16.04.1962
Neðri deild: 95. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

217. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Frv. þetta er um breytingu á bráðabirgðaákvæði, sem er í lögum nr. 30 frá 1960, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála. Þetta ákvæði snertir innflutning á bifreiðum til fatlaðra og lamaðra manna, sem hafa fengið að flytja inn bifreiðar án innflutningsgjalda eða fengið lækkun á innflutningsgjöldum. í bráðabirgðaákvæðunum í lögunum frá 1960 var svo mælt fyrir, að á árunum 1960 og 1961 skyldi hámarkstala þeirra bifreiða, sem lækka má aðflutningsgjöld af, vera 150 hvort árið. Árið sem leið ákvað ríkisstj. að veita tollundanþágu fyrir nokkru fleiri bifreiðar, þ.e.a.s. 114 til viðbótar, með þeim fyrirvara, að ef Alþingi samþykkti ekki þessa heimild, þá yrðu hlutaðeigendur að greiða aðflutningsgjöld að fullu. í frv. er lagt til, að þessi heimild verði veitt til þess að lækka aðflutningsgjöld af samtals 264 bifreiðum árið 1961, og er fjhn. sammála um að mæla með því, að það verði gert.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að hámarkstala bifreiða, sem aðflutningsgjöld megi lækka af árið 1962 vegna fatlaðra og lamaðra manna, skuli vera 150. N. hafði ekki aðstöðu til að meta, hvort þetta væri hæfileg tala, en umtal var um það í n., að það gæti komið til athugunar síðar, ef þörf virtist, að bæta einhverju við þá tölu, eins og orðið hefur að Því er snertir innflutninginn á árinu 1961.

Eins og sést í nál. á þskj. 796, eru nm. sammála um að mæla með frv.