26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

199. mál, innflutningur búfjár

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er um innflutning búfjár o.fl. Það hefur á undanförnum árum verið rætt nokkuð um það, hvort ekki væri eðlilegt að flytja inn búfé til þess að bæta búfjárstofninn, í tilefni af því, að 1948 voru sett lög um að koma upp sóttvarnarstöð í þessu skyni, en af því hefur ekki orðið, að þeirri stöð væri komið upp eða innflutningur hæfist á búfé. Um það mun valda tvennt: í fyrsta lagi það, að stofnkostnaður við slíka stóð hefði orðið mjög hár. Og í öðru lagi, að menn greinir á um það, hvort mögulegt væri að búa þannig um hnútana, að ekki stafaði hætta af innflutningi á lifandi búfé. Menn vitna til hinnar bitru reynslu, sem menn hafa fengið af því, og er þess vegna eðlilegt, að menn vilji gæta fyllstu varfærni í þeim efnum.

Búnaðarþing 1961 sendi landbrn. áskorun um að endurskoða lög um innflutning á búfé o.fl., og í tilefni af því var skipuð n. á s.l. vori til þess að endurskoða þessa löggjöf. N, skilaði áliti og breytti núgildandi lögum í litlu. Gert var ráð fyrir að koma upp fullkominni sóttvarnarstöð með Það fyrir augum m.a. að flytja inn lifandi búfé. Eftir að Þetta frv. hafði verið skoðað í landbrn. og eftir að rætt hafði verið við yfirdýralækni um málið, kom í ljós, að tilgangslítið var að lögbinda þetta frv. í því formi, sem það var. Yfirdýralæknir lýsti sig algerlega andvígan því að flytja inn lifandi búfé og benti á hina bitru reynslu, sem fengin er í því efni. Í samráði við yfirdýralækni varð sú niðurstaða, að semja skyldi nýtt frv., sem miðaði eingöngu að því að flytja inn sæði. Yfirdýralæknir benti á, að þetta mætti verða eins öruggt og nokkuð getur öruggt talizt, með því að sannprófa, að sæðið væri tekið úr heilbrigðum grip. í tilefni af því var skipuð þriggja manna n. til að semja nýtt frv., sem byggðist á þessu. í n. voru skipaðir yfirdýralæknir, Páll A. Pálsson, Ólafur Stefánsson nautgriparæktarráðunautur og Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, og þeir skiluðu því frv., sem hér er á dagskrá og til umr. í dag.

Búnaðarþingi var sent þetta frv., og mælir það eindregið með því, að það verði lögfest, með 19 atkv. gegn 4.

Frv. fylgir allýtarleg grg.: í fyrsta lagi sameiginleg grg. þeirra þriggja, sem sömdu frv., og hafa hv. þm. þessa grg. fyrir sér í öðru lagi fyrirvari yfirdýralæknis. í þriðja lagi kafli úr grg., sem fylgdi því frv., sem ég áður nefndi og samið var á undan þessu frv. í fjórða lagi aths. Ólafs Stefánssonar og Péturs Gunnarssonar við fyrirvara yfirdýralæknis. Og í fimmta lagi grg. og meðmæli búnaðarþings með frv.

Ef hv. þm. lesa þessa grg., mun þeim verða ljóst, hvað í þessu frv. felst. Það kemur í ljós, að f,yrstu 10 gr. þessa frv. eru óbreyttar frá gildandi I. Það er III. kafli laganna, sem breytist, og 11. gr., en um hana er það að segja, að landbrh. er heimilað þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. að flytja inn búfjársæði úr Galloway-nautum í einangrunarstöð. sem komið yrði upp á Bessastöðum á Álftanesi. Hins vegar er með þessari gr. ekki fyrirhugað að flytja inn lifandi gripi í sóttvarnarstöðina. Gert er ráð fyrir, að útihús Bessastaðabús og jarðnytjar verði hagnýttar í þessu skyni, en allt annað búfjárhald þar verði lagt niður. í tilefni af því, að Bessastaðir komu til greina, var það, að þeir, sem sömdu þetta frv., Ólafur Stefánsson, Pétur Gunnarsson og Páll A. Pálsson, fóru þangað suður eftir og kynntu sér aðstöðu alla og töldu, að þar væri einstaklega góð aðstaða. En um þetta var vitanlega ekki hægt að ræða, fyrr en afstaða forseta Íslands væri kunn, og í tilefni af því var rætt við hann um þetta mál, og hann tók þessu máli af miklum skilningi og taldi, að með þessu fyndi hann tilgang með búrekstrinum á Bessastöðum, sem siður væri í því formi, sem búreksturinn er nú. Forsetinn hefur þess vegna mælt með því, að Bessastaðir væru teknir til þessarar starfsemi, og eftir að yfirlýsing hans var fengin, var haldið áfram athugun í þessu skyni og samningu þessa frv. með það fyrir augum að koma tilraunastöðinni þar upp.

Um 12. og 15. gr. frv. er fátt að segja annað en það, að til þess að skapa sem mest öryggi gegn því, að smitsjúkdómar berist til landsins með hinu innflutta sæði, er mikilsvert, að gerðar verði allar þær varúðarráðstafanir, sem yfirdýratæknir telur nauðsynlegar, og farið verði í hvívetna eftir hans till. Og þótt Þetta frv. verði lögfest, er landbrh. ekki heimilt að láta það koma til framkvæmda, nema fyrir liggi meðmæli forstöðumanns tilraunastöðvarinnar á Keldum í meinafræði, meðmæli Búnaðarfélags Íslands og samþykki yfirdýralæknis. því er ekki að leyna, að yfirdýralæknir er ákaflega varkár í þessu efni, og ber sízt að lasta Það. Þótt hann telji, að það megi búa vel um hnútana með því að koma upp sóttvarnarstöð og hleypa engum grip út úr stöðinni fyrr en eftir tvö ár. Þá er, eins og hann komst að orði, ekkert 100% öruggt. En yfirdýralæknir hefur verið með í að semja þetta frv., og hann hefur fengið allar þær öryggisráðstafanir inn í frv., sem hann hefur talið nauðsynlegar og mögulegt að beita.

Skv. 13. gr. frv. er gert ráð fyrir að nota einvörðungu sæði úr Galloway-nautum og af stofninum, sem til er í Gunnarsholti, verði fluttar kvígur og þær notaðar til þess að flýta fyrir hreinræktun gripanna.

Ég tel ekki ástæðu til þess að útskýra frv. sjálft frekar. Það skýrir sig í öllum aðalatriðum. Tilgangurinn með þessu er augljós, að koma af stað nýrri búgrein, sem gæti orðið landbúnaðinum til tekjuauka, og það er enginn vafi á því, að holdanautaræktun mætti verða til þess að auka tekjur bændanna. Það mundi verða alger tekjuauki við það, sem nú er. Það væri ekki ástæða til þess að minnka framleiðslu mjólkur eða sauðfjárrækt, þótt holdanautum væri bætt að einhverju leyti við. Þegar við ökum um landið seinni part vetrar eða snemma á vorin, þá sjáum við, að það er víða verið að brenna sinu, gras, sem ekki hafði bitizt sumarið áður. Ef holdanautahjarðir væru til staðar, mundi þetta tæplega koma til. Holdanautin mundu bíta það gras, sem sauðkindin vill ekki og okkar venjulegi nautpeningur lítur ekki við, og það góða við holdanautaræktina er það, að bóndinn þarf ekki að ráðast í mikinn stofnkostnað, húsabyggingar, það þarf ekki vönduð hús fyrir holdanaut, og það þarf ekki vandað hey í fóður, það má nota úrgangshey, sem aðrar skepnur vilja ekki. Það hefur verið gerð tilraun í Laugardælum um, hvort það mundi borga sig að rækta holdanaut, en þar korn í ljós, að af veturgömlu nauti, holdanauti, sem var ekki hreinræktað. það var blandað, var skrokkurinn 40 kg þyngri en af íslenzku nauti. Og þessi 40 kg eru talsverður peningur, kílóið af íslenzku nauti mætti sennilega reikna 20 kr. til bóndans, en af holdanautunum hefur það verið selt allmiklu hærra. Ég hygg, að holdanautakjöt frá Gunnarsholti hafi oft verið selt upp undir 30 kr. kg, þegar íslenzkt nautakjöt hefur verið selt á 20 kr. Og ef við reiknum með 40 kg mismun í þyngd á 30 kr. kg, þá eru það 1200 kr. Þessi naut, íslenzku nautin og holdanautin í Laugardælum, voru fóðruð á sama hátt. Holdanautið gefur Þess vegna á fyrsta ári 1200 kr. meiri tekjur en íslenzka nautið. Þetta er nokkur vísbending um, að það borgar sig að fá holdanaut miðað við íslenzka nautarækt, og það er vitanlega allt of fljótt að slátra holdanauti veturgömlu, sennilega er bezti aldurinn þriggja til fjögurra vetra, og þá verður vitanlega þyngdarmismunurinn enn þá meiri.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja efni grg., sem frv. fylgir. Hv. þm. vitanlega kynna sér hana. Og ég vil aðeins segja það, að ef hv. þm. telja fyrirvara yfirdýralæknis það mikils virði, að þess vegna bæri jafnvel að snúast gegn frv., Þá efast ég um, að það sé það, sem yfirdýralæknir ætlast til, enda er greinilega tekið fram skv. 11. gr. frv., að lögin geti ekki komið til framkvæmda, nema hann sé samþykkur þeim, og þess vegna hefur yfirdýralæknir öll ráð með framkvæmdirnar. Hann hefur öll ráð um það, hvort lögin koma til framkvæmda, og ef þau koma til framkvæmda, að öllum hugsanlegum öryggisráðstöfunum sé beitt. Það er kunnugt, að það er víða um lönd, sem þessi aðferð er notuð til þess að bæta búfjárkynið, þ.e. með því að flytja sæði á milli landanna, og hér á Norðurlöndum hefur Þetta verið gert nú síðasta áratuginn, og hefur ekki heyrzt, að Það hafi komið að neinni sök.

Ég legg til, að Þessu frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni Þessari umr. og til hv. landbn.