06.03.1962
Efri deild: 57. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og nál. þau frá fjhn., sem nú hefur verið útbýtt hér í hv. deild, bera með sér, hefur n. ekki nema að nokkru leyti getað átt samleið um afgreiðslu þess frv., sem hér liggur fyrir. Við þrír, sem að meiri hluta nál. á þskj, 337 stöndum, leggjum til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefur flutt sameiginlega á þskj. 338. Hv. 1. og 5. þm. Norðurl. e. hafa hins vegar skilað sérálitum, og leggur hv. 5. þm. Norðurl. e. til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, en hv. 1. þm. Norðurl. e. vill að vísu samþ. frv., en með miklu róttækari breyt. en við, sem í meiri hl. vorum, töldum okkur fært að fallast á. En þrátt fyrir þetta hefur n. þó orðið sammála um Það að bera fram þær brtt. við frv., sem hér liggja fyrir á þskj. 338. Þó hafði hv. 5. þm. Norðurl. e. Þann fyrirvara um a.m.k. tvær af þessum brtt., að hann væri andvígur þeim greinum frv., sem brtt. eru við, en taldi Þó, að ef þær greinar yrðu samþykktar, þá væru brtt. eðlilegar. Svipaðan fyrirvara býst ég við að hv. 1. þm. Norðurl, e. hafi einnig um sumar af þessum brtt., a.m.k. þær, sem snerta þann kafla frv. sem fjallar um breyt. á framkvæmd skattamálanna, en ég sé, að hann hefur flutt till. um það, að þeir kaflar falli niður. Ég býst við, að þetta komi fram hér á eftir í framsögu þessara hv. þm., en taldi þó rétt að geta þess í upphafi, þannig að ekki væri gert meira úr þeirri einingu andans, sem út af fyrir sig hefur lýst sér í því, að n. hefur borið fram sameiginlegar brtt., heldur en efni standa til. Þó að brtt. á Þskj. 338 séu talsverðar að vöxtum, þá er þar þó yfirleitt ekki um mikilvægar efnisbreytingar að ræða, heldur miða flestar þessar brtt. að því að gera ákvæði frv. skýrari að orðalagi. Þó er einnig um nokkrar efnislegar brtt. að ræða, sem við að lokinni svo ýtarlegri athugun á frv. sem við höfðum tök á að framkvæma á þeim tíma, sem n. var ætlaður, töldum horfa til bóta frá Því, sem var í frv. Ég mun þá nokkuð skýra einstakar brtt. n. á þskj. 338.

1. brtt. er við D-lið 12. gr. frv. og tilgangur hennar er aðeins að taka af tvímæli um það, að til gjafa til menningarmála, líknarstofnana o.s.frv., sem gert er ráð fyrir að draga megi frá skattskyldum tekjum samkv. frv., teljist einnig framlög til vísindalegra rannsóknarstofnana.

Það gæti í vissum dæmum e.t.v. orkað tvímælis, hvort slíkt fellur undir menningarmál, en brtt. er flutt til þess að taka af hugsanlegan vafa í því efni.

2. brtt. er við 13. gr. og er þess efnis, að hámarksfrádráttur, sem leyfður er vegna greiðslu til lífeyrissjóða, er hækkaður úr 7000 kr. í 10 000 kr. Þessa brtt. ber að mínu áliti aðeins að skoða sem leiðréttingu með tilliti til þeirra verðlagsbreytinga, sem orðið hafa síðan núgildandi ákvæði voru sett inn í skattalög, en það var árið 1954.

Þá er brtt. við 16. gr., og er tilgangur hennar í fyrsta lagi sá að færa í eina grein frv. ákvæðin um persónufrádrátt. Við töldum það eðlilegra, og þarf það ekki nánari skýringa við. En samkv. frv., eins og það liggur fyrir, eru Þessi ákvæði bæði í 25. gr. frv., sem fjallar um tekjuskattsstiga, og líka í 16. gr. Við leggjum til, að Þessi ákvæði verði öll færð í 16. gr., en jafnframt verður þá ákvarðað, að það sé skilyrði fyrir því að fá persónufrádrátt, að skattþegninn sé búsettur hér á landi. Ef slík ákvæði væru ekki sett, mætti leggja þann skilning í Það, að erlendir aðilar, sem bera úr býtum tekjur hérlendis, fái slíkan persónufrádrátt, en það töldum við óeðlilegt.

4. brtt. er við 17. gr. frv., og er tilgangur hennar sá einn að taka af tvímæli um það, að úthlutaður arður kaupfélaga vegna viðskipta við félagsmenn sé skattfrjáls hjá félagsmönnum. Þetta er í samræmi við framkvæmd skattalaganna og þá almennt viðurkenndu skattareglu, að spöruð útgjöld séu ekki skattskyldar tekjur. En eins og þetta var í frv., sem fyrir lá, gat það orkað nokkurs tvímælis.

Þá er það 5. brtt., við 22. gr. frv. Tilgangur hennar er í fyrsta lagi sá að koma á fullu samræmi milli ákvæða 15. og 22. gr. um fyrningarafskriftir. Enn fremur verður það, ef brtt. okkar verður samþykkt, gert tvímælalaust, að fyrirtæki sem láta endurmeta eignir sínar, hafa aðeins rétt til að afskrifa Þann hluta verðmætis eignarinnar sem svarar til þess, sem eftir er af áætluðum endingartíma. Eins og Þetta var í frv., var orðalagið e.t.v. dálítið óljóst og hefði e.t.v. getað gefið tilefni til þess skilnings á ákvæðunum, sem m. a. kom hér fram við 1. umr. málsins í ræðu hv. 4. þm. Vestf., að fyrirtækjunum væru ætiaðar miklu meiri afskriftarheimildir en raunverulega var tilgangurinn.

6. brtt. Þarf að mínu áliti ekki skýringar við. Þá er 7. brtt., við 25. gr. frv. Hún er í fullu samræmi við breytinguna, sem gerð var á 16. gr. og ég hef lýst. Enn fremur er sú regla, að skattur undir 100 kr. skuli ekki innheimtur, látin ná bæði til félaga og einstaklinga, eins og eðlilegt má telja.

Þá er 8. brtt., við 26. gr. frv. Tilgangur hennar er aðeins sá að gera ákvæðin um eignarskattstigann skýrari. Þar er einnig að vísu um smávægilega efnisbreytingu að ræða, sem gerð var aðeins til þess að gera skattstigann áferðarbetri en ella hefði verið. En auk Þess eru sett samsvarandi ákvæði um eignarskattinn eins og tekjuskattinn, að skattar lægri en 100 kr. verði ekki innheimtir. Okkur þótti þetta eðlilegt og í samræmi við það. Þá er ákveðið, að eignarskatta, sem eru lægri en 100 kr., skuli ekki innheimta.

Þá er 9. brtt., við 29. gr. frv., að fella niður ákvæði um skipun varaskattstjóra í skattumdæmunum úti á landi. Okkur þótti það óþarft, og fjölyrði ég ekki frekar um það.

Þá er 10. brtt., þess efnis, að 33. gr. frv., sem kveður svo á, að laun skattstjóra skuli ákveða í launalögum, falli niður. Með tilliti til þess, að viðræður fara nú fram á milli samtaka opinberra starfsmanna og hæstv. ríkisstj. um samningsrétt opinberra starfsmanna, þótti ástæðulaust að setja þetta ákvæði, enda leiðir það af sjálfu sér, verði ekki breyting gerð á núv. skipan um samningsaðstöðu opinberra starfsmanna, að skattstjórar taka laun samkv. launalögum.

12. brtt. er orðalagsbreyting, sem ekki þarf skýringar við.

13. brtt. er þess efnis að breyta núv. ákvæðum frv. um það, að málflutningur í ríkisskattanefnd sé munnlegur, ef skattþegn óskar eftir því, þannig, að ríkisskattanefnd er heimilað að hafa maíflutning munnlegan. Á því að málflutningur almennt væri munnlegur, voru augljósir framkvæmdaörðugleikar, sérstaklega úti á landinu, og þess vegna hefur n. gert þessa brtt.

Þá kem ég að 14. brtt., sem snertir ákvæði um það, að ef ekki sé talið fram og skattstjóri áætiar skattþegni tekjur og viðkomandi skattþegn kærir ekki áætlun skattstjóra, þá skuli skatturinn af sjálfu sér hækka um 15%. N. taldi rétt að fella þetta niður. Hugsunin á bak við þetta hjá þeirri nefnd, sem samdi frv., var sú að koma þannig í veg fyrir það, að menn gætu hagnazt á því að telja ekki fram. En með tilliti til þess, að óviðráðanlegar orsakir geta oft legið til þess, að menn kæri ekki slíkar áætlanir skattstjóra, þá þótti n. rétt að fella þetta ákvæði niður.

Þá hefur 15. brtt., við 49. gr. frv., Það nýmæli að geyma, að heimilað er nú, ef um endurtekin og stórfelld skattsvik er að ræða, að dæma menn í allt að 2 ára varðhaldsvist. Hingað til hefur það yfirleitt verið þannig, að aðeins hefur verið um sektarákvæði að ræða, ef menn hafa gert sig seka um skattsvik. En hér er gert ráð fyrir þyngri viðurlögum í þeim tilfellum, að um endurtekin og stórfelld skattsvik sé að ræða.

Í þessu sambandi má einnig geta 11. brtt., við 38. gr., sem einnig miðar að því að gera eftirlit með skattaframtölum strangara. Það mátti deila um það, meðan skattarnir voru svo háir sem raunin var, áður en skattalagabreytingin frá 1960 kom til framkvæmda, hversu þung viðurlög ættu að vera við því, þó að menn teldu ekki rétt fram. Með þeim gífurlegu skattaálögum, sem þá voru, mátti líta á Þetta sem eins konar nauðvörn borgaranna og e.t.v. hæpið að hafa Þung refsiákvæði, ef vitað er, að mjög verulegur hluti borgaranna er brotlegur við tiltekin lög. En í þessu efni eru viðhorf nú breytt. Eftir að skattarnir hafa verið lækkaðir sem raun er á, má gera meiri kröfur til borgaranna í þessum efnum, og liggur það sjónarmið að baki þeim brtt, n., sem hér er um að ræða.

Þá er það 16. brtt., sem er orðalagsbreyting, þar eð orðalag frv, á fyrri málslið 2. mgr. 53. gr. gæti orkað tvímælis eins og það er, og fjölyrði ég ekki meira um það.

17. brtt., við 55. gr., er aðeins í því fólgin, að fellt er niður það orðalag, að í reglugerð eigi að setja nánari ákvæði um skilning þessara laga. Okkur þótti það óviðkunnanlegt, því að almennt er gengið út frá því, að það sé fyrst og fremst dómstólanna að skera úr um skilning laga, og er orðalaginu breytt með tilliti til þess.

Þá er það 18. brtt., við 56. gr. frv. Hún er í því fólgin að fella niður það ákvæði, að núgildandi lög um skattfrelsi Mjólkursamsölunnar og Sambands ísl. fiskframleiðenda falli niður. Að einhverju leyti mun það hafa verið á misskilningi byggt, að skattanefndin lagði til að fella þessi ákvæði um skattfrelsi nefndra aðila niður. Það var talið, að slíkt skattfrelsi mundi leiða af þeim ákvæðum, sem sett voru um skatta sameignarfélaga. En að athuguðu máli taldi n. rétt, að lög um skattfrelsi þessara aðila stæðu óbreytt.

19. brtt. er við bráðabirgðaákvæði I. og er aðeins í því fólgin að taka af tvímæli um orðalag þeirrar greinar.

Ég hef þá í stuttu máli gert grein fyrir efni þeirra brtt., sem n. hefur flutt, og vænti ég þess, hvað sem líður skoðunum hv. þdm. á frv. að öðru leyti, að þeir geti á það fallizt, að þessar brtt. séu til bóta, og samþykki þær.

Ég ætla þessu næst að fara nokkrum orðum um frv. almennt og rök þau, sem ég tel hníga að því, að samþykkt þess mundi hafa í för með sér verulegar og æskilegar endurbætur í skattamálum. Það er alveg rétt, sem hér kom fram við 1. umr. málsins, að frv. þetta ber að skoða sem rökrétt framhald þeirrar breytingar, sem gerð var á skattalögunum 1960. En sú breyt. var í því fólgin, að afnuminn var tekjuskattur á almennum launatekjum, þannig að tekjuskattar til ríkisins í heild lækkuðu verulega. Rökin fyrir því að gera Þá breyt. voru aðallega tvenns konar. í fyrsta lagi þau, að stighækkandi skattar draga mjög úr hvöt manna til þess að afla sér tekna. Eftir að mönnum er gert að greiða meira en helming teknanna í skatt, er hætta á því, að mjög verulega dragi úr hvöt manna til að afla þeirra tekna, sem þannig eru skattlagðar. Slíkt dregur auðvitað aftur úr framleiðsluafköstum í Þjóðfélaginu í heild, önnur meginröksemdin fyrir því að lækka tekjuskattana var sú, að reynslan hefur sýnt, að ekki er framkvæmanlegt að hafa fullkomið eftirlit með því, að tekjur séu nægilega vel taldar fram. Það eru vissir aðilar í þjóðfélaginu, þeir sem annast ýmiss konar þjónustustörf t.d., minni atvinnurekendur o.s.frv., sem hafa þá aðstöðu, að það er raunar algerlega undir þegnskap þeirra komið, hvað þeir telja fram af tekjum sínum, þannig að ef tekjuskattarnir verða mjög verulegur liður í tekjuöflun ríkissjóðs, þá er hætta á, að þeir komi ranglátlega niður, þannig að þeir komi til að hvíla með meginþunga sínum á þeim, sem vinna í þjónustu annarra og ekki hafa því aðstöðu til þess að koma tekjum sínum undan skatti.

Þetta voru, eins og hv. þdm. sjálfsagt rekur minni til, meginrökin, sem færð voru fram því til stuðnings, að æskilegt og nauðsynlegt væri að gera þá breyt. á skattalögunum, sem gerð var árið 1960. Og ég held, að það geti varla verið ágreiningur um það, hvað sem öðru líður, að stighækkun tekjuskattsins var þá komin út í öfgar og hún bitnaði á fleiri en auðkýfingum, þó að slíkt hafi stundum verið fullyrt í málgögnum hv. stjórnarandstæðinga. í því sambandi vil ég leyfa mér að minna hv. stjórnarandstæðinga einmitt sérstaklega á það, að það var fyrir einum 3–4 árum, sem einn af þm. Alþb., hv. 6. þm. Sunnl., flutti till. um það, að tekjur af yfirvinnu skyldu að mestu eða öllu leyti undanþegnar sköttum, og færði þau rök fyrir þessari till., sem ég dreg ekki í efa að hafi verið fullkomlega í samræmi við staðreyndir, að í hans byggðarlagi væri svo komið, að það drægi mjög úr hvöt verkamanna og sjómanna til þess að vinna nauðsynlega yfirvinnu við aflann, að þeir vissu, að meira en helmingurinn af þessum tekjum færi í skatt, ef ekki væri gerð breyting á. Það er ekki vafi á því, að hv. þm. hefur í þessu efni haft rétt fyrir sér. Annað mál var það, að tillögur hans, sem að vísu hlutu samþykki hér á hv. Alþ., voru af skattatæknilegum ástæðum lítt framkvæmanlegar og hafa þess vegna verið felldar úr lögum síðan. En það er annar kapítuli, sem ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um í þessu sambandi. En ég vona, að m.a. þetta dæmi geri Það ljóst, að stighækkun tekjuskattsins snertir fleiri en svokallaða auðkýfinga og hún var komin út í öfgar.

Hitt má svo auðvitað alltaf um deila, hvort ganga hafi átt lengra eða skemmra í skattalækkuninni. Hv. stjórnarandstæðingar hafa stundum gert það að gamni sínu að reikna út, hve lítil skattalækkunin hefði orðið á mjög lágum tekjum, milli 40 og 50 þús. kr. Það er út af fyrir síg alveg rétt, að á þessum allra lægstu tekjum voru litlir skattar fyrir, og það leiðir auðvitað af sjálfu sér, að þeim, sem hafa svo lágar tekjur, að þeir greiða enga skatta, er ekki hægt að hjálpa á þann hátt. Enda voru aðrar ráðstafanir, eins og kunnugt er, gerðar þessum aðilum til hagsbóta, og má í því sambandi nefna hækkun fjölskyldubóta, ellistyrkja o.s.frv. En í öðru lagi má nefna það, að þó að oft sé talað um það fólk, sem ekki hafi nema 40–50 þús. kr. í tekjur, og hversu erfið afkoma þess hljóti að vera, sem út af fyrir sig er rétt, þá eru Það, sem betur fer, tiltölulega fáir vinnandi menn, sem hafa þessar lágu tekjur. Samkvæmt athugunum, sem kauplagsnefnd og hagstofan hafa gert á meðaltekjum verkamanna og sjómanna fyrir árið 1960, voru Þessar meðaltekjur 75 þús. kr., svo að það eru fleiri en látið hefur verið í veðri vaka af hálfu sumra hv. stjórnarandstæðinga, sem notið hafa góðs af lækkun tekjuskattanna. Ég fjölyrði svo ekki meira um það atriði.

En ein af meginbreytingunum, sem þetta frv. hefur inni að halda, er lækkun tekjuskatta á félögum. Nú er mér það út af fyrir sig fyllilega ljóst, að sömu rök, sem borin voru fram því til stuðnings, að nauðsynlegt væri að lækka tekjuskatta á einstaklingum, hafa ekki gildi, þegar um félög er að ræða. Það eru e.t.v. eðlileg og mannleg viðbrögð togaraskipstjóra, sem verður að greiða 70% eða meira af tekjum sínum umfram visst mark í skatt, að hann fari þá frekar nokkra mánuði í land og dveljist hjá fjölskyldu sinni. Hitt er auðvitað ljóst, að þegar um hlutafélag eða samvinnufélag er að ræða, þá tekur það sér ekki frí frá störfum á sama hátt, þó að skattar séu háir. Hin röksemdin, að erfitt sé að hafa fullnægjandi eftirlit með framtölum, á líka í ríkara mæli við um einstaklinga heldur en félög, því að félögin eru yfirleitt bókhaldsskyld og eftirlit með þeirra skattframtölum meira og oft auðveldara í framkvæmd en einstaklinganna.

En það eru önnur rök, sem hníga að því að mínu áliti, að þar sem búið var að lækka svo verulega skattana á einstaklingunum, þá hafi verið óhjákvæmilegt að lækka félagaskattana líka, og vil ég þar í fyrsta lagi benda á það, sem ég drap á við 1. umr. málsins, að þar sem flest starfandi hlutafélög hér á landi eru yfirleitt lítil félög, þá hafa eigendur þeirra það yfirleitt í hendi sér, hvort þeir láta tekjurnar myndast í félaginu eða hjá sjálfum sér sem einstaklingum. Það er mjög auðvelt að færa tekjurnar á milli og ekkert ólöglegt í slíku, sem hægt er að hafa á. Afleiðingin af því, að tekjuskattar á einstaklingum hafa verið svo stórlækkaðir sem raun er á, ef félagaskatturinn ætti að standa óbreyttur, yrði sú, að sama og engar tekjur væru látnar myndast í félögunum, þannig að þessi skattstofn til ríkisins mundi þá hverfa. Þess vegna álít ég, að það sé mjög fjarri lagi, þegar sumir hv. stjórnarandstæðingar héldu því fram hér við 1. umr. málsins, að með því að lækka nú skattana á félögunum væri verið að velta samsvarandi byrðum yfir á almenning. Þvert á móti er það þannig að mínu áliti, að öllu öðru óbreyttu, að þessi skattstofn tapast ríkinu, ef breyt. er ekki gerð. Hitt mundi auðvitað vera sjálfu sér samkvæmt að segja, að það eigi að taka til baka það skref, sem stigið var 1960, þegar einstaklingsskattarnir voru lækkaðir. En verði það ekki gert, er óhjákvæmilegt að lækka félagaskattana, ef ríkið á að halda þeim skattstofni, svo að nokkuð muni um.

Annað meginatriðið, sem mælir með því og gerir að mínu áliti æskilegt og jafnvel óhjákvæmilegt, að skattar á félögum verði lækkaðir, er blátt áfram það, að félagaskattarnir eru nú Þegar svo háir, að að öllu óbreyttu verður félögunum ómögulegt að leggja nokkuð fyrir til aukningar þeirra framleiðslutækja, er þau ráða yfir. í þessu sambandi vildi ég benda á það, að þó að ég því miður hafi haft mjög nauman tíma til þess að kynna mér nál. þeirra hv. þm., sem voru í minni hl. fjhn., þá vil ég þó leyfa mér að benda á, að tölur þær, sem birtar eru í nál. hv. 1. þm. Norðurl. e. um félagaskatta í nágrannalöndunum, eru að mínu áliti mjög villandi, því að það, sem skiptir máli, þegar um félagaskatta er rætt, eru ekki skattarnir til ríkisins einvörðungu, heldur skattar í heild.

Ég dreg ekki í efa, að þessar tölur munu vera réttar svo langt sem þær ná. Það er bara sá meginmunur á, þegar bera á saman félagaskatta á Norðurlöndum og félagaskatt hér á landi, að á Norðurlöndum eru skattar til bæjar- og sveitarfélaga yfirleitt mjög lágir, og í Bretlandi eru þeir alls engir eins og raunar kom fram við 1. umr. málsins. En það, sem mestu máli skiptir e.t.v. í sambandi við slíkan samanburð, eru veltuútsvörin, sem eru mjög tilfinnanlegur baggi á félögum hér, en þekkjast yfirleitt ekki í þessum löndum, þannig að ef teknir væru félagaskattarnir í heild, þá mundi þetta dæmi koma til með að líta allt öðruvísi út. Og þó að ég hafi ekki neinar nákvæmar upplýsingar í því efni, þá dreg ég ekki í efa, að félagaskattar munu yfirleitt vera til muna hærri hér á landi en í nágrannalöndunum og muni verða það áfram, jafnvel þó að sú lækkun á sköttunum verði samþykkt, sem frv. gerir ráð fyrir. Samanlagðir skattar félaga til ríkis, bæjar- og sveitarfélaga hér á landi eru 55%, en við þetta bætist veltuútsvarið, og sé því bætt við, hygg ég, að gera megi ráð fyrir því, að skattarnir séu í heild minnst 70–75%, þannig að ef þessum félögum á yfirleitt að vera mögulegt að auka framleiðslutæki sín, þá geta þau ekki borið hærri skatta en þetta. En hitt ætti varla að vera ágreiningsmál, að Það er undirstaða framfara í þjóðfélaginu, að framleiðslutækin séu aukin. Það væri e.t.v. hægt að segja, ef menn yfirleitt eru á móti félagarekstri, að það eigi að hindra slíka starfsemi. Hitt finnst mér að ætti ekki að vera ágreiningur um, að ef þessi starfsemi á annað borð er leyfð, þá verða þessi fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki að hafa möguleika á því að bæta framleiðslutæki sín. Annað hlýtur að leiða til stöðnunar framfara.

Þá vil ég með nokkrum orðum víkja að hinum nýju ákvæðum frv. um fyrningarafskriftir, sem telja má eitthvert þýðingarmesta nýmælið í þessu frv. og líka það atriði, sem virðist vera með þeim mest umdeildu. Það er kunnugt og ætti varla að geta verið ágreiningsmál, að vegna hinna stöðugu verðhækkana, sem átt hafa sér stað síðustu tvo áratugina, hafa eldri afskriftarreglur í rauninni gert fyrirtækjunum það ókleift að leggja fyrir peninga til þess að endurnýja framleiðslutæki sín. Ef um vél var að ræða t.d., sem entist í 10 ár, og afskrift var miðuð við kaupverð, þá hefur það oft og tíðum verið þannig, að hið nýja kaupverð vélar hefur jafnvel verið tífalt á við hið upphaflega kaupverð hennar, þannig að þótt vélin væri afskrifuð að fullu, nam það ekki nema litlu broti af kostnaðinum við að endurnýja þessi tæki.

Nú ber í fyrsta lagi að líta á það, að ef menn yfirleitt eru þeirrar skoðunar, sem ég hélt að væri ekki neitt álitamál, að endurnýjun framleiðslutækjanna er kostnaður fyrir atvinnufyrirtækin, sem eðlilegt er að taka tillit til, þegar skattskyldar tekjur þeirra eru ákveðnar, þá virðist það út af fyrir sig leiða af sjálfu sér, að þennan kostnað eigi að reikna á raunverulegu verði, en ekki broti af því, sem þessi kostnaður nemur. Þetta er fyrsta atriðið. í öðru lagi, og það skiptir kannske öllu meira máli, þá er það að mínu áliti á fullkomnum misskilningi byggt, að það að skattleggja þá sjóði, sem fyrirtækin undir eðlilegum kringumstæðum mynda til að endurnýja framleiðslutæki sín, sé einhver fundin gullnáma, þannig að unnt sé að heimta þetta að verulegu leyti í skatta, þannig að hægt sé að létta verulega skattabyrðinni af almenningi. Þetta er að mínu áliti fullkominn misskilningur, og ástæðan til þess er sú, að þó að það sé að vísu rétt, að ákvæði skattalaga hafa komið í veg fyrir það, að fyrirtæki hafi getað safnað fjármagni til endurnýjunar framleiðslutækjanna, þá hefur eftir sem áður orðið að endurnýja þessi framleiðslutæki, því að allir sjá, að í þjóðfélaginu er ekki hægt að komast hjá því með einhverju móti að endurnýja framleiðslutækin, ef atvinnureksturinn á ekki að stöðvast, svo að þrátt fyrir það, að félögin hafi ekki getað myndað sjóði í þessu skyni, þá hefur endurnýjunin átt sér stað.

En hvernig hefur fjárins til þess verið aflað? Það er aðallega með tvennu móti. í fyrsta lagi, þar sem fyrirtækin hafa ekki sjálf getað lagt fram það fjármagn, sem til endurnýjunarinnar þurfti, þá hafa þau orðið að fá til þess lán, þannig að bankar og aðrar lánastofnanir hafa í mörgum tilfellum orðið að leggja fram að fullu eða svo að segja að fullu það fé, sem þurfti til endurnýjunar framleiðslutækjanna. Það er ekki vafi á því, að þau auknu útlán bankanna, sem af þessu stafa, hafa svo átt verulegan þátt í verðbólgunni og kostnaðinum við endurnýjunina þannig í aukinni verðbólgu verið velt að verulegu leyti yfir á almenning. Að nokkru leyti hefur sú leið líka verið farin, að leitað hefur verið ríkisábyrgðar til þess að geta fengið það fé, sem þurfti til endurnýjunarinnar. Ríkisábyrgðirnar hafa svo að meira eða minna leyti fallið á ríkissjóð og almenningur komið til að borga brúsann í hærri sköttum. Að mínu áliti er það því fullkominn misskilningur, að með því að gera fyrirtækjunum kleift að mynda sjóði til þess að standa straum af kostnaði við endurnýjun fyrirtækjanna, sé verið að velta byrðum yfir á almenning. Að vísu koma fyrirtækin vegna þess til að greiða lægri skatta en ella, en þau ættu þá líka að geta tekið á sig byrðar, sem hingað til hafa hvílt á almenningi, þó að krókaleiðir hafi að vísu verið farnar til þess að láta almenning greiða þetta.

Ég hef hér einkum gert að umtalsefni þau tvö atriði frv., lækkun skatta á félögunum og fyrningarreglurnar, sem mestum ágreiningi hafa valdið. Að mínu áliti hefur frv. mörg önnur merk nýmæli að geyma, og má þar fyrst og fremst nefna þær breytingar, sem gert er ráð fyrir að gerðar verði á framkvæmd skattamálanna. En með tilliti til þess, að hæstv. fjmrh. gerði því ýtarleg skil í framsöguræðu sinni við 1. umr. málsins, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það.

Eins og ég gat í upphafi, þá harma ég það, að ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér nál. þeirra hv. þm., sem voru í minni hl. í fjhn., en tækifæri gefst e.t.v. til þess að koma að einstökum atriðum í brtt. þeirra og áliti síðar. En það er þó aðeins ein brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. e., sem ég ætlaði að leyfa mér að fara örfáum orðum um. En það er till. hans um það, að varasjóðsfrádráttur útgerðarfélaga og samvinnufélaga verði hækkaður frá því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Það er rétt, að sú brtt. var gerð af skattanefndinni á sínum tíma, að samræmd voru ákvæðin um heimild til þess að draga varasjóðsframlög frá skatti. Áður var það þannig, að útgerðarfyrirtæki og samvinnufélög máttu draga frá 1/3 nettó-tekna í þessu skyni, en hlutafélög almennt aðeins 20%. Nú er gert ráð fyrir því, að draga megi frá skattskyldum tekjum 25% nettó-tekna félaga í þessu skyni. Það sjónarmið, sem lá þessu að baki hjá þeirri n., sem undirbjó skattafrv., var í fyrsta lagi það, að æskilegt væri, að hér væri um fullt samræmi að ræða. Að mínu áliti samrýmist það varla þeim reglum, sem nú eru viðurkenndar í skattamálum, að mjög mismunandi ákvæði séu um skattgreiðslu einstakra atvinnugreina. Að taka slíkt ákvæði upp mundi að nokkru leyti þýða það, að horfið væri til þess skipulags, sem eðlilegt þótti og sjálfsagt á miðöldum, en þá var það þannig, að aðalsmenn greiddu skatta eftir tilteknum reglum, prestar aftur á móti eftir öðrum reglum, bændur eftir þeim Þriðju o.s.frv. Nú er meginreglan sú, að óháð því, hvaða atvinnu menn stunda, þá greiði þeir skatta eftir sömu reglum. M.a. út frá þessu sjónarmiði verðum við að telja það óeðlilegt, að t.d. félög, sem stunda útgerð, hlíti öðrum reglum í þessu sambandi en önnur félög. Hins vegar var það á sínum tíma e.t.v. eðlilegt að útgerðarfélög fengju þessi hlunnindi, vegna þess að útgerðin var þá sérstaklega skattlögð með rangri gengisskráningu, þannig að varasjóðshlunnindin voru hugsuð sem einhvers konar uppbót á það. En nú er sá grundvöllur ekki lengur fyrir hendi. Sama máli gegnir að mínu áliti um samvinnufélögin, og ég tel æskilegt, að sömu skattareglur gildi í meginatriðum um allan atvinnurekstur óháð því, í hvaða formi hann er.

Annað mál er það, að samvinnufélögin hafa betri aðstöðu hvað skattaálagningu snertir heldur en flest önnur fyrirtæki, sem bæði stafar af því, að ríkisvaldið hefur í þessu efni viljað hlynna að samvinnufélögum, og þó e.t.v. öllu meira af því, að reksturinn er þess eðlis, að erfitt væri að koma því við, að hann greiddi sömu skatta og aðrir, ef slíkt ætti ekki að brjóta í bág við almennt viðurkenndar skattareglur. Það er ekki vafi á því, að skattar hvíla yfirleitt tiltölulega léttar á samvinnufélögum en öðrum rekstri, en einmitt með sérstöku tilliti til þess finnst mér óeðlilegt, hvað þetta atriði snertir, varasjóðshlunnindin, að samvinnufélögin sitji einnig í því efni við annað borð en aðrir aðilar.

Læt ég þá máli mínu lokið að sinni.