14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

178. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Jón Skaftason):

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að segja hér örfá orð út af þeim ummælum, sem komu fram hjá hv. 5. þm. Vestf. hér rétt áðan út af brtt. þeirri, sem liggur frammi á þskj. 755 og ég er annar flm. að.

Þessi þm. lét sig hafa það að fullyrða, að ef till. sem þessi væri samþ., þá mundi aðstöðugjald sem tekjustofn sveitarfélaga hverfa burt. Mér kom þessi fullyrðing hv. þm. mjög á óvart, því að ég þóttist þekkja hann að öðru en því að fara með fjarstæðukenndar fullyrðingar. Sannleikurinn er sá, að meiri hl. aðila eða fyrirtækja, þeirra sem yrðu gjaldendur aðstöðugjalds, eftir að frv. þetta hefði náð samþykki, mun vera rekinn með einhverjum hagnaði, og mikill meiri hl. þeirra mun sömuleiðis eiga eignir umfram skuldir, þannig að það hlýtur að tilheyra undantekningum, ef aðili eftir samþykkt þessarar brtt. losnaði við að gjalda aðstöðugjald.

Ástæðan fyrir því, að ég styð þessa brtt., er þessi: Ég hef, frá því að ég fór að kynna mér útsvars- og skattalög, verið mjög mótfallinn veltuútsvörum. Röksemdir þeirra manna, sem eru meðhaldsmenn veltuútsvara, eru þau, að þau séu nauðsynleg til þess að tryggja sveitarfélögum tekjur frá þeim aðilum, sem aðstöðu hafa til þess að skjóta undan bæði tekjum og eignum. Ég hef aldrei getað fallizt á þennan rökstuðning. Mér finnst í fyrsta lagi, að það sé óviðunandi niðurstaða, að þeir aðilar, sem telja rétt fram tekjur og eignir, skuli verða að gjalda hærri gjöld í sambandi við veltuútsvarið fyrir það, að einhverjir aðrir aðilar kunna að stela undan tekjum og eignum til skatts.

Svo er hitt, og það er nú það aðallega, sem hefur ráðið úrslitum um, að ég styð þessa brtt., að einhvern tíma verðum við Íslendingar, eins og raunar aðrar þjóðir, að fara að framkvæma skatta- og útsvarslöggjöf, sem við það er miðuð, að tekjur og eignir komist til skila, og það er eina leiðin að herða skatteftirlitið. Það á í fyrsta lagi að setja skynsamlega skattalöggjöf og útsvarslöggjöf og í öðru lagi að herða eftirlitið með því, að tekjur séu taldar fram og eignir. Að þessu eigum við að keppa, en ekki að hafa í lögum einhver ákvæði, ranglát ákvæði gagnvart þeim, sem telja rétt fram tekjur og eignir, til þess að ná af þeim, sem vilja snúa á sveitarfélögin með því að draga bæði tekjur og eignir undan skatti.

Það er þetta fyrst og fremst, sem hefur ráðið því, að ég hef gerzt flm. að Þessari brtt., og ég held, að í raun réttri geti hún ekki þýtt neitt stórt í sjálfu sér, því að ég skil ekki, að þau fyrirtæki geti verið mörg í landinu, sem ár eftir ár geta gengið með tapi og eiga ekki eignir umfram skuldir.