28.03.1962
Neðri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Það, sem ég tel helzt til bóta í sambandi við Það mál, sem hér liggur fyrir, er, að tekin hefur verið upp sú regla að láta einn útsvarsstiga gilda um allt landið. Áður fyrr og fram undir 1960 var mjög mikil ringulreið í útsvarsstigum einstakra sveitarfélaga, og þá bráðabirgðastefnu, sem þá var tekin upp og nú er mörkuð með einum útsvarsstiga í stað þriggja, hana tel ég vera til bóta. Hitt þarf vitanlega engum að dyljast, að þar með er ekki sagt, að útsvör í öllum bæjarfélögum landsins geti orðið ein og hin sömu, og fyrir því er vitanlega engin trygging og Það væri á ýmsan hátt ekki eðlilegt. Þarfir sveitarfélaganna eru ákaflega mismunandi af ýmsum ástæðum, sem ég ætla ekki að fara út í hér, og þess vegna er það augljóst mál, að útsvörin hljóta að vera mismunandi há. Þetta fer eftir framkvæmdum sveitarfélaganna, þetta fer eftir tekjuöflun einstakra gjaldenda og fjölmörgum öðrum ástæðum, sem þar koma til greina. Það er því alls ekki líklegt, að útsvör geti verið jöfn um allt landið þrátt fyrir þetta, en að hafa einn og sama mælikvarða, sem hækkaður er og lækkaður eftir þörfum sveitarfélaganna, tel ég að sé til bóta og sé rétt stefna, sem Þar kemur fram í þessu frv.

Um nýja tekjustofna er ekki að ræða fyrir sveitarfélögin, eins og fram hefur komið í þessum umr. Landsútsvörin, sem má segja, að sé eina breytingin í jákvæða átt frá því, sem áður hefur verið, eru fyrst og fremst tilfærsla á tekjum. Ýmsir tekjustofnar eru teknir frá öðrum sveitarfélögum, eins og síðasti ræðumaður ræddi ýtarlega um, og þau sett í hinn sameiginlega sjóð, sem síðar á að deila úr til annarra sveitarfélaga eftir fólksfjölda þeirra. Það er þess vegna hin mesta blekking, að hér sé verið að búa til nýjan tekjustofn fyrir sveitarfélögin, sem geti orðið til þess að létta útsvarsbyrðar þeirra. Reynslan mun sýna, að svo verður ekki. Hér er aðeins um tilfærslu að ræða, alveg á sama hátt og þegar tekjuskattur var minnkaður með lögum 1960, en söluskattur aukinn. Tekjuöflun ríkissjóðs minnkar ekki, nema síður sé, en það var fært af þeim, sem höfðu háar tekjur, á ýmsa aðra aðila, m.a. á hinar barnmörgu fjölskyldur í landinu, sem mest verða að borga í gegnum hinn stóraukna söluskatt, sem þá var innleiddur. Söluskatturinn, sem þá var lögskipaður, átti að hluta að ganga til sveitarfélaganna til lækkunar á útsvörum, en reyndin mun hafa verið sú, að útsvörin lækkuðu hvergi vegna söluskattsins, heldur gekk hann yfirleitt til þess að mæta hækkun á lögboðnum gjöldum, sem voru lögð á bæjar- og sveitarfélögin hin síðari árin. Það má kannske segja, að Þessi skipting á söluskattinum hafi komið í veg fyrir, að útsvörin héldu áfram að hækka, en það er öruggt mál, að hann mun hvergi hafa lækkað útsvörin, a.m.k. ekki í hinum stærri sveitarfélögum. Vonandi verður þessi millifærsla með landsútsvörin til þess, að eitthvað verði hægt að lækka útsvarsbyrðarnar, en það verður ekki, meðan hin lögboðnu útgjöld bæjar- og sveitarfélaganna fara stöðugt hækkandi, eins og verið hefur hin síðustu ár.

Í þessu frv. er það snjallræði fundið upp að afnema mjög óvinsælt útsvarsform, sem nefnt var veltuútsvar. Það heldur þó áfram, þótt skipt sé um nafn, og nú er það nefnt aðstöðugjald. Það á ekki lengur að leggja það á tekjur, eins og áður var með veltuútsvarið, heldur á að leggja það á útgjöldin. Þetta hefur vakið undrun margra, því að yfirleitt hafa menn talið, að útgjöld einstakra fyrirtækja væru lélegur gjaldstofn. Brtt. sú, sem n. hefur gert, er vitanlega til bóta, að það, sem lagt er á sem aðstöðugjöld, skuli ekki fara fram úr tekjum þeirra félaga, sem aðstöðugjöld greiða. Enda væri það frámunalegt, og er alveg undravert, að slíkt skuli geta komið fram í frv., sem á að vera þaulathugað í milliþn., að lagt skuli á gjöld ýmissa atvinnufyrirtækja, þar sem vitað er, að þau geta oft og tíðum, einkum þegar fyrningarafskriftir koma til viðbótar, farið langt og það mjög langt fram úr tekjunum, og væri hægt að nefna um það mýmörg dæmi frá síðustu árum, þar sem þannig hefur staðið á, og það þó að engin sérstök óhöpp hafi skeð, eins og alltaf geta þar komið einnig til viðbótar. Það voru margir vankantar á þessu frv. Þetta var einn, að ætla sér að leggja á gjöldin alveg takmarkalaust. En n. hefur sniðið þennan vankant af að því leyti, að gjöldin skuli ekki fara fram úr tekjunum. Nokkrir aðrir vankantar hafa einnig verið sniðnir af frv., en þeir eru fleiri, sem eru á því, og ýmis atriði, sem þarf að breyta, og væri stórlega til bóta, ef Alþ. gæti á það fallizt.

Ég vildi næst leyfa mér að minnast á nokkrar brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér í hv. deild við þrjár greinar þessa frv., og vil aðeins gera nokkra grein fyrir þeim hverri fyrir sig.

Þá er það fyrst brtt. á þskj. 509 við 10. gr. frv., varðandi aðstöðugjaldið, að a-liðurinn í 10. gr. breytist þannig, að aðstöðugjaldið, sem Þar er ákveðið 1/2% af rekstri fiskiskipa og flugvéla, verði fært niður í 1/4%. Það hefur verið upplýst hér í hv. deild, og það munu allir vita, sem eitthvað þekkja til álagningar í sveitarfélögum, að útgerðin er undirstöðuatvinnuvegurinn á hverjum stað. Það eru tækin, sem draga hráefnið í land og skapa þá atvinnu, sem mest er byggt á í þorpum og kaupstöðum víðs vegar í kringum landið. Það hefur þess vegna verið viðtekin regla að hlífa þessum atvinnuvegi við veltuútsvari. Séu tekjur, þá kemur vitanlega tekjuútsvar, en það hefur yfirleitt verið skilningur sveitarstjórna fyrir því, að það sé óeðlilegt að leggja veltuútsvar, sem nú er kallað aðstöðugjald, á fiskibáta, togara og annan slíkan atvinnurekstur, enda hefur þessi atvinnurekstur velt mjög háum upphæðum, en hagurinn hefur verið þannig, að það hefur gengið illa að afskrifa nokkuð, sem máli skiptir. Það hefur þess vegna verið upplýst hér í umr., að ýmsir bæir hafa alls engin veltuútsvör lagt á fiskibátana, eins og Vestmannaeyjar og jafnvel Ísafjörður. Ég veit, að Akranes hefur aðeins lagt 0.25% á þann rekstur, og ég hef kynnt mér í ýmsum þorpum í kringum landið, að það hefur sáralítið veltuútsvar verið lagt á vélbátaútgerðina og víða alls ekki neitt.

Ég tel, að það sé þess vegna farið öfugt að, þegar lögfesta á aðstöðugjald á þennan atvinnurekstur, yfirleitt hærra aðstöðugjald en veltuútsvar hefur í reyndinni verið í fjölmörgum bæjum og kauptúnum í kringum landið. Það eru til undantekningar, — ég skal fúslega játa það, — Þar sem hefur verið lagt á rekstur vélbáta, jafnvel upp í 1%, en það eru hreinar undantekningar. Hitt hefur verið meginreglan, að leggja ýmist ekkert á þennan atvinnurekstur eða sáralítið. Og ástæðan fyrir því er augljós, og hef ég minnzt á það hér að framan, og vænti ég, að allir séu mér sammála um, að slíkur undirstöðuatvinnuvegur eigi því aðeins að borga útsvar, að það sé um verulegan tekjuafgang að ræða.

Þá er lagt til í 10. gr., að hæsta aðstöðugjald sé 2%. Í útsvarslögunum frá 1960 er gert ráð fyrir því, að hægt sé að fara með veltuútsvar af tekjum allt upp í 3%. Ég hef leyft mér að flytja brtt., að á eftir e-lið komi nýr stafliður, og með leyfi hæstv. forseta, hljóðar hann svo:

„Allt að 3%: Barar, billiard-stofur, söluturnar, verzlanir og veitingastaðir opnir til kl. 23.30, tóbaks- og sælgætisverzlanir.“

Hjá þessum fyrirtækjum eru yfirleitt lítil útgjöld, mikill gróði, og þess vegna gerist hér tvennt í senn, að útsvar á þessum stofnunum er lækkað um 1/3, úr 3% niður í 2%, og þar að auki er lagt á miklu lægri upphæð en áður, því að einmitt hjá Þessum fyrirtækjum er um ailháar tekjur að ræða, en tiltölulega lítil útgjöld, mjög miklu minni útgjöld en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það má þess vegna segja, að það sé í samræmi við stjórnarstefnuna að setja tiltölulega ríft hámark á aðstöðugjald eða veltuútsvar vélbátaútgerðarinnar, en lækka á sama tíma aðstöðugjald á sjoppum og öðrum slíkum atvinnurekstri um 1/3, því að það var áður yfirleitt um 3%. Ég vil þess vegna taka undir það, sem sagt var hér í gær í umr., að það virðist vera, að útvegurinn eigi formælendur fáa hér á Alþ., og ég vil spyrja: Hvers á útvegurinn að gjalda í ýmsum þeim lagagreinum og lagasetningum, sem gerðar hafa verið? í fyrra komu okurvextir og stórkostlegur lánsfjárskortur, sem hefur orðið útgerðinni fjötur um fót og orsakað það, að fyrir hana Þurfti á síðasta ári að gera sérstakar kreppuráðstafanir. Og nú á að löggilda hærra aðstöðugjald en veituútsvarið var áður. Ég álít, að þarna sé röng stefna upp tekin, vegna þess að allir munu sammála um, að hérna sé um undirstöðuatvinnuveg að ræða, sem atvinnulífið að verulegu leyti byggist á víðs vegar í landinu.

Þá vil ég næst víkja að brtt., sem ég flyt á þskj. 507 ásamt 7. þm. Reykv. (ÞÞ). Þessi brtt. fjallar um hækkun frádráttar í útsvari vegna barnafjölskyldna. Allir, sem eitthvað þekkja til útsvarsálagningar, vita, að á undanförnum árum hafa útsvarsstigarnir verið of háir fyrir barnafjölskyldur. Og ég hygg, að Þeir, sem hafa unnið að niðurjöfnun, muni sammála um það, að þegar börn gjaldenda voru komin upp í 6, 7, 8 og þaðan af fleiri, þá hafi niðurjöfnunarnefndin komizt í vandræði og orðið að slá verulega af hinum venjulega útsvarsstiga. Það kom sem sagt víða í ljós, að niðurjöfnunarnefndirnar voru sammála um það, að þegar gjaldendur höfðu jafnmörg börn á framfæri sínu, var þeim ókleift að greiða það útsvar, sem stigi niðurjöfnunarnefndar greindi frá, og þá hefur oft verið farin sú leið að lækka útsvarið, án þess að nokkrar reglur væru um það, og hefur það verið meira og minna af handahófi, en gert af brýnni þörf. Einnig munu Þeir, sem að sveitarstjórnarmálum hafa unnið, hafa fundið það oft og tíðum, hvað erfitt var að innheimta há útsvör af slíkum gjaldendum. því hefði mátt vænta í þessu frv., sem samið er af mþn., — og væntanlega hafa ýmsir menn unnið að þessu frv., sem hafa þekkt einmitt þessa Þætti málsins, — að gerðar væru alveg sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja barnafjölskyldum verulega útsvarslækkun. Alveg sérstaklega þegar barnafjöldinn er yfir 4, þá er nauðsynlegt að taka sérstakt tillit til þess. Aftur á móti er frádrátturinn stighækkandi, sem nemur 100 kr. fyrir hvert barn. Frádráttur í útsvari byrjar sem sé á 1000 kr. fyrsta barn, 1100 kr. annað barn og síðan 100 kr. hækkun fyrir hvert barn. Ég tel, að þetta sé alls ekki nægilegt, og þess vegna höfum við 7. þm. Reykv. leyft okkur að flytja svo hljóðandi brtt. við 32. gr., að í stað orðanna „Fyrir 1. barn kr. 1000.00. ... kr. 100.00 fyrir hvert barn“ komi: Fyrir 1. barn kr. 1000.00, fyrir 2. barn kr. 1100.00“, — er óbreytt frá því, sem er í frv., — síðan komi nokkur aukahækkun: „fyrir 3. barn kr. 1300.00, fyrir 4. barn kr. 1600.00, fyrir 5. barn kr. 2000.00,“ þannig að munurinn hækki alltaf um 100 kr. við hvert barn, sem gjaldandi hefur á framfæri sínu.

Samkv. frv. á gjaldandi með 7 börn og 90 þús. kr. tekjur að greiða um 6800 kr. í útsvar. Samkv. þessari till. ætti útsvar þess gjaldanda að verða 3300 kr. Hafi þessi gjaldandi 100 þús. kr. tekjur, á hann að greiða í útsvar samkv. frv. 9300 kr., en samkv. till. okkar yrði útsvar hans 5800 kr. Ég held, að allir hljóti að vera sammála um það, að þegar gjaldandi hefur orðið 6, 7 eða 8 börn á framfæri sínu, þá megi þykja gott, ef hann getur bjargazt hjálparlaust frá sveitarfélaginu, og það sé ekki hugsanlegt, að slíkur gjaldandi geti verið tekjustofn fyrir sveitarfélagið, eins og þetta frv. augljóslega gerir ráð fyrir. Það er líklegt, að þessir menn lendi yfirleitt í nokkuð háum tekjum, því að fjölskyldubætur manns, sem hefur 7 börn á framfæri sínu, eru samkv. þeirri hækkun, sem gerð hefur verið á síðasta ári, 20650 kr. Og hafi maðurinn 70 þús. kr. vinnutekjur, sem hann vissulega þarf, hvort sem hann getur aflað þeirra eða ekki, þá er hann búinn að fá 90 þús. kr. tekjur með fjölskyldubótunum. Hafi hann 80 þús. kr. vinnutekjur, þá kemst hann upp í 100 þús. kr. með fjölskyldubótunum, og með þessu móti er a.m.k. fjórði parturinn af fjölskyldubótunum tekinn í útsvar til bæjar- og sveitarfélaga mínus sá persónufrádráttur, sem maðurinn hefur.

Þetta tel ég, að sé alveg ófær leið, að taka þannig 25–30%a af fjölskyldubótunum aftur í útsvar, en það hlýtur að vera það hjá mönnum, sem hafa svo háar fjölskyldubætur, vegna þess að þeir hafa mörg börn á framfæri sínu. Með skattalögunum er þetta fullkomlega viðurkennt. Þar hafa hjón 50 þús. kr. frádrátt í sínum tekjum til skatts, síðan 10 þús. kr. fyrir hvern ómaga á framfæri sínu, og maðurinn með 7 börn, — en það dæmi hef ég sett upp, vegna þess að það er ekki óalgengt, — hann fær 50 þús. plús 70 pús. fyrir börnin, eða 120 þús. kr. skattfrjálsar tekjur. Maðurinn, sem á 7 börn, þarf þess vegna engan tekjuskatt að borga fyrr en hann er kominn yfir 120 þús. kr. tekjur, og fyrir því eru litlar líkur hjá almennum gjaldendum í þessu landi.

Ég tel þess vegna, að hér sé mikið réttlætismál. Og það er meira, sem kemur hér til, sem ekki er hægt að komast hjá að víkja aðeins að í þessu sambandi. Stjórnarstefnan síðustu 2–3 ár hefur verið, eins og oft hefur verið tekið fram, lækkun skatts á hátekjumönnum og að nokkru leyti afnám, og fjölskyldubæturnar hafa ekki farið stighækkandi, heldur jöfn greiðsla, hvort sem gjaldandinn á eitt barn eða tíu börn. Þar er enginn munur gerður á, heldur nákvæmlega sama upphæðin. Þegar hinn 3% almenni söluskattur var lögleiddur og söluskattur í innflutningi var stórhækkaður líka 1960, þá var þessum byrðum, sem létt var af hátekjumönnunum, velt yfir á barnafjölskyldurnar í landinu í stórauknum mæli. Það mætti nefna þess mörg dæmi, að auk þess sem tvær gengisbreytingar hafa hækkað allar lífsnauðsynjar stórkostlega, þá eykst söluskatturinn jafnt og þétt, þar sem hann er ákveðinn hundraðshluti af öllum innflutningi og öllum innkaupum.

Ég vil aðeins nefna sem dæmi þessu til sönnunar, að einir litlir krakkaskór kosta hér um 290 kr. Það er ekki lítill kostnaður fyrir mann, sem hefur 7 börn á framfæri sínu, að skóa sinn hóp. Af hverjum skóm tekur ríkið í söluskatt um 41 kr. Og lítill barnafrakki kostar um 1500 kr., söluskattur af hverjum frakka er yfir 200 kr. Þannig mætti nefna þess dæmi, hvernig hinar brýnustu lífsnauðsynjar hafa stöðugt farið hækkandi vegna verðbreytinganna og vegna söluskatts, sem ríkið innheimtir af hverri flík og öllum þeim matvælum, sem keypt eru, í hvaða mynd og formi sem er, nema ég held, að mjólkin ein sé þar undanþegin. Allar þessar daglegu þarfir leggjast þungt á manninn með 7 börn. Hann verður að borga 3% af öllum kaupum innlendum, og hann verður að borga bar að auki 16.5% af öllu því, sem flutt er inn í landið. Þetta verður þess vegna fyrir jafnstóra fjölskyldu gífurlega hár skattur á hverju einasta ári, og þess vegna er nauðsynlegt og alveg óhjákvæmilegt, að þegar lög eru sett um útsvarsinnheimtu, þá sé tekið tillit til þeirrar gífurlegu skattheimtu, sem ríkið er áður búið að framkvæma af þessum gjaldendum í þjóðfélaginu, sem vinna þó mestu nytjastörfin. Maðurinn með 7 börnin verður að borga 7 sinnum meira til ríkissjóðs í gegnum söluskatta og þá skattheimtu heldur en maðurinn með eitt barnið, og auk dýrtíðar af völdum gengisbreytinga og af völdum tolla, sem vaxa með hverri gengisbreytingu, þá verður aðstöðumunurinn gífurlegur, og hann er á engan hátt bættur með fjölskyldubótunum, þar sem þær fara ekki stighækkandi, eins og eðlilegt hefði verið. Enda er það svo, að þess mun mega finna dæmi víðs vegar í kringum land í kaupstöðum, þar sem verulegur innflutningur er, að innheimtur söluskattur er upp undir helming af öllum tekjum ríkissjóðs. Það þarf þess vegna engan að undra, að þessi ógnaskattheimta leggist þungt á marga gjaldendur í þessu landi, og fram hjá Því verður ekki gengið þegjandi, þegar verið er að gera lög um útsvör, sem snerta hvern einasta þegn þjóðfélagsins meira og minna.

Þá vildi ég næst koma að þriðju brtt., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt 5. þm. Norðurl. v. (BP), og hún er við 45. gr. frv. Þar segir, að í hreppum með færri en 300 íbúa sé sveitarstjórn heimilt að leggja á útsvör án milligöngu. Annars er sveitarstjórnum alls ekki lengur heimilt að leggja sín útsvör á, eins og verið hefur áður. Ég sé, að hv. heilbr.- og félmn. hefur komið með brtt. við frv. að færa íbúatöluna þarna upp í 500. Ég tel, að þessi grein sé mjög óhyggileg og ótímabær, og brtt. okkar 5. þm. Norðurl. v. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í sveitarfélögum með færri en 5000 íbúa er sveitarstjórn heimilt að leggja á útsvör án milligöngu skattstjóra, sem lætur þeim í té afrit af skattskrá hreppsins til hliðsjónar við álagninguna.“

Í frv. er gert ráð fyrir hinum svonefndu framtalsnefndum. Þær koma í staðinn fyrir niðurjöfnunarnefndirnar, sem starfað hafa á undanförnum árum. Þær eiga að undirbúa samkv. frv. skattframtölin í hendur skattstjóra, gera þær breyt. á framtölum og útreikningi, sem þær telja nauðsynlegar, og taka har til greina þær athugasemdir, sem lögin gera ráð fyrir í sambandi við útsvarsálagninguna, og síðan er aðeins eftir að reikna sjálf útsvörin út. Það munu allir við það kannast, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, að vinna sú, sem skattstjórum er þarna ætluð, er sáralítil og tekur niðurjöfnunarnefndirnar langminnstan tíma. Það er tiltölulega lítið verk að skrifa útsvarsupphæðina, eftir að búið er að fara yfir framtalið og bera niðurstöður þess saman við útsvarsstigann. Ég held, að þetta ákvæði sé Þess vegna mjög óæskilegt, vegna Þess að sveitarstjórnirnar þurfa að taka tillit til svo margra atriða og sjá það alltaf betur, þegar búið er að leggja útsvarið á, hver sératriði það eru, sem gefa þarf gætur. Og þær fá ekki heildaryfirsýn yfir útsvarsálagninguna, fyrr en búið er að fara yfir allar skýrslurnar og leggja útsvörin á eftir útsvarsstiganum í hvert skipti. Ég hygg, að sveitarfélögin sjálf hafi ekki óskað eftir þessari breytingu. Þau hafa sennilega aldrei verið um það spurð, og ef þau væru spurð um það, þá hygg ég, að þau óskuðu ekki eftir því, að þetta vald, að ganga frá útsvarsálagningunni, verði af þeim tekið.

Eitt líka, sem þarf að athuga, er, að frv. þetta, sem skyldar sveitarfélögin til þess að láta skattstjórann leggja útsvörin á, getur oft og tíðum seinkað álagningu útsvara stórlega og tafið þannig, að útsvarsskráin sé lögð fram. Þeir kaupstaðir, sem notað hafa á undanförnum árum vélar hagstofunnar til þess að leggja síðustu hönd á útsvarsskrána, þekkja það mætavel, að verulegur dráttur hefur oft orðið á því, að skráin væri lögð fram, vegna þess að hagstofuvélarnar voru ekki tilbúnar að gera útsvarsskrána. eftir að niðurjöfnunarnefnd hafði gengið frá álagningu sinni. Þetta er vitanlega til stórbaga, því að öllum niðurjöfnunarnefndum og sveitarstjórnum er það nokkurt áhugamál að fá útsvarsskrána sem fyrst fram, svo að ekki dragi úr innheimtunni, — að hún komi fyrir almenningssjónir og hægt sé að innheimta útsvörin samkv. lögum og reglum þar um.

Samkv. brtt. okkar er opið eftir sem áður fyrir sveitarfélög að láta skattstjórann annast þetta starf, ef þau óska eftir því. Það er aðeins heimild, að þau sveitarfélög, sem það vilja og eru undir 5000 íbúum, megi eftir sem áður leggja sjálf útsvörin á og ganga alveg frá þeim, eins og verið hefur á undanförnum árum. Ég tel, að þessi tala, 500, sem n. hefur dottið niður á núna, sé alveg út í loftið. Ég vil taka sem dæmi þorpin hér fyrir austan fjall, Eyrarbakka og Stokkseyri, annað með 530 íbúa, hitt með 490 íbúa. Þetta þýðir, að Eyrbekkingar eru skyldugir til þess að senda sín framtöl til skattstjórans í því umdæmi, en Stokkseyringar mega leggja útsvör á heima alveg óáreittir.

Þannig mætti nefna fjölmörg dæmi víðs vegar um landið, sem sýna alveg ljóst, að það er algerlega óeðlilegt að skylda sveitarfélögin, án þess að þau hafi nokkuð óskað eftir því, til þess að verða að hlíta þeim lögum að senda öll sín gögn til skattstjórans til álagningar. Aftur á móti í hinum stærri bæjum, þá veit ég, að þróunin verður sú. að álagningin er orðin svo vélræn, að það verður sjálfsagt vínnusparnaður að láta vélarnar vinna þetta verk. og þess vegna höfum við talið, að hámarkið 5000 væri hæfilegt, og mun, eins og nú standa sakir, Reykjavík og þeir kaupstaðir utan Reykjavíkur vera skyldir til þess að hlýða þessum ákvæðum laganna, öll hin sveitarfélögin hafa svo opna leið að láta skattstjórann annast þessi störf eftir frv., ef þau óska eftir því, en ef þau óska heldur eftir að vinna þetta verk sjálf á sama hátt og áður, þá tel ég tvímælalaust, að þeim eigi að vera það heimilt. Og ég satt að segja undrast það, að nefndin, sem samdi þetta frv., og þeir, sem að frv. standa, skuli leggja slíkt ofurkapp á þessa grein að vilja ekki hækka í till. sinni ákvæðið upp í hærri tölu en 500. En ég trúi ekki öðru en hv. alþm. vilji athuga þetta mál nánar, og vissulega munu þeir sannfærast um það, að hér er ekki nokkur hætta á ferðinni fyrir einn eða annan. Og ef sveitarfélögin komast að því, að það sé hagkvæmara fyrir þau að láta skattstjórann vinna þessi störf, þá mun áreiðanlega ekki standa á þeim að notfæra sér það.

Ekki hef ég trú á því, að hér sé um sparnað að ræða, því að kostnaður við það að skrifa töluna eftir útsvarsstiganum er fyrir niðurjöfnunarnefndir áreiðanlega sáralítill. Og ég er sannfærður um það, að kostnaður við niðurjöfnunarnefndir í hinum einstöku sveitarfélögum er hér um bil sá sami, hvort sem bær ljúka niðurjöfnun eða ljúka henni ekki. Hins vegar kemur hér allverulegt starf til skattstjórans, sem kostar áreiðanlega verulegt fé, hver sem á að greiða það. Þar sem þetta ákvæði er sett hérna fram, án þess að það hafi nokkuð verið kynnt sveitarfélögunum áður, eins og að vissu leyti mörg atriði í þessu frv., þá tel ég, að það sé alveg ótækt að seylast inn á verksvið þeirra með þessu móti, því að ég veit ekki til, að nokkurt sveitarfélag hafi óskað eftir því að afsala sér réttinum til þess að leggja síðustu hönd á útsvarsálagninguna. Það væri það minnsta, að mþn. eða þingnefnd sú, sem þetta mál hafði með höndum, hefði látið svo lítið að bera þessi atriði undir ýmis sveitarfélög, áður en frv. væri keyrt hér gegnum Alþingi.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri. En ég vænti þess, að ýmsir þm. taki þær brtt. til íhugunar, sem hér hafa verið fluttar. Og alveg sérstaklega trúi ég ekki öðru en hin síðasta brtt. verði af mörgum talin eðlileg og sjálfsögð, enda haggar hún á engan hátt meginstefnu frv. að einu eða öðru leyti, en hún felur það í sér að svipta ekki sveitarfélögin ævafornum rétti til útsvarsálagningar.