13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. Þm. virtist ekki mæla því í mót, að samvinnufélögin hefðu sérstöðu um skattgreiðslur, en hann rökstyður þá sérstöðu með einu móti. Vegna þess að samvinnufélögin hafa það í sínum ákvæðum og lögum, að ef þau hætti sinni starfsemi, skuli varasjóður þeirra verða eign almennings eða byggðarlagsins, þá sé rétt, að þau njóti þessarar sérstöðu.

Nú býst ég við, að þessi hv. þm., eins og aðrir samherjar hans, hafi mikla trú á samvinnuhreyfingunni og telji þá skipan í þjóðfélaginu meira að segja framtíðarskipan og þess vegna muni samvinnufélögin einmitt ekki hætta starfsemi eða sálast, heldur standa lengi og starfa lengi þjóðinni til þrifa. M.ö.o.: vegna þess að félag hefur það í sínum lögum, að einhvern tíma í framtíðinni, ef það kynni að hætta störfum, eftir aldir eða árþúsundir, þá falli varasjóður til almenningsþarfa, þá eigi það auðvitað að vera að mestu skattfrjálst. þetta eru rök út af fyrir sig, og getur hver metið það við sig, hversu gild hann metur þau.

Út í skattlagningu á samvinnufélögum, samanborið við önnur félög, skal ég ekki fara hér, en ég vil aðeins til frekari ábendingar og áréttingar benda á þær staðreyndir, sem sýna glöggt, hversu litlir skattar það eru og lágir, sem samvinnuhreyfingin ber, og nefna hér nokkrar tölur. Á árinu 1959 var tekjuskattur alls á landinu um 173 millj. Hin mikla samvinnuhreyfing, þ.e.a.s. samvinnufélögin og sambönd þeirra, borgaði 2.1 millj. eða liðlega 1% af tekjuskatti landsmanna. Árið 1960 lækkaði heildarupphæð tekjuskattsins mjög mikið vegna þeirrar lækkunar á almenningsskatti, sem þá var ákveðin. Þá var tekjuskatturinn 69 millj. Heildartekjuskattur samvinnufélaganna var 1.8 millj., eða í kringum 21/2% af heildarskattinum. Nú í fyrra, árið 1961, var tekjuskatturinn alls í landinu um 80 millj. Heildartekjuskattur samvinnufélaganna var 2.8 millj., eða um 31/2%. Þegar maður lítur á þessi þrjú ár, 1959, 1960 og 1961, þá kemur það sem sé í ljós, að þetta verzlunarform, þessi félög og samtök þeirra, sem hafa unnið ótalmargt gott og gagnlegt í þjóðfélaginu og m. a. hafa mikið af verzlun og veltu í þjóðfélaginu, hefur borgað þetta frá rúmlega 1% og upp í 31/2% af tekjuskattinum í landinu. Ég veit það og þarf ekki frekar vitnanna við til að sýna fram á það, að þessi mikli verzlunar- og atvinnurekstur í landinu nýtur algerrar sérstöðu um skattaálagningu.