14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2133 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fram. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Hæstv. forseti. Frv. til l. um tekjustofna sveitarfélaga hefur áður verið til meðferðar og afgreiðslu í hv. deild, og þegar það kom aftur hingað til athugunar vegna breyt., sem gerðar voru á því í Ed., átti ég satt að segja von á því, þegar formaður heilbr.- og félmn. óskaði eftir athugun á frumvarpinu í þeirri nefnd, að sú athugun væri eingöngu með tilliti til breytinga, sem gerðar voru á frv. í meðferð Ed. En það var nú ekki. Ég kom aðeins of seint á fund n., og þegar þangað kom, þá höfðu þrír nefndarmenn, þeir Gísli Jónsson, Jón Skaftason og Hannibal Valdimarsson, komið sér saman um brtt. um alveg nýtt málsatriði, sem mér var ekki kunnugt um áður, og gerði hv. 1. þm. Vestf. grein fyrir þessari till. áðan. Úr því að málið hafði þannig verið tekið upp á ný, taldi ég rétt, að fram kæmi einnig athugasemd við breyt., sem gerð var á frv. í Ed., þ.e.a.s. breyt., sem gerð var á b-lið 18. gr., þess efnis, að Ed, hækkaði prósentugjald af stofnunum, sem þar um ræðir, úr 1%, eins og það hafði verið, þegar málið fór frá þessari hv. deild, í 11/2%. Þarna er um að ræða landsútsvar, sem síldarverksmiðjur ríkisins, áburðarverksmiðjan, sementsverksmiðjan, viðtækjaverzlunin, landssmiðjan og ríkisprentsmiðjan Gutenberg eiga að greiða.

Það mun muna mest um þetta gjald hjá síldarverksmiðjum ríkisins, og miðað við rekstraráætlun þeirra, sem hefur verið byggð á því, að verksmiðjurnar fengju 400 þús. mála afla, jafngildir 1% kr. 2.50 á hvert mál síldar. En eftir hækkun Ed. í 11/2% jafngildir þetta gjald 3.75 kr. á hvert mál síldar. Þetta tel ég óþarflega hátt gjald, og þess vegna leyfði ég mér í heilbr: og félmn., þegar málið var tekið þar upp á ný með þeim hætti, sem ég hef lýst, að flytja um þetta brtt. Og það er ekki rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, að það hefði ekki verið meiri hl. í n. um till.; því að hún er flutt af mér og tveimur nm. öðrum, Jóni Skaftasyni og Hannibal Valdimarssyni. (Gripið fram í.) Mér heyrðist hv. þm. segja, að það hefði ekki verið meiri hl. fyrir till. Sé þetta á misskilningi byggt, bíðst ég velvirðingar á því.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um till. fleiri orðum. Hún liggur hér fyrir, og ég veit, að hv. þdm. hafa áttað sig á henni. En ég vil út af hinni brtt., sem ekki varð samkomulag um í n. og hv. 1. þm. Vestf. gerði grein fyrir áðan, aðeins segja það sem mína skoðun, án þess að ég ræði till. meira efnislega, að ég lít svo á, að ef sú till. nær fram að ganga, þá verði óframkvæmanlegt fyrir sveitarfélögin að leggja á aðstöðugjaldið, og það mundi eyðileggja þann tekjustofn fyrir sveitarfélögunum, og því er ég mótfallinn till. Ég skal geta þess, að ég hef rætt þetta atriði við samnefndarmenn mína úr n. þeirri, sem undirbjó frv., og eru þeir sömu skoðunar og ég hvað þetta snertir.