28.03.1962
Neðri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., um tekjustofna sveitarfélaga, er í sex köflum og 68 greinum. Frv. fylgir löng grg. Það liggur því alveg ljóst fyrir, að til þess að hægt sé að kynna sér slíkan lagabálk til hlítar, þarf langan tíma og samanburð og samanlestur við önnur gildandi lög um hliðstæð efni. Mér sýnist ýmislegt í þessu frv. vera til bóta frá því, sem áður hefur verið. Aftur á móti eru einstök atriði þessa frv., sem eru að margra dómi mjög hæpin og beinlínis til fjárhagslegs tjóns fyrir einstök bæjar- eða sveitarfélög.

Um lengri tíma hefur staðið til, að gerðar yrðu breytingar á tekjum bæjar- og sveitarfélaga. Það mun flestum hafa verið orðið ljóst, að þeir tekjustofnar, sem sveitarfélögin hafa haft úr að spila, hafi verið allt of litlir og á engan hátt nægt sveitarfélögunum til þess að standa undir nauðsynlegum rekstrarkostnaði. Sífellt hafa verið gerðar meiri og hærri kröfur til sveitarfélaganna og oft og tíðum fyrir atbeina ríkisvaldsins, en án þess að tryggja það jafnhliða, að sveitarfélögin fengju tilsvarandi tekjur á móti þeim auknu kröfum, sem til þeirra hafa verið gerðar. Þetta hefur að sjálfsögðu orsakað það, að sveitarfélögin hafa orðið að grípa til þess að hækka útsvörin frá ári til árs. Hjá sumum sveitarfélögunum eru útsvörin orðin það há, að litt er viðunandi og stefnir til hreinna vandræða, ef ekki fást nýir tekjustofnar fyrir sveitarfélögin, svo að hægt yrði að draga úr útsvarsbyrðunum að einhverju leyti.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram hér í hv. d. frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga. Tekjustofnarnir skulu vera sem hér segir: Það er fasteignaskattur, — sá tekjustofn er ekki nýr, hann hefur verið notaður hjá sveitarfélögunum um árabil. Samkv. 5. gr. má þrefalda þennan skatt. Verður að telja slíka ráðstöfun mjög varhugaverða, eins og húsnæðismálum okkar er nú háttað, og virðist tæplega fært að láta þennan skatt ganga þannig yfir á húseigendur. En sérstaklega mundi þetta koma mjög illa við þá, sem standa í byggingum og hafa verið að byggja undanfarin ár og hafa átt nóg með að standa undir þeim kröfum, sem til þeirra hafa verið gerðar að undanförnu, þótt ekki bætist þarna nýr, mjög stór skattur við. Þá skal leggja á aðstöðugjald, sem kemur í staðinn fyrir veltuútsvarið. Um þennan skatt má að sjálfsögðu deila, og er það álitamál, hvort slíkur skattur sé réttlátari en veltuútsvörin. Þá er gert ráð fyrir úthlutun úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna eftir þar til settum reglum. Þá kemur hluti af söluskatti, sem renna skal til sveitarfélaganna, svo landsútsvar og að lokum væntanlega útsvör. Þetta eru þá þeir tekjustofnar, sem frv. gerir ráð fyrir að verði fyrir sveitarfélögin til að spila úr.

Mér sýnist, að fátt nýtt sé í frv. til bóta frá því, sem áður var, hvað tekjuhliðina áhrærir. Tvö nýmæli eru þó í frv. Annað er um landsútsvör, hitt er hið svokallaða aðstöðugjald, sem kemur í staðinn fyrir veltuútsvörin. Mér skilst, að aðstöðugjaldið sé lítið annað en veltuútsvar. bara í nýjum búningi. Aðstöðugjald má innheimta af rekstri fiskiskipa og flugvéla, verzlunarskipum, hvers konar iðnrekstri svo og öðrum atvinnurekstri. Veltuútsvar var lagt á öll slík fyrirtæki áður, þar sem þau voru á annað borð lögð á, en það mun hafa verið gert í langflestum sveitarfélögunum. Athyglisvert er, að mjög lítill mismunur er gerður á eðli og nytsemi þess atvinnurekstrar, sem leggja má aðstöðugjaldið á. Þannig má t.d. leggja aðstöðugjald á hvers konar iðnrekstur. Það er t.d. lagt að jöfnu súkkulaðiverksmiðja og niðursuðuverksmiðja, svo að eitt dæmi sé nefnt. Ég tel þetta alveg fráleitt. Aðstöðugjald ætti að miðast við þjóðhagslega þýðingu fyrirtækisins. Það er fyrst og fremst það, sem ég tel að eigi að ráða, hvar aðstöðugjaldið er lagt á og þá hvað það er hátt. Það verður tæplega um það deilt, að öll fiskiðja, svo sem hraðfrystihús, niðursuða fiskafurða, niðurlagningarverksmiðjur og niðursuða landbúnaðarafurða til sölu á erlendum mörkuðum, er þjóðhagsleg nauðsyn, sem ber að auka stórlega, hvar sem hún er. Allar þjóðir stefna að því marki hröðum skrefum að vinna úr því hráefni, sem þær afla, fullunna vöru. Íslendingar eru langt á eftir öðrum þjóðum á þessu sviði. Á þessu þarf að verða breyting. Við eigum að stefna að því að vinna úr okkar ágætu hráefnum sjálfir fullunna vöru og selja hana þannig á erlendum mörkuðum. Jafnhliða verðum við að gæta þess að íþyngja ekki þessum atvinnurekstri með of háum sköttum og tollum, en það virðist mér vera gert að nokkru leyti, m.a. með því að ætla sér að leggja 11/2% aðstöðugjald á þennan atvinnurekstur og láta hann t.d. greiða sama gjald og í dæminu, sem ég nefndi áðan um súkkulaðiverksmiðjur, sælgætisverksmiðjur, gosdrykkja- og ölverksmiðjur.

Þá tel ég það og alveg fráleitt að ætla sér að taka sama aðstöðugjald af rekstri fiskiskipa og af flugvélum. Eftir því sem bezt verður vitað, eru t.d. allir togararnir reknir með stórtapi og hafa verið það á undanförnum árum. En flugfélögin aftur eru, eftir því sem bezt verður vitað, rekin með stórhagnaði. Ég spyr: Er nokkurt minnsta vit í því að taka sama aðstöðugjald af báðum þessum fyrirtækjum, togurunum annars vegar og t.d. flugvélunum hins vegar? Mér sýnist slíkt hin mesta fjarstæða. Eins og nú horfir, er svo að segja allur togaraftotinn stöðvaður vegna þess, að eigendur þeirra telja sig ekki geta veitt sjómönnum viðunandi kjör. Telja svo menn, að slíkur atvinnurekstur sé fær um að taka á sig nýja skattabyrði? Ég held, að það sé tæplega hægt að halda því fram, að slíkt sé fært.

Mér fyndist eðlilegast, að aðstöðugjald af flugvélum t.d. yrði það sama og af rekstri verzlunarskipa. Undanskilja ætti þó vitanlega sjúkraflugvélar, á þeim ætti ekki að vera neitt aðstöðugjald, Þær ættu ekkert aðstöðugjald að greiða. En mér skilst á frv., að það sé ekki gerður greinarmunur á því, til hvers flugvélarnar séu notaðar. Ef svo er ekki, þá væri gott að fá um það upplýsingar. Um aðstöðugjald má vitanlega segja, að þar sé aðeins um heimildir að ræða, sveitarstjórnirnar þurfa ekki frekar en þær vilja að leggja það á. Sama var um veltuútsvarið, þar var aðeins um heimild að ræða, sem sveitarstjórnirnar notuðu í langflestum tilfellum og lögðu það gjald á. Og mér er nær að halda, að sama verði ofan á með aðstöðugjaldið. Sveitarstjórnirnar verða beinlínis neyddar til þess að nota það, vegna þess að þær vantar tekjur til þess að geta staðið undir sínum rekstri.

Skv. 17. gr. frv. er gert ráð fyrir, að eftirtaldir aðilar skuli greiða landsútsvör: Áfengisog tóbaksverzlun ríkisins, sölunefnd varnarliðseigna, síldarverksmiðjur ríkisins, áburðarverksmiðjan, sementsverksmiðjan, Viðtækjaverzlun ríkisins, landssmiðjan og Ríkisprentsmiðjan Gutenberg og olíufélögin. Af landsútsvarinu skal falla til þess sveitarfélags, þar sem það verður lagt á, 1/4, en 3/4 skulu ásamt 1/4 af söluskatti, sem er innheimtur árlega skv. 16. gr. a, skiptast á milli sveitarfélaganna eftir þar til settum reglum.

Við því hafði verið búizt, að inn í landsútsvörin yrðu teknir t.d. bankar og vátryggingarfélög og jafnvel fleiri stofnanir, sem reka alhliða þjónustu fyrir alla landsmenn. Þetta hefur þó ekki verið gert, hvað sem því veldur. Verður það að teljast stórfurðulegt. Það er vitað, að bæði bankar og tryggingarfélög eru rekin með stórum hagnaði ár hvert án Þess að þurfa að greiða neitt af sinum mikla gróða til sveitarfélaganna. Það virðast ekki vera til nein sérstök rök, sem mæla móti því, að þessar stofnanir séu látnar greiða til opinberra þarfa einhverja ákveðna prósentutölu af veltu og ágóða til sveitarfélaganna og þar með létta hinar gífurlegu útsvarsbyrðar af almenningi að einhverju leyti. Þess verður að vænta, að á þessu verði sú breyting gerð, að bankarnir og tryggingarfélögin og jafnvel fleiri hliðstæðar stofnanir verði fyrr eða síðar látin greiða að sínum hluta útsvar til sveitarfélaganna til jafns við aðra gjaldendur.

Í 17. gr. er lagt til, að síldarverksmiðjur ríkisins skuli greiða 1% í landsútsvar af heildarsölu þeirra, þ.e. 1% af veltu eða heildsölu. Nú greiða síldarverksmiðjur ríkisins 0.5% til þeirra sveitarfélaga, þar sem þær eru starfræktar. Breyt. sú, sem gert er ráð fyrir í frv. á útsvari síldarverksmiðjanna, verður mjög óhagstæð fyrir viðkomandi sveitarfélög, svo sem Siglufjörð og Raufarhöfn. Sama gildir vitanlega um þá staði, þar sem aðrar slíkar verksmiðjur eru til, svo sem Skagaströnd, og um þá staði, þar sem ákveðið er að byggja slíkar verksmiðjur nú á vori komanda.

Skv. bréfi, sem mér hefur borizt frá bæjarstjóranum á Siglufirði um þetta mál, er þess getið, að útsvar af síldarverksmiðjum ríkisins 1961 hafi enn ekki verið gert upp, en muni verða um 500 Þús. kr. Útsvar ársins 1962 er áætlað á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs 590 þús. kr. Skv. frv., eins og það er nú og ef það verður þannig að lögum, mundi útsvar ríkisverksmiðjanna á Siglufirði verða 1180 þús. kr. Fjórði hluti bæjarins úr þessu er 295 þús. kr. Þannig mundi því bæjarsjóður Siglufjarðarkaupstaðar missa, ef frv. verður samþ. óbreytt hvað þessu viðkemur, 295 þús. kr. Skv. útreikningi bæjarstjórans mundi tap bæjarsjóðs Siglufjarðarkaupstaðar vegna landsútsvaranna verða sem hér segir: Af útsvari síldarverksmiðja ríkisins, eins og áður er getið, 295 þús. kr., af útsvari Afengis- og tóbaksverzlunar ríkisins 262 500 kr., af útsvari olíufélaganna á Siglufirði 225 þús. kr. Samtals gerir þetta 782 500 kr. Greitt til baka úr jöfnunarsjóði 436800 kr. Hreint tap fyrir Siglufjarðarkaupstað samanlagt vegna landsútsvaranna á þau fyrirtæki, sem hér hafa verið upp talin, yrði því 345 700 kr.

Ég tel rétt að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, kafla úr bréfi bæjarstjórans á Siglufirði um þetta mál, en þar segir m.a.:

„Líkindi eru til, að veltuútsvar Afengis- og tóbaksverzlunar ríkisins 1962 verði um 400 þús. kr. af um 10 millj. kr. veltu þessa fyrirtækis á Siglufirði. Einnig má benda á, að ekki þarf nema síldveiðin glæðist örlítið meir fyrir Norðurlandi til þess, að olíusala aukist stórlega til síldveiðiflotans og þar með útsvar af veltu. En af hvorugri þessari hækkun mundi Siglufjörður njóta útsvara að neinu marki, eftir að landsútsvörin kæmust á. Þá er ákvörðunin um, að síldarverksmiðjur ríkisins falli undir landsútsvör, mesta áfall fyrir bæjarsjóð Siglufjarðar. S.R. hafa starfað hér rúmlega þrjá áratugi og vaxið hér og þróazt. Nú er svo komið, að síldarverksmiðjur ríkisins eru í raun og veru fimm fyrirtæki, þ.e. síldarbræðsla, frystihús, vélsmiðja, soðkjarnavinnsla og niðursuðuverksmiðja. Stærð S.R. í hlutfalli við stærð bæjarins er óvenjumikil og stór hluti af bænum byggður upp í kringum fyrirtækið. Bæjarfélagið hefur lagt í kostnað, sem skiptir millj. kr., til þess að treysta aðstöðu S.R. í bænum, í þeirri von að fá til baka opinber gjöld, sem hverju fyrirtæki ber að greiða í sínu sveitarfélagi. Afnot S.R. af allri aðstöðu í bænum eru í stuttu máli á þann veg, að ef nokkurt fyrirtæki yrði að falla undir aðstöðugjald, er félli til viðkomandi heimabyggðar skv. röksemdum f frv. um tekjustofna sveitarfélaga, þá eru það síldarverksmiðjur ríkísins á Siglufirði. En S. R. hafa frá fyrstu tíð greitt mjög smávægileg gjöld til bæjarsjóðs, eða 0.5% af brúttóframleiðslu, og er það miklum mun minna en önnur fyrirtæki greiða. T. d. hafa öll smáiðnfyrirtæki greitt 1.5% í veltu og oft verið vitnað í, að þetta stóra fyrirtæki, S.R., ætti að greiða opinber gjöld eins og önnur fyrirtæki á staðnum.

Forráðamenn bæjarmála á Siglufirði hafa haft Það mjög ríkt í huga að fá útsvar S.R. hækkað til hagsbóta fyrir bæjarsjóð Siglufjarðar og hafa farið fram á við þm. kjördæmisins, að þeir flyttu það mál. En þar sem lengi hefur staðið til að breyta útsvarslögunum, var fallizt á að fresta tilraun til hækkunar, þar til útsvarslagabreyt. yrði á dagskrá. Nú hefur verið lagt fram frv. um tekjustofna sveitarfélaga, og þar er útsvarsgreiðslu S.R. breytt á hinn versta veg fyrir Siglufjörð. Er þar um skerðingu að ræða. Frv. um tekjustofna fyrir sveitarfélög er því hreint öfugmæli hvað Siglufjörð áhrærir. Í stað aukinna tekjustofna hjá öðrum bæjarfélögum tapar Siglufjarðarkaupstaður verulegri fjárupphæð. Nú er vitað mál, að ef S.R. væru samvinnufélag eða einkafyrirtæki, þá hefði útsvar fyrirtækisins runnið í bæjarsjóð. Ég kem ekki auga á neina sanngirni f því að refsa Siglufjarðarkaupstað fyrir það, að hér skuli af tilviljun vera staðsettur stórfelldur ríkisrekstur, á þann hátt, að bæjarsjóður eigi að missa stóran hluta af útsvari þessa fyrirtækis ofan á mjög lága útsvarsgreiðslu síðustu þriggja áratuga. Verður það að teljast mjög ómaklegt gagnvart fátæku bæjarfélagi, sem oftast hefur haft mjög há útsvör miðað við önnur bæjarfélög, sem stafar af allt of lágri útsvarsgreiðslu S.R. Till. mín er sú, að útsvar S.R. verði hækkað upp í 1% af brúttó-framleiðslu, eins og frv. gerir ráð fyrir, og Siglufjarðarkaupstaður fái útsvarið allt. Er það í samræmi við óskir forráðamanna bæjarmála á Siglufirði nú og á undanförnum árum. Vænti ég þess, að þér, hr. alþingismaður, sjáið yður fært að veita þessu fylgi.“

Svo mörg eru þau orð, þannig lítur bæjarstjórinn og bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar á Þetta mál, og mun ég þá halda áfram þar, sem áður var frá horfið.

Í framhaldi af því, sem hér hefur verið sagt, höfum við hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) leyft okkur að flytja brtt. við frv. á þskj. 492:

„1. Við 17. gr. Orðin „síldarverksmiðjur ríkisins“ falli niður.

2. Eftir 32. gr. komi ný gr., svo hljóðandi: Síldarverksmiðjur ríkisins skulu greiða 1% af brúttóandvirði seldra afurða ár hvert til sveitarfélags, þar sem þær eru starfræktar.“

Brtt. er flutt í trausti þess, að hv. alþm. sjái sér fært að samþ. hana og koma Þar með í veg fyrir, að þau sveitarfélög, Þar sem síldarverksmiðjur ríkisins eru starfræktar, væru hlunnfarin, eins og fullar líkur eru til, ef frv. yrði samþ. óbreytt. Það er ekkert um það að deila, að eins og frv. er nú, mundi það verða til stórtjóns fjárhagslega fyrir sveitarfélögin, ef Það yrði samþ. óbreytt, þ.e.a.s. þau sveitarfélög, þar sem slíkur verksmiðjurekstur er rekinn. Að ætla sér að láta útsvör síldarverksmiðjanna falla inn í landsútsvörin, er hrein fjarstæða. í því sambandi má benda á, að fjölmargar síldarverksmiðjur eru í eigu einstaklinga og hlutafélaga. Að sjálfsögðu bera slíkar verksmiðjur útsvör til jafns við aðra gjaldendur viðkomandi staða, og slíkt útsvar rennur óskipt til þeirra sveitarfélaga.

Ég fæ ekki séð, hvað liggur til grundvallar og hvaða sanngirni mælir með því að taka þarna út úr síldarverksmiðjurnar og setja Þær í sérstakan flokk og taka stóran hluta af útsvari þeirra og leggja í sameiginlegan sjóð, en skilja svo eftir þær síldarverksmiðjur, sem reknar eru af einstaklingum eða hlutafélögum, og á þær má svo leggja útsvar eins og önnur fyrirtæki viðkomandi staða, og það útsvar á að renna að öllu leyti til viðkomandi sveitarfélags. Með því að láta útsvör af síldarverksmiðjum ríkisins renna inn í landsútsvörin er verið að fremja hróplegt ranglæti gagnvart þeim gjaldendum, sem búsettir eru í þeim sveitarfélögum, þar sem síldarverksmiðjur ríkisins eru. Ég verð að segja það, að ég get tæplega trúað því, að hv. alþm. láti hafa sig til þess að greiða slíku atkv.

Ég vil hér með leyfa mér að skora á hv. alþm.samþ. brtt. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e. og koma þar með í veg fyrir, að Alþ. samþ. frv. óbreytt að þessu leyti, og koma þar með í veg fyrir óheyrilegt ranglæti, þar sem Þegnum þjóðfélagsins yrði mismunað á hinn herfilegasta hátt. Ég vil enn fremur skora á hv. heilbr.- og félmn. að endurskoða afstöðu sína til þeirra ákvæða frv., sem ég hef hér rætt um og brtt. okkar fjallar um.

Þá vil ég og óska þess, að hæstv. forseti hraði afgreiðslu málsins ekki það mikið, að n, gefist ekki kostur á því að athuga vel fram komnar brtt. Málið er allt mjög vandasamt, og ber því að athuga aliar aðstæður mjög vel. Að ætla sér að berja frv. að mestu óbreytt í gegn af þingmeirihl. er hrein fjarstæða og mundi mælast mjög illa fyrir.

Ég vil nú leyfa mér að átelja meðferð á Þessu stórmáli hér í hv. d. Frv. er flutt seint á yfirstandandi þingi, og þm. hefur ekki almennilega gefizt tími til að athuga málið eins vel og æskilegt hefði verið. Sérstaklega er það athyglisvert, að álits sveitarstjórnanna hefur ekki verið leitað um frv., sem þó hefði verið beinlínis skylda að gera, þar sem allt málið snertir sveitarfélögin alveg sérstaklega, og slíka málsmeðferð ber vitanlega að viðhafa, Þegar um stórmál er að ræða, að senda þau til umsagnar þeirra aðila, sem málin heyra mest undir.

Til þess að hv. heilbr.- og félmn. gefist kostur á að athuga till. okkar á þskj. 495, munum við taka hana aftur til 3. umr., og vonumst við til þess, að hv. n. geti fallizt á till. okkar hv. 3. þm. Norðurl. e. við nánari athugun.

Um brtt. meiri hl. á þskj. 462, 6. tölul., vil ég segja þetta: Orðalag till. er mjög óákveðið, og má túlka hana á ýmsan veg og teygja eins og hrátt skinn. Ég tel, að sú till. uppfylli á engan hátt þær óskir og kröfur, sem fram hafa komið til breyt. á frv., t.d. frá bæjarstjórn Siglufjarðar, og tel hana því til lítilla bóta, eins og hún er orðuð. Ég mun athuga það við 3. umr., hvort ekki er hægt að breyta þessari till., gera hana a.m.k. þannig, að ekki þurfi að deila um, hvað hún virkilega á að þýða, en eins og hún er núna, er hún lítt skiljanleg.

Það hafa komið hér fram fjöldamargar brtt. við frv. Langflestar þeirra tel ég vera til bóta frá því, sem er í frv., og get að sjálfsögðu og mun greiða flestum þeirra atkv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta stórmál, en vænti þess, að heilbr.- og félmn. taki þessar till. okkar til athugunar. Ég treysti því, að hv. alþm. skilji aðstöðu okkar flm. og annarra, sem eru samþykkir tillögu okkar, skilji það, að hér er um stórmál að ræða. Þegar um það er að ræða að samþ. tekjustofna fyrir sveitarfélögin, þá er a.m.k. ætlazt til þess, að ekki verði gengið á rétt sveitarfélaganna, þannig að þau fái minni tekjur, eftir að lögin hafa verið samþ., en þau höfðu áður.