02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2170 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

199. mál, innflutningur búfjár

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Landbn. mælir með samþykkt Þessa frv., og hefur hv. frsm. n. gert grein fyrir málinu og afstöðu nefndarinnar til þess í deild. En eins og fram er tekið í nál. og frsm. vék að, áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kunni að koma.

Á bak við Þetta mál er löng athugun, það hefur lengi verið á dagskrá meðal bændasamtakanna, og niðurstaðan af þeim athugunum er frv. Það, sem hér liggur fyrir. Með þeim nýmælum, sem í frv. felast, er stefnt að því að styðja að því að efla landbúnaðinn með nýrri framleiðslugrein. Og samkv. ákvæðum frv. er leitazt við að setja hinar fyllstu varúðarráðstafanir um smithættu vegna þessarar starfsemi. Ég fellst á þessi meginsjónarmið, og það liggur til grundvallar því, að ég fylgi þessu máli í heild. En ég hef leyft mér að bera fram brtt., og er það í samræmi við það, sem fram kemur í nál. og er vitnað til, og þær brtt. eru prentaðar á þskj. 575. Þær eru um þau ákvæði frv., að starfsemi Þessi, sem stofna á til, skuli vera á Bessastöðum á Álftanesi.

Við höfum yfir miklu landrými að ráða, íslendingar, og sýnist þess vegna óþarfi að velja þessari starfsemi þann stað, sem frv. gerir ráð fyrir. Mér þykir óviðkunnanlegt, að sú starfsemi, sem hefja á samkv. þessu frv., verði bundin við forsetasetrið, þetta sameiginlega heimili þjóðarinnar. En Það hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. landbrh. við 1. umr. þessa máls, að fyrirhugað sé, að þessi starfsemi verði sett á laggir á þeim stað, enda eru ákvæði frv., eins og það er úr garði gert, miðuð við þetta. Ég tel, að það þurfi að endurskoða þau ákvæði frv. og það þurfi að endurskoða fyrirætlun ráðuneytisins og annarra, sem að Þessum málum starfa, um staðsetningu Þessarar starfsemi. En verði að því ráði horfið að hefja þá starfsemi, sem frv. ræðir um, á Bessastöðum, þá tel ég þó skárra, að það sé gert samkv. ákvörðun ráðuneytis og eftir tillögum annarra aðila, sem að framkvæmdinni standa, heldur en það sé beinlínis lögbundið. Ef þetta er lögbundið og síðar kæmi í ljós, að það hentaði að færa þessa starfsemi til á annan stað, þá þarf vitanlega að flytja sérstakt frv. og koma því í gegnum sex umr. í þingi, um að nema burt þessi ákvæði, sem binda starfsemina við Bessastaði. Ég tel eðlilegra, að sú skipan verði á höfð, sem ég legg til í brtt. minni á þskj. 575.