að verðmismunur á fiski og missir á brezka markaðinum hefði ekkert að segja í sambandi við rekstur botnvörpuskipanna nú, þá er það eitt áreiðanlegt og víst, að betur hefðu íslenzkir togarar verið á vegi staddir með að mæta sínum erfiðleikum nú, ef þeir hefðu átt í handraðanum Þessar 5.6 millj., sem af þeim voru teknar á árunum 1951–1958. Og betur hefðu þeir áreiðanlega verið á vegi staddir líka, ef þeir hefðu haft aðgang að brezka markaðinum allan þann tíma, sem þeir voru útilokaðir frá honum, sem er án alls samjafnaðar bezti markaðurinn, sem við eigum kost á.

Ég er á engan hátt að telja eftir Það, sem togararnir hafa verið látnir leggja af mörkum til ýmist bátaútvegsins eða sameiginlegra þarfa landsmanna á undanförnum árum. En mér þykir það ekki ósanngjarnt, að Þess sé getið í sambandi við bollaleggingar um, að það megi undir engum kringumstæðum láta nokkurn hlut af Þeim byrðum, sem nú Þarf að leggja á til hjálpar togurunum, lenda á bátaútveginum. ég tel það bæði með hliðsjón af því, sem liðið er, og eins með hliðsjón af ástandi dagsins í dag, fullkomlega forsvaranlegt, að sá háttur sé hafður á, sem frv. gerir ráð fyrir, enda ekki hlutur bátanna í þessari fúlgu, sem til togaranna er tekin, nema tiltölulega mjög lítill, þegar framlag togaranna sjálfra og hlutur ríkissjóðs er dregið frá, þar sem ríkissjóður tekur þetta algerlega að sér einn annað árið og mjög verulegan hluta af útgjöldunum síðara árið.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. vék svo að því, að hér væri verið að innleiða nýtt bótakerfi, sem fullyrt hefði verið af núv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, að gersamlega yrði horfið frá. Ég vil í því sambandi segja, að ég vil telja mun á þessu kerfi og á því almenna bótakerfi, sem var hér uppi haft, bæði í tíð vinstri stjórnarinnar og stjórnanna þar á undan vegna erfiðleika útvegsins, þar sem greidd var viss upphæð til allra til hækkunar á verði, nema þá minni til togara, en hér er eingöngu verið að tryggja togaraútgerðina fyrir aflabresti. Ef aflabrestur verður ekki, Þá Þarf ekki til neinna bóta að koma. Það er eingöngu í því tilfelli, að aflinn á togurum verði minni en 85% af veiði undanfarinna ára, sem kemur til útgjalda úr aflatryggingasjóði, alveg eins og nú um 12–13 ára bil hefur verið greitt úr hlutatryggingasjóði til bátanna, þegar aflaleysi hefur að þeim steðjað. Þetta er í eðli sínu öðruvísi gjald en þær venjulegu bótagreiðslur. Þetta er tryggingargjald, en ekki uppbótagjald, — tryggingargjald, sem útgerðin kaupir sér með aðstoð ríkissjóðs, og það er starfsemi, sem á undanförnum árum hefur verið rekin af hlutatryggingasjóði án þess að vera orðuð nokkurn tíma við bætur. Og það er ekkert annað, sem hér gerist, heldur en það, að togararnir fá aðild að þessu tryggingakerfi með eigin framlögum og viðbótarframlagi úr ríkissjóði. Þetta er það, sem hefur gerzt, og Þessu vil ég ekki að ruglað sé saman við það, sem venjulega eru kallaðar uppbótagreiðslur úr ríkissjóði.

Ég held, að það hafi ekki verið miklu fleira, sem kom fram í ræðum þessara hv. þm. beggja, sem til máls hafa tekið. Ég skal því ekki orðlengja frekar um þetta. En ég vil aðeins undirstrika Það, að ég tel, að með þessu sé togaraútgerðinni gefin aðild að því tryggingakerfi, sem 13 undanfarin ár hefur verið starfrækt fyrir vélbátaflotann.