13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2261 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf., sem talaði hér næstsíðast, beindi ýmsum fyrirspurnum og ábendingum til mín eða nefndarinnar, sem fær málið til meðferðar. Ég skal ekki fara út í þau atriði, sem hann hér nefndi, það er allt of langt mál á þessu stigi, við 1. umr. málsins. En ég vil beina því til hv. fjhn., að hún taki þessar fyrirspurnir og athugasemdir hv. þm. til upplýsinga og yfirleitt, að n. færi sér í nyt upplýsingar hans og þekkingu, því að það var auðheyrt af ræðu hans, að hann kann töluvert fyrir sér í þessum fræðum.

Að öðru leyti eru það aðeins þrjú atriði, sem ég ætlaði að minnast á hér, en tel ekki að öðru leyti þörf á að fara út í einstök atriði, sem hér hafa komið fram, enda reyndi ég í minni framsöguræðu að gera sem ýtarlegasta grein fyrir meginatriðum frv.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. hélt því fram í fyrstu varðandi málsmeðferðina eða undirbúninginn, að það hefði verið venja við undirbúning skattalaga eða heildarendurskoðun þeirra, að þingkjörnar nefndir eða milliþn. hefðu haft þau mál með höndum, og þar sem hér hefði verið stjórnskipuð n., þá hefðu venjur og reglur verið brotnar. Ég hef kannað, hversu þessu hefur verið háttað rúma tvo áratugi, eða í aldarfjórðung réttara sagt, og ég sé, að á þessu tímabili hafa verið skipaðar átta skattanefndir til að endurskoða ýmist skattalögin almennt eða einstök atriði. Og ég fæ ekki séð, að ein einasta þessara nefnda sé kosin af Alþ., heldur allar skipaðar af ríkisstj. eða fjármálaráðherrum. Ég held því, að Þessi aths. hv. 5. þm. Norðurl. e. sé á misskilningi byggð.

Í öðru lagi sagði hann, að hér væri einnig brotin regla á þann veg, að í þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefðu eingöngu verið stuðningsmenn ríkisstj. Ég hef hér fyrir framan mig, hversu ýmsar skattamálanefndir hafa verið samsettar, og rekst þá m. a. á tvær nefndir, sem skipaðar voru af vinstri stjórninni árið 1957, og það vill svo einkennilega til, að í þeim n. fyrirfinnast engir aðrir en stuðningsmenn þáv. ríkisstj. Nú segi ég þetta ekki í ádeiluskyni, því að þetta getur verið með hvorum hættinum sem vill, eftir atvikum og ástæðum. Ég veit, að það er sjálfsagt um ýmsar n. að hafa þar fulltrúa frá þingflokkunum eða stjórnmálaflokkunum. En undirbúningi annarra mála getur verið þann veg farið, að eðlilegt sé, að það séu eingöngu trúnaðarmenn og stuðningsmenn ríkisstj., sem að því vinni, og á það einkum við það, ef ríkisstj. lætur undirbúa eða semja frv. um tiltekið stefnuskráratriði sitt, sem hún er að hrinda í framkvæmd. Þannig var það nú um undirbúning þessara skattalagabreytinga, bæði þeirra, sem gerðar voru 1960, og nú, að þar er verið að framkvæma ákveðið stefnuskráratriði ríkisstj., og miðað við það er auðvitað ekkert við það að athuga, þótt ríkisstj. veldi til þess sína sérstöku trúnaðarmenn og stuðningsmenn að semja þá löggjöf.

Þetta eru aths. varðandi undirbúning málsins, sem ég taldi rétt að svara á þessu stigi, vegna þess að aths. komu fram um það frá hv. 5. þm. Norðurl. e.

En að lokum er eitt atriði, sem ég tel rétt að leiðrétta strax á þessu stigi vegna þess, hve mikil áherzla hefur verið á Það lögð af nokkrum þingmönnum, sem hér hafa talað, og einnig af málgögnum stjórnarandstæðinga. Og það er þetta, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé verið að þyngja stórlega skattaálögur á samvinnufélögum. Nú er það öllum vitanlegt, að samvinnufélögin hafa um langan aldur haft sérstöðu í skattamálum, þannig að skattar á þeim hafa verið að miklum mun vægari og léttari en á hlutafélögum. Við þessari sérstöðu er alls ekkert haggað í meginatriðum í þessu frv. þó að þetta frv. yrði að lögum óbreytt, þá er það svo, hvort sem mönnum þykir það ljúft eða leitt, rétt eða rangt, að sérstaða samvinnufélaganna helzt að mestu leyti óbreytt. Það eru því hinar mestu missagnir, þegar því er haldið fram, að með þessu frv. sé verið að íþyngja samvinnufélögunum.

Það er eitt atriði, sem má nefna, og skal það tekið fram hér til athugunar, og það er, að varasjóðshlunnindi samvinnufélaga, sem nú eru 331/3%, eru lækkuð í 25%. Og úr Þessari, ég vil segja smávægilegu breytingu, sem gerð er til þess að fá eina sameiginlega og sömu varasjóðsprósentu fyrir öll félög, á að gera slíkt veður eins og hér er reynt. Nú verðum við að greina glögglega milli tvenns konar starfsemi samvinnufélaganna. Annars vegar eru viðskipti félagsmannanna sjálfra og hins vegar eru viðskipti samvinnufélaga við utanfélagsmenn. Nú í dag er það þannig, að Þegar samvinnufélag hefur hagnað af viðskiptum við utanfélagsmenn og leggur hann eða hluta hans í varasjóð, þá fær það skattfrjálst þriðjung af þeim hagnaði. Hins vegar önnur verzlun, kannske á sama stað, sem leggur hagnað af sínum viðskiptum í varasjóð, fær aðeins að draga frá fjórðung eða 25%. Ég sé ekki nokkur frambærileg rök fyrir því, að varðandi utanfélagsmannaviðskiptin eigi samvinnufélögin að njóta þarna forréttinda fram yfir almennar verzlanir eða hlutafélög eða önnur félög. Ég finn ekki í mínum huga nokkur frambærileg rök fyrir því. Það, sem hér er um að ræða, er því fyrst og fremst þetta, að af hagnaðinum af viðskiptunum við utanfélagsmenn eiga samvinnufélögin Þannig að fá nú skattfrjálst 25% í varasjóð í staðinn fyrir 33% áður, til Þess að hér sé komið samræmi á. Og í stað Þess, að framsóknarmenn eru sífellt með Þessar ásakanir um árásir á samvinnuhreyfinguna, Þá gerðu þeir samvinnuhreyfingunni sjálfri miklu meira gagn með því að taka með skynsemi sanngjörnum leiðréttingum á því rangiæti eða þeim úreltu ákvæðum, sem gilt hafa. Þetta er varðandi utanfélagsviðskiptin.

Varðandi svo viðskipti samvinnufélaganna við félagsmenn, skiptir Það samvinnufélögin ekki nokkru máli, hvort varasjóðsfrádrátturinn er 331/3% eða 25%, vegna Þess að Þau leggja yfirleitt ekki Þennan hagnað í varasjóð. Eins og kunnugt er, var sú breyt. gerð hér á skattalögunum 1958, að Þá var numið burt úr samvinnulögunum það ákvæði, sem skyldaði samvinnufélög til þess að leggja vissar prósentur af hagnaði sínum í varasjóð. Þetta var afnumið, og þar með var samvinnufélögunum eiginlega skapaður möguleiki til þess að komast að verulegu leyti hjá tekjuskatti til ríkissjóðs. Hins vegar hafa samvinnufélögin, ef þau hafa hagnað af viðskiptum við félagsmenn, næstum ótakmarkaða möguleika til að komast undan skatti af honum, fyrst og fremst með því að leggja hann í stofnsjóð og þurfa þar með ekki að greiða neinn skatt af honum. Það er því furðulegt, þegar menn, sem vita ákaflega vel og þekkja þær reglur, sem gilda um skattlagningu samvinnufélaganna, koma hér og berja sér á brjóst og kvarta yfir því, að það sé verið að ofsækja samvinnufélögin. Sem sagt, Þetta ákvæði, þessi breyt. um varasjóðshlunnindin hefur engin áhrif á afkomu eða skattgreiðslu samvinnufélaganna, nema að örlitlu leyti varðandi hagnað þeirra af utanfélagsmannaviðskiptum. En sú sérstaða, sem samvinnufélögin njóta nú og hafa notið undanfarna áratugi, helzt í öllum meginatriðum óbreytt, Þó að Þetta frv. verði samþykkt.