17.04.1962
Efri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1904)

217. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Síðan 1954 hefur verið ákvæði í lögum um heimild fyrir ríkisstj. til að undanþiggja fatlaða menn og lamaða aðflutningsgjöldum af bifreiðum, allt að 40 þús. kr. á hverja bifreið, og var þessi heimild lengi vel takmörkuð við innflutning 50 bifreiða á ári. 1960 var þessi heimild hins vegar hækkuð upp í 150 bifreiðar á ári fyrir hvort áranna 1960 og 1961, og var sú heimild þá tekin í lög um skipan innflutningsog gjaldeyrismála, en upprunalega heimildin var í lögum um tollskrá. Á árinu 1961 veitti ríkisstj. síðan undanþágu frá greiðslu innflutningsgjalda, 40 þús. kr. á bifreið, fyrir fleiri bifreiðum en lög heimiluðu, 114 bifreiðum umfram hina lögheimiluðu tölu, sem var 150, en lét þó að sjálfsögðu þá, sem bifreiðarnar fluttu inn, er gátu fallið undir heimild laganna, undirskrifa skuldbindingu þar að lútandi, að ef Alþingi staðfesti ekki eftir á heimild ríkisstj. til Þess að hækka hámarkstölu bifreiðanna úr 150 í 114 til viðbótar, þá skyldu hlutaðeigandi innflytjendur greiða almenn aðflutningsgjöld af bifreiðunum.

Síðan talan var hækkuð úr 50 bifreiðum á ári, að viðbættum þessum 114 fyrir 1960, hefur undanþáguheimild aðeins veríð notuð í sambandi við bifreiðar fluttar frá vöruskiptalöndum. í þessu frv. er lagt til, að ríkisstj. sé heimilað að lækka aðflutningsgjöld á árinu 1962 af 150 bifreiðum, sem fatlaðir og lamaðir flytja inn, en jafnframt er lagt til, að staðfest verði sú ákvörðun, að fyrir árið 1961 verði talan 264 bifreiðar. Þetta tvennt felst í Þessu frv.

Í hv. Nd., sem þegar hefur afgreitt málið, var hv. fjhn. á einu máli um að mæla með því, að það næði fram að ganga, og var svo samþykkt með shlj. atkv. í hv. Nd. í gær. Ég vildi því mega treysta því, að hv. Ed. fallist einnig shlj. á þetta frv., og í trausti þess sé ég ekki ástæðu til að leggja til, að málinu sé vísað til nefndar, en hef að sjálfsögðu ekkert á móti því fyrir mitt leyti, að það verði gert, ef till. kemur fram um það. Með hliðsjón af því, að full ástæða er til að ætla, að allir hv. þm. séu á einu máli um, að hér sé um eðlilegar ráðstafanir að ræða, leyfi ég mér aðeins að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr.