16.04.1962
Efri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

219. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur rætt þetta frv., og eins og fram kemur í nál. á þskj. 787, mælir hún með því, að það verði samþ. Einn nm., Finnbogi R. Valdimarsson, áskilur sér þó rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Efni frv. er það, að fjölgað verði prófessorum í læknadeild og verði þannig stofnuð tvö prófessorsembætti í tannlæknisfræði, og er frv. borið fram að beiðni háskólaráðs og læknadeildar Háskóla Íslands.

Öðru þessara tveggja prófessorsembætta er ætlað að koma í stað dósentsembættis, sem ekki hefur enn þá verið skipað í, en hitt er með öllu nýtt. Frá því að kennsla í tannlækningum hófst, árið 1945, hafa verið brautskráðir úr tannlæknadeildinni 39 tannlæknar. Nemendafjöldi í deildinni hefur ávallt takmarkazt mjög bæði af húsrými og tækjum deildarinnar, og árlega hefur orðið að vísa frá mörgum, sem sótt hafa um inngöngu í deildina.

Þegar deildin fluttist í húsnæði í landsspítalanum, árið 1960, var tannlæknastólum fjölgað úr 6 í 12, og er nú hægt að útskrifa 6 tannlækna á ári hverju. Það hefur verið erfitt að fá kennslukrafta til deildarinnar. Nú er talið, að kennslumálum hennar sé komið í það óefni, að óumflýjanlegt sé að stórefla hana að kennaraliði, og því er þetta frv. fram komið.

Í grg. við frv. er getið til samanburðar, hve margir íbúar komi á hvern tannlækni í nágrannalöndum okkar, og sýnir sú skýrsla, að við erum langsamlega verst staddir í þeim efnum, Íslendingar, því að hér á landi koma 3120 íbúar á hvern tannlækni, en í Svíþjóð t.d., þar sem þessum málum er þó bezt komið á Norðurlöndum, 1600, svo að við stöndum þar helmingi verr að vígi en t.d. Svíar.

Það er mikill hörgull á tannlæknum hér, og allir vita, að tannlæknaskorturinn er tilfinnanlegur. Í því sambandi vil ég aðeins nefna þá erfiðleika, sem heilbrigðisþjónusta barnaskólanna hér í Reykjavík hefur átt við að stríða í þessum efnum. Ég sé, að í hv. Nd. hefur einn hv. þm. látið prenta í sérstöku nál. skýrslu frá stjórn Tannlæknafélagsins um tannlæknaþjónustuna í barnaskólunum. Þó að sú skýrsla gefi tilefni til verulegra aths., mun ég ekki lengja störf Þessarar hv. þd. með slíku, en ég vil láta þess getið, að viðræður við Tannlæknafélagíð hafa leitt það ótvírætt í ljós, að ástæðan til þess, að ekki fást nægilega margir tannlæknar að barnaskólunum hér í Reykjavík, er fyrst og fremst hinn tilfinnanlegi tannlæknaskortur.

Við 1. umr, málsins hér í þessari hv. Þd. hreyfði 9. Þm. Reykv. (AGI) því eða lét í ljós ósk um það, að athugað væri um breytingu á frv. í þá átt, að öðrum hinna nýju prófessora yrði ætlað að hafa yfirumsjón með tannlækningum í skólum. Brtt. Þess efnis var borin fram í hv. Nd., en náði ekki þar fram að ganga, þó að hins vegar menn teldu sig ekki henni andvíga. Mun það hafa verið ástæðan, að þeir hafi talið, að það mál þyrfti nánari athugunar en svo, að gert yrði í fljótu bragði. Persónulega vil ég segja það, að ég álít, að slík till. sé mjög athugandi. Hitt er annað mál, að bæði er þingi nú að ljúka og slík breyting yrði ekki á frv. gerð, án þess að hún væri áður borin undir háskólaráð og læknadeild háskólans og tími vitanlega allt of naumur til þess. Eðlilega þyrfti það mál athugun hjá þeim aðilum, áður en umsögn væri hægt að gefa.

N. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, þó með þeim áskilnaði, eins og ég áður sagði, að einn nm. hefur frjálsar hendur um að fylgja eða flytja brtt. við frv.