02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

199. mál, innflutningur búfjár

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það atvikaðist svo, að ég gat ekki mætt á þessum fundi strax Þegar hann byrjaði, og ég gat þess vegna ekki hlustað á þær umr., sem hér hafa farið fram, en ég hef heyrt hina rökstuddu dagskrá, og undrast ég mjög, hvað því veldur, að hún er flutt. Mér virðist, að Þær stoðir, sem ættu að renna undir hina rökstuddu dagskrá, séu harla veikar og ekki rétt byggðar. Það er talað um innflutning búfjár í dagskránni. Þetta frv. fjallar ekki um innflutning búfjár. Það er talað um þá sjúkdóma, sem hafa komið inn í landið, vegna Þess að það hefur verið flutt inn búfé. En einmitt vegna þess, að innflutningur búfjár á undanförnum árum hefur valdið ekki aðeins íslenzkum landbúnaði, heldur íslenzku þjóðinni tjóni, hefur verið horfið frá því að flytja inn lifandi búfé, og til þess að fyrirbyggja, að slíkt geti aftur orðið, er með þessu frv. gert ráð fyrir að koma upp sóttvarnarstöð, sem hefur ekki áður verið komið upp hér á landi, sóttvarnarstöð, sem á að verða til þess að koma í veg fyrir, að sjúkdómar geti breiðzt út hér á landi, vegna þess að það á ekki að hleypa neinum grip út af sóttvarnarstöðinni fyrr en eftir tvö ár. Það er svo alveg sérstakt atriði í þessu máli, að höfundur Þessarar dagskrár mælti með því, ekki á búnaðarþinginu á þessu ári, heldur í fyrra, greiddi atkv. með áskorun til landbrh. að undirbúa frv. til laga um innflutning búfjár á miklu víðtækari hátt en þetta frv. felur í sér. Mönnum er vitanlega leyfilegt að hafa skoðanaskipti, breyta um skoðun á málum og málefnum. En það er vart hægt að hugsa sér meiri hringsnúning en hjá hv. 1. þm. Vesturl. í þessu máli frá því 1961, þegar hann greiðir atkvæði með því að skora á landbrh. að undirbúa löggjöf um innflutning búfjár, eins og ályktunin var þá orðuð. Við vitum það, alþm. flestir, að það hefur verið í lögum frá 1948 að koma upp sóttvarnarstöð í því skyni að flytja inn lifandi búfé. En slík sóttvarnarstöð mundi kosta mikið fjármagn, og það er ekki aðeins það, sem hefur komið í veg fyrir, að þessari stöð hafi verið komið upp, heldur hitt, að menn hafa verið hræddir við afleiðingarnar af því að flytja inn lifandi búfé. Þess vegna hefur verið horfið algerlega frá því.

Á s.l. vori skipaði ég nefnd til þess að endurskoða lög um innflutning búfjár o.fl., og sú nefnd skilaði áliti. Yfirdýralæknir var í þessari nefnd, undirskrifaði þetta álit athugasemdalaust, þar sem gert var ráð fyrir þeim möguleika að flytja inn lifandi búfé og koma upp fullkominni sóttvarnarstöð. En þar sem vitað var, að yfirdýralæknir og ýmsir fleiri töldu, að það gæti verið mikil hætta í því að flytja inn lifandi búfé, var við nánari athugun og eftir að hafa haft nánar viðræður við Ólaf Stefánsson nautgriparæktarráðunaut Búnaðarfélags Íslands, yfirdýralækninn, Pétur Gunnarsson o.fl., sem áhuga hafa fyrir þessum málum, horfið að því ráði að sníða frv. á þann veg að flytja inn sæði í staðinn fyrir lifandi búfé. Ég átti tal um það við yfirdýralækni, á hvern hátt væri hugsanlegt að gera þetta, án þess að hætta væri í því fólgin. Yfirdýralæknir sagði: Það, sem þarf að gera, er það, að við þurfum að senda fagmann til Skotlands og við þurfum, eftir að sæðið hefur verið tekið úr nautinu, að láta slátra því og sannfærast um, að það hafi verið heilbrigt. Á þennan hátt ætti að vera hægt að útiloka allar hættur, með því að koma upp sóttvarnarstöð, sem útilokar það, að nokkuð verði frá henni sent fyrr en eftir tvö ár. — Þetta voru hans tillögur, og með þetta í huga tók hann að sér að semja frv. það til laga, sem nú er hér til umr., ásamt Ólafi Stefánssyni og Pétri Gunnarssyni. Hitt er svo annað mál, og það er eðlilegt, að yfirdýralæknir, sem samkvæmt þessu frv. á að hafa síðasta orðið og bera ábyrgð í þessu máli, segi eitthvað á þá leið: Það er ekkert í þessum heimi, sem er 100% öruggt. Það getur enginn tekið slíka fullnaðarábyrgð á neinu. En í þessu frv. eru allar Þær öryggisráðstafanir teknar upp, sem mannleg þekking hefur yfir að ráða, allar þær varúðarráðstafanir, sem nágrannaþjóðir okkar tileinka sér. Og það vil ég biðja hv. þm. að hafa í huga, þá sem mótmæla þessu frv., að ekki aðeins nágrannaþjóðir okkar, heldur margar fleiri þjóðir hafa nú síðasta áratuginn haft þessa aðferð til þess að kynbæta stofninn, að flytja sæði á milli, og Það hefur gerzt án nokkurrar áhættu, án þess að nokkurt slys hafi af því orðið.

Ég heyrði ekki ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég heyrði þó eitt í lokin, að hann sagði, að af þessu mundi ekki vera hagnaður. Það er út af fyrir sig leitt, að bóndinn í Asgarði skuli leyfa sér að koma með slíka fullyrðingu fram á hv. Alþingi, fullyrðingu, sem styðst við vanþekkingu. Ef hann hefði kynnt sér þessi mál, hefði hann vitanlega ekki leyft sér að viðhafa þau ummæli. Hv. þm. ætti að gera sér grein fyrir því, áður en hann leyfir sér að fullyrða slíkt, hvort það er eðlilegt eða ekki að staðhæfa þetta. Við getum jafnvel verið sammála um, að það borgi sig alls ekki að framleiða mjólk, það borgi sig ekki að reka sauðfjárbúskap, það borgi sig ekki að ala upp naut til slátrunar eða þess konar. Og við getum jafnvel tekið undir með bóndanum, sem reyndar var stórbóndi og átti miklar eignir í landinu, en fullyrti, að hann væri alltaf að tapa. Það var taprekstur á öllu, sem hann gerði, en eigi að síður átti hann stórbú, hann átti stóra jörð, vel uppbyggða, og ýmislegt fleira, og þegar spurt var að því, hvernig stæði á því, að hann gæti átt þetta og talið þetta fram og alltaf var hann að tapa, þá sagði hann eitthvað á þá leið: Ja, það er nú bara misjafnlega mikið, sem maður tapar á hlutunum. — Og ef við erum sammála um, að það sé tap á búrekstrinum, þá setti hv. 1. þm. Vesturl., bóndinn í Ásgarði, að vera mér sammála um, að það sé misjafnlega mikið tap.

Nú voru gerðar tilraunir í Laugardælum með holdanaut, — holdanaut, sem eru útþynnt. Það er þessi stofn, sem Páll Sveinsson hefur með sinni framsýni verndað í landinu, því að ef Páll Sveinsson hefði t.d. haft sömu skoðun og hv. 1. þm. Vesturl. og hefði bara verið þröngsýnn og afturhaldssamur, þá væri enginn holdanautastofn til í landinu. Það er talið ákaflega mikils virði, að þessi stofn skuli vera til, og það væri ekki til of mikils mælzt, þótt sandgræðslustjórinn í Gunnarsholti fengi einhvern tíma þakkarávarp fyrir að hafa haldið honum við, en þessi stofn er til, og í Laugardælum voru gerðar tilraunir, sem sýndu það, að þótt þessi stofn sé mikið útþynntur, þá var það svo, að á veturgömlu nauti reyndist kroppþunginn á þessu útþynnta holdanauti vera 40 kg meiri en af íslenzku nauti, og það út af fyrir sig var ekki lítils virði, en kjötið af þessu útþynnta holdanauti var jafnvel 40 eða 50% meira virði en af íslenzka nautinu. Þegar kjötið af íslenzka nautinu var 20 kr., þá var kjötið af hinu útþynnta holdanauti frá Gunnarsholti 28–30 kr. Nú skulum við bara segja, að það sé 8 kr. munur á hverju kg af þessu útþynnta holdanauti frá Gunnarsholti og venjulegu íslenzku nauti, og margfalda það með fjörutíu. Þá fáum við út, hvað vannst með því að rækta holdanautin, og það er út af fyrir sig hreint ekki lítils virði. 40 kg á 28 kr., það eru 1120 kr. á ársgömlu nauti. Nú er ekki heppilegt að slátra nautinu ársgömlu. Ég hygg, eða a.m.k. sögðu gömlu fjárbændurnir það, að það ætti að slátra sauðunum annaðhvort þriggja vetra eða fimm vetra, þeir væru vænstir á staka árinu. Ég veit ekki, hvort það er þannig með holdanautin. En við skulum bara segja, að þeim væri slátrað þriggja vetra, og við skulum ekki segja, að það sé 40 kg munur á hverju ári. Við skulum segja, að á þremur árum sé aðeins 100 kg munur, á 28 kr., það eru 2800 kr. Og ég vil minna þá menn á það, sem mótmæla þessu frv. á þeim grundvelli, að það sé ekki hagnaður af því að taka þetta upp, að ef bændur eiga þess kost að hafa holdanaut ásamt öðru í sínu búi, þá verða þetta hreinar aukatekjur hjá þeim. Bóndinn hefur 15–20 kýr og 100–150 ær, og hann minnkar ekki við sig þennan bústofn, þótt hann bæti við sig holdanautum. Og hvers vegna ekki? Það er vegna þess, að holdanautin auka tiltölulega lítið vinnuna við búið. Það þarf ódýrt hús yfir þessi naut, og nautin éta úrgangshey, rekjur og vont hey, sem sauðkindin og kýrin nota ekki. Og það er annað, að holdanautið étur grasið í högunum, sem nú er venjulega brennt. Og þegar við ökum um sveitir landsins nú, þá sjáum við, að það er viða, sem sinan er brennd, vegna þess að grasið hefur ekki verið bitið. Það er þess vegna, að ef bændur gætu almennt átt — við skulum segja 8–10 holdanaut, þá er möguleiki fyrir þá að slátra 2–3 nautum á ári. Þetta er nýtt búsílag. Þetta eru aukatekjur, sem bóndinn fær án þess að kaupa aukinn vinnukraft, án þess að leggja í miklar eða kostnaðarsamar byggingar, án þess að leggja í ræktun, án þess að leggja í aukinn kostnað við vélakaup. Og ég undrast, að það skuli hér í hv. Ed. Alþingis vera bóndi, sem gengur lengst í því að mótmæla þessu. Hitt hef ég hugmynd um, þótt ég hafi ekki haft tækifæri til þess að hlusta á það, að sá eini læknir, sem á sæti í deildinni, hafi einnig mótmælt þessu. Þar kemur til hans vísindamennska, og þar kemur til hans — við skulum segja tilhneiging til þess að tala máli varfærninnar. En þessi hv. þm., sem hefur tileinkað sér vísindamennskuna, verður að leita lengra en til hinnar almennu læknisfræði, áður en hann gerist talsmaður þess að mæla gegn þessu frv. Þá verður hann að kynna sér, hvað hefur gerzt meðal annarra þjóða í þessu efni. Getur hann bent á dæmi þess, að það hafi orðið slys af því að flytja sæði úr nautgripum frá Skotlandi til Noregs? Getur hann bent á, að það hafi orðið slys af því að flytja sæði á milli t.d. Svíþjóðar og Danmerkur, eins og gert hefur verið á undanförnum árum? Nei, hann getur ekki bent á það, vegna þess að þetta hefur ekki átt sér stað, þrátt fyrir það, þótt það hafi verið gert mörg undanfarin ár. En hvers vegna hefur ekki orðið slys? Það er vegna Þess, að Þessi lönd hafa haft sömu öryggisráðstafanir, sömu hemlana og gert er ráð fyrir að lögfesta með þessu frv. Þetta frv. er samið með tilliti til þess að hafa allar þær öryggisráðstafanir, sem þekkjanlegar eru í heiminum. Og yfirdýralæknir játar það í sinni grg., að allar öryggisráðstafanir, sem þekkjanlegar eru, hafi verið teknar inn í þetta frv.

Það er eðlilegt, að hv. alþm. séu samvizkusamir og hugsi sem svo: Við megum ekki brenna okkur aftur á því, sem áður hefur gerzt í Þessum málum. — Íslenzka þjóðin hefur orðið fyrir miklu tjóni undanfarið af búfjársjúkdómum. Það er eðlilegt, að menn hafi þetta í huga, og það er einmitt þetta, sem haft var efst í huga, þegar þetta frv. var samið. Það var haft efst í huga. Þess vegna eru allar þær öryggisráðstafanir, sem nú eru þekkjanlegar, teknar inn í frv. Og út af fyrir sig geta þeir, sem eru tortryggnastir á þetta mál, greitt þessu frv. atkv., vegna þess að þó að þetta frv. verði að lögum, þá koma lögin ekki til framkvæmda, nema forstöðumaður tilraunastöðvarinnar á Keldum sé því samþykkur, nema Búnaðarfélag Íslands vilji mæla með því, nema yfirdýralæknirinn vilji samþykkja það. Það er þess vegna þrefalt öryggi, sem gildir í þessu máli. Og þótt þetta frv. verði að lögum, verður það ekki framkvæmt, nema Þeir, sem hafa bezta þekkingu í þessum málum, verði því samþykkir.

Ástæðan til þess, að ég er talsmaður þessa máls, er einfaldlega sú, að ég hef gert mér ljóst, að með því að lögfesta þetta frv. er bændum landsins gefið tækifæri til þess að koma á stofn nýrri búgrein, sem getur orðið þeim drjúgur tekjuauki. Og ég tel, að það sé rétt stefna í íslenzkum landbúnaði að vinna að því að gera búskapinn fjölbreyttari, koma fleiri og styrkari fótum undir búskapinn, til þess að bændurnir geti orðið frekar en orðið hefur fjárhagslega sjálfstæðir. Og það er rétt stefna að vinna að þessu máli á þann veg, að bændurnir geti hverju sinni rekið sitt bú á sem sjálfstæðastan hátt, með sem minnstum styrkjum frá því opinbera.

Þetta mál, frv. til laga um innflutning búfjár, eins og það heitir, er þannig, að I. kafli þess er óbreyttur frá núgildandi lögum. En það er annar kafli þessa frv., sem byrjar með 11. gr., sem hér er raunverulega til umr. Þetta frv. er í rauninni ekki um innflutning búfjár, heldur um það, hvort skuli leyfa innflutning á sæði, þegar allar öryggisráðstafanir eru viðhafðar. Og ég vil ætlast til þess, að hv. alþm. athugi Þetta gaumgæfilega, hugsi rökrétt um þetta, hugsi um þetta á annan hátt en hv. 1. þm. Vesturl., vegna Þess að hann hefur ekki hugsað um þetta rökrétt. Hann hefur hugsað um þetta frá óskiljanlegum sjónarmiðum. Hann hefur ekki hugsað það rökrétt. Hv. 1. Þm. Vesturl. mælti með innflutningi búfjár og holdanautamálinu 1960 og 1961, þegar um það var að ræða að flytja inn lifandi búfé og koma upp sóttvarnarstöð í því skyni. En þegar öryggisráðstafanir eru auknar, þegar horfið er frá því að flytja inn lifandi búfé og þegar allir öryggishemlar eru í fyllsta lagi, þá kemur þessi hv. þm. hér upp í ræðustól og talar viðvörunarorð. Ég veit það, hæstv. forseti, að hv. þm. fyrirgefa mér, þótt ég skilji ekki þennan málflutning og þótt ég leyfi mér að segja, að það er eitthvað annað en rökrétt hugsun eða heilbrigð skynsemi ráði slíkum málflutningi. Hitt vil ég svo undirstrika, og það vil ég virða, Þótt hv. þm. vilji ræða um þetta mál af Þeirri íhygli, sem nauðsynleg er, þegar það er haft í huga, hversu mikið íslenzka þjóðin hefur skaðazt af búfjársjúkdómum. En ég vil um leið minna hv. alþm. á það, að Þetta frv. er samið af mönnum, sem höfðu það sérstaklega í huga, að íslenzka þjóðin hafði orðið fyrir miklu tjóni vegna þess, að það var flutt inn búfé án þess að gæta nauðsynlegra öryggisráðstafana.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ég hef ekki ástæðu til að mótmæla Þeim umr., sem hér hafa farið fram, vegna þess að ég hlustaði ekki á þær, en ég vil mælast til þess, að hv. þm. samþykki þetta frv., um leið og þeir gera sér fulla grein fyrir því, að frv. er samið af mönnum, sem hafa gert sér grein fyrir hættunum. Og lögin koma ekki til framkvæmda, nema allar hugsanlegar öryggisráðstafanir séu viðhafðar.