13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara ýkjamörgum orðum um þetta frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt að þessu sinni. Hér er um mjög mikið mál að ræða. Í frv. felast breytingar á gildandi lögum, breyt. bæði margar og miklar, og verður væntanlega tækifæri til þess við síðari umræður að ræða þær í einstökum atriðum nánar.

Þetta frv., eins og það liggur fyrir, er að niðurskipun efnis með nokkuð öðrum hætti en gildandi lög, og eftir því sem ég fæ bezt séð, þá mun það í heild vera til bóta. Þá er og fyrirhuguð með þessu frv. gagnger endurskipulagning á öllu skattlagningarstarfi í landinu, og er það út af fyrir sig eitt mikið mál. Fyrirhugað er að leggja niður undirskattanefndir, en láta í þeirra stað koma skattstjóra, 8 að tölu, með umboðsmönnum í hverju sveitarfélagi. Ég tel vafalítið, að í þessari breyt. sé fólgið ýmislegt, sem telja verður til endurbóta. Hvort allt það, sem í grg. frv. er talið að muni verða til bóta með Þessari breytingu, reynist svo, skal ég ósagt láta. Ég efast t.d. nokkuð um það, að kostnaður vegna þessarar breyt. verði minni en hann hefur verið. Það væri vel, ef svo reyndist, en ég efast stórlega um það. Þá er í þessu frv. sægur af ýmsum minni háttar breyt. og nýmælum. Ég er viss um, að margar af þeim breyt, verða að teljast til bóta, og mun þó ekki fara út í það nánar nú. Þó vil ég aðeins leyfa mér að geta örfárra nýmæla, sem í þessu frv. eru, — nýmæla, sem eru þó minni háttar.

í 13. gr. frv. er nýmæli þess efnis, að draga megi frá tekjum afborganir af námsskuldum, sem menn hafa stofnað til eftir tvítugsaldur. Þetta tel ég mjög þarft nýmæli, mjög þarfa breytingu, svo langt sem hún nær. Mér heyrðist hæstv. fjmrh. tala um þessa breyt. með nokkru stolti í gær, og er það ekki nema von. Þó hefur hæstv. ríkisstj. að mínum dómi sannarlega ekki efni á því að vera hreykin af framkomu sinni við námsfólk þessa lands á undanförnum 2–3 árum. Við vitum Það öll, sem hér erum, enda er það alkunna, að fjöldi efnalítilla námsmanna hefur á síðustu tveim árum orðið að hætta námi, beinlínis vegna viðreisnarráðstafana hæstv. ríkisstj. Nýmælið, sem hér er um að ræða í 13. gr. frv., er því ekki óþarft, en ég teldi, að það ætti að ganga lengra í þeirri breyt., sem þar er um að ræða, heldur en gert er, en það atriði verður væntanlega tóm til að ræða og athuga nánar síðar.

Í 53. gr. frv. er ákvæði, sem einnig snertir námsfólkið í landinu. Þar segir, að skattstjóra sé heimilt að taka til greina umsókn um lækkun, ef skattþegn hefur veruleg útgjöld haft vegna menntunar barna sinna eldri en 16 ára. Hér er einnig um nýmæli að ræða í skattalögunum, sem ég tel vera til bóta. En mér þykir galli á, að hér skuli aðeins vera um heimild að ræða, það er lagt á vald skattstjóra, hvort slík umsókn um lækkun verði tekin til greina eða ekki. Ég teldi, að þessu ætti að breyta í það horf, að skattstjóra yrði skylt að taka til greina slíka umsókn, og ég vil minna á, að hér er gengið skemmra en gert er í útsvarslögunum. Þar eru sams konar ákvæði og beinlínis tekið fram, að til Þessara aðstæðna skuli tekið tillit.

Ég gríp ofan í nýmæli, minni háttar nýmæli, sem í þessu frv. felast, af handahófi. Þar er eitt um, að húsgögn, aðrir húsmunir og persónulegir gripir skuli nú ekki lengur, eins og hingað til, teljast til skattskyldra eigna. Þetta lítur vel út við fyrstu sýn. En að mínum dómi getur Þessi breyt. orkað tvímælis. Víst er um það, að hinir fátækari í þjóðfélaginu græða ekkert á þessu nýmæli, en það gera aftur á móti hinir efnameiri. Þeir stóreignamenn og hátekjumenn, sem búa í 8–12 herbergja íbúðum, fullbúnum dýrindis húsgögnum, græða á þessu.

Ég hef orð á þessu af því, að mér finnst það minna á ýmislegt annað í aðgerðum stjórnarflokkanna síðustu tvö árin, viðleitni þeirra til þess að létta byrðarnar á þeim, sem breiðust hafa bökin í þessu þjóðfélagi, og gera það á kostnað þeirra, sem veikari eru og efnaminni.

Það stakk mig ofur lítið, þegar ég las það í grg. þeirri, sem frv. fylgir, að í 10. gr. gildandi l. er ákveðin heimild, sem nú skal felld úr lögum. Mér finnst sú breyt. einnig styðja Það, sem ég var að segja áðan um hug hæstv. ríkisstj. til smælingjanna í þessu Þjóðfélagi. í 10. gr. gildandi skattalaga er heimild til lítils háttar tekjufrádráttar handa fjölskyldufólki, sem getur fært sönnur á, að Það búi við okurhúsaleigu. Nú á að fella þessa heimild niður, og það er beinlínis tekið fram í grg. fyrir frv., að á þessari heimild sé ekki þörf lengur. Hún er óþörf, svo vel hefur viðreisn hæstv. ríkisstj. tekizt.

Ég skal ekki tína fleira til af minni háttar breyt. í þessu frv. Eins og tekið var fram við umr. í gær, er meginbreyt. í þessu frv. og raunar tilgangurinn með þessu frv. sá að létta sköttum af gróðafélögum og fyrirtækjum. Til þess er allur leikurinn gerður. í frv. er stutt að því, eins og segir í grg., að tryggja atvinnurekstrinum hóflega skattaálagningu og gefa fyrirtækjum kost á að geta safnað sjóðum. Þetta er orðað svona í grg. En þetta má líka orða á annan veg, t.d. þann, að stefnan sé sú með Þessu frv. að létta skattbyrði atvinnu- og verzlunarfyrirtækja í því skyni að auka hagnað þeirra og gróða. Þetta er meginefni þeirra breytinga, sem nú eru fyrirhugaðar á skattalöggjöfinni, og það er raunar í fyllsta samræmi við þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið frá upphafi sinna vega. Fyrir tæpum tveimur árum var tekjuskattur einstaklinga lækkaður. Þá var þess vandlega gætt, að lækkunin að krónutölu yrði mest á þeim, sem hæstu launin hafa. Þá fengu launamenn fáeinar krónur eftirgefnar af tekjuskatti, en hálaunamenn fengu margar krónur eftir gefnar. Fyrir tæpum tveimur árum voru sanngjörnustu skattar nútímans, beinir, stighækkandi skattar, lækkaðir, þeirra vegur minnkaður, en í stað þess útvíkkaður og stórhækkaður neyzluskatturinn á nauðsynjar fólksins, ranglátasti skatturinn, sem um getur í sögunni.

Með þessu frv, er fyrirhugað að létta sköttum á gróðafélögum. Skattgjald þeirra skal fyrst og fremst lækka úr 25% í 20% af skattskyldum tekjum. Skattgjaldstekjur gróðafélaga eru lækkaðar með því að auka við og hækka ýmsa frádráttarliði. Frádráttarhæfur útborgaður arður er t.d. hækkaður úr 8% í 10%. Félagsgjöld til atvinnurekendasamtaka, sem að jafnaði skipta sennilega þúsundum, ef ekki tugþúsundum kr. á ári, eru að þessu sinni gerð frádráttarhæf. Og reglur um frádráttarhæf varasjóðstillög eru gerðar langtum víðtækari en þær nokkru sinni hafa verið áður. Til viðbótar þessu er eignarskattinum nú breytt þannig, að skatturinn er stórlækkaður á öllum stóreignum, en um leið hækkaður á lægri eignum yfir 100 þús. kr. Ýmis fleiri nýmæli eru í Þessu frv., sem beinlínis miða í þá átt að lækka sem mest skatta á félögum og fyrirtækjum, t.d. að flytja megi tap á milli fimm ára í stað tveggja, auk fjölda annarra atriða, sem ég geri ekki að umtalsefni nú.

Sýnilega þykir ekki nóg að verið með Þessu, því að í grg. frv. er haft orð á því beinlínis, að þetta sé ekki nóg. Eigi gróði félaganna að verða nægur, þá verði einnig að breyta útsvarslögunum gróðafélögunum til hagsbóta. Þar er sem sagt boðað, að sams konar breytingar á útsvari skuli gerðar í náinni framtíð og fyrirhugað er um ríkisskatta í Þessu frv. Hæstv. ríkisstj. verður ekki sökuð um, að hún ætli sér að leika gróðafélögin hart á næstunni. Hún er sýnilega þeirra ástfóstur, sem henni finnst seint nóg gert fyrir. Hæstv. ríkisstj. og sú nefnd, sem hefur undirbúið þetta frv., efast ekki um þörfina á að auka gróða félaganna, sem hér um ræðir. Þau fara um þá þörf mörgum fögrum orðum. En hvar eru rökin, hvar eru röksemdirnar fyrir þessari þörf? Hvar eru röksemdirnar fyrir því, að svo gífurlega skuli nú lækkaðir skattar á gróðafélögum og útsvar á gróðafélögum? Ég hef ekki séð þær röksemdir. Þar er um að ræða eintómar fullyrðingar í fögrum umbúðum. Það væri fróðlegt að sjá þau rök. Mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh. í gær, að þörf gróðafélaganna fyrir aukinn gróða væri mikil. Ég gat ekki annað á þeirri ræðu heyrt en hún væri ótakmörkuð. Mér skildist á ræðu hæstv. ráðh., sem hann teldi, að því meiri sem gróði þessara félaga væri, því betra. Ef hæstv. ráðh. meinar þetta, þá vil ég benda á, að þar gengur hann feti lengra en íhaldssömustu auðvaldshagfræðingar nú á tímum þó gera. Einn Þeirra var hér á ferð á vegum gróðafélaganna til þess að ráðleggja þeim varðandi skattamál. þessi erlendi hagfræðingur viðurkenndi þó í beinum orðum, að gróði fyrirtækja geti orðið, það mikill, að nauðsynlegt verði að draga úr honum, m.a. með skattlagningu. Hvað er nú um gróða íslenzkra félaga? Hvað er hann mikill? Hvar eru rökin fyrir því, að nú sé brýn þörf á að lækka eins mikið og fyrirhugað er skattabyrði félaganna? Hæstv. ráðh. minntist í sinni framsöguræðu í gær á skattafarganið. Mér fannst þetta orð hljóma einkennilega í munni hæstv. ráðh. Hvað átti hann við, þegar hann talaði um skattafargan í lítilsvirðandi tón? Er það kannske skattafargan að hans dómi, að hátekjumenn og gróðafélög greiði hærri hundraðshluta af hreinum tekjum sínum í skatt en láglaunafólkið í landinu? Ef hæstv. ráðh. telur það, þá er ég honum mjög ósammála um skilning á orðinu skattafargan. Ef hann hins vegar með skattafargani hefur átt við háa skatta almennt, þunga skattbyrði, þá hefur hann svo sannarlega í gær nefnt snöru í hengds manns húsi. Aldrei hefur það skattafargan orðið jafnmikið og í tíð núv. hæstv. ríkisstj., og var það greinilega sannað með tölum hér við umr. í gær.

Ég skal ljúka þessum orðum mínum. Aðeins langar mig að vekja athygli á fáeinum orðum í ræðu hæstv. ráðh. í gær, orðum, sem hann viðhafði í lok sinnar ræðu.

Hæstv. ráðh. virtist gera sér Það fyllilega ljóst og viðurkenna það í gær, að með þeim meginbreytingum, sem felast í þessu frv., er verið að hlaða undir gróðamenn. Ég held, að hann hafi einmitt notað þessi orð. Hann viðurkenndi, að verið væri að hlaða undir gróðafélögin. Undir þessi orð get ég tekið með hæstv. ráðh. En hæstv. ráðh. hélt áfram, og Þá fannst mér slá út í fyrir honum, þegar hann fór að gefa það í skyn, að þetta, að hlaða undir gróðafélögin í landinu, væri ekki gert fyrir félögin sjálf, heldur fyrir allan almenning í landinu. Það er til hagsbóta fyrir öll landsins börn, sagði hæstv, ráðh. í föðurlegum tón. Ég vil nú meina, að þetta sé álíka mikið til hagsbóta fyrir landsins börn og kauplækkunin árið 1959 var Það, dýrtíðarskriðan 1961 og kaupbindingin og annað viðreisnarfargan þessara stjórnarflokka síðustu 3 árin. Ef hæstv. ráðh. telur kauplækkun, lögboðna kaupbindingu, endalausa dýrtíðaraukningu vera til hagsbóta fyrir landsins börn, þá er ekki að undra, þótt hann telji aukinn gróða gróðafélaganna vera einnig til hagsbóta fyrir landsins börn.