19.10.1961
Efri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

9. mál, alþjóðasamþykkt um varnir gegn óhreinkun sjávarins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Um langt skeið hafa ýmsar þjóðir haft af því áhyggjur þungar, hversu óhreinkun sjávarins af völdum olíu hefur aukizt hin síðustu ár og áratugi með vaxandi notkun olíu og tilsvarandi flutninga á henni. Þessi óhreinkun sjávarins er að því leyti öðruvísi en önnur óhreinkun sjávarins, að olían flýtur ofan á, safnast fyrir og er mjög lengi til trafala og óþæginda á yfirborði sjávarins. Olíumengun sjávar stafar að langmestu leyti frá skipum og þá fyrst og fremst frá olíuflutningaskipum, sem nú eru talin um 4000 að tölu í heiminum, og eru þá aðeins meðtalin skip, sem eru yfir 1000 brúttórúmlestir að stærð. Brúttórúmlestastærð þessa flota mun vera um það bil 30 millj. brúttóregistertonn. En auk olíuflutningaskipanna eru svo tugþúsundir skipa, smárra og stórra, sem nota olíu í einhverju formi til eldsneytis, og leggja þau meira eða minna sinn skerf til óhreinkunar sjávarins.

Þegar olíuflutningaskip hafa lokið losun farms síns, er venjulegt, að einhverjir geymar þeirra eru fylltir með vatni til kjölfestu og byrjað að hreinsa þá, sem tómir eru, til þess að hafa þá tilbúna til að taka við nýjum farmi á lestunarstað. Hreinsun þessi fer oftast fram á þann hátt, að sprautað er heitum sjó með miklum þrýstingi um alla geymana, og var til skamms tíma hinu olíublandaða vatni alltaf dælt í sjóinn, og svo er oft gert enn. Síðan er mokað saman botnfallinu og einnig því fleygt í sjó. Áður en skipin koma í lestunarhöfn, er svo kjölfestuvatninu dælt í sjóinn, og á stórum skipum getur olíublandaður sjór, sem þannig er settur útbyrðis, numið hundruðum smálesta, og fer það eftir tegund olíu þeirrar, sem síðast var flutt á geymunum, hve mikill hluti blöndunarinnar er olía. Nú er ekki svo að skilja, að olíuflutningaskip þurfi að þvo geyma sína í hverri ferð, en það er venjulega nauðsynlegt að gera það, þegar láta skal léttari olíu í geymana en var í geymunum næstu ferð á undan.

Flutningaskip, sem nota geyma sína ýmist fyrir olíu eða fyrir kjölfestu, koma næst olíuflutningaskipunum, að því er varðar olíuóhreinkun sjávarins. Fjöldi skipa notar olíugeyma sína fyrir kjölfestuvatn, þegar búið er að nota olíuna af þeim, og er svo hinu olíumengaða kjölfestuvatni dælt út, áður en skipi er lent að nýju eða taka þarf nýjar olíubirgðir um borð.

Í nær öllum vélknúnum skipum drýpur eitthvað af olíu niður og blandast austrinum í vélarrúmi, sem síðar er dælt út. Er hér venjulega um tiltölulega lítið magn að ræða í hverju skipi, en á hinn bóginn eru skipin mjög mörg.

Einnig eiga olíustöðvar í landi sinn þátt í olíuóhreinkun sjávarins, svo sem útflutningsstöðvar og afgreiðslustöðvar. Af eðlilegum fjárhagslegum ástæðum er þó reynt að forðast, að olía berist í sjó frá þessum stöðvum, en þegar það kemur fyrir, má oftar kenna um vangá eða óhöppum eða slælegum útbúnaði frekar en að um slæmt fyrirkomulag sé þar að ræða.

Sú afleiðing olíumengunar sjávarins, sem langmestan þátt virðist eiga í því, að aðgerðir hafa verið hafnar til þess að koma í veg fyrir þennan óþrifnað, er sú, að strendur landanna óhreinkast mjög af þessum orsökum, og þá er venjulegast hvað erlendar þjóðir snertir mest haft í huga skaðsemi hennar fyrir baðstaði og annað slíkt. Vera má, að einmitt þetta atriði sé svo ofarlega á baugi sem raun er á vegna þess, að það er sú hlið málsins, sem mest snertir almenning þar, enda óspart um það skrifað í blöð nágrannalandanna, þegar baðstrendur þar verða fyrir óhreinkun af völdum olíu.

Hins vegar er frá okkar sjónarmiði sennilegt, að sjófugladauði sé einna hvimleiðust afleiðing olíumengunar sjávarins. En þessi ástæða er venjulega talin í öðru sæti eða kemur sem nr. 2 í röksemdafærslu framámanna í þessu máli. Má vera, að það sé sökum þess, að tiltölulega fámennum hópi manna er kunnugt um þessa hlið málsins. En ef fuglar lenda í olíu, missir dúnn og fjaðrir einangrunarhæfileika sína og flothæfileika, þeir gegnblotna, geta ekki hafið sig til flugs og deyja ömurlega á löngum tíma.

Rannsóknir hafa farið fram á því, hve mikil brögð séu að olíudauða fugla. Í Bretlandi hafa þess háttar rannsóknir verið gerðar af The Royal Society for Protection of Birds, en fyrstu athuganir fóru fram á tímabilinu október-marz 1951–52, þannig að sjálfboðaliðar gengu reglulega á fjörur á strandlengjum í leit að olíudauðum fugli, og árangur athugana þessara gaf í skyn, að milli 50 þús. og 250 þús. fuglar hefðu drepizt af völdum olíu þennan vetur við Bretlandsstrendur einar. Rannsóknum þessum hefur verið haldið áfram, og niðurstöðurnar hafa orðið svipaðar og ég nú nefndi. Þjóðverjar hafa líka látið fara fram athuganir á þessu máli, og hefur þar verið stuðzt aðallega við skýrslur frá Helgolandi. Álitið er, að þar hafi um 12 þús. fuglar látið lífið ár hvert. Sömu sögu er að segja frá Hollandi og fleiri löndum, sem svipað er ástatt um.

Aðrar afleiðingar af óhreinkun sjávarins af völdum olíu er t.d. óhreinkun hafnarvirkja og veiðarfæra, og einnig er talið ekki útilokað, að gætt geti skaðlegra áhrifa af fljótandi olíu á dýralíf og gróður sjávarins. En um þetta atriði liggja ekki fyrir neinar skýrslur, sem hægt er að byggja á.

Upp úr heimsstyrjöldinni fyrri fer athygli manna að beinast að olíuóhreinkun sjávarins, enda fer þá mjög vaxandi fjöldi olíukyntra skipa og mótorskipa, tankskipum fjölgar mjög með hinni geysilegu notkun olíu í heiminum. Bretar ríða fyrstir á vaðið til aðgerða í þessum vanda með því að boða til ráðstefnu skipaeigenda, olíufélaga, hafnaryfirvalda og fleiri manna, með þeim árangri, að samþykkt voru þá lög, sem nefnd voru Oil in navigable waters act, 1922. Lög þessi bönnuðu gegn háum sektum, að olíu eða olíumenguðum sjó væri dælt útbyrðis í höfnum og landhelgi Bretlands. Ekki leið svo á löngu, þar til aðrar þjóðir höfðu samið svipuð lög eða reglur um þetta efni innan sinnar lögsögu, og brátt fóru að heyrast raddir um, að víðtækari aðgerðir væru nauðsynlegar, ef duga skyldi. Var fyrsta alþjóðaráðstefna um þessi mál haldin í Washington árið 1926, án þess að árangur hennar yrði þó verulegur. En árið 1934 skaut Bretastjórn málinu til þjóðabandalagsins, sem skipaði þá nefnd sérfróðra manna til að búa út uppkast að nýrri alþjóðasamþykkt um olíuvandamál. Er þeir höfðu lokið starfi sínu og átti að fara að kalla saman nýja alþjóðaráðstefnu, brauzt stríðið út, heimsstyrjöldin síðari, svo að nú höfðu menn öðrum hnöppum að hneppa í bili. En það næsta, sem gerist í málinu á alþjóðavettvangi, er ráðstefna, sem Bretar buðu til í London í maímánuði 1954. Störf þessarar nefndar byggðust að nokkru leyti á því, sem þjóðabandalagið hafði gert í málinu, og svo höfðu margar þjóðir framkvæmt víðtækan undirbúning undir ráðstefnuna. Fulltrúar 32 landa tóku þátt í henni, en auk þess sendu 10 lönd önnur áheyrnarfulltrúa og Sameinuðu þjóðirnar sendu tvo. Árangurinn af ráðstefnunni varð svo alþjóðasamþykkt um að fyrirbyggja óhreinkun sjávar af völdum olíu, 1954, og það er einmitt sú alþjóðasamþykkt, sem hér er lögð fyrir sem fskj. með því frv., sem ríkisstj. hefur lagt fram um þetta efni.

Í 15. gr. samþykktarinnar segir, að hún skuli taka gildi 12 mánuðum eftir að minnst 10 ríkisstjórnir hafi gerzt aðilar að henni, og skulu þar af vera 5 stjórnir landa, sem hvert hefur yfir að ráða minnst hálfri milljón brúttótonna tankskipaflota. 12 lönd munu hafa verið búin að staðfesta samþykktina um mitt ár 1959. Í stórum dráttum er efni samþykktarinnar þetta:

Í fyrsta lagi er þar skilgreining á ýmsum orðum, sem í samningnum koma fyrir, og sundurgreining á, hvers konar olíu sé um að ræða, því að hún er fjarri því að vera öll jafnskaðleg og sum að heita má óskaðleg. Í öðru lagi eru talin þar undantekningarákvæði samþykktarinnar, sem gera ráð fyrir, að skip undir 500 brúttórúmlestum séu undanþegin henni og sömuleiðis hvalveiðiskip. Bannsvæði eru ákveðin í viðauka við samþykktina. Innan þeirra er tankskipum bannað að losa olíu eða olíumengaðan sjó. Kemur þetta einnig til með að gilda um önnur skip að þrem árum liðnum, frá því að samþykktin tekur gildi, nema þau séu á leið til hafna, þar sem ekki eru skilyrði til þess að losna við olíuúrgang, þá skulu slík skip reyna að losa sig við hann eins fjarri landi og framkvæmanlegt er. Þó er leyfi til að fleygja einkum botnfalli og sora í sjóinn, enn fremur má losa austurvatn í sjó, innihaldi það ekki olíur, eins og hér hafa verið skilgreindar, eða aðrar en smurolíur. Skip með olíumengað austurvatn skulu vera útbúin með nokkurs konar skilvindum eða skiljurum, þar sem hægt er að greina olíuna frá vatninu. Ríkisstj. skal tryggja, að fyrir hendi sé í aðalhöfnum fullnægjandi útbúnaður til þess að taka við sora og olíuúrgangi úr öðrum skipum en tankskipum. Mun þetta þó ekki ná til olíumengaðs kjölfestuvatns eða vatns, sem notað hefur verið til þvotta á olíugeymum. Olíufærslubók skal vera í hverju skipi, sem heyrir undir ákvæði samþykktarinnar. Og loks er svo gert ráð fyrir, að senda skuli Alþjóðasiglingamálastofnuninni og viðkomandi ráði Sameinuðu þjóðanna texta þeirra laga, tilskipana, fyrirmæla og reglugerða, sem miða að því að framkvæma ákvæði samþykktarinnar.

Enn var boðað til alþjóðaráðstefnu um málið í Kaupmannahöfn í júlí 1959. Báru menn þar saman bækur sínar um það m.a., hvað hefði gerzt, síðan alþjóðasamþykktin kom í gildi, og yfirleitt var það álit manna, að ástandið hefði farið batnandi, en þó tiltölulega hægt. Með tilliti til þess, að aðeins 12 ríkisstjórnir höfðu þá staðfest samþykktina, hvatti fundurinn aðrar stjórnir til þess að gera slíkt hið sama hið fyrsta.

Þetta er það, sem ég vildi segja um málið almennt. En hinn 6. apríl 1956 skipaði þáv. siglingamálaráðherra, Ólafur Thors, sjö manna nefnd til þess að athuga óhreinkun sjávar með olíu frá skipum, umbúnað olíustöðva í landi og óhreinkun sjávar af þeirra völdum og tjón, er þessi olíuóhreinkun veldur, og gera tillögur til rn. um málið. Í þessa nefnd voru skipaðir skipaskoðunarstjóri sem formaður n., vita- og hafnarmálastjóri, hafnarstjórinn í Reykjavík, einn fulltrúi frá olíufélögunum, einn fulltrúi frá skipafélögunum, einn efnafræðingur frá fiskideild atvinnudeildar háskólans og einn náttúrufræðingur. Þessi nefnd hefur svo haft málið til meðferðar síðan og skilaði áliti um áramótin síðustu. Niðurstöður n. eru þær, að n. leggur til: í fyrsta lagi, að Ísland gerist aðili að samþykktinni frá 1954, í öðru lagi, að settar verði reglur um meðferð olíu í olíustöðvum á landi, að því er varðar olíumengun sjávar, og að settar verði reglur um meðferð olíu við og í höfnum landsins og nái slíkar reglur þá einnig til íslenzkra skipa, sem samþykktin tekur ekki til, þ.e.a.s. til þeirra skipa, sem undanþegin eru, m.a. þeirra, sem eru minni en 500 brúttórúmlestir, og hvalveiðiskipa.

Þetta eru niðurstöður n., eftir að hún hafði kynnt sér málið hér heima, m.a. hvernig það horfði við af hálfu togara, fiskibáta, vöruflutningaskipa, olíuflutningaskipa, útlendra skipa og landsstöðva, þar sem olía er afgreidd. Þessi óhreinkun sjávarins af völdum olíu hér við land er tiltölulega miklu minni en hún er annars staðar, og er það ekki undarlegt, þar sem olíuflutningar og olíunotkun á okkar landi er miklu minni en annars staðar, svo að við náum kannske vart nema 1 eða 2% af þeirri olíunotkun, sem um hönd er höfð t.d. í Bretlandi, svo að ég taki eitthvert nálægt land. En hins vegar er á það bent, að þó að baðstrendur séu ekki víða hér á landi, sem kynnu að verða fyrir óþægindum af þessum sökum, geta verið og hafa orðið mikil óþrif af þessu, og er skemmst að minnast, þegar hér var sökkt olíuflutningaskipi á stríðsárunum og heita mátti, að Seyðisfjörður allur yrði svartur af olíu og allt líf, sem þar kom nálægt, drapst, bæði fuglar og gróður, og fiskur hvarf, þannig að það er ekki útilokað, að hér geti orðið tjón af þessum sökum, ef ekki er reynt til hins ýtrasta, eins og frv. og alþjóðasamþykktin gera ráð fyrir, að koma í veg fyrir þetta. Hins má líka geta, að þó að fugladauði hafi ekki orðið mjög mikill hér á landi af olíu í sjó, hefur hann þó orðið nokkur, og eru um það talsverðir vitnisburðir. Er sérstaklega athyglisvert að athuga í því sambandi, að sá fuglinn, sem verður kannske mest fyrir þessu, er einmitt okkar mesti nytjafugl, æðarfuglinn, sem væri hvað hatrammlegast að missa, a.m.k. nokkuð verulega, vegna þessara aðgerða. Ég held, að ég þurfi ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég hef reynt að gera grein fyrir málinu í heild, eins og það horfir við á alþjóðavettvangi, og tillögum þeirrar íslenzku nefndar, sem um málið hefur fjallað og það mjög rækilega um árabil, að segja má, skilaði áliti sínu um síðustu áramót og leggur eindregið og einróma til, að alþjóðasamþykktin verði staðfest hér á Íslandi, bendir m.a. á, að öll Norðurlöndin hin hafa gerzt aðilar að samþykktinni, og þó að vandamálið sé í minni mælikvarða hér hjá okkur en annars staðar, þá er það þó til og augsýnilega hættur, sem geta verið fyrir hendi af þessum sökum, ef ekki verður reynt til hins ýtrasta að koma í veg fyrir þessa óhreinkun sjávarins af völdum olíu.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. sjútvn.