07.12.1961
Neðri deild: 32. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

10. mál, innflutningur á hvalveiðiskipum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að leyfa h/f Hval innflutning á tveimur hvalveiðiskipum, er hingað komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið afgreitt, að ég ætla ágreiningslaust. Það er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 13. júlí s.l. um sama efni. Þannig stóð á þá, að eitt af skipum h/f Hvals, eitt af veiðiskipum þess félags, hafði bilað svo alvarlega, að það var talið nær ógerlegt að láta gera við það, enda svo gamalt orðið, að þegar af þeim orsökum orkaði það mjög tvímælis. Um sama leyti fékk þetta félag tilboð í tvö skip, sem talin voru henta þessari útgerð mjög vel, en sá galli var á, að þau voru bæði eldri en 12 ára. En til þess að skipaskoðunarstjóri geti mælt með innflutningi skipa, mega þau ekki eldri vera en 12 ára samkv. lögum um eftirlit með skipum. Nú var það hins vegar upplýst, að skipin voru annað 15, en hitt 16 ára, byggð 1946 og 1945, en bæði í ágætu ástandi, að því er talið var, og fáanleg fyrir mjög gott verð. Sem sagt, framkvæmdastjóri félagsins, Loftur Bjarnason, sótti mjög eindregið eftir því að fá þessi skip innflutt, og eins og kunnugt er, hefur hans fyrirtæki verið rekið með miklum myndarbrag og hann út af fyrir sig sjálfur mjög vel dómbær um þessa hluti, en hann hafði skoðað þau, áður en þessi umsókn kom fram.

Í bréfi skipaskoðunarstjóra til rn., sem dagsett er 11. júlí í sumar, er látin í ljós sú skoðun, þrátt fyrir ákvæði þeirrar greinar í lögum um eftirlit með skipum, sem ég minntist á, um það, að ekki væri unnt að mæla með innflutningi á 12 ára skipi eða eldra, þá er hann eindregið því fylgjandi, að innflutningur þessara tveggja hvalveiðibáta verði leyfður, hvort sem til þess þarf lagaheimild eða ekki, eins og segir í bréfi hans. En það getur orkað nokkuð tvímælis, hvort bannið gildir eingöngu um meðmæli skipaskoðunarstjórans eða hvort ráðuneytinu er alls óheimilt að leyfa innflutninginn eða ekki. Það hefur því alltaf í svipuðum tilfellum verið gripið til þess ráðs að gefa út lög, sem heimiluðu innflutninginn, svo að það væri ótvírætt, að löglega væri frá því gengið.

Ég tel óþarft að fara um þetta mál fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.