09.04.1962
Efri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég því, að ég mundi flytja brtt. við frv., ef n. athugaði ekki Þá þætti þess, sem ég óskaði eftir. Nú er það sýnt, að hv. félmn. hefur ekki viljað sinna þessu máli á þann veg, sem ég benti á við 2. umr. málsins, og þess vegna leyfi ég mér hér að flytja skriflega brtt., og er hún varðandi aðstöðugjaldið, sem er hinn þriðji tekjuliður sveitarfélaganna, sem er byggður á tekjustofnum innsveitir, þ.e.a.s. samhliða fasteignaskatti og útsvörum, sem jafnað er niður á tekjur einstaklinga í hlutaðeigandi sveitarfélagi. En eins og hv. þm. vita, þá er veitt heimild í 45. gr. frv. til þess, að sveitarfélög, sem hafa íbúatölu innan við 500, ef Þau óska eftir því, þá fái þau að jafna niður útsvörunum sjálf, án þess að skattstjóri hafi þar nokkra íhlutun. Þá er það líka samkv. þessu frv., að sveitarstjórnir reikna út fasteignaskattinn. Það, er líka vitað mál, að aðstöðugjaldið byggist á þeim skýrslum, sem hlutaðeigandi sveitarstjórnir semja og senda til skattstjóra, og sveitarstjórnirnar eiga enn fremur að tilkynna um Það, hvort þær vilja notfæra sér þennan tekjustofn og þá að hve miklu leyti. Ég fæ því ekki séð, ef sveitarstjórnir með íbúa innan við 500 vilja notfæra sér þá undanþágu, sem veitt er samkv. þessu frv., annað en það væri til hægðarauka fyrir alla aðila, ef aðstöðugjaldið fylgdi í sama flokki og niðurjöfnun útsvara að því er það snertir. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja hér tvær brtt., aðra við 11. gr. frv., að á eftir orðunum „Skattstjórar annast álagningu aðstöðugjalds“ komi: sbr. þó 45. gr. laganna.“ Og enn fremur, að 45. gr. breytist þannig, að á eftir orðinu „útsvör“ í 1. málsgr. komi: og aðstöðugjald. í hreppum með færri en 500 íbúa er sveitarstjórn heimilt að leggja á útsvör og aðstöðugjald án milligöngu skattstjóra.

Ég ætla mér ekki að ræða þetta meira. Ég gerði grein fyrir till. minni í dag og bið forseta að leita afbrigða fyrir henni.