30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

184. mál, Síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. um þessi tekjustofnamál drap ég á það, að til mála hefði komið í heilbr.- og félmn. að flytja við frv. þetta brtt. við 3. umr. Sú tillaga hefur nú verið lögð fram og liggur fyrir á þskj. 543. Efni hennar er á þá leið, að lagt er til, að sveitarstjórnum verði heimilað að innheimta aðstöðugjald af öllum öðrum rekstri verksmiðjanna en síldarbræðslu, Þ. á m. vegna seldrar vinnu vélaverkstæðis þeirra. Er hér fyrst og fremst um að ræða hraðfrystihúsrekstur síldarverksmiðjanna á Siglufirði og nýbyrjaða niðurlagningarverksmiðju þeirra. Að sjálfsögðu er þó gert ráð fyrir, að landsútsvar reiknist ekki af þeim rekstri.

Heilbr.- og félmn. stendur í heild að þessari brtt. Væntir nefndin þess, að hv. þd. samþykki hana.