13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á skattalögum er framhald af þeirri stefnu, sem tekin var 1960, eins og hæstv. fjmrh. sagði í gær í framsöguræðu sinni. Þá var mjög rækilega auglýst fyrir þjóðinni, að verið væri að afnema skatta á almennum launatekjum og að þau lög sýndu eiginlega kristilegra hugarfar í garð almennings en venja væri um lög frá Alþ. Mannúðin í þeim I. kom nú samt dálítið misjafnlega niður. Þá fékk t.d. hátekjumaðurinn álíka mikla skattalækkun og 30 lágtekjumenn. Þetta var þó ekki það versta. Hitt var öllu lakara, að um leið var lagður á almenning nýr skattur í staðinn, söluskattur, sem hæstv. ríkisstj. telur alveg sérstakt gersemi, og þessi söluskattur hafði Þessa dásamlegu eiginleika, að hann lagðist jafnþungt á milljónera og fátæklinginn, ef báðir keyptu jafnmikið af vörum og þjónustu. Nú er með þessu frv. verið að breyta sköttum á félögum. Mér sýnist, að nú eigi sérstaklega að miskunna sig yfir þau fyrirtæki, sem eru stærst og sterkust, mestar eiga eignirnar nú og mesta hafa möguleikana til að safna gróða. Eitthvað kunna tekjur ríkissjóðs að rýrna við þetta, að manni skilst, þótt hæstv. ríkisstj. sé á annarri skoðun. Og þess vegna er ekki gerð grein fyrir því í grg. frv., hverju sú lækkun muni nema. Þegar ríkistekjurnar rýrnuðu við skattalækkun á einstaklingum, þurfti að leggja á neyzluskatt í staðinn, því að ríkissjóður þurfti sitt. Það væri því með ólíkindum, ef ríkissjóður þyrfti ekki einhvern ábæti fyrir þá tekjurýrnun, sem kann að leiða af þessu frv. Það hentar kannske ekki að vera að leggja slíkar till, fram sama daginn og þetta frv. er tekið til umræðu, en þær till. geta komið fram síðar, og ég býst við, að þær verði þá í ætt við söluskattinn.

Ég vil minnast á örfá helztu efnisatriði þessa frv., og ég vil um leið beina þeim athugasemdum mínum til þeirrar hv. nefndar, sem fær frv. til meðferðar. Ég vil líka leita nokkurra upplýsinga hjá hæstv. fjmrh. um einstök atriði frv., sem ég tel vera óljós. Og ég vil biðja hæstv. forseta leyfis að mega lesa upp einstaka málsgreinar úr frv., ef mér liggur á, án þess að óska leyfis í hvert sinn.

Í 13. gr. frv. er nýtt ákvæði, að fyrirtæki megi draga frá skattskyldum tekjum félagsgjöld til atvinnurekendafélaga, allt að 5 af þúsundi af veltu fyrirtækis. Ég þekki fyrirtæki, sem greiddi á s.l. ári rúmar 12 þús. kr. til þess félagsskapar, sem það fyrirtæki var þátttakandi í. Og það gjald var miðað við greidd vinnulaun hjá fyrirtækinu. Ef það fyrirtæki hefði átt að greiða samkv. þessari reglu 5 af þúsundi af veltu, þá hefði þetta gjald orðið eitthvað nálægt 45 Þús. kr. eða ekki fjarri því að verða fjórfalt við það, sem það var. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh., hvort hér sé ekki á ferðinni allveruleg hækkun á þessum gjöldum frá því, sem er almennt, og hvort sú hækkun sé fyrirhuguð hjá atvinnurekendafélögum, og sé svo, hvort ástæða sé til að taka það sem skattfrjálst tillag.

15. gr. frv. er um fyrningar. Þar stendur m.a.: „Nánari ákvæði um, hvernig reikna skuli fyrningu eða viðhald, skulu sett í reglugerð, sem fjmrh. setur, og er þar heimilt að ákveða til frádráttar vegna fyrningar og viðhalds fasteigna vissa hundraðstölu af fasteigna- eða brunabótaverði þeirra.“

Mér skilst, að þessi hluti greinarinnar sé tekinn upp úr núgildandi lögum, og það kann að vera, að ég nefni einhver atriði í þessu frv., sem eru nú í lögum, en mér sýnist full ástæða til þess að athuga þau einnig, fyrst hér er á ferðinni endurskoðun laganna Hvað þetta atriði snertir, Þá finnst mér þarna blandað saman fyrningu og viðhaldi.

Ég vil spyrja að því, hvort fyrirmæli séu í reglugerð nú, hvernig reikna skuli viðhald á eignum. Að því leyti, sem ég þekki til þeirra mála, þá hafa fyrirtæki fengið að draga frá tekjum sínum raunverulegt viðhald eignanna á hverju ári, án nokkurs tillits til þess, hvaða reglur hafa gilt um fyrningarafskriftir.

Þá er nýtt ákvæði í þessari 15. gr., og er það eitt af mikilvægustu ákvæðum þessa frv. Þar segir:

„Alla fastafjármuni skal fyrna miðað við áætlaðan endingartíma þeirra.“

Hvað eru fastafjármunir? Mér er með öllu óljóst, hvað átt er við með „fastafjármunir“. í 22. gr. er enn rætt um þessa fastafjármuni, sem heimilað er að meta að nýju og bókfæra til svokallaðs endurkaupsverðs. Fletti maður svo upp í aths. við þessa 22. gr. um fastafjármunina, þá heita þeir ekki fastafjármunir, þegar komið er svo aftarlega í frv. Þar heita þeir fasteignafjármunir. Hvaða fjármunir eru þetta? Eru þetta húseignir, fasteignir? Eru þetta vélar? Eru Þetta skip? Eru þetta flugvélar? Það er ekkert aukaatriði, að þetta sé alveg ljóst í lögunum, hvað er átt þarna við, af Því að Það eru einmitt Þessir fjármunir, sem á að heimila að meta að nýju og afskrifa svo samkvæmt því mati. Mér sýnist óhjákvæmilegt, að í sjálfum l. verði nefndar helztu tegundir þessara fastafjármuna, svo að hægt sé að átta sig á þessum hlutum.

Þá segir enn í þessari sömu 15. gr.:

„Reikna skal fyrningu sem fastan hundraðshluta af kostnaðarverði eigna, sem keyptar eru 1962 eða síðar.“

Á þetta þá ekki að gilda um neinar eignir, nema þær hafi verið keyptar? Ef einhver byggir sér hús eða myndar eign á annan hátt en að kaupa hana, á Þetta Þá ekki að gilda um það líka?

Í Þessari sömu 15. gr. segir:

„Skattayfirvöld skulu ákveða heildarafskriftarupphæð hverrar eignar.“ En fyrr í þessari sömu grein segir: „Nánari ákvæði um, hvernig reikna skuli fyrningu eða viðhald, skulu sett í reglugerð, sem fjmrh. setur.“

Hvað er þarna átt við með „skattayfirvöld“? Eru það skattstjórar? Eða er það bara ráðherra? Eiga skattstjórar að hafa vald til að ákveða afskriftir af eignum? Þó að skattstjóri gæti þess, að afskriftir séu í samræmi við reglugerð, þá er hann ekki að ákveða neitt um afskriftir fyrir það. Mér sýnist þarna þörf á, að það sé ótvírætt í lögum, hvort skattstjórar eiga að hafa þetta vald eða hvort þeir eiga ekki að hafa það.

Þá kem ég að 22. gr. Þar segir í H-lið: „Heimilt er atvinnufyrirtækjum á árunum 1962–1963 að láta meta áætlað endurkaupsverð fastafjármuna sinna og breyta bókfærðu verði á eignum samkv. því, enda telst verðhækkunin ekki til skattskyldra tekna.“

Ég hef áður tekið fram, hversu óljóst Það sé að tala um fastafjármuni án þess að greina dæmi um það, hverjir Þeir séu, og að þetta muni vera mjög á reiki, þetta hugtak í frv., þar sem á öðrum stað, þ.e.a.s. grg., er talað um fasteignafjármuni. Þarna er líka talað um atvinnufyrirtæki. Er ekki hvert það fyrirtæki atvinnufyrirtæki, ef einhver maður hefur atvinnu af því ? M.ö.o.: nær þetta ekki til allra fyrirtækja? Þá segir einnig í þessari 22. gr., að Þegar búið er að meta eignirnar til endurkaupsverðs og bókfæra þær samkv. því, Þá skuli frá dregin „eðlileg afskrift,“ er miðast við rýrnun eignarinnar, og Þessi eðlilega afskrift á að ákveðast með reglugerðarákvæði. Það er, held ég, tvímælalaust stærsta atriðið í þessu frv., það nýmæli, sem ég hef hér nefnt. En það að heimila endurmat á öllum þeim eignum, sem kalla má fastafjármuni, sem fyrirtæki eiga nú, og veita þeim síðan skattfrjálsa fyrningu af því verði eignanna, sem kemur út við matið, gerir ómögulegt að sjá það fyrir fram, hversu mikilvægt þetta ákvæði frv. er, af Því að reglurnar um matið og síðan fyrninguna á eignunum, eftir að búið er að meta þær, verða seinna settar af ráðherra með reglugerð, og því ekki unnt að dæma fyrir fram, hvernig þetta verður í framkvæmdinni.

Ég hef leitazt við að gera mér grein fyrir, hvernig Þetta mat muni fara fram. Mér hefur dottið í hug, að það kunni að verða framkvæmt þannig, að fyrst er fundið út, hvað nýjar eignir, sams konar þeim eldri, mundu kosta nú, síðan verði dregið frá þeirri upphæð matsverð gömlu eignanna og Þá komi út endurkaupsverðið. Tilgangurinn með þessu ákvæði er auðvitað sá, að fyrirtæki fái þannig mun hærri skattfrjálsar afskriftir eða fyrningu en áður. En hversu miklu þetta getur munað frá Þeim fyrningum, sem slíkt fyrirtæki hefur nú, er ómögulegt að sjá fyrir fram með neinni nákvæmni og langt frá því, vegna þess að engar leiðbeiningar eru gefnar í frv., með hvaða hætti matið fer fram.

Fyrst, þegar ég las þetta yfir, datt mér í hug, að þetta mat yrði framkvæmt þannig, að eftir að fundið væri verð á nýrri eign, sams konar hinni eldri, ætti að draga frá þeirri upphæð þær afskriftir, sem leyfðar hafa verið á gömlu eignunum. En ég komst að þeirri niðurstöðu, að slíkt gæti þó varla komið til greina. Hvernig sem að verður farið með framkvæmd matsins, þá er að mínum dómi varla við það unandi, að engar reglur um framkvæmdina komi fram í sjálfum lögunum, fyrst það á að heimila fyrirtækjunum skattfrjálsa fyrningu eigna samkv. þessu mati, því að það er mér alveg ljóst, að það er hægt að framkvæma þetta mat Þannig, að stórefnuð fyrirtæki verði skattfrjáls á eftir.

Ég vil nú samt freista þess að spyrja hæstv. ráðh. frekar um það, hvernig hugsað er eða hvernig hann hugsar sér eða þá aðrir höfundar þessa frv. að meta t.d. 10 ára gamla verksmiðjuvél, sem búið er að afskrifa að fullu. Við skulum hugsa okkur, að slík vél hafi kostað 10 þús. kr., en ný vél sömu tegundar kosti núna 100 þús. kr. Hvernig verður nú gamla vélin metin? Hvernig á að meta 20 ára gamalt flutningaskip t.d., sem búið er að afskrifa að fullu? Það hefur kannske kostað 5 millj. fyrir 20 árum, en kostar 60 millj. núna. Hvernig verður verksmiðjuhús metið, sem er 30 ára gamalt, búið að afskrifa það að fullu, kostaði fyrir 30 árum 100 þús. kr., en sams konar hús kostar núna hálfa aðra milljón? Og að lokum: Hve háar afskriftir verða svo leyfðar af þessum eignum.

Eftir að búið er að meta þær svona? Hvernig sem matsgerðir og afskriftir eru fyrirhugaðar, Þá er hitt víst, að tilgangurinn með frv. er sá að heimila fyrirtækjum stórkostlega hækkun á bókfærðu verði eigna sinna til þess að að fá skattfrjálsar afskriftir af eignunum. Það er ekkert álitamál.

Ég neita því ekki, að mörg fyrirtæki munu eiga erfitt með að endurnýja eignir sínar með þeim afskriftum, sem leyfðar hafa verið nú að undanförnu. En þess ber líka að gæta, að fyrningarupphæðir, sem hafa verið skattfrjálsar, hafa verið í vörzlu fyrirtækjanna og ávaxtazt þar og sumar þeirra ávaxtazt furðu vel. Þá er ekki hægt að neita því, að ýmis fyrirtæki hafa beinlínis grætt á verðbólgunni. Þau hafa fengið lánsfé og endurgreitt það með miklu verðminni krónum en þau fengu lánaðar. Ég ætla, að þannig hafi jafnvel komið fram stórgróði. Það er því ekki hægt að segja, að fyrirtæki hafi ekkert fengið á móti, því að skattfrjálsar afskriftir af eignum hafa verið of litlar vegna verðbólgunnar.

í 7. gr. frv. eru ákvæði um, að hlutafélag megi gefa út svokölluð jöfnunarhlutabréf, og eiga þau að vera skattfrjáls. Upphæð þessara jöfnunarhlutabréfa verður þó að vera í samræmi við eignaaukningu hlutafélagsins, sem fram kemur við eignamat. Tilgangurinn með þessum skattfrjálsu jöfnunarhlutabréfum sýnist mér vera tvenns konar. Annars vegar er hann sá, að úthluta megi þá á eftir meiri arði af hlutafénu, sem verður þó skattfrjáls hjá félaginu, en skattskyldur hjá einstaklingunum, hins vegar, að efnahagsreikningur hlutafélags sýni sömu niðurstöðu eftír sem áður. Ef jöfnunarhlutabréfin eru sömu upphæðar og eignaaukningin, þá verður útkoman á efnahagsreikningi þess fyrirtækis alveg eins og hún var. Þetta getur haft verulega aukningu í för með sér á arðsúthlutun í hlutafélagi. Ef t.d. 100 þús. kr. hlutafé tífaldast þannig á pappírnum, þá verður heimilt að greiða 100 þús. kr. skattfrjálsan arð af því á ári, í staðinn fyrir að núna má aðeins greiða 8 Þús. kr. skattfrjálsan arð. Það er rífleg hækkun, að hækka úr 8 þús. upp í 100 þús. Hlutföllin geta orðið hin sömu, þó að upphæðirnar séu miklu meiri. Að vísu verður arðurinn skattskyldur hjá einstaklingunum, en skattar þeirra hafa nýlega verið lagaðir til, svo að það er ekki vist, að Það komi að verulegri sök, ef ekki er um því hærri upphæðir að ræða.

Ef samvinnufélag vill notfæra sér ákvæði þessa frv. um nýtt eignamat til þess að fá skattfrjálsar fyrningarupphæðir til endurnýjunar eignunum, eins og hlutafélagið, þá er aðstaðan hjá því allt önnur. Hjá samvinnufélagi er ekkert hlutafé og það hefur því enga möguleika til að hækka neinar skuldir sínar á pappírnum á móti þeirri hækkun, sem á eignirnar kemur. Ef samvinnufélag hækkar eignir sínar á pappírnum, þá sýnir efnahagsreikningurinn gjörbreyttan efnahag frá því, sem áður var. En þó að hlutafélag hækki eignir sínar á pappírnum, þá getur það sýnt nákvæmlega sama efnahag eftir sem áður. Hvaða áhrif þetta kynni að hafa til hækkunar á eignarskatti og eignarútsvari samvinnufélaga, hef ég ekki kynnt mér, en það er sýnilegt, að það getur haft sína þýðingu, sem hlutafélag er laust við. En annað hvort verður samvinnufélagið að gera, taka á sig þessa skattahækkun, eignarútsvar og eignarskatt, til þess að fá sams konar fyrningarafskriftir og hlutafélagið, eða tapa þeirri skattalækkun, sem af fyrningarafskriftunum leiðir og er í þessu frv. Þetta kemur svo til viðbótar því, að samkv. frv. á skattfrjálst varasjóðstillag samvinnufélaga að lækka úr 331/3% niður í 25% af tekjuafgangi, þegar varasjóðstillag hlutafélags hækkar úr 20% í 25% af tekjuafgangi.

Ég vil nota tækifærið og leiðrétta það, sem kom fram í ræðu hjá hv. 9. landsk. þm. í gær, að nú séu skattar lækkaðir jafnt á hlutafélögum og samvinnufélögum. Það er fjarri lagi. Mér telst svo til, að raunverulegur tekjuskattur á samvinnufélagi sé nú 16.58% af tekjuafgangi, þegar tillit er tekið til varasjóðsframlagsins, en raunverulegur tekjuskattur á hlutafélagi sé 20%. Síðan eiga bæði samvinnufélagið og hlutafélagið að lækka niður í 15%. M.ö.o.: lækkunin á samvinnufélaginu er úr 16.58 í 15%, en á hlutafélaginu úr 20 niður í 15%. Þá er enn ótalin sú skattalækkun hjá hlutafélagi, sem leiðir af arðsúthlutun á jöfnunarhlutafé og hækkun arðsins úr 8% í 10%. Á móti þessu fær samvinnufélagið ekki neitt. En með því að möguleikar kunna að skapast til þess að margfalda hlutafé, þá getur þarna munað á mjög háum upphæðum, eins og ég áðan nefndi dæmi um. Það mun því ekki vera ofmælt, að skattastefna stjórnarflokkanna í garð samvinnufélaganna hefur ekki breytzt siðan 1960. Það er þvert á móti haldið lengra á sömu braut.

Ég kem þá að 28. gr. frv. Þar er verið að gjörbreyta framkvæmd skattalaganna, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir í gær. Það er látið í veðri vaka, að þetta eigi að vera sparnaðarráðstöfun fyrir ríkið, og ég sé ekki, að þessi lagabreyting sé rökstudd með neinu öðru en að það sé sparnaður. Ég get ekki gert að því, að mér liggur við að brosa, þegar ég fer að athuga sparnaðarmöguleikana. Skattstjórum á að fækka um tvo, en það er viðurkennt í frv., í grg. þess, að starfsfólki hjá skattstjórum muni þurfa að fjölga. Það er ekkert nefnt, hversu mikið því þurfi að fjölga, en mér þykir ekki ólíklegt, að starfsfólki hjá skattstjóra þurfi að fjölga í eitthvað svipuðu hlutfalli og skattframtölum fjölgar, sem skattstofan tekur á móti og afgreiðir. Reynist þetta svo, þá verður fjölgunin allrífleg. Það er einnig viðurkennt í athugasemdum með þessu frv., að gera megi ráð fyrir þóknun til umboðsmanna. Ég ætla, að það sé ekki rangt til getið, að það verður að gera ráð fyrir einhverri þóknun til þeirra. Ég vil spyrja hæstv, fjmrh., hvort hann álíti nokkra von til þess, að þóknunin til umboðsmannsins geti orðið lægri en það, sem undirskattanefndin hefur kostað. Ekki verða störfin neitt minni. Getur þá einn maður unnið fyrir minni þóknun en þrír gerðu? Það er sagt í aths. með frv., að í undirskattanefndum séu 657 manns í 219 nefndum. Það er ekki lítill starfsmannahópur, sem nú á að fara að spara fyrir ríkið, 657 manns. Hvað kostuðu þessir 657 menn ríkið, t.d. árið 1960? Þeir kostuðu 1584 000 kr. samkvæmt ríkisreikningnum, eða 2411 kr. hver maður. Ef einn umboðsmaður kemur nú í staðinn fyrir hverja undirskattanefnd, Þrjá menn, þá er sýnilegt, að hæstv. fjmrh. má ekki þókna honum meira en 7233 kr. á ári, og sparar hann þó ekkert. Þessi upphæð er svona sæmileg mánaðarlaun hjá skrifstofumanni, en það er alltaf einhver annar kostnaður við þetta, þó að hann sé kannske lítill. Svo á að leggja niður allar yfirskattanefndir, 24, og störf þeirra færast yfir á skattstofurnar. Hvað kostuðu nú þessar 24 yfirskattanefndir 1960? Þær kostuðu 675 300 kr. eða hver nefnd að meðaltali 2814 kr. Mér telst því svo til, að kostnaðurinn við skattstofurnar, en ég hef talað um skattstofur utan Reykjavíkur, þegar ég er að tala um skattstofur, — mér telst svo til, að kostnaður af skattstofum utan Reykjavíkur megi þá ekki hækka nema um þessar 675 300 kr., miðað við árið 1960, svo að heildarkostnaðurinn hækki ekki. Nú var allur kostnaður 1960 af skattstofum utan Reykjavíkur 2171600 kr. Ef nú þessar skattstofur eiga að bæta á sig störfum allra yfirskattanefndanna, Þá verða þær samt að gæta þess, að kostnaðurinn aukist ekki meira en ég hef hér áður sagt. Rekstrarkostnaður hverrar skattstofu má þá ekki að meðaltali hækka nema um 84 þús. kr. eða um 31%. Það er kannske hálf önnur skrifstofustúlka eða varla það, sem má bæta við á hverja skattstofu, til þess að allt standi í járnum frá því, sem áður var. Ég hef aftur á móti sagt hér áður, að mér þykja miklar líkur benda til þess, að kostnaðurinn af skattstofunum aukist í hlutfalli við það, sem skattaframtölum fjölgar. Ég hef lauslega athugað, hvernig þetta muni líta út í Vestfjarðakjördæmi. Þar á að vera ein skattstofa fyrir allt kjördæmið. Ef maður gerir ráð fyrir, að skattframtölunum fjölgi í sama hlutfalli og mannfjöldinn eykst við stækkun umdæmisins, þá voru á Ísafirði 1960 um 2700 manns, þ.e. í umdæmi skattstofunnar, sem þar er nú, en mannfjöldinn í hinu nýja skattaumdæmi verður um 10500. Það má því búast við, að framtölunum fjölgi þarna, sem þessi væntanlega skattstofa á að afgreiða, svo að þau verði þrisvar til fjórum sinnum fleiri en áður. En það er sýnilegt, að þar má samt ekki bæta við nema einum til einum og hálfum manni, svo að ekki verði kostnaðarauki af breytingunni.

Nú má benda á fleira en þetta, sem sýnir, að það séu vafasamar röksemdir, að þetta sé til sparnaðar. Mér dettur í hug, að skattstjóri kynni að telja sig þurfa að hafa einn fund með umboðsmönnum sínum á ári, eða einn fund á tveimur árum, svo að maður fari nú varlega, en eitthvað mundi það kosta, ferðakostnað og þess háttar. Af þessum athugunum sýnist mér, að það sé engin von til þess, að kostnaður af þessu kerfi verði minni en nú er. Þvert á móti sýnast mér horfur á, að kostnaðurinn muni aukast.

Í aths. með þessu frv. segir m. a. um núv. kerfi: „Það leikur ekki á tveim tungum, að skattstjórar með æfðu starfsliði munu ná miklu betri árangri í störfum en menn, sem verða að vinna slík störf í hjáverkum, en svo hefur raunin orðið á um skattanefndir.“ — Nái miklu betri árangri í störfum. Ég get ekki skilið þetta á aðra leið en þá, að það hafi orðið lélegur árangur af störfum skattanefnda og þess vegna þurfi að leggja þær niður. Nú vil ég ekkert um þetta dæma. Ég hef engan kunnugleika á þessu, en sé þetta raunverulega ástæðan fyrir breyt. á kerfinu, þá á að segja það hreinlega, en ekki vera að rökstyðja þessa breyt, með sparnaðartall.

Hæstv. fjmrh. sagði í upphafi ræðu sinnar í gær, að báðir núv. stjórnarflokkar hefðu lýst þeirri stefnu sinni í síðustu alþingiskosningum í skattamálum, að lækka skyldi skatta. Þetta kosningaloforð hefðu flokkarnir staðið við, hefðu byrjað að framkvæma það með skattalagabreyt. 1960 og hér væri áframhald á efndunum. Ég dreg ekki í efa, að þessir flokkar hafa lofað skattalækkun fyrir síðustu kosningar, ég tel það meira að segja merkilegt, ef þeir hefðu ekki lofað því. Og hafi annar flokkanna gert það, þá hefur hinn hlotið að gera Það, því að stefnuskrár beggja flokkanna voru eins, svo að þær þekktust ekki í sundur. Já, þeir lofuðu skattalækkun fyrir síðustu kosningar, sagði hæstv. fjmrh., en þeir lofuðu fleiru. Þeir lofuðu bættum lífskjörum, þeir lofuðu stöðvun verðbólgunnar án nýrra skatta. Þeir lofuðu ótal fleira. Ég held, að það sé fljótlegra að telja hitt upp, sem þeir lofuðu ekki, og Þessa loforðastefnu segjast þeir nú vera að framkvæma báðir tveir. Það er óneitanlega gott að rifja upp loforð sín, en það þarf líka að rifja upp, hvernig þau hafa verið framkvæmd, og það þarf meira að segja að rifja upp, hvað hefur verið framkvæmt, sem ekki var lofað. Ég vil minna þessa virðingarverðu flokka á örfáa hluti, sem þeir lofuðu ekki. Þeir lofuðu ekki í síðustu kosningum gengislækkun, þær urðu nú samt tvær á þessum tíma. Þeir lofuðu ekki neinni dýrtíð, samt hafa lífsnauðsynjar almennings hækkað um 50–90% á rúmum tveimur árum. Þeir lofuðu aldrei að lækka kaupgjald með lögum eða banna verkföll með brbl. Þeir lofuðu ekki að ónýta kaupsamninga verkafólks og atvinnurekenda með gengislækkun. Þeir lofuðu aldrei neinu vaxtaokri og enn þá síður, að þeir skyldu leyfa Bretum að veiða í íslenzkri fiskveiðalandhelgi. Þeir lofuðu engu af þessu. Þeir hafa framkvæmt þetta allt. Og hvað snertir skattamálin, þeir lofuðu, eins og hæstv. ráðh. sagði, skattalækkun. En hvenær lofuðu Þeir söluskattinum, — hann var þó skattur, — söluskattinum, sem varð margfaldur á við tekjuskattinn, sem hvarf? Þessir hv. flokkar segjast vera að framkvæma kosningaloforðin. Þeir eru að framkvæma stefnu, sem þjóðin fékk ekki að vita um í síðustu kosningum.

Eins og ég sagði áðan, þá er í grg. þessa frv. engin áætlun gerð um það, hvað tekjur ríkissjóðs kunna að lækka við þessa skattalagabreytingu, enda gerir ríkisstj. ráð fyrir, að þær lækki ekki neitt. Hæstv. fjmrh. og reyndar hv. 9. landsk. skýra þetta með því, að fyrirtækin hafi beitt skattsvikum, en með þessari lagabreyt. verði þau svo samvizkusöm að telja fram, að skattarnir lækki ekki neitt. Þetta er sálfræðileg kenning, sem hefur reyndar verið leiðarstjarna ríkisstj. fyrr en nú. 1960 voru það skattsvikarar meðal einstaklinga, sem réðu stefnunni. 1961 voru það smyglarar, sem leiðbeindu um stefnuna í tollamálum. 1962 eru það aftur skattsvikarar, en nú meðal fyrirtækja, sem ráða mestu um stefnuna. Hverjir verða það 1963? Ég held, að þessi kenning, að lækkun skatta fyrirtækja rýri ekki tekjur ríkissjóðs vegna réttari skattframtala, sé hugsanavilla.

Það er erfitt, eins og ég sagði áðan, að gera sér grein fyrir, hversu miklar breytingar verða á sköttum fyrirtækja samkv. þessu frv., en það er þó nauðsynlegt að gera sér eitthvert dæmi um, hvernig þetta muni verða. Ég hef gert hér slíkt dæmi, eins einfalt og ég hef getað, og það er á þessa leið: 30 ára gamalt fyrirtæki er með einnar millj. kr. hlutafé. Það hefur varið til eignamyndunar á öllu tímabilinu 3 millj., en bókfærðar eru Þessar eignir núna ekki nema 1 millj. Það hafði á s.l., ári tekjuafgang 625 þús. kr., fékk að leggja fimmta hlutann af honum skattfrjálst í varasjóð, svo að skattskyldar tekjur þessa fyrirtækis urðu hálf millj. kr. og tekjuskatturinn af því 125 þús. Þetta fyrirtæki hefur haft í afskriftir að meðaltali 6% af upphaflegu verði eignanna, af Þessum 3 millj., það eru 180 þús. Og það hefur haft skattfrjálsa arðsúthlutun 8% af þessari einu milljón, eða 80 þús. Allar skattfrjálsar fyrningar og arðsúthlutun hjá þessu fyrirtæki hefur þá orðið 260 Þús. kr. En við eignamat samkv. þessu frv. áætla ég, að eignirnar tífaldist í verði, þ.e.a.s. bókfærðu verði, og það er ekki nein fjarstæða. í sjálfu frv. er sagt, að vélar hafi tífaldast á 10–15 árum, og ég held, að það sé rétt. Eignir, sem eru orðnar gamlar, eins og skip og húseignir og annað þess háttar, sem kannske er 20 ára eða 30 ára, hafa náttúrlega miklu meira en tífaldazt við matið. Þær verða þá 30 millj. að bókfærðu verði. Nú á að fara að ákveða skattfrjálsa fyrningu af þessu verði, þessum 30 millj. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. telji ekki fært að hafa bær afskriftir í hundraðshlutum meiri en var. Þó þykir mér það heldur ótrúlegt. En við skulum segja bað, að bær verði ekki að meðaltali af öllum eignunum nema 6%. 6% af þessu verði á eignunum, Þ.e. ekki 180 þús., eins og var, heldur 1 millj. 800 þús. En hér kemur svo fleira til. Þar sem eignirnar hækkuðu á pappírnum úr einni millj. í 30 millj., þá hefur fyrirtækið fengið aðstöðu til þess að gefa út jöfnunarhlutabréf, sem þessari eignaraukningu nemur, 29 millj. kr. Hlutaféð getur þá hækkað úr einni milljón í 30 millj. að nafnverði í bókum félagsins. Og svo er skattfrjáls arður af því. Nú dettur mér ekki í hug, að félagið treysti sér til þess háttar rausnar. Það mundi koma svo illa við hluthafana á eftir að eiga að borga skatta af arðinum af slíku hlutafé. En við skulum segja, að félagið treysti sér til að fara með jöfnunarhlutabréfin upp í 10 millj. Þá er samkv. þessu frv. skattfrjáls arður af þeim 10%, Þ.e. 1 millj., og svo 100 þús. af gamla hlutafénu. Hlutaféð er þá orðið 11 millj. og skattfrjáls arður af því 1 millj. 100 Þús. Þarna hækka því skattfrjálsar fyrningar og skattfrjáls arður af þessu fyrirtæki úr 260 Þús. í 2 millj. og 900 þús. Hækkunin er 2 millj. 640 þús. En þetta er dæmi, sem ég hef búið til. Það vil ég biðja menn að athuga, og það er sjálfsagt að gagnrýna það. Þótt þetta fyrirtæki hefði haft nettótekjuafgang 31/2 millj. kr., má fyrirtækið samkv. þessu frv. leggja fjórða part af þessum tekjuafgangi í varasjóð, og er þá eftir 2.6 millj. nettó-tekjuafgangur. En félagið þarf ekki að borga neinn skatt af þessu, af því að skattfrjálsar afskriftir eftir nýju mati og skattfrjáls arðsúthlutun samkvæmt jöfnunarhlutabréfum þurrkar þetta út. Félagið er skattfrjálst. Með 31/2 millj. kr. tekjuafgang er þetta félag skattfrjálst samkv. þessu frv., en með 625 Þús. kr. tekjuafgang borgar það 125 þús. kr. í tekjuskatt samkv. núgildandi lögum. Ef þetta dæmi sýnir ekki rétta mynd af því, hvernig fyrirtæki geta notað sér ákvæði þessa frv., þá vil ég biðja hæstv. fjmrh. og þá hv. höfunda þessa frv., sem sæti eiga hér í þessari hv. d., að leiðrétta það, og ég skal sannarlega taka því vel, ef þeir geta bent mér á villur í þessu. En til þess dreg ég upp slíkt dæmi, að það sé hægt að sjá raunverulega, hvernig frv. verkar.

Hæstv. ráðh. sagði, að tekjur ríkissjóðs mundu ekki rýrna við þessa skattalagabreytingu, því að fyrirtækin mundu telja þeim mun samvizkusamlegar fram. Til þess m.a. hef ég sýnt þetta dæmi. Sé það rökrétt hugsað, að tekjur ríkissjóðs rýrni ekki vegna ákvæða þessa frv., vegna þess að fyrirtækin skili réttari skattframtölum, þá þyrfti það fyrirtæki, sem ég nefndi núna dæmi um, að sýna 6–7 sinnum meiri nettótekjur en það gerði árið áður, ef bað ætti að borga eitthvað svipaðan skatt. Ef slíkt fyrirbæri gerðist, mundi þá ekki hinn nýi skattstjóri, þessi þaulæfði og þaullærði skattstjóri, spyrja fyrirtækið: Af hverju taldir þú ekki fram meiri tekjuafgang í fyrra? Hvernig stendur á, að nú er hann 6- eða 7-faldur við það, sem hann var þá? — Hverju á fyrirtækið að svara? Þessum skattstjóra væri skylt að hefja rannsókn á skattframtölum þessa fyrirtækis aftur í tímann, eins og heimilt er samkv. þessu frv., og ekki aðeins heimilt, heldur skylt. Þá mundu auðvitað skattsvikin sannast, og Þá koma til refsiákvæði, sem eru í þessu frv. Ég ræði ekki um það, að hugsjón hv. 9. landsk. Þm. er ekki komin í framkvæmd um varðhald eða neitt þess háttar. Hvað mun þá þetta fyrirtæki gera undir slíkum kringumstæðum, því að þetta sér það allt fyrir? Ætli fyrirtækið færi að benda skattayfirvöldunum á sjálft sig sem skattsvikara með því að telja fram margfaldan gróða annað árið frá því, sem var árið á undan? En þótt eitthvert fyrirtæki yrði svona yfir sig þakklátt hæstv. ríkisstj. fyrir löggjöfina og gerði petta, þá fengi fyrirtækið sama skatt og í fyrra, og hvað ætti það þá að vera að bakka? Þá er grundvöllurinn undir sjálfu þakklætinu dottinn niður. Og þá vil ég spyrja: Hvaðan fær þá þetta fyrirtæki fjármagn til að endurnýja eignir sínar og skapa sér öruggan og heilbrigðan rekstrargrundvöll með fjársöfnun, sem er rauði þráðurinn í frv.? Hvaðan kemur hann þá, ef það á að borga sömu skatta eftir sem áður? Það er af þessum ástæðum, sem ég tel þessa röksemd, að skattarnir lækki ekki, hreinustu hugsunarvillu.

Meðan hæstv. fjmrh. var að halda framsöguræðu sína í gær, var lögð á borð þingmanna skýrsla um skattaálögur á Íslandi eftir erlendan sérfræðing, sem fenginn var frá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Ég tók eftir því, rétt þegar ég opnaði þessa skýrslu, að þar segir, að 1957 hafi útsvör í Reykjavík á félög verið um 23 millj. kr., en þar af yfir 16 millj. veltuútsvör. Og með leyfi hæstv. forseta, segir m. a. í þessari skýrslu um veltuútsvörin: „Í kafla B er getið þess sérkennilega skatts, veltuútsvarsins, sem lagt er á veltu fyrirtækjanna. Ókostir skattakerfis sveitarfélaganna, sem drepið var á hér rétt áður, eiga sérstaklega við um þennan skatt. Mér virðist hann vera algerlega ósamræmanlegur skattkerfi, sem byggist á þeirri meginreglu að skattleggja hreinar tekjur. í kafla B er sýnt, að þetta veltuútsvar nemur í vissum atvinnugreinum verulega hærri upphæð en skattskyldar tekjur. En við ákvörðun þeirra má ekki draga frá veltuútsvarið. Það vekur undrun, að þetta skuli ekki hafa verið talið brjóta í bága við regluna um skatt eftir efnum og ástæðum.“

Nú hafa veltuútsvör verið lengi í gildi hér í Reykjavík, og ég veit ekki nema hæstv. núv. fjmrh. eigi einhvern þátt í því, að þau hafi verið viðhöfð. Síðan eru þessi veltuútsvör færð yfir allt landið, heimildin til að nota þau er í lögum frá 1960, sem þessir stjórnarflokkar beittu sér fyrir. Og veltuútsvör hafa þetta einkennilega eðli, að þau leggjast á fyrirtækin, þó að þau tapi. Það skiptir engu máli, hvort fyrirtækið tapar eða græðir, veltuútsvar skal það borga. Hvernig er samræmið í veltuútsvarsskattastefnu þeirri, sem hér hefur ríkt í Reykjavík og nú ríkir víðar, og stefnunni samkv. þessu skattalagafrv.? Mér sýnist í fáum orðum sagt, að munurinn sé þessi: Með skattalagafrv. er sagt: Félag, sem græðir, skal græða meira. — Með veltuútsvarsstefnunni: Félag, sem tapar, skal tapa meira. — Og svo eru báðar stefnurnar komnar frá sömu flokkunum.