02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

199. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Við umr. um þetta mál í landbn. komu þau sjónarmið fram, sem hv. 5. þm. Austf. (PÞ) minntist hér á og hefur síðan flutt sem brtt. við frv., að sumir nm. áttu hálft í hvoru örðugt með að sætta sig við það, að þessi starfsemi færi fram á forsetasetrinu Bessastöðum. Ég sem formaður nefndarinnar kynnti mér nokkuð, hvað á bak við það liggur, að þessi staður er valinn, og er það í fyrsta lagi það, að á þessum stað eru þegar til hús og svo til öll aðstaða til þess að setja upp bú, þar sem þessi starfsemi getur farið fram. Það var athugað um fleiri staði hér í grennd við Reykjavík, sem til mála gat komið að velja með það fyrir augum að draga mjög mikið úr kostnaði við það að koma upp þessari tilraunastöð og sóttvarnarstöð. Þessi staður var valinn algerlega með vitund og samþykki forsetans á Bessastöðum, og þar hefur verið kúabú, og gert er ráð fyrir því, að sóttvarnarstöðin verði algerlega girt frá allri umferð heim á forsetabústaðinn, í öðru lagi, að gripir þeir, sem þarna verða, verði einnig hafðir í girðingu, sem gengur út á Bessastaðanes, og í þriðja lagi, að varp, sem er á Bessastöðum, verði girt frá út af fyrir sig, svo að umgangur búfjár þarna snerti það ekki neitt. Að þessu öllu athuguðu tel ég ekki vera ástæðu til að setja það fyrir sig, að þessi staður sé valinn, og gera breytingu á frv. þess vegna, því að það liggur náttúrlega í augum uppi, að það yrði stórmikill kostnaður því samfara, ef ætti að fara að byggja hús yfir þessa starfsemi alla að nýju, og hagkvæmt þess vegna, úr því að fullt samkomulag hefur náðst við þann, sem umráð hefur á Bessastöðum, að þessi hús verði lögð starfseminni til. Ég tel því ekki ástæðu til þess að samþykkja þessar brtt., sem hér hafa verið fram bornar.