15.03.1962
Neðri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2041 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. hafði þann hátt á áðan, að hann vék ekkert að þeirri gagnrýni, sem fram hafði komið á frv. í ræðum þingmanna hér í dag, og hefði ég þó talið æskilegt, að svör hans við þeirri gagnrýni, sem fram kom á frv., hefðu legið fyrir hv. heilbr: og félmn., áður en hún færi að vinna að meðferð frv. En látum það vera.

Það var aðeins eitt atriði, sem hann kom inn á viðvíkjandi gagnrýni okkar, sem áður höfðum talað, það var viðvíkjandi því, að það væri á misskilningi byggt, að skattstjóraembættunum yrði fjölgað, þau væru 10, en yrðu ekki nema 9. Ekki sagði hæstv. ráðh. neitt um það, að af þessu mundi þess vegna leiða sparnað, en það var það, sem vakti fyrir mér í dag með því að gera þetta að umtalsefni, að ég væri mjög hræddur um, að einmitt þessi nýja embættaskipan mundi leiða til aukinna útgjalda og verða miklu meira embættisbákn en skattstjóraembættin hafa verið til þessa. Nú er það svo, að þeir skattstjórar, sem starfa, hafa viðkomandi kaupstað, sem þeir sitja i, sem sitt embættissvið. En nú yrði hvert kjördæmi í landinu, sem er allmikill landshluti, embættissvið hvers skattstjóra. Það er því alveg gefinn hlutur, að þarna verður settur inn nýr embættismaður á háum launum með stórt og mikið verksvið, og hann kemst ekki yfir Þetta starf, hvort sem það er fyrir alla Vestfirðina eða allt Austurlandið, án þess að hafa allmikið starfslið. Hver skattstofa verður því stórt embætti með starfsliði miklu. Auk þess segir í frv., að hver skattstjóri eigi að hafa umboðsmann í hverju sveitarfélagi, og það verður eins konar aðstoðarskattstjóri. Það má af þessu ráða, að það verður áreiðanlega ekki hægt að nefna sparnað í sambandi við þessa nýju tilhögun. Ég hygg, að þarna sé stofnað til allumfangsmikilla nýrra embættisbákna, sem ekki er auðvelt að sjá fyrir, hvað komi til með að kosta, en hins vegar er ég hræddur um, að þessi tilhögun leiði til þess, að ábyrgðin skiptist á þá aðila, sem eiga að ganga frá álagningu útsvaranna, og það tel ég mjög mikinn ókost við þetta fyrirkomulag, að þar kunni hver að kenna öðrum um, ef mistök verða, framtalsnefndirnar heima í héruðum og skattstjórinn, sem leggur síðustu hönd á verkið. En það er full þörf á því, að frá útsvarsálagningu sé þannig gengið, að gjaldandinn geti gengið að einum ábyrgum aðila.

Hins vegar vil ég svo beina því til hæstv. ráðherra, sem ég vék að í dag, hvort það er ekki rétt skilið, að til þess er ætlazt með frv., að 1/4 hluti af landsútsvörunum lendi í því sveitarfélagi, þar sem það fyrirtæki er staðsett, sem landsútsvar skal greiða. (Gripið fram í.) Það er þannig, já. Þá sýnist mér það ekki vega þungt, þó að það sé þannig, að þessi hluti heiti ekki aðstöðugjald, sem hæstv. ráðherra tók fram í dag, og er þá rétt, að það er ekki heimtað aðstöðugjald, en 1/4 af landsútsvarinu á að lenda í því sveitarfélagi, sem viðkomandi fyrirtæki er staðsett í. Þar af mun leiða, að stærsta sveitarfélag landsins, höfuðborgin, mun fá allmikinn hluta af landsútsvörunum vegna þeirra miklu stofnana og fyrirtækja, sem staðsett eru hér í Reykjavík í hópi þeirra fyrirtækja, sem landsútsvör eiga að greiða samkv. frv.

Að lokum skal ég svo aðeins taka undir það, sem sagt hefur verið, að ég sé ekki betur en það sé rétt, að hið nýja aðstöðugjald geti komið mjög misjafnlega niður og öllu misjafnar en veltuútsvörin, geti komið á taprekstur engu siður en þau og hafi í sér þann háska að leggjast á vöruverð og koma þannig á neytendur vörunnar, t.d. lagt á olíufélögin, en kaupendur olíu og benzíns greiða, þannig að í raun og veru verður það til beinnar verðhækkunar í landinu, eins og söluskattar yfirleitt, en það er hin gegnumfærða stefna hæstv. ríkisstj. að koma sem mestu af tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga yfir á skattþegnana í gegnum söluskatta, og þykir mér það mjög miður.

Ég vil svo ekki hafa þessi orð fleiri núna. Málið er á sínu fyrsta umræðustigi og fer til nefndar, og skil ég það vel, að hæstv. ríkisstj. vilji koma málinu í meðferð n. í kvöld.