28.11.1961
Efri deild: 24. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

10. mál, innflutningur á hvalveiðiskipum

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. Þetta, sem hér er til umr., um heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa h/f Hval innflutning á tveimur hvalveiðiskipum, þótt þau séu eldri en 12 ára, er samhljóða brbl., sem út voru gefin 13. júlí s.l. Skip þessi, sem hér um ræðir, munu vera byggð 1945 eða 16 ára gömul. Þau eru talin í góðu lagi og henta vel til hvalveiða. Skipin eru bæði þó nokkru stærri og gangmeiri en hin eldri skip félagsins, sem það hefur starfrækt á undanförnum árum.

Hvalveiðistöðin hefur jafnan verið starfrækt með fjórum veiðiskipum. Alls eru nú í eigu félagsins 7 skip að nafni til. Eitt þeirra er þó talið hafa gereyðilagzt á s.l. sumri. Aflvél þess mun hafa brotið sig niður svo mikið, að ekki verður endurbætt. Til viðbótar er það talið tímaspursmál, hve lengi verður unnt að halda úti þremur af hinum eldri skipum félagsins, enda eru þau öll mjög gömul. Það elzta er byggt 1925 og hin lítið eitt síðar.

Svo sem fram kemur í nál. sjútvn. um mál þetta, mælir hún samhljóða með því, að frv. verði samþykkt óbreytt. Einn nefndarmanna, Kjartan J. Jóhannsson, var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.

Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að mæla með því, að frv. verði samþ. og því verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.