05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

219. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Með þessu frv. er lagt til, að stofnuð verði tvö ný prófessorsembætti í tannlæknisfræði við læknadeild háskólans. Öðru embættinu er ætlað að koma í stað dósentsembættis í tannlæknisfræði, sem nú er ekki skipað í. Hitt embættið er nýtt.

Kennsla í tannlækningum hefur farið fram í læknadeild háskólans síðan haustið 1945. Aðeins einn prófessor starfar þó að tannlækniskennslunni, en með honum starfa nokkrir dósentar og aukakennarar. Nýlega hefur nám í tannlæknisfræði verið lengt úr fimm árum í sex ár, auk þess sem tannlæknadeildin hefur verið flutt í nýtt húsnæði, úr háskólabyggingunni í húsnæði landsspítalans, og var við það kleift að fjölga kennslustólum úr 6 í 12, þannig að nú er hægt að brautskrá 6 kandidata árlega. Þessi lenging tannlæknanámsins og hin bætta aðstaða, sem tannlæknakennslan hefur hlotið í hinum nýju húsakynnum, gerir alveg óhjákvæmilegt að auka kennslukrafta við tannlækniskennsluna.

Nú starfa hér á landi 55 tannlæknar. Svarar það til þess, að einn tannlæknir komi á 3120 íbúa. Er hér um að ræða mun færri tannlækna á íbúa en á sér stað í nágrannalöndunum, en í síðustu skýrslum, sem tiltækar eru hér um það efni, segir, að í Finnlandi sé einn tannlæknir á 2720 íbúa, í Danmörku á 2150 íbúa, í Noregi á 1650 og í Svíþjóð á 1600 íbúa. Af þessum tölum sést, að hér er um að ræða mjög alvarlegan skort á tannlæknum, sem brýna nauðsyn ber til að ráða bót á.

Þetta frv. er einn liður í þeim ráðstöfunum, sem brýna nauðsyn ber til að gera í því skyni að fjölga tannlæknum á Íslandi. Gera má ráð fyrir, að á næstunni verði unnt að útskrifa úr læknadeild háskólans sex tannlækna á ári, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Þetta frv. er flutt að eindreginni beiðni háskólaráðs og læknadeildar Háskóla Íslands. Hæstv. forseti. Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.