02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

199. mál, innflutningur búfjár

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er nú að mínum dómi tæplega fært að ræða jafnmikið stórmál og hér er um að ræða, þegar ekki eru fleiri viðstaddir í hv. deild en nú virðist vera. Og óviðeigandi væri ekki, að hæstv. landbrh. sýndi þessu máli þá virðingu sína, að hann væri viðstaddur umr. Mér fyndist, að minna mætti varla vera. En eigi að síður, þar sem sýnt þykir, að málið skal úr deildinni a.m.k., vil ég segja mitt álit, áður en það fer héðan.

Hv. 9. þm. Reykv. (AGl) hefur rakið sögu búfjárinnflutnings til landsins og skýrt frá því, hvaða áhrif búfjárinnflutningurinn hefur haft á hag okkar íslendinga. Ég er reiðubúinn til þess að staldra við og hlusta á þau rök, sem eru færð fram fyrir máli þessu. Ég hef setið á nokkrum búnaðarþingum, og ég hef hlerað eftir þeim rökum. En ég verð að segja Það, að eftir því sem fleiri ræður hafa verið fluttar um þetta mál, eftir því hefur mér fundizt það vera fjarstæðukenndara hjá okkur að vera að flana að því að flytja inn búfé, vegna þess að það liggur ekkert það fyrir í þessu máli, sem sýni, að hér sé um stórfelldan hagnað að ræða fyrir íslenzkan landbúnað í fyrsta lagi, en í öðru lagi liggur það fyrir, að öllum búfjárinnflutningi, hvernig sem að er búið, fylgir allmikil áhætta, svo að ekki meira sé sagt, verulega mikil áhætta.

Hv. 10. landsk. (BGuðm), sem talaði fyrir þessu frv. af hálfu landbn. í dag, taldi áhættuna vera ákaflega litla samanborið við þann hagnað, sem landsmenn mundu hafa af innflutningi búfjár. Þessu vil ég algerlega snúa við, vegna þess að reynslan hefur sýnt okkur það, að áhættan er mikil, en hagnaðurinn enginn.

Þá benti hv. þm, enn fremur á, að það væri mikið nauðsynjamál að koma upp sóttvarnarstöðinni á aðalhöfðingjasetri landsins, vegna þess að þar væri húsakostur góður og því mun ódýrara að útbúa sóttvarnarstöðina á Þann veg, að það þyrfti ekki að veita mikið fjármagn til þeirra hluta, eins og sakir stæðu. Ég efast ekki um, að þetta kunni að vera rétt hjá hv. þm., að það megi notast að verulegu leyti við þau húsakynni, sem þarna eru. En eigi að síður er mjög óviðfelldið að ætla að lögbinda sóttvarnarstöð á aðalhöfðingjasetri landsins, þar sem koma inniendir og erlendir menn fleiri á það býli landsins en á nokkurt annað býli, sem til er í landi voru. Og tæplega mun það viðeigandi þykja, hvorki af okkur íslendingum né erlendum mönnum, sem heimsækja Bessastaði, að þar verði víggirðingar miklar, eins og fyrirhugaðar munu vera í sambandi við sóttvarnarstöðina, svo að mér finnst, eftir því sem meira er um þá hluti rætt, það vera fjarstæðukenndara en tali taki að hugsa sér að lögbinda sóttvarnarstöð að Bessastöðum, það er svo fráleit hugsun. Það, að forseti Íslands hafi gefið sitt samþykki fyrir þessu máli, eða að stöðin yrði byggð að Bessastöðum, efast ég mjög um að sé rétt, því að ef ég man rétt eftir því, sem skýrt var frá um þessa hluti á búnaðarþingi fyrir ekki alllöngu, þá mun svar forsetans ekki hafa verið svo skýrt, að það sé hægt að draga það út, að hann hafi ekkert við það að athuga, það er síður en svo. Ég hygg, að það sé nokkuð á annan veg, og ég efast mjög um, að í eðli sínu sé hann því samþykkur. Og æskilegt væri, að það lægi þá skriflega fyrir, ef svo væri. Og ég vil mælast til þess við hv. 10. landsk., sem er formaður landbn., að hann leggi það svar forsetans skriflega hér fyrir, þannig að það sé vitað mál, að hans svar hafi verið eins afdráttarlaust og hann vildi vera láta. En sleppum nú þessu, vegna þess að þetta er í raun og veru ekki aðalatriði málsins.

Það hefur verið látið í það skína, að búnaðarþing á undanförnum árum hafi verið að smáþrýsta málinu áfram. Það má kannske til sanns vegar færa, að svo hafi verið. En með leyfi forseta, vil ég lesa upp samþykktir búnaðarþings frá árinu 1961. Þær hljóða þannig:

„Búnaðarþing leggur til: 1) Að nú þegar verði unnið að því með innflutningi djúpfrysts sæðis að hreinrækta hinn erlenda holdanautastofn, sem fyrir er í landinu. 2) Að jafnframt séu athugaðir möguleikar á því að koma upp hér í landinu fleiri hreinræktuðum holdanautastofnum með innflutningi nýfæddra kálfa, svo sem af Hereford og Aberdeen Angus, enda verði þeir aldir upp í öruggri sóttkví með innlendum nautgripum, þar til fullkomið öryggi fæst um heilbrigði þeirra. Innflutningurinn á sæði og gripum fari fram samkv. gildandi lögum um innflutning búfjár.“ Ég vil vekja athygli á þessu sérstaklega: „innflutningurinn á sæði og gripum fari fram samkvæmt gildandi lögum um innflutning búfjár. 3) Að máli þessu verði vísað til landbrh. til athugunar og framkvæmda.“

Hér er því skýrt fram tekið af búnaðarþings hálfu, eins og á öllum þeim búnaðarþingum, sem um þetta mál hafa fjallað nú hin síðari ár, að væri horfið til innflutnings búfjár, ætti að byggja þann innflutning á lögunum um innflutning búfjár frá 1948, að byggja fullkomna sóttvarnarstöð. Þetta var hugsun búnaðarþings, og það er tekið fram í fyrra í þeim ályktunum, sem búnaðarþing gerði, og hefur aldrei verið óskað eftir því, að væri samin nein ný, sérstök löggjöf fyrir innflutning búfjár, vegna þess að það var talinn sjálfsagður hlutur, að sú löggjöf, sem gilt hefur frá 1948, gilti áfram og innflutningur búfjár byggðist á þeirri löggjöf, en engri annarri.

Það verður að sjálfsögðu álitamál í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., hvort eigi að telja frv. öryggisventil á innflutning búfjár eða ekki. Ef við miðum okkar innflutning á búfé eingöngu við sæðisinnflutning á einni tegund gripa, þ.e.a.s. Galloway-gripa, eins og frv. gerir ráð fyrir, þá má vel vera, að sú stöð, sem byggð yrði, að Bessastöðum væntanlega, mundi vera fullnægjandi. En það kom greinilega fram á nýafstöðnu búnaðarþingi, eins og raunar er vitað mál, að ef á annað borð farið er að flytja inn búfé og búið að leyfa innflutning á einni tegund gripa, þá kemur þrýstingurinn á meiri innflutning. Þegar á að fara að flytja inn eina tegund af holdanautgripum, kemur fram krafan um að fá inn aðra gripi, sem eru miklu arðsamari, gefa meiri hold, og í öðru lagi að flytja inn mikil og góð mjóikurkyn frá öðrum löndum. Þessu getum við alveg slegið föstu, um leið og búið er að opna gáttina fyrir innflutningi búfjár til landsins. Og í þriðja lagi er ekki ólíklegt, að við mundum enn á ný þrýsta á það, að við fengjum eitthvað af þessum ágætu, ensku sauðfjárkynjum innflutt til landsins, þannig að það er þegar sýnt, að sú sóttvarnarstöð, sem byggja skal samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er ófullnægjandi fyrir innflutning búfjár í framtíðinni. Og það er stórhættulegt, og það er kannske mesta hættan í málinu, ef á að ganga þannig frá Því í upphafi að byggja sóttvarnarstöð á þann veg, að hún geti ekki fullnægt innflutningi búfjár og þeim kröfum, sem til hans verða gerðar í framtíðinni. Það er stórhætta. Og þess vegna tel ég, að hér sé um afturför að ræða með byggingu þessarar sóttvarnarstöðvar samanborið við það, sem lögin frá 1948 gera ráð fyrir, vegna Þess að þau byggjast á því, að sú sóttvarnarstöð, sem reist yrði, gæti fullnægt innflutningi hvaða búfjártegundar sem væri og hversu mörgum. Og ég hygg, að það hafi líka verið meginstefnan og meginatriðið í því fyrra frv., sem mþn. samdi, sem starfaði að þessum málum í sumar sem leið. Ég hygg, að það muni hafa verið uppistaðan í hennar tillögu- og frumvarpssamningu. En þegar það frv. kemur til ráðuneytisins ásamt kostnaðaráætlun, þótti málið vera svo kostnaðarsamt, að það mundi algerlega dautt í bili, vegna þess að það mundi ekki vera hægt að veita fé til byggingar þeirrar sóttvarnarstöðvar, sem þar var gert ráð fyrir, og annars, sem samhliða þurfti að gera. Og síðan eru athugaðir möguleikarnir á ný með því að takmarka innflutninginn við sæðisinnflutning á einni einustu búfjártegund, sem á að vera til þess að bæta það kyn, þann kálf, vil ég segja, sem einn mjög merkur bóndi hér á landi tók úr kúnni, rétt áður en hún var drepin, og þessi holdanautastofn, sem nú er í landinu, er kominn út af. En ástæðan fyrir því, að sá innflutningur nautgripa, sem gerður var 1933, að ég ætla, tókst ekki betur, var sú, að það kom mjög smitandi húðsjúkdómur með þessum nautgripum til landsins, og voru þeir því drepnir, sem betur fer, vil ég segja. En þó fylgdi nokkur gifta, að þessi kálfur, sem tekinn var, skyldi þó ekki verða neinn smitberi. Þar var sannarlega djarft teflt, en tókst þó giftusamlega.

Þegar við lítum á innflutning sauðfjár til landsins, eins og hv. 9. þm. Reykv. skýrði frá áðan, þá er síður en svo, að við sjáum ekki menjar þess innflutnings hér í landinu enn í dag, vegna þess að það eru þó nokkrir sjúkdómar, sem sauðféð býr við vegna hinna innfluttu sauðfjárstofna, sem hafa verið fluttir til landsins á liðnum áratugum og öldum. Enn þá höfum við ekki getað útrýmt mæðiveikinni og ekki garnaveikinni og ekki kýlapestinni, og ég er ekki alveg viss um kláðann, hvort hann er útdauður. Vonandi er það nú svo, en þó þori ég ekki að fullyrða neitt um þá hluti. Og það er talið nokkurn veginn öruggt mál, að bara mæðiveikin, sá eini sjúkdómur, hafi kostað landsmenn nálægt einum milljarð kr., að ég ætla. Það er síður en svo, að við íslendingar séum svo auðug þjóð, að við þolum að búa við sauðfjársjúkdóma og eyða jafnmiklu fé í að útrýma þeim og við höfum gert. Þess vegna ber okkur skylda til að reyna allt, sem við getum, til þess að fyrirbyggja það, að sauðfjársjúkdómar herji í landinu. í mörgum héruðum landsins hefur tekizt mjög vel að útrýma mæðiveikinni, þátt enn þá herji veikin á einstaka stað. Og ástandið er þannig, að meðan ekki er búið að útrýma þessum sjúkdómi, getum við aldrei fullyrt um, hvar hann kann að gjósa upp. Og nú í ár minnir mig, að það sé ætlað á fjárlögum vegna sauðfjársjúkdóma nokkuð á 5. millj. kr., eða álíka upphæð og mundi kosta að byggja nokkurn veginn fullkomna sóttvarnarstöð, en eins og hv. þm. rekur minni til, er ætlað á fjárlögum þessa árs til byggingar sóttvarnarstöðvar 0.5 millj. kr., eða 1/2 millj. kr., en það að byggja nokkurn veginn fullkomna stöð mundi kosta um 5 millj. kr. eða eins og eins árs framlag vegna sauðfjárpestanna er áætlað á þessu ári. Þess vegna finnst mér, að fyrsta skilyrðið hjá okkur varðandi innflutning búfjár sé það að útrýma þeim sauðfjársjúkdómum, sem við höfum fyrir í landinu, áður en við hugsum til þess að flytja inn búfé á ný. Og þess vegna er ég ákveðinn á móti þessu máli og það alveg eins þótt ýmsir öryggisventlar virðist vera settir á þá væntanlegu löggjöf, sem þetta frv. er undanfari að.

Ég vil vekja athygli hér í frv. á II. kafla, 11. gr., en þar stendur, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. getur landbrh. heimilað innflutning á sæði úr nautum af Galloway-kyni, en einvörðungu í sóttvarnarstöð ríkisins að Bessastöðum á Álftanesi. Heimild þessa má þó því aðeins nota, að fyrir liggi umsögn forstöðumanns tilraunastöðvar háskólans í meinafræði um fyrirhugaðan innflutning, stjórn Búnaðarfélags Íslands mæli með honum og yfirdýralæknir samþykki hann.“

Við skulum slá Því föstu, að núv. yfirdýralæknir mundi aldrei ljá sitt samþykki við innflutningi búfjár og Þar með væri þetta mál úr sögunni. Það voru ýmsir á búnaðarþingi, sem bentu á, að þetta væri óhætt, vegna þess að yfirdýralæknir mundi aldrei ljá sitt samþykki til innflutnings búfjár. En það er nú svo, að hann getur af ýmsum ástæðum horfið frá sínu starfi og í hans stað komið maður, sem undireins slakar á Því, Þar sem áður hefur verið staðið á verðinum, og því eigum við ekki að byggja löggjöfina eða okkar skoðanir á því, að einhver aðili, sem starfar eftir löggjöfinni, standi fastar fyrir en annar. Löggjöfin á að miðast við það, sem við teljum farsælast hverju sinni, en ekki hver á að framkvæma hana hverju sinni. Þess vegna finnst mér, að þau rök, að það sé óhætt að samþykkja þetta frv., eins og sumir hafa látið í veðri vaka, vegna þess að það komi ekki til innflutnings búfjár, séu ákaflega veigalítil rök í málinu.

Eins og sakir standa, er ég algerlega á móti Því, að búfé verði flutt inn. En hv. 9. Þm. Reykv. (AGI) benti á það, að bændasamtökin í landinu væru mjög fylgjandi innflutningi búfjár. Það má kannske til sanns vegar færa með búnaðarþing eða meiri hluta þess á liðnum árum, að það hafi verið að reyna að smáþoka málinu áfram, en aftur á móti vil ég benda á ályktun stéttarsambandsfundar frá s.l. ári, þar sem kemur fram algerlega gagnstæð skoðun því, sem hefur verið samþykkt á búnaðarþingi nú og áður, en ályktun aðalfundar Stéttarsambands bænda hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda leggur sérstaka áherzlu á, að ráðandi aðilar um hugsanlegan innflutning erlendra búfjárstofna gæti fyllstu varúðar í því, og minnir á hina bitru reynslu bændastéttarinnar í þessum efnum.“

Það er því fjöldi bænda í landinu, sem er algerlega á móti því, að það verði hafinn að nýju innflutningur á búfé. Það er líka vitað mál, að þegar farið er að flytja inn fleiri tegundir af búfé, t.d. holdanautgripi og mjólkurkyn, eru bændur ekki komnir lengra á veg í ræktunarstarfsemi okkar búpenings en það, að margir mundu, ef til þessa kæmi, verða til þess að eyðileggja sin góðu mjólkurkyn, vegna Þess að þeir mundu ekki vera nógu vel vakandi á verðinum og blanda Þau holdanautgripum, og þannig yrði þessi innflutningur sízt til bóta, ef til kæmi.

Hér er því margs að gæta, og mér finnst, að þegar dregin eru saman meginatriði málsins, þá sé rík ástæða til að vera á móti málinu. Það er saga liðna tímans, sem sýnir okkur Það, að við höfum aldrei hagnazt á innflutningi búfjár, en við höfum liðið stórfelldan skaða við það. íslenzk bændastétt væri öflug og sterk í dag, ef aldrei hefðu borizt búfjársjúkdómar til landsins, og í öðru lagi liggur ekkert það fyrir í málinu, að söluafurðir innflutts búfjár séu svo miklu verðmeiri, samanborið við tilkostnað, að Þar sé um nokkurn hagnað að ræða, þó að við slyppum við alla sjúkdóma, sem mikil áhætta kann að fylgja að berist með Þessu búfé til landsins.

Og í Þriðja lagi, sem er ekki minnst um vert, Þá á ekki í nefnu að slaka til með byggingu sóttvarnarstöðva og ekki horfa í neina fjármuni í því skyni, og ég hef bent á það, að árlega kosta sauðfjársjúkdómar nokkrar milljónir króna. Það væri hægt að byggja öfluga og góða sóttvarnarstöð og skapa þá aðstöðu, sem talin væri nauðsynleg vegna innflutningsins, fyrir það fjármagn, sem við eyðum nú vegna þessara sjúkdóma.

Ég hef, herra forseti, reynt að gera grein hér fyrir minni afstöðu til þessa máls. Því miður gafst mér ekki kostur á að fjalla um þetta mál í n., og hefði ég að sjálfsögðu gefið út sérálit um málið, en vegna þess að Það var ekki hægt, þá vildi ég gera grein hér fyrir minni afstöðu. En ég leyfi mér hér að flytja rökstudda dagskrá við frv., og hljóðar hún þannig, með leyfi forseta:

„Þar sem innflutningur búfjár á liðnum árum og öldum hefur valdið þjóðinni stórkostlegu tjóni, sem enn þá getur verið yfirvofandi, meðan innfluttum búfjársjúkdómum hefur ekki verið útrýmt að fullu, og Þar sem aðalkjarni þessa frv., bygging sóttvarnarstöðvar, er spor aftur á bak frá Því, sem nú gildir í lögum frá 1948 um slíka stöð, og þar sem ekki er um mikla hagnaðarvon að ræða af búfjárinnflutningi samanborið við áhættuna, telur deildin ekki, eins og sakir standa, tímabært að afgreiða Þetta mál og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vænti þess, að þessi dagskrártillaga komi til atkvgr. hér í hv. d., um leið og málið verður tekið til atkvgr.

Ég hef svo ekki meira að segja að sinni um þetta mál, en vænti þess, að hv. þm. athugi sinn gang og fylgi þeirri dagskrártillögu, sem hér hefur verið lögð fram.