02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég vildi segja út af hinni mildu ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn.

Ég fann það, að okkur kemur saman um, að ein lög eru betri en tvenn, þegar auðveldlega er hægt að koma því við. Öll skriffinnska er slæm, og ber í lagasetningu sem á öðrum sviðum að forðast hana. En ef frv. þessu, sem hér um ræðir, lægi eitthvað sérstaklega mikið á, þá væru það gild rök, að hægt væri að hafa þessa löggjöf í tvennu lagi, eins og svo marga aðra löggjöf, þó að ekki fari vel á. En það er nú ekki, að löggjöfinni liggi nokkuð sérstaklega á. Ég sé ekki, að annað reki eftir en þessi gildi sjóður, sem samkv. 6. gr. frv. um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar hefur safnazt upp. En það er nú svo með peningana, að það er léttara að geyma þá en afla þeirra, og þegar þeir eru inn komnir, sé ég ekki endilega, að þeir þurfi að valda miklum vandræðum. Þeir eru kannske dálítið leiðinlegir á áberandi stað fyrir þá ríkisstj., sem hefur fellt gengið og gert það án fullkominna tilefna og fær svo slíka peninga í kollinn. Þeir koma fram nærri því eins og peningar Egils koma fram um þessar mundir, án þess að ætlazt hafi verið til í raun og veru, en það er samt enginn fornleifafundur. Þetta mundi hafa verið kallað nýsköpun hér á árunum, þegar það var tamast. En fleiri ástæður eru til en það, að hér sé um að ræða aðeins að forða frá skriffinnsku, þegar ég legg til, að frv. verði frestað. Ég tel, að frv. þurfi að athuga betur, og það er fullkomin sannfæring mín, sem ég hef ekkert farið dult með, að ég vil fyrir mitt leyti og tel það æskilegast fyrir alla, að ábyrgðastarfsemin verði ekki í höndum banka. ekki blandað beint saman við bankarekstur og bankareglur.

Ég veit það ósköp vel, að veitingavald ábyrgðanna er hjá Alþ., en verður ekki hjá bankanum. Um það þurfti hv. þm. ekkert að ræða. En hitt er það, að þó að Alþ. sé búið að veita heimild til lántöku, þarf að ganga frá þeirri heimild og það þarf að meta, ef maður mætti svo segja, ábyrgðarhæfni og baktryggingarmöguleika þess, sem ábyrgðina á að fá, og ég vil miklu heldur, að það vald sé í höndum stjórnar frá Alþ. — frá fjvn. Alþ. — heldur en í höndum bankastjóra, og það er einmitt af því, að ég álít, að það þurfi í þessu sambandi að skoða ástæður nokkuð á annan hátt en bankastjórar gera og eiga að gera í sínu starfi. (Gripið fram í.) Þetta frv. fjallar ekki um veitingu ríkisábyrgðar. Það fjallar ekki um hana. Það fjallar um það, að feta megi bankanum umsjá sjóðsins, og lögin um ríkisábyrgðir, 7. gr., hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta: Fjmrh. er heimilt að fela einhverjum ríkisbankanum að vera fjmrn. til aðstoðar við afgreiðslu ríkisábyrgða, eftir því sem fjmrh. kveður nánar á um.“ Að þessu leyti eru frv, og lögin samstillt, en sennilegt er, að frv. um ríkisábyrgðasjóð, ef það verður að lögum, geti túlkazt þannig, að það megi blátt áfram fela bankanum það, sem ríkisstj. hefur haft með höndum áður í þessum efnum, og áframhaldið hér er líka þannig: „Skal sá banki kynna sér rækilega fjárhag þeirra, er leita eftir ábyrgð, og að því búnu gera till. til rn. um, hversu snúast beri við beiðni umsækjanda. Þá skal og bankinn fylgjast með rekstri þeirra aðila, er ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir“ o.s.frv. Hér er beinlínis gert ráð fyrir því, að unnið verði að þessum málum, mati á ábyrgðarhæfni þess, sem fer fram á ábyrgð, og tryggingum þeim, sem hann getur sett, af banka, og það er það, sem ég tel að setji starfsemina eða sé a.m.k. mikil hætta á að setji starfsemina út af réttri braut. Og af því að málinu liggur ekkert á og af því að það er hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að smiða annað ker undir sjóðinn, 150 millj. frá gengishagnaðinum, þá tel ég rétt að fresta málinu.