02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1743)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um Þetta frv. að Þessu sinni. Hæstv. fjmrh. fylgdi frv. úr hlaði í byrjun umr. á laugardaginn og gerði þar í stuttri ræðu grein fyrir helztu atriðum þess, sérstaklega þeim veigameiri breyt. frá gildandi l., sem í frv. felast. Mér þótti það helzt að ræðu hæstv. ráðherra, hvað hún var stutt. Mér hefði fundizt hann eiga að gera nánari grein fyrir a.m.k. stærstu atriðunum í þessu frv., gefa á þeim nánari skýringu, um leið og hann fylgdi frv. úr hlaði í þessari hv. deild. Hér er um mjög stórt og umfangsmikið mál að ræða, þar sem efni þessa frv. er, og hefði ekki veitt af að gefa á Því sem fyllstar skýringar í upphafi umr. Forráðamenn sveitarfélaga og forráðamenn heildarsamtaka sveitarfélaganna hafa um langt árabil haft orð á því og unnið að því, að sveitarfélögin mættu eignast nýja tekjustofna. Áhuginn hefur verið mikill og ég held áreiðanlega ekki bundinn við pólitískar skoðanir, hvað þetta snertir. En heldur hefur miðað seint áfram og lítið fengizt fram jákvætt fram að þessu. Þó ber að geta þess, að fyrir tveim árum var lögleiddur nýr tekjustofn handa sveitarfélögunum, Þar sem er hluti sveitarfélaganna af söluskattinum. Margir munu hafa vænzt þess, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, yrði enn bætt úr hvað Þetta snertir, að með Þessu frv. mundu lagðar fram till. um nýja tekjustofna sveitarfélaganna. Ég hygg, að margir áhugasamir menn um sveitarstjórnarmál hafi beðið eftir Þessu frv. með eftirvæntingu, en ég er hræddur um, að margir þessara manna verði fyrir vonbrigðum, þegar þeir kynnast efni frv., eins og það er úr garði gert.

Í 1. gr. er ákveðið, hverjir tekjustofnar sveitarfélaga séu. Þeir eru fasteignaskattur, aðstöðugjald, framlög úr jöfnunarsjóði og útsvör. Nú er spurningin: Hvað er nýtt í þessu efni? Er um að ræða nýja tekjustofna sveitarfélaga? Því miður verður svarið við þessu í meginatriðum neitandi. Hér er ekki um neina nýja tekjustofna sveitarfélaga að ræða, sé litið á sveitarfélögin í heild. Að vísu eru gerðar ýmsar og veigamiklar breyt. á ákvæðum um tekjustofnana, en raunveruleg viðbót er lítil sem engin. Fasteignaskatturinn er nú lögákveðinn með þessu frv., en fasteignaskatturinn hefur verið til um mörg ár, svo að Þar er ekki um neina raunverulega viðbót að ræða, sé litið á málið frá sjónarmiði sveitarfélaganna í heild. Fasteignagjald hefur verið innheimt um áraraðir í öllum kaupstöðum landsins og a.m.k. í um helmingi hreppsfélaga á undanförnum árum. Þetta hefur verið gert samkvæmt heimild í lögum. Sú heimild hefur þannig verið notuð af miklum meiri hl. allra sveitarfélaga landsins. Nú á að skylda sveitarfélögin til Þess að innheimta þennan skatt. Að sjálfsögðu táknar Það, að heildarskatturinn hækkar, en fyrir einstök sveitarfélög táknar þetta ekki í heild neina viðbót, Það er aðeins um viðbót að ræða fyrir þau tiltölulega fáu og fámennu hreppsfélög, sem hafa ekki notað sér heimildina til þessa dags. Spurningin er þessi: Hvers vegna hafa hreppsfélög ekki innheimt fasteignagjaldið? Er það vegna Þess, að forráðamenn þessara hreppsfélaga, svo og íbúarnir í heild, hafi ekki óskað eftir því? Sé svo, þá er mikil spurning um, til hverra bóta það er að eiga að skylda þau hreppsfélög til þess að innheimta þetta gjald. Ég varpa þessu fram sem spurningu, sem ég hef ekki aðstöðu til að svara. En sé það svo, að fasteignagjald hafi í þessum hreppsfélögum ekki verið innheimt af því, að enginn hafi óskað þess þar, þá tel ég vafasamt að vera að lögákveða þetta.

Heildarupphæð fasteignagjalda í landinu mun á síðustu árum hafa verið um og yfir 20 millj. kr., eða nú síðasta árið einhvers staðar á milli 20 og 30 millj. Það er gert ráð fyrir, að þegar þessi ákvæði um fasteignaskatt, sem hér liggja fyrir, eru orðin að lögum, þá muni skatturinn gefa í heild um eða upp undir 30 millj. Af þessu reiknast mér til, að heildartekjuaukningin sé í raun og veru heldur lítil af þessum tekjustofni.

Það er annað atriði, sem ég vildi aðeins benda á í sambandi við fasteignaskatt. Samkv. frv. skal nú reiknaður út ákveðinn hundraðshluti af virðingarmati húsa, lóða og annarra mannvirkja, — reiknaður út ákveðinn hundraðshluti sem fasteignaskattur. í lögunum, sem nú eru í gildi og eru heimildarlög, er þetta ekki ákveðið á þennan hátt, heldur eru þar tölur, sem tákna hámark Þess, sem innheimta má. í lögunum, sem nú eru í gildi, eru einnig önnur ákvæði, m.a. það, að hafa megi skattinn mismunandi eftir verðmæti eignanna og eftir notkun þeirra. Getur ekki verið hentugt og sanngjarnt að hafa enn í lögum einhver ákvæði um þetta efni? Húseign getur staðið auð vegna þess, að enginn vilji leigja hana. Húseign getur staðið auð og ónothæf af því, að enginn vill kaupa hana. Samt sem áður skal greiða ákveðinn fasteignaskatt af þessari eign. Við sjáum af þessu dæmi og ef við berum það saman við sams konar hús, sem er í fullri leigu og hárri leigu, að þá er ekki, a.m.k. ekki við fyrstu sýn, auðsætt, að það sé sanngjarnt.

Aðstöðugjald er annar tekjustofn sveitarfélaga. Aðstöðugjaldið er í raun og veru ekki nýr tekjustofn, heldur kemur aðstöðugjaldið í staðinn fyrir veltuútsvar. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þann kafla, sem um aðstöðugjaldið ræðir, hann þarfnast að mínum dómi nákvæmrar athugunar. En mér hefði leikið hugur á að vita nú, ef þess væri kostur, hvað er reiknað út að aðstöðugjaldið gefi sveitarfélögunum í tekjur. Ég má segja, að talið sé, að veltuútsvarið hafi gefið sveitarfélögunum um 85 millj. á næstsíðasta ári, en ég hef ekki séð þess getið í grg. með þessu frv., hvort reiknaðar hafi verið út heildartekjur af aðstöðugjaldi, en það atriði finnst mér skipta sveitarfélögin allmiklu máli. Koma þau til með að standa skaðlaus við brottfellingu veltuútsvarsins, tapa þau á því eða græða þau á því? Ég hef a.m.k. ekki getað komið auga á það við yfirlestur, að þessa sé nokkurs staðar getið.

Það munu Þegar hafa borizt til Alþ. mótmæli gegn ýmsum ákvæðum varðandi aðstöðugjaldið, og er það raunar ekki óeðlilegt. En ég held, að það sé sérstök ástæða til að gefa einmitt þessum kafla um aðstöðugjaldið gaum, og mér er ekki grunlaust um, að þar hafi ekki öll atriði verið athuguð eins vel og vera þarf.

Um aðra kafla þessa frv. skal ég vera fáorður að þessu sinni. Það eru stórir og veigamiklir kaflar, sem eru felldir inn í þetta frv., eins og kaflinn um jöfnunarsjóð sveitarfélaga og kaflinn um útsvör. Veigamikil breyt. í kaflanum um útsvör er að sjálfsögðu sú, að nú á að gilda einn skattstigi fyrir allt landið. En einnig í öðrum atriðum held ég, að full ástæða væri til endurskoðunar á þessum kafla um útsvörin, og mun það verða athuga nánar milli umr. og þá væntanlega koma fram brtt. um Það efni síðar.

Ég skal láta máli mínu lokið nú, en vil aðeins endurtaka, að ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum með ræðu hæstv. ráðh. Ég hafði mætt hér á laugardaginn þrátt fyrir erfiða aðstöðu blátt áfram til að hlusta á útskýringar hæstv. ráðh. við 1. umr.