13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd, sem fá mun mál þetta til meðferðar, og skal ekki á þessu stigi málsins lengja umr. að neinu marki. En ég stóð aðallega upp í tilefni óska og ábendinga, sem fram komu í ræðu hv. 2. þm. Vestf. og vörðuðu meðferð málsins í nefndinni. Hann óskaði eftir því, að n, aflaði upplýsinga um skattalöggjöf nágrannalandanna varðandi félagaskatta. Ég er hv. þm. sammála um það, að mjög nytsamt geti verið í sambandi við endurskoðun skattalöggjafarinnar að hafa hliðsjón af skattalöggjöf nágrannalandanna í þeim efnum, en í mörgum dæmum byggja þau þar á lengri reynslu en við. Á hinu vildi ég aðeins vekja athygli, til þess að ekki verði ætlazt til meiri afreka í þessu efni af okkur, sem sæti eigum í þessari n., heldur en við getum undir staðið, að allur slíkur samanburður er miklum örðugleikum háður. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að samanburður á skattstigunum einvörðungu getur í því efni verið mjög villandi. Það verður einnig að taka tillit til reglna varðandi afskriftir, frádráttarheimilda, reglna um birgðamat og annað slíkt.

Hv. 2. þm. Vestf. nefndi hér nokkrar tölur um skattstiga varðandi félög í nágrannalöndunum, og hygg ég, að þar hafi alveg verið rétt með farið, a.m.k. koma þessar tölur mjög heim við þær hugmyndir, sem ég hef haft um skattareglur í þessum löndum. Það mun vera alveg rétt, að skattar félaga til ríkisins, eða a.m.k. skattar hlutafélaga til þess eru þar hærri en hér gerist. Þessir skattstigar, sem eru hlutfallslegir, munu vera ákveðnir með hliðsjón af skattstigum einstaklinga, þannig að það munu vera meðalskattar einstaklinga, sem lagðir eru til grundvallar við ákvörðun skattstigans. Þetta er ekki gert af algeru handahófi, eins og ég mun koma að á eftir, því að einmitt það atriði, að skattstigar félaganna eru ákveðnir með hliðsjón af sköttum einstaklinga, snertir mjög kjarna þess máls, sem hér hefur einkum verið rætt, eða skattana á félögunum. En skattar einstaklinga til ríkisins eru yfirleitt í þessum löndum hærri en hér, og sérstaklega á það við eftir lækkunina á sköttum einstaklinga, sem gerð var 1960. En skattur til ríkisins skiptir þó ekki höfuðmáli í þessu sambandi. Það, sem máli skiptir, er auðvitað það, hvað félögin greiða í heild í skatta, bæði til ríkis og bæjar- og sveitarfélaga.

Hv. 2. þm. Vestf. nefndi einnig nokkrar tölur um útsvör félaga í þessum löndum. Þau eru til mikilla muna lægri en hér, og í Englandi t.d., eins og hann réttilega sagði, er alls ekki um útsvarsálagningu að ræða. Það er séð þar fyrir tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaga á annan hátt. En séu lagðir saman skattarnir til ríkis og bæjar- og sveitarfélaga, þá kom það einmitt í ljós af þeim tölum, sem hv. þm. fór með, að Svíþjóð er eina landið, þar sem þessir skattar samanlagðir eru hærri en hér, og munar þó aðeins 2%. Hér eru samanlagðir skattar til ríkis og bæjarfélaga, eftir að við höfum gert ráð fyrir því, að sú lækkun komi til framkvæmda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og ef enn fremur er gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögin noti heimild sína til útsvarsálagningar að fullu, 50%, en voru 52%a í Svíþjóð samkv. þeim tölum, sem hv. þm. fór með. Þess ber þó að gæta í því sambandi, sem hann tók raunar fram, að í Svíþjóð er heimilað að draga útsvör frá sköttum til ríkisins, og það kemur til að lækka skattana þar. En annað atriði skiptir þó meira máli í því sambandi, og það eru þær fyrningarreglur, sem eru í lögum í Svíþjóð. Þar er fylgt reglunni um frjálsar afskriftir, eins og það er kallað, þ.e. að atvinnufyrirtæki hafa þar heimild til þess að afskrifa eignir sínar eftir vild, þó auðvitað með þeirri takmörkun, að sömu eignina má ekki afskrifa nema einu sinni. Þau geta ákveðið það sjálf, á hvað skömmum eða löngum tíma þau afskrifa eignina og hvenær þessar afskriftir fara fram. Hér er auðvitað um mjög mikilvæg hlunnindi að ræða, og má einmitt sérstaklega benda á þetta í sambandi við þá gagnrýni, sem fram hefur komið hér af hálfu sumra hv. stjórnarandstæðinga á því, að rýmkað skuli um fyrningarreglurnar, sem ég ræði þó ekki frekar. Ég hef þó sleppt því að nefna í þessu sambandi veltuútsvörin, sem ekki þekkjast í þessum löndum, en eru mjög tilfinnanleg hér, eins og kunnugt er, þannig að væri einnig tekið tillit til þeirra, þá leikur ekki nokkur vafi á því, að allir skattar til bæjar- og sveitarfélaga hér á landi verða til muna hærri en gerist í nágrannalöndunum, jafnvel þó að sú lækkun komi til framkvæmda, sem þetta frv, gerir ráð fyrir.

Það má auðvitað mjög um það deila, hve hár skattstiginn á félögum eigi að vera, hvort þau eigi að greiða 25% til ríkisins eða aðeins 20%, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Sé tekið tillit til allra skatta, er félögin greiða, þá munar ekki meira en því, eins og hv. 9. landsk. benti hér á í gær, að það er um lækkun að ræða úr 75% og niður í 70%. En hvað sem þessu atriði líður, þá er það annað, sem miklu máli skiptir einmitt í sambandi við það frv., sem hér er til umr., og það er, að það ætti ekki að vera ágreiningur um, að það verður að vera samræmi í skattaálagningu einstaklinga og félaga. Ég nefndi það áðan, og nú kem ég aftur að því, að það væri ekki nein tilviljun, sem réði Því, að skattur hlutafélaga í nágrannalöndunum er ákveðinn með hliðsjón af skatti einstaklinganna Þannig að miðað er við meðaltal af skattstigum einstaklinganna. Hvað mundi gerast, ef þarna væri um mikið ósamræmi að ræða, þannig að skattar á félögum væru til muna hærri en skattar á einstaklingum? Þetta hafa einmitt skattayfirvöldin gert sér ljóst í þessum löndum.

Á Norðurlöndunum er það eins og hér, þrátt fyrir það að meira ber þar á stórum hlutafélögum en hér gerist, að mikill fjöldi svokallaðra fjölskylduhlutafélaga er þar einnig starfandi. Ef skattar á tekjum, sem myndast í þessum fjölskylduhlutafélögum, verða til muna hærri en einstaklingsskattarnir, þá er það mjög handhæg leið fyrir eigendur þessara félaga að koma sér undan skattinum blátt áfram með því að reikna sjálfum sér og fjölskyldu sinni, sem starfa í fyrirtækjunum, hærra kaup en áður hefur verið gert. Þarna er um fullkomlega löglega leið að ræða til þess að komast undan skattinum, og auðvitað verður hún farin í stórum stíl, ef mikið misræmi verður milli skattstiga einstaklinga og félaga. En svo mikið sem kann að kveða að fjölskylduhlutafélögunum í nágrannalöndunum, þá vita það þó allir, að hér kveður miklu meira að þeim. Almenningshlutafélög eru hér ekki til að undanteknu Eimskipafélagi Íslands, enda hefur skattalöggjöfin yfirleitt fram að þessu algerlega hindrað myndun slíkra félaga, þannig að einu hlutafélögin, sem hér hafa getað Þrifizt, eru einmitt fjölskylduhlutafélögin.

Nú mun það líka öllum kunnugt, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að ástæðan til þess, að menn leggja peninga í hlutafélag, er að jafnaði ekki sú, að menn hugsi sér að hafa svo og svo mikinn arð af þessum peningum. Skattalöggjöfin hefur útilokað slíkt fram að þessu og gerir það hér eftir. Nei, ástæðan til þess, að menn leggja peninga í hlutafélagið, er að jafnaði sú, að þeir vilja á þann hátt skapa sér og sínum nánustu atvinnumöguleika í þessu hlutafélagi. Það er því augljóst, að eftir að búið var að framkvæma þá skattalækkun á einstaklingum, sem gerð var 1960, var algerlega óhjákvæmilegt að lagfæra skattana á félögunum, ef það átti ekki beinlínis að leiða til Þess, að sá skattstofn, sem félagaskatturinn þó enn er fyrir ríkið, mundi algerlega hverfa. Til þess var fullkomlega lögleg leið fær fyrir hlutaðeigandi, sem ég býst ekki við, að neinn geti gagnrýnt, þótt notuð sé. Þeir gátu blátt áfram hækkað kaup sitt og þeirra ættingja og tengdamanna, sem að jafnaði starfa í hlutafélaginu, nægilega mikið til þess, að tekjurnar mynduðust þá hjá þeim, en ekki hjá félaginu. Og ég býst varla við því, að hv. þm. Alþb., sem hér hafa einna mest gagnrýnt þetta frv., gætu haft nokkuð við það að athuga eða telji það á neinn hátt glæpsamlegt, þótt kaup sé hækkað. Slíkt mundi a.m.k. koma á óvart. Auðvitað er hér ekki um nein skattsvik að ræða eða þess háttar. Skattayfirvöld geta ekkert við þessu sagt, og ég vænti þess ekki, að það sé hugsjón hv. þm. Alþb., að skattstofurnar eigi að verða eins konar gerðardómur í kaupgjaldsmálum, en það mundi auðvitað verða, ef fara ætti að banna þessa leið.

Ég get því ekki annað séð en sú gagnrýni, sem kom fram hjá þeim tveim hv. þm. Alþb., sem hér töluðu, og einnig hv. 4. þm. Vestf., þess efnis, að hér væri verið að svipta ríkissjóð tekjum í stórum stíl vegna skattalækkunar á félögunum, sé algerlega vanhugsuð og í rauninni á sandi byggð, því að eftir að búið er að lækka tekjuskattana á einstaklingunum, þá er blátt áfram nauðsynlegt að lækka eitthvað til samræmis tekjuskattinn á félögunum, ef þessi skattstofn á ekki með öllu að hverfa. Það hlyti hann að gera á næstu árum, ef þessu samræmi er ekki komið á. Það væri að mínu áliti meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því, að lagfæringin sé ekki nógu mikil, því að hafi það verið skynsamlegt að ákveða skatta félaganna 25% í skattalögunum frá 1958 með hliðsjón af þeim sköttum, sem þá voru á einstaklingum, þá er það auðsætt, jafnvel eftir þá lækkun, sem nú verður gerð, að skattstigarnir hafa breytzt félögunum mjög í óhag. Að ætla sér að halda þeim sköttum á einstaklingunum, sem nú eru í lögum, og halda félagasköttum óbreyttum, mundi leiða til fullkomins glundroða í skattakerfinu. Ég hef ekki komið auga á nein rök, sem mæla með því. Hitt er annað mál, að það mætti segja sem svo, að skatta einstaklinganna eigi að færa aftur í það horf, sem þeir voru fyrir 1960. Ef það væri sagt, þá væri í því samkvæmni. En ég man nú ekki betur en allir væru sammála um það út af fyrir sig, þegar skattalækkunin var framkvæmd 1960, að stighækkun tekjuskattsins væri komin út í öfgar og að nauðsyn væri lagfæringar í því efni, þó að hitt mætti auðvitað um deila, hvort ákveða ætti skattstigana nákvæmlega eins og þá var gert. En ekki minnist ég þess Þó, að frá hv. stjórnarandstæðingum kæmu þá fram ákveðnar till. um aðra skattstiga.

Það er aðeins eitt atriði, sem fram kom í ræðu hv. 9. þm. Reykv., sem ég get ekki stillt mig um að leiðrétta, úr því að ég er staðinn hér upp. Hann gagnrýndi það nýmæli í skattalögunum, að innbú skyldi framvegis undanþegið sköttum. Nú er ég honum að því leyti sammála, að ég tel síður en svo ástæðu til þess í þjóðfélagi, sem þarf að leggja áherzlu á uppbyggingu og sparnað, að verðlauna Það út af fyrir sig, að menn leggi peninga sina í dyr innbú. En það var allt annað, sem fyrir vakti, þegar hún gerði þessa till., og í því efni hafði ég enga sérstöðu. Að okkar áliti var þýðingarlaust að hafa ákvæði í skattalögunum, sem væru algerlega óframkvæmanleg, en þannig er það einmitt með innbúin, og sú er ástæðan til þess, að þeirri reglu er yfirleitt fylgt í nágrannalöndum okkar, að innbú eru skattfrjáls. Þarna er um eign að ræða, þar sem er algerlega komið undir þegnskap manna, hvort þeir telja hana fram eða ekki. Og hvað sem öðru líður, þá verður það aldrei þannig í framkvæmd, að skattayfirvöldin fari að fara inn á heimili manna og meta innbú þeirra. Það var þetta sjónarmið, sem lá því að baki, að n. lagði til, að innbúin yrðu gerð skattfrjáls.