14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

134. mál, Ríkisábyrgðasjóður

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru um það, að framvegis verði færður sérstakur reikningur í ríkisbókhaldinu, reikningur svonefnds ríkisábyrgðasjóðs. Samkv. 2. gr. frv. er ætlazt til þess, að stofnfé þessa svonefnda sjóðs verði fyrst og fremst það fé, sem tekið var af sjávarútveginum á s.l. sumri, um það bil 150 millj., þ.e.a.s. meginhlutinn af því fé á að fara í þennan sjóð samkv. þessari gr., en það mun einmitt hafa verið þetta fé frá sjávarútveginum, sem viðskiptareikningur ríkissjóðs við Seðlabankann var skreyttur með um næstliðin áramót. Þá er einnig gert ráð fyrir, að inn á þennan reikning færist inn- og útborganir vegna ríkisábyrgða.

Ég sé nú ekki, að það sé mikil þörf á því að stofna til þessarar sérstöku reikningsfærslu hjá ríkisbókhaldinu. Þó er þetta mál, sem vel mætti athuga. En ég tel, að það þyrfti að fá betri athugun en þessi d. getur látið fram fara, því að nú er alveg komið að þinglokum. Það er mjög skammt síðan málið kom til d. frá hv. Ed., og var aðeins rætt um þetta ásamt öðru á einum fundi nú alveg nýlega í fjhn.

Ég vil vekja athygli á því, að á síðasta þingi voru sett lög um ríkisábyrgðir. Var fram tekið í 4. gr. þeirra laga, að áhættugjald, sem greiða átti fyrir ríkisábyrgðir, skyldi fara á sérstakan reikning hjá ríkissjóði. í þeim lögum er einnig gert ráð fyrir því, að fjvn. Alþingis skuli gera tillögur til fjmrh., hversu innheimta skuli eða semja um skuldir vegna ábyrgða, sem á ríkissjóð hafa fallið. Ef það þykir heppilegt að stofna þennan sérstaka reikning eða svonefnda sjóð, þá hefði ég haldið, að það væri mjög eðlilegt, að ákvæði um hann væru einmitt sett í lögin um ríkisábyrgðir, til þess að það, sem ábyrgðirnar snertir, væri í einum lögum, og þá hefði ég einmitt talið eðlilegt einnig, að það væri sett einhver sérstök stjórn yfir þennan sjóð. Þarna verður um stóran reikning að ræða. Það koma strax á annað hundrað millj. inn á þennan reikning, eins og ég gat um áður, og síðan aðrar tekjur og svo að sjálfsögðu útgjöld.

Ég hef talið eðlilegt, að málinu væri frestað nú og það athugað betur á næsta þingi, hvernig ætti að koma þessu fyrir, ef rétt þykir að stofna slíkan sjóð. Ég vil t.d. benda á það, hvað mér virðist óvandvirknislega gengið frá frv., að í 4. gr. þess segir, að úr ríkisábyrgðasjóði skuli greiða kröfur, sem fallið hafi á ríkissjóð eftir 1. jan. 1961 vegna ábyrgða, er hann hefur tekizt á hendur. En ég get hvergi séð í frv., að inn í sjóðinn eigi að fara það fé, sem veitt hefur verið á fjárl. árin 1961 og 1962 til þess að mæta kröfum á ríkið vegna ábyrgða. Það stendur í 3. gr. að vísu, 3. tölul., þar sem taldar eru upp tekjur ríkisábyrgðasjóðs, að þ. á m. skuli vera framlög, sem ákveðin verða í fjárlögum hverju sinni. En orðalagið er þannig, að það virðist eiga að gilda um það, sem ákveðið verður, eftir að þessi lög koma í gildi, en ekki það, sem búið er að ákveða áður. Á fjárl. 1961 voru ætlaðar 35 millj. til að mæta þessum ábyrgðargreiðslum og 1962 38 millj. Þetta eru samtals 73 millj. þessi tvö ár, og hvernig verður þessu fé ráðstafað, ef ríkisábyrgðasjóður á að greiða allt, sem fellur á ríkið vegna ábyrgða frá upphafi árs 1961? Ég vil benda á þetta sem dæmi um það, að mér finnst, að það þurfi að athuga þetta mál betur. Þess vegna er það, að ég hef leyft mér að leggja fram í nál. mínu á þskj. 776 till. um rökst. dagskrá, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem þörf er að athuga mál þetta betur og skipun ríkisábyrgðastarfseminnar í heild, en það er ekki unnt að gera á þessu þingi, ályktar deildin að fresta afgreiðslu málsins og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“